Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. október 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Norðurlandaráðsþing í Helsinki

30. október 2002

Ræða forsætisráðherra á 54. Norðurlandaráðsþingi í Helsinki

Forseti,

Stofnun Norðurlandaráðs fyrir 50 árum var farsælt skref fyrir þjóðir Norðurlanda og fyrir Norðurlönd í samfélagi þjóðanna. Það hefur tengt löndin saman þrátt fyrir það að þær hafa í öðru alþjóðlegu samstarfi valið mismunandi leiðir. Dagskrá ráðsins hefur breyst og hið alþjóðlega umhverfi hefur breyst, en þörfin fyrir samstarf Norðurlanda stendur óhögguð.

Meðal forgangsmála norræns samstarfs í dag eru samstarf við grannsvæðin í austri og vestri, Evrópuþróunin, ýmsar afleiðingar hnattvæðingarinnar, sjálfbær þróun, matvælaöryggi og upplýsingatækni, allt mál sem í árdaga norræns samstarfs hefðu ýmist verið óhugsandi sem umfjöllunarefni í norrænu samstarfi eða óskiljanleg sem hugtök. Slíkar eru þær breytingar sem átt hafa sér stað á þeim fimmtíu árum sem liðin eru - breytingar sem snúa bæði að Norðurlandaráði, norrænu þjóðfélögunum, og stöðu alþjóðamála. Hin árlegu Norðurlandaráðsþing endurspegla þannig stjórnmál og þjóðfélög samtímans. Þess vegna er Norðurlandaráð mikilvægt og þess vegna heldur það gildi sínu.

Á dagskrá í norrænu samstarfi í dag eru þó ennþá mál, sem voru sett á dagskrá sem forgangsmál í árdaga Norðurlandaráðs. Og því miður eru sum þeirra enn óleyst. Þetta sýnir skýrslan "Nordbornas rättigheter" sem lögð var fram fyrir réttu ári og fjallar um réttindi norrænna borgara. Margvíslegar ástæður eru fyrir því að slík mál eru óleyst þrátt fyrir þá sátt sem ríkir um að fólk eigi að geta flutt greiðlega milli norrænu landanna.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að haldið verði áfram að ryðja úr vegi landamærahindrunum á Norðurlöndum.

Einkennandi fyrir alþjóðlegt samstarf í dag er samstarf og aukin tengsl milli hinna ýmsu alþjóðastofnanna. Slíkt samstarf er til þess fallið að auka skilvirkni og hindra tvíverknað.

Íslendingar tóku nú fyrir mánuði við formennsku í Norðurskautsráðinu og við leggjum áherslu á gott samstarf þess við Norrænu ráðherranefndina enda falla markmið þess vel að markmiðum norræns samstarfs.

Eðlilegt er og að samstarf við vestlæg grannsvæði Norðurlanda verði aukið. Þetta samstarf, sem Skotland, skosku eyjarnar og svæði í Kanada væru aðilar að, yrði að sjálfsögðu undir öðrum formerkjum en samstarfið við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland.

Tímamót eru uppi um þessar mundir í sögu Evrópu. Annars vegar er allt útlit fyrir að stækkun Evrópusambandsins til austurs sé loks að verða að veruleika. Frá því skömmu eftir kalda stríðið hefur legið fyrir að aðild Mið- og Austur-Evrópuríkja að ESB væri lykilatriði fyrir frið og velferð í álfunni.

Hins vegar er útlit fyrir að Eystrasaltsríkin verði meðal þeirra Mið- og Austur-Evrópuríkja sem boðin verði aðild að Atlantshafsbandalaginu á leiðtogafundi þess í Prag í næsta mánuði. Eystrasaltsríkin voru hluti af Sovétríkjunum sem hernumin lönd. Þátttaka þeirra í NATO mun staðfesta að lok kalda stríðsins leiddu ekki til nýrrar skiptingar Evrópu eins og útilokun Eystrasaltsríkjanna frá NATO hefði gert. Leiðtogafundurinn í Prag getur því sannarlega markað upphaf nýrra tíma í Evrópu.

Rúmum áratug eftir lok kalda stríðsins eru uppi átök sem einnig teygja anga sína víða um heim. Þetta er baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Lykilþáttur í henni er að hindra að gereyðingarvopn komist í hendur hryðjuverkamanna. En það þarf líka að koma í veg fyrir að einræðisherrar og harðstjórar geti framið illvirki í skjóli slíkra vopna, notað þau eða fengið þau hryðjuverkamönnum í hendur.

"Integration Norden" verður lykilhugtak í formennskuáætlun Svía, sem forsætisráðherra Svía kynnti hér í morgun í stefnuræðu sinni. Hann tók þar upp ýmis mál sem brenna á þjóðfélögum Norðurlanda og sem mikilvægt er að eiga samstarf og samráð um.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta