Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ársfundur Seðlabanka Íslands 2003

21. mars 2003

Ræða forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar
á ársfundi Seðlabanka Íslands

Góðir gestir
Umræður um íslensk efnahagsmál hafa þroskast mjög á undanförnum árum og er það vel. Kemur þar margt til. Viðskiptalífið hefur eflst undir forystu fjölmenntaðra og reyndra stjórnenda. Þá hefur þeim fjölgað mjög á okkar landi sem hafa aflað sér sérmenntunar í hagfræði og jafnframt hefur rannsóknum á íslensku efnahagslífi vaxið fiskur um hrygg, þótt margt hafi áður verið vel gert. Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að stunda hagrannsóknir og gefa út með reglulegum hætti rit um þau mál er snerta peningamálastefnuna. Þessa skyldu sína hefur bankinn rækt að mínu mati með ágætum og er framlag bankans til efnahagsumræðu á Íslandi mikilvægt. Skynsamleg og öfgalaus umræða er til þess fallin að bæta hagstjórn, hvort heldur sem um er að ræða ríkisfjármálin eða peningamálastefnuna. Liðin er sú tíð að menn trúi því að efnahagsmálum verði best stjórnað með brjóstvitinu einu. Hin dæmin eru að vísu til, að einstaka manni hafi á löngum lærdómsferli tekist að læra frá sér brjóstvitið. Eru slíkir jafnan verstu eintökin í umræðunni. Og aldrei má gleyma því, að efnahagsmál og efnahagsumræða er ekki einungis spurning um tæknilegar úrlausnir. Í grunninn eru efnahagsmál spurning um þjóðfélagsgerð og afstaða manna til efnahagsmála mótast ekki síst af grundvallarlífssýn þeirra og pólitískri sannfæringu. Á undanförnum árum hefur efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar endurspeglað þá sannfæringu að frelsi í efnahagsmálum hlyti að vera grundvöllur efnahagslegrar velmegunar og forsenda þess að blómlegt og margbreytilegt mannlíf fengi að dafna á Íslandi. Það er í anda þessarar stefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að ráðist var í að einkavæða viðskiptabankana. Eins og vonlegt er þá hefur sala bankanna tekið sinn tíma, til hennar var vandað eins og hægt var og ríkið fékk gott verð fyrir þessar eignir sínar. En mestu skiptir að nú hefur ríkisvaldið dregið sig algerlega út úr bankarekstri og er það mikið fagnaðarefni. Hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði takmarkast við það að setja lög og reglur, að hafa eftirlit með að eftir þeim sé farið og að tryggja að samkeppni ríki á þessum mikilvæga markaði. Þetta er hin eðlilega skipan mála.

Öflugt og vel rekið bankakerfi er undirstaða alls atvinnulífs á Íslandi og útrás íslensku bankanna á erlenda markaði er ánægjulegur vitnisburður um þann kraft sem leystur hefur verið úr læðingi við það að færa bankana úr ríkiseigu í hendur einkaframtaksins.


Góðir ársfundargestir
Við Íslendingar höfum náð ágætum árangri í efnahagsmálum á undanförnum árum. Kaupmáttur þjóðarinnar hefur vaxið átta ár í röð og gangi spár eftir þá verður árið 2003 níunda árið sem kaupmátturinn vex. Þetta er einsdæmi í okkar sögu. Frá 1994 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna vaxið um þriðjung. Þessi staðreynd sýnir, svo ekki verður um villst, hversu mikilvægt það er fyrir allan almenning að skynsamlega sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar. Nú bendir allt til þess að framundan geti verið mikið hagvaxtar- og framfaraskeið. Spár gefa til kynna að hagvöxtur verði umtalsverður á næstu árum og er það mikið gleðiefni. Staða ríkissjóðs er sterk um þessar mundir og efnahagsbatinn hefur verið nýttur til að greiða niður skuldir. Skuldir sjóðsins námu 34,5% af landsframleiðslu fyrir örfáum árum en eru nú rétt rúmlega 18% af landsframleiðslu. Þetta er mikill viðsnúningur og er þá ekki talin með um 50 milljarða króna greiðsla ríkissjóðsins til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, en nauðsynlegt var að stoppa upp í það gat sem þar hafði myndast. Hagvöxtur næstu ára mun skila ríkissjóði miklum tekjum. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé gott lag til að nýta þann tekjuauka til að lækka enn frekar skatta fólksins í landinu. Ýmsir hafa haldið því fram að nú séu ekki réttu aðstæðurnar til að lækka skatta. Framundan sé slíkur uppgangur að skattalækkun valdi þenslu. Þetta sjónarmið minnir einna helst á formanninn sem stendur í flæðarmálinu á hverjum degi og gáir til veðurs. Og ýmist er byrinn of mikill eða of lítill, kólgubakki hér og rigningarsuddi þar – allt verður honum að ástæðu til að halda ekki til hafs. Og eins er með úrtölumennina, þegar kemur að skattalækkunum þá er uppsveiflan ýmist of mikil og hætta á þenslu eða ríkissjóður illa staddur vegna þess að það er fyrirsjáanleg niðursveifla og horfur á lækkandi tekjum. Ég hef þá pólitískur sannfæringu og lífssýn að fólkið fari ekki ver, heldur betur með sína eigin peninga, heldur en stjórnmálamennirnir í þess umboði. Og ég spyr, hvenær er tími til að lækka skatta ef ekki núna, þegar ríkissjóðurinn er skuldlítill og tekjurnar að aukast ? Hagtæknar kunna að finna endalaus rök fyrir því að hinu opinbera sé best treystandi til að stýra hagkerfinu og því sé aldrei lag til að lækka skatta. En hagfræðingar ættu að vita að því meira sem við skiljum eftir hjá fólkinu því blómlegra og betra verður mannlífið.

Góðir gestir
Nú eru liðin tvö ár frá því að ný lög voru sett um Seðlabanka Íslands. Í þeim lögum var bankanum veitt sjálfstæði og honum sett það megin markmið að tryggja stöðugt verðlag. Engum blöðum er um það að fletta að hin nýju lög voru til mikilla bóta frá því sem áður var og framkvæmd þeirra hefur tekist með ágætum. Það er ánægjulegt að sjá hversu hratt og örugglega sjálfstæði Seðlabankans var viðurkennt af öllum, stjórnmálamönnum jafnt sem þeim sem starfa á fjármálamarkaðinum. En sjálfstæði bankans og aukin ábyrgð mun draga úr friðhelgi hans og bankinn verður að sæta því að ákvarðanir hans kalli á umræður og jafnvel gagnrýni. Enda er það bara hollt, ef slík gagnrýni er vel rökstudd og þokkalega sanngjörn. Það megin markmið bankans, að tryggja stöðugt verðlag hefur náðst. Það er hrósvert fagnaðarefni. Verðbólga, sem fór hæst í rúm 9% árið 2001, er nú með því lægsta sem gerist í okkar helstu viðskiptalöndum. Þetta er mikill og ánægjulegur árangur. Stýrivextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir á undanförnum mánuðum og misserum. Sýnist sitt hverjum um, eins og vonlegt er, hversu vel bankanum hefur tekist til í þeim efnum. Vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem teknar eru í íslenskum efnahagsmálum og því eðlilegt að mismunandi sjónarmið og skoðanir heyrist. Það er vert að ítreka það að sjálfstæði bankans þýðir ekki að stjórnendur hans eigi ekki að hlusta á þau skoðanaskipti sem fara fram utan bankans, sjálfstæðið felst m.a. einmitt í því að geta hlustað og síðan tekið sjálfstæða og upplýsta ákvörðun. Ég er þeirrar skoðunar og hef gert grein fyrir þeirri skoðun minni áður að það sé ljóst að Seðlabankinn hafi ekki lækkað stýrivexti sína nægjanlega hratt, en þó einkum hafi hann hafið ferlið of seint. Það er sjálfsagt og rétt fyrir bankann að vera bæði varkár og íhaldssamur, en það getur verið jafn hættulegt og jafnvel hættulegra að hafa vexti of lengi of háa heldur en að hafa þá of lága. Of háir vextir draga úr hagvexti og geta leitt til atvinnuleysis.


Góðir fundarmenn
Á næstu árum mun reyna mjög á hversu vel tekst til um hagstjórn á Íslandi. Það er reyndar aldrei svo að hagstjórn sé ekki erfið, jafnvægi í efnahagsmálum er ekki ávísun á að hægt sé að taka augun af stefnunni. Framundan eru mjög spennandi tímar, það er góður byr og hann er hægt að nýta til að komast betur áfram, en menn geta allt eins kafsiglt skútunni í góðum byr ef áhöfnin er sundurleit, áttavillt og sjóhrædd.

Seðlabankinn hefur það megin markmið að tryggja stöðugt verðlag. Samkvæmt lögunum er bankanum einnig skylt að stuðla að því að markmið efnahagsstefnu stjórnvalda nái fram að ganga, svo fremi sem þau markmið stangist ekki á við verðbólgumarkmið bankans. Ég vek athygli á þessu hér og er sú ástæða til að á næstu árum mun í ríkum mæli reyna á hversu vel ríkisfjármálin og peningamálin ná að vinna saman til að tryggja hagvöxt og fulla atvinnu, en það eru megin stoðirnar í efnahagsstefnu stjórnvalda. Til að tryggja að árangur náist þá er nauðsynlegt að stefna ríkisstjórnar í ríkisfjármálum sé skýr og að hægt sé að átta sig á langtíma stefnumiði hennar. Á hinn bóginn er líka nauðsynlegt að Seðlabankinn styðji þá stefnu, eins og kostur er, innan þess ramma sem honum er settur lögum samkvæmt. Æskilegt er að stjórnendur bankans hafi frumkvæði að og leiti leiða til að móta það vinnulag sem þarf að vera til staðar til að tryggja að samhengi sé á milli peningamálastefnunnar annars vegar og ríkisfjármálastefnunnar hins vegar. Þetta vinnulag verður ekki til á einni nóttu, það þarf að fá að þróast og þroskast þannig að það verði árangursríkt. Frumkvæðið að þessu þarf að koma frá forsvarsmönnum bankans, því nauðsynlegt er að sjálfstæði hans sé tryggt. Bankinn þarf að stjórna ferðinni að þessu leyti. Hann ber ábyrgð á því að vernda sjálfstæði sitt, þótt öðrum beri að styðja þá viðleitni. Þetta mál er mikilvægt. Ef ekki finnst góð lausn kynni sá vandi að koma upp að ríkisstjórnin togaði í eina átt, til dæmis með því að örva hagkerfið með tímabundinni hækkun útgjalda á meðan bankinn togaði í hina áttina með því að halda uppi of háum vöxtum. Slíkt reipitog getur ekki talist heppilegt.


Ágætu ársfundargestir.
Öflugt fjármálakerfi, sjálfstæður Seðlabanki og ábyrg stjórn ríkisfjármála - allt eru þetta mikilvægir þættir. Tvinnist þeir saman á réttan hátt eru þeir grunnur að efnahagslegri velferð þjóðarinnar. Það er því til mikils að vinna.

Ég vil þakka bankastjórum Seðlabanka Íslands og bankaráði þeirra ágætu störf og fyrir gott og heilsteypt samstarf við ríkisstjórnina. Einnig vil ég þakka öllu starfsfólki bankans þeirra mikilvæga framlag. Styrkur bankans byggist á þeim fjármunum sem hann hefur yfir að ráða og þeim lagagrundvelli, sem hann hvílir á. En þegar grannt er skoðað, hlýtur niðurstaðan að vera sú að styrkur bankans sé ekki síst fólginn í öflugu og hæfu starfsfólki.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta