Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótaávarp í ríkissjónvarpinu 2002

31. desember 2002

Áramótaávarp forsætisráðherra
í ríkissjónvarpinu 31. desember 2002.

    Góðir Íslendingar.
    Ég vaknaði í morgun glaður í bragði, sem er svo sem ekki sérlega fréttnæmt, en það rann upp fyrir mér við morgunraksturinn að gamlaársdagur hefur alltaf og undantekningalaust komið mér í gott skap. Ég kann ekki á þessu neina eina skýringu. Vissulega er ég einn af þeim sem fylgir sólinni fast að málum, er hún hefur sína árlegu hólmgöngu við skammdegið. Og ég gleðst yfir daglegum fréttum af þeim vígstöðvum, að dagur sé að lengjast um nokkrar mínútur í hvorn enda og skuggarnir, skutulsveinar myrkursins, séu að skreppa saman. Ég get sagt með Jónasi Hallgrímssyni "ég veit það af reynslu að það bráir af mér eftir sólstöðurnar og þá er ég til í allt." Gamlaársdagur, sem maður vaknar til, er líka sigurdagur og sönnun þess að maður hafi náð að fara enn einn hring um orkuboltann mikla, sem kveikir allt líf og nærir það, og einnig merki þess að fá að hefja nýjan hring. Gamlaársdagur er þannig einskonar árviss lokaprófsdagur. Maður fær jafnvel á stundum að skoða einkunnirnar sínar eftir árið. Ég minnist þess að afi minn lét mig lítinn standa teinréttan og stífan við dyrastaf, setti bók á kollinn á mér og merkti stærð og ár með blýanti. Svo voru mamma og amma á næstu grösum til að hrósa manni fyrir vöxtinn, sem væri því að þakka, hvað maður væri duglegur að borða. Það var ekki frítt við að mér þætti hrósið gott og gekk sperrtari um fyrst á eftir. Hitt er önnur saga að ég er enn duglegur að borða og held áfram að vaxa, en er hættur að fá hrós frá mínum nánustu á gamlaársdag þrátt fyrir það. En fjölmiðlarnir eru við gamla heygarðshornið hans afa míns á þessum degi, sem betur fer liggur mér við að segja. Hinum og þessum er stillt upp við vegg og þeir mældir á alla enda og kanta. Fjölmiðlarnir bera líka árið, sem er að tifa út við fyrra ár. Þeir sýna til dæmis hve mikið hafi veiðst, hvaða Íslandsmet voru slegin, hvernig verðbólgan hafi látið og hve mikið hafi rignt miðað við árið á undan og þar fram eftir götunum. Þetta er góður siður. Sjálfur gat ég þess hér í fyrra við sama tækifæri, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu spurt um stöðu þjóða og þá hefði komið í ljós að við værum í sjöunda sæti af 174 þjóðum, þegar skoðað var hvar talið væri best að búa í hinni víðu veröld. Og í ár eru það nýjustu fréttir í samanburðarfræðunum að það er sameiginlegt mat Harvard háskóla og stofnunar sem nefnist World Economic Forum, að Ísland sé í fyrsta sæti þegar kannað er í hvaða ríkjum menn búa við minnsta spillingu. Miðað við það hvernig dansinn getur dunað í dægurumræðunni hér á landi þegar svonefnd spillingarmál eru rædd, mætti fremur ætla að við sætum eins og klessur í botnsætinu, en að við skipuðum virðingarsætið á toppnum að mati heimsþekktra stofnana. Og alþjóðasamtökin Fréttamenn án landamæra kynntu þá niðurstöðu á árinu að hvergi í heiminum væru fjölmiðlar frjálsari en á Íslandi og þar tryggðu stjórnvöld slíkt frelsi best. Tekið var fram að þetta segði þó ekkert um gæði íslenskra fjölmiðla. Og á þessu ári náðum við loks árangri sem við höfum beðið eftir í áratugi. Við komumst upp í hæsta gæðaflokk, þegar alþjóðleg matsfyrirtæki meta lánstraust þjóða. Það er með öðrum orðum svo komið, að þegar lánastofnanir fletta upp Íslandi áður en landinu er veitt lán, þá blasir við að Íslandi er skipað til sætis með Bandaríkjunum og Þýskalandi, þegar áhættan af því að lána ríkjum fé er metin. Þetta eru auðvitað mjög ánægjuleg tímamót og við getum öll verið stolt af því trausti sem við höfum áunnið okkur. En það er sérstakur ánægjuauki að þar með batna okkar lánskjör, vextir verða okkur hagfelldir og gatan í alþjóðlegum viðskiptum verður mun greiðari á allan hátt. Hér er því ekki aðeins um þjóðarheiður að ræða heldur beinharðan ávinning.

