Frumkvöðlarannsóknir
11. mars 2003
Ávarp forsætisráðherra við kynningu á niðurstöðum GEM frumkvöðlarannsóknar
í Háskólanum í Reykjavík 11. mars 2003
Góðir gestirÉg vil þakka kærlega þetta tækifæri til að ávarpa þennan fund. Háskólinn í Reykjavík hefur sýnt svo ekki verður um villst að hann hefur tekið þau markmið sem hann sjálfur setti sér, að stuðla að nýsköpun, alvarlega. Þessi rannsókn sem hér er kynnt er til marks um metnað og vilja til að láta gott af sér leiða fyrir íslenskt samfélag og fyrir það eiga forsvarsmenn skólans þakkir skyldar.
Örlög sumra orða eru þau að verða að margtuggnum klisjum, gjarnan hálf merkingarlausum og þvældum. Erfiðast eiga sennilega þau orð sem stjórnmálamenn taka sérstöku ástfóstri við. Það er til dæmis heill hópur stjórnmálamanna sem virðist telja að engin setning sé fullsögð, sama hvert umræðuefnið er, fyrr en orðið nútímalegur er komið fram. Og einhvern veginn er maður alveg hættur að skilja hvað átt er við þegar orðið bylur meira eða minna merkingarlaust á öllu sem fyrir ber – og stundum langar mann að verða pínulítið gamaldags, bara til að verða ekki ofurseldur sýbiljunni. Nýsköpun er eitt af þessum gæluorðum stjórnmálanna og nú þegar dregur að kosningum girða menn sig þessu ágæta orði. Þá er hollt að hafa í huga að stjórnmálamenn búa ekki til frumkvöðla og nýsköpun verður ekki til á skrifborðum ráðuneytanna. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um þátt stjórnmálamanna og hins opinbera í nýsköpun og frumkvöðlastarfi.
Ég tel að hið opinbera hafi tvö megin hlutverk í þessum málaflokki. Annars vegar að tryggja heilbrigt efnahagslíf og hins vegar að styrkja vísindi og tækniþróun.
Hvað varðar efnahagslífið er það staðreynd að á undanförnum áratug hefur tekist að breyta íslensku efnahagslífi þannig að aðstæður til nýsköpunar hafa stórum batnað. Ein grundvallar forsenda þess að hægt sé að stofna fyrirtæki eða ráðast í nýsköpun innan starfandi fyrirtækja er að hægt sé að gera áætlanir og efnahagsumhverfið sé það stöðugt að mögulegt sé að fylgja þeim eftir. Stöðugleikinn er því eitt megin viðfangsefni stjórnmálanna og ekkert er mikilvægara fyrir nýjabrumið í atvinnulífinu en að hann haldist. Verðbólga og óstöðugleiki, okkar gömlu fjendur, verka eins og frostnótt á nýgræðinginn eftir hlýindakafla. Ábyrg og örugg stjórn efnahagsmála er því forsenda nýsköpunar. Önnur forsenda nýsköpunar er sú að þeir sem taka þá áhættu sem fylgir atvinnurekstri fái næga umbun fyrir sín verk. Þess vegna er mikilvægt að sköttum sé í hóf stillt og þannig verði sem mest af afrakstri atvinnurekstrarins skilið eftir hjá fyrirtækjunum, eigendum þeirra og starfsmönnum. Á undanförnum áratug hafa skattar á fyrirtæki hér á Íslandi verið lækkaðir úr 50% í 18%. Nokkuð hefur borið á því að þessi skattalækkun hafi verið gagnrýnd vegna þess að hún dugi einungis þeim fyrirtækjum sem græða, en ekki öðrum og þar með talið nýjum fyrirtækjum. Þá er til að taka að við viljum að hér séu einungis starfandi fyrirtæki sem blómgast því varla leggja menn upp með taprekstur til langs tíma sem markmið. Hvað varðar ný fyrirtæki þá gagnast skattalækkunin þeim ótvírætt þar sem áætlað verðmæti þeirra eykst í samræmi við lægri skattprósentu.
Lágir skattar og stöðugt efnahagsumhverfi eru þeir tveir megin þættir sem stuðla að nýsköpun. Þriðji þátturinn sem ég vil nefna hér er reglugerðarverk hins opinbera. Sú starfsemi er ekki til sem ekki er hægt að drekkja í reglugerðum og skrifræði. Sumir virðast hugsa um atvinnulífið með eftirfarandi hætti: Ef það hreyfist, skattlegðu það. Ef það hreyfist samt, settu á það reglufarg, ef það stoppar, niðurgreiddu það til að koma því á hreyfingu. Fyrir okkur Íslendinga er nóg að hugsa aftur til haftaáranna til að rifja upp hvílíkt ok það er fyrir atvinnulífið og þá sérstaklega fyrir nýsköpun þegar atvinnulífið er njörvað í viðjar skriffinnsku og regluþvargs. Á undanförnum árum hefur kappsamlega verið unnið að því að einfalda allt regluverk markaðarins, auka frelsi og minnka afskipi hins opinbera af atvinnulífið hvar sem því verður viðkomið. Þeir sem eru að stíga sín fyrstu spor í atvinnurekstri eiga ekki að þurfa að eyða tíma sínum í að rjátla á milli stofnanna í leit að einu leyfinu eða öðru. En er þó margt óunnið
Ég tel að okkur hafi á undanförnum árum tekist að skapa hér skilyrði vaxtar og nýsköpunar. Alþjóðlegur samanburður sýnir enda að Ísland er í fremstu röð ríkja þegar reynt er að meta hvaða þjóðir búa frumkvöðlum sínum bestar aðstæður.
Góðir fundarmenn.
Hið opinbera getur með því að styðja við bakið á vísindum og tækni, ýtt undir nýsköpun. Á síðasta áratug hafa útgjöld til rannsókna og þróunar vaxið mjög hér á Íslandi og upplýsingar sýna að Ísland var með hæstu árlegu raunaukningu á Norðurlöndum á því tímabili eða um rúm 12%. Það er því mikilvægt að umgjörð þessara mála sé sem best úr garði gerð og tryggt sé eins og framast er kostur að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist á sem bestan hátt. Nýverið samþykkti Alþingi þrjú frumvörp sem lutu að breyttri skipan vísinda- og tæknimála hjá hinu opinbera. Samþykkt var að stofna Vísinda- og tækniráð undir forystu forsætisráðherra. Í ráðinu sem skipað verður 18 mönnum koma saman ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífsins. Hlutverk þessa ráðs verður að móta stefnu stjórnvalda í vísinda-og tæknimálum og er ætlunin að vísindamálin fá meira pólitískt vægi með því að ásamt forsætisráðherra sitji einnig í ráðinu menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Þess er að vænta að þessa skipan ráðsins komi í veg fyrir að þessi mikilvægu mál falli á milli skips og bryggju því oft hefur verið fundið að því að mörg ráðuneyti komi að málum og skortur sé á heilsteyptri sýn og markvissum aðgerðum.
Úthlutun styrkja verður samkvæmt þessum nýju lögum á vegum tveggja sjóða, Rannsóknasjóðs sem heyrir undir menntamálaráðherra og Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Þessir sjóðir munu starfa í samræmi við þær áherslur og stefnu sem Vísinda- og tækniráð mótar hverju sinni. Nýskipan þessi sýnir glögglega hversu mikla áherslu ríkisstjórnin setur á þennan málaflokk. Menning og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar á mikið undir því komið að vísindi og rannsóknir blómstri. Mannauðinn og náttúruauðlindirnar fáum við best nýtt með því að dýpka skilning okkar, færni og þekkingu á sem flestum sviðum.
Góðir gestir
Það er til lítils að dúka borð og undirbúa mikla veislu ef engir koma gestirnir. Og það væri til lítils að tryggja góð efnahagsleg skilyrði og styðja vel við bakið á rannsóknum ef engir væru til að stunda þær og til að grípa þau tækifæri sem gefast til að reyna eitthvað nýtt. Það er mikil gæfa okkar Íslendinga hversu mörg okkar hafa það í sér að vilja taka áhættuna og láta skeika að sköpuðu. Vera kann að aldalöng sambúð við óblíð náttúruöflin hafi kennt þjóðinni að það er sjaldan á vísan að róa, menn leggja á djúpið þó óvíst sé um aflabrögð eða heimkomu. Það er miklvægt að þessi eiginleiki okkar fái sem best notið sín. Sérstaklega þurfum við að gæta þess að það sé á því skilningur í þjóðfélaginu að rétt eins og það fiskast ekki vel í hverri veiðiferð, þá ganga ekki allar viðskiptahugmyndirnar upp. Það er ekkert rangt við það að mönnum mistakist að hrinda í framkvæmd ætlunarverki sínu ef þeir hafa lagt sig alla fram. Reynslan sem aflað var þegar ekki gekk sem skyldi kann að gera gæfumuninn þegar næst er ráðist til verka.
Rannsókn eins og sú sem hér er kynnt er auðvitað mikilvæg til að skilja betur umhverfi frumkvöðla og hvernig best verður stutt við bakið á þeim. En hún gerir líka annað og það er ekki síður mikilvægt. Hún dregur athygli þjóðfélagsins að störfum frumkvöðlanna og mikilvægi þeirra. Það skiptir svo miklu að þjóðfélagið sé jákvætt í garð þeirra sem vilja feta ótroðnar slóðir. Þannig miðar okkur áfram og þannig fáum við haldið áfram að búa þjóðinni lífskjör sem jafnast á við það besta sem þekkist í heiminum. Ég vil því þakka þeim sem unnu að þessari rannsókn fyrir þeirra störf og framlag til mikilvægs málefnis. Niðurstöðurnar eru án efa gagnlegar og koma til með að hafa áhrif á stefnumótun hins opinbera í þessum mikilvæga málaflokki. Háskólanum í Reykjavík vil þakka ég enn og aftur þá áherslu sem skólinn leggur á nýsköpun, það er enda vel við hæfi að nýr og metnaðarfullur skóli skuli hafa slíka áherslu.