Auður í krafti kvenna
24. janúar 2003
Auður í krafti kvenna
Ávarp forsætisráðherra í Borgarleikhúsinu 24. janúar 2003
- Ágætu gestir
Það er mér mikil og sönn ánægja að veita viðtöku þessari áskorun Auðar í krafti kvenna til íslensku þjóðarinnar. Árangurinn af því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum í nafni Auðar gefur ríka ástæðu fyrir okkur öll til að veita þessum tillögum mikla athygli. Ég vil færa aðstandendum Auðar mínar bestu þakkir fyrir tillögurnar, þær eru mikilvægt og gott innlegg í þá baráttu að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar. Auðsköpun – að nýta náttúruauðlindir og mannvit er ekki einvörðungu nauðsyn til að tryggja mannsæmandi líf. Hún er okkur í blóð borin, þörfin til að takast á við krefjandi verkefni, að finna kröftum okkar verðugt viðnám og þannig vaxa og þroskast af verkum okkar. Við Íslendingar njótum þeirrar blessunar að náttúra landsins er rík af auðlindum. Þær hafa lagt grunninn að efnahagslegri velferð okkar og gert okkur kleift að þróa samfélag sem byggir á fjölbreyttri atvinnustarfsemi og hefur skilað okkur svo mjög fram veg að við Íslendingar erum ein ríkasta þjóð veraldar. En náttúran hefur líka mótað skap og gerð okkar Íslendinga. Þjóð sem svo mjög hefur þurft að glíma við óblíð náttúruöfl öldum saman, lærist að það er aldrei á vísan að róa. Og það fylgir því sannarlega áhætta að stofna fyrirtæki. Það er gæfa okkar Íslendinga hversu stór hluti þjóðarinnar er tilbúinn að taka þá áhættu sem fylgir rekstri eigins fyrirtækis, hversu margir eru tilbúnir að leggja á djúpið þó ekki sjáist alltaf til lands. Hagvöxturinn margumtalaði verður ekki til nema við séum tilbúin til að taka áhættu, gera eitthvað nýtt eða betrumbæta það sem áður var gert. Þannig miðar okkur áfram í átt að samfélagi sem veitir öllum tækifæri til að nýta krafta sína, vit og
framkvæmdagleði.
Auður í krafti kvenna er sannarlega mikilvægt verkefni og árangurinn er glæsilegur. Á tyllidögum er gjarnan talað um mikilvægi nýsköpunar en oftast er erfitt að mæla einhvern sérstakan árangur af ræðuhöldunum. Þetta á svo sannarlega ekki við um Auði. Árangurinn blasir við, tugir nýrra fyrirtækja og meira en tvöhundruð ný störf. Fyrir stjórnvöld er þetta mikil hvatning og áskorun um að búa svo um hnútana að sá kraftur sem býr með þjóðinni allri, konum og körlum, fái sem best brotist fram öllum til heilla. Samanburður á milli landa á aðstæðum til nýsköpunar sýnir að okkur hefur tekist hér á landi að búa til umhverfi sem er hagstætt þeim sem vilja leggja undir og grípa þau tækifæri sem bjóðast. Það er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut, með því meðal annars að halda sköttum í hófi, með því að draga úr skriffinnsku hvers konar, með því að auka menntun, vísindi og rannsóknir. Þess vegna vil ég enn á ný þakka fyrir hönd þjóðarinnar áskorunina sem Auður hefur beint til okkar.
Góðir gestir.
Auður í krafti kvenna hefur gert tvennt. Vakið athygli á því hversu mikið ónotað afl býr með þjóðinni og það sem mikilvægara er, fundið leið til að virkja það, leysa það úr læðingi – farið frá orðum til athafna. Fyrir þetta eiga aðstandendur Auðar heiður skilin. Nú þegar komið er að lokum verkefnisins er rétt að hafa í huga Auður lifir áfram í þeim fyrirtækjum og störfum sem nú þegar hafa verið stofnuð. Og mikilvægast er að sú hugarfarsbreyting sem Auður hefur svo sannarlega valdið hjá svo mörgum, tryggir áframhaldandi lífsdaga hennar. Hér með segi ég verkefninu "Auður í krafti kvenna" lokið. Aðstandendum þakka ég þeirra starf og ykkur öllum til hamingju með árangurinn.