    Þetta mikilvæga mál snýst fyrst og síðast um traust. Og þegar grannt er skoðað er æði margt í mannheimi, sem snýst einmitt um það hugtak, hugtakið traust. Öll vitum við að ást og vinátta skiptir miklu um hvernig hjónabandi eða sambúð reiðir af. En spurningin um traust er ekki langt undan og er kannski mestur áhrifavaldurinn um endingu sambandsins. Áður fyrr bjuggu flestir einir að sínu. Þeir urðu sjálfir að sjá sér fyrir fæði og klæðum og húsaskjóli af eigin rammleik og með hjálp sinna. Nú er samfélagsmyndin önnur. Við verðum að geta treyst því að vatnið sem við fáum heim í krana sé hreint. Við treystum því að kjötið sem við kaupum af bóndanum gegnum marga milliliði sé ferskt og rétt unnið. Foreldrar setja allt sitt traust á fóstrur og kennara um uppfræðslu og aðgæslu barna sinna. Gagnkvæmt traust er þannig orðið mikilvægasti lykillinn að samfélagi okkar. En þó sýnist stundum að á sumum sviðum hafi orðið afturför þegar að þessum þætti kemur. Mælingar sýna til að mynda að traust á þeirri stétt sem ég fylli um þessar mundir er takmarkað. Fáir eiga þó meira undir því en stjórnmálamenn að njóta trausts fólksins í landinu. En hinu er ekki að neita að sumt af því sem fyrir augu ber af vettvangi stjórnmálanna er tæplega til þess fallið að vekja mönnum traust. Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum virðist sama. Menn yppta öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast um skamma hríð, en verður að þjóðarböli, þegar til lengdar lætur. Á gamlaársdegi, degi ársuppgjörsins, er okkur hollt að hugsa til þessara þátta. Traust er mikilvægasti þátturinn í því, sem þeir er sýsla með fyrirtæki kalla viðskiptavild. Traust getur maður ekki fengið lánað og ekki heldur keypt. Maður verður að ávinna sér traust með framgöngu sinni og það er ekki hlaupið að því að endurheimta það, ef það glatast. Sjálfstraust er allt annar handleggur. Það á hver maður aðeins við sjálfan sig. Það er ágætt í hófi og getur verið áhrifaríkt og þarft sé það á góðum grunni reist. Þjóð getur átt sameiginlegt sjálfstraust rétt eins og sameiginlegt lánstraust: Hún getur gengið fram í fullri vissu þess að henni mun vel farnast hafi hún menntað sig og þroskað og lagt sig alla fram. Íslenska þjóðin sér hvarvetna merkin um að hún getur skipað sér á fremsta bekk á flestum sviðum sé viljinn nægur. Hún sækir hins vegar ekki í þann samanburð við þjóðir, þar sem niðurstaðan ræðst mest eða eingöngu af fjöldanum sem mynda þær. Við getum skilað góðu dagsverki og litið yfir það bæði sátt og stolt. Það breytir ekki því, að það bíður okkur nýr dagur og ný verk. Með sama hætti og hugarfari getum við horft um öxl til liðins árs. Glaðst í sinni í árslok yfir því sem vel var gert, en verið minnug þess að nýtt ár bíður okkar, þegar þessu kvöldi lýkur og þar er allt ógert. Og það á að vera tilhlökkunarefni.

    Við eigum sem sagt að taka nýja árinu fagnandi, staðráðin í að gera okkar besta, hvert sem forlögin flytja okkur. Þótt þessi árstími sé, þá erum við ekki álfar úr hól. Við erum raunsæ vegna þess að við búum yfir ómældri reynslu hvert og eitt og um sumt öll saman. Við förum nærri um að ekki verða öll skref létt sem stíga þarf á nýja árinu - sum verða þung og í ýmsum tilvikum afar þung. Sá er lífsins gangur. En reynslan kennir einnig að við getum alltaf gert okkar besta, líka þegar verst gegnir og á móti blæs. Þess vegna horfum við glaðbeitt fram til nýja ársins og þykjumst sjá að það glampar víða á góð ævintýri handan við hornið. Ég nefndi hann Jónas Hallgrímsson áðan stuttlega til sögunnar. Hann orti margt og yrkisefnin voru ólík. En þegar vel er að gáð glittir í ást hans á ættjörðinni í nánast hverju kvæði. Og það er hvergi úr stíl. Það er ekki merki um þjóðrembing og mont, þótt við látum, eins og Jónas, eftir okkur að það glitti í ást okkar á landi og þjóð í nær sérhverju verki sem við tökum að okkur og hvað sem við annars höfum fyrir stafni á nýja árinu. Fyrir rúmum hundrað árum orti 18 ára gamall piltur á þessa leið til landsins síns:

    "Ef verð ég að manni, og veiti það sá,
    sem vald hefur tíða og þjóða,
    að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,
    þótt lítið ég hafi að bjóða,
    þá legg ég að föngum mitt líf við þitt mál,
    hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál."

    Þetta fyrirheit var afgerandi og rausnarlegt og þegar pilturinn stóð upp frá dagsverki sínu, áratugum síðar slitinn maður, máttu allir sjá að hið mikla loforð varð ekki betur efnt. Okkar heit þurfa ekki að vera svo stór í sniðum, til þess að Ísland hafi gagn af því, að við stöndum við þau.


    Góðir landar mínir nær og fjær.
    Ég þakka ykkur samfylgdina á liðna árinu. Megi árið 2003 verða ykkur blessunarríkt og gott.
    Gleðilegt ár.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta