Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. apríl 2003 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Stofnfundur Vísinda- og tækniráðs

8. apríl 2003

Ræða forsætisráðherra á stofnfundi Vísinda- og tækniráðs
8. apríl 2003

Heiðraða samkoma,

Það er mér sönn ánægja að setja þennan fyrsta fund Vísinda- og tækniráðs og býð ég ráðsfulltrúa velkomna til starfa.

Á undanförnum áratug hefur fjárfesting þjóðarinnar í menntun, vísindarannsóknum og tækniþróun skilað sýnilegum árangri íslenskra vísindamanna á alþjóðavettvangi og leitt til öflugrar nýsköpunar í atvinnulífinu. Upp hafa sprottið fyrirtæki sem byggð eru á nýrri þekkingu og innlendum rannsóknum og þróunarstarfi. Þau hafa látið að sér kveða á alþjóðlegum markaði, sum hver orðið leiðandi á sínu sviði og skilað umtalsverðum og vaxandi tekjum í útflutningi á hátæknivörum og þjónustu sem byggð er á háþróaðri þekkingu og rannsóknum.

Ísland hefur á síðustu árum staðið sig nokkuð vel í alþjóðlegum saman-burði á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Þjóðin hefur reynst móttækileg fyrir nýrri tækni og fljót að tileinka sér nýjungar á flestum sviðum. Verulegur vöxtur hefur orðið í nokkrum hátæknigreinum þar sem byggt er á innlendum rannsóknum og sérstöðu.

Umtalsverð aukning hefur orðið á útgjöldum til rannsókna og þróunar á Íslandi á síðustu árum. Í fjárlögum 2003 eru útgjöld til þessara mála hjá öllum ráðuneytunum áætluð um 9,3 milljarðar kr. og er þá miðað við fjárframlög til stofnana ásamt sjálfsaflafé þeirra og önnur verkefni. Ef einungis er litið til áætlaðra framlaga ríkisins nemur sú upphæð um 7,6 milljörðum kr.

Rannsóknarráð Íslands hefur frá 1994, eftir sameiningu Rannsóknaráðs ríkisins og Vísindaráðs, gegnt vissu samræmingarhlutverki, annast alþjóðatengsl, safnað upplýs-ingum um framlög til rannsókna og lagt áherslu á samstarf opinberra rannsóknastofn-ana, háskóla og atvinnulífs. Hefur náðst margvíslegur árangur með styrkveitingum úr sjóðum sem ráðinu var falið að varðveita og úthluta. Hefur ráðið á grundvelli laganna frá 1994 m.a. komið upp vönduðu kerfi til að meta umsóknir um styrki á helstu sviðum vísinda, tækni og fræða. Virðist það eiga nokkurn þátt í vaxandi metnaði og árangri íslenskra vísindamanna í alþjóðlegum samanburði ef marka má aukna tíðni birtingar á vísindalegum greinum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði vísinda á síðustu árum.

Lögfesting þrennra laga um stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar í byrjun þessa árs er staðfesting á þeim vilja sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að auka veg menntunar og rannsókna sem eru forsenda fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Þessi lög eru lög um Vísinda- og tækniráð, lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Vægi málaflokksins er í lögum þessum aukið frá því sem verið hefur með því að stefnumótunin fer fram í Vísinda- og tækniráði sem fjórir ráðherrar eiga sæti í og starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þar koma ráðherrar, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífs saman til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda á Íslandi. Stefnumótandi ráð af þessu tagi er líklegra til þess að ná árangri í því að samræma aðgerðir opinberra aðila í vísinda- og tæknimálum en það Rannsóknarráð sem nú starfar. Meginhlutverk ríkisins í atvinnulífinu er að skapa frjótt umhverfi til atvinnustarfsemi. Því er mikilvægt að efla og styrkja grunnrannsóknir og vísindamenntun í háskólum og stuðla að hagnýtingu þeirra í íslensku þjóðlífi með því að hvetja fyrirtæki til þróunar og nýsköpunar. Einnig er mikilvægt að ákvarðanir séu teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnu sem mörkuð er af stjórnvöldum. Taka þarf mið af þörfum sem varða starfssvið margra ráðuneyta því vísindaframfarir og ný þekking nýtist þvert á þá skipan. Ljóst er að skipan opinberra rannsóknastofnana þarfnast endurskoðunar þannig að starfsemi þeirra byggi í ríkari mæli á samvinnu og samstarfi. Örar breytingar eru einnig að verða á verkaskiptingu milli opinberra aðila og einkageirans á sviði rannsókna og þróunar um þessar mundir.

Undirstöðuþekking og tæknikunnátta eru nauðsynlegar nútímaþjóðfélagi til að takast á við flókin verkefni samtímans. Frumkvæði, færni og aðstaða einstaklinga til rannsókna- og þróunarstarfa í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum eru forsendur árangurs í vísindum og tækni. Samkeppni þeirra um opinbert rannsóknafé á að vera mikilvægur drifkraftur í vandaðri meðferð og skilvirkni rannsóknafjárveitinga.

Af hálfu stjórnvalda setur stefna í vísindum, rannsóknum og þróun ótvíræðan svip á áherslur ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Skilgreina verður hlut ríkisins í stuðningi við vísindi og tækni með skarpari hætti en gert hefur verið. Stuðningur við vísindarannsóknir verður án tillits til þess hvort þær megi flokka undir grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir, jafnframt því að stuðla að menntun ungra vísindamanna. Erfitt getur verið fyrir Ísland að halda stöðu sinni í fremstu röð þjóða nema málaflokkurinn hafi þann sess sem honum ber í stefnumótun stjórnvalda hverju sinni.

Þegar til framtíðar er litið skiptir miklu að treysta stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með aukinni áherslu á markvissar vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu. Í því skyni þarf m.a.eftirtaldar aðgerðir:

  • Efla opinbera samkeppnissjóði til rannsókna- og þróunarstarfs á Íslandi. Fjárhagsleg stefnumörkun stjórnvalda fyrir sjóðina til næstu þriggja ára verði lögð fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004. Í framhaldinu mun Vísinda- og tækniráð marka stefnu stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum til næstu þriggja ára.
  • Að einstaklingar og rannsóknahópar í háskólum keppi um fjárveitingar til rannsókna úr samkeppnissjóðum til að byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi.
  • Rannsóknamenntun í sterku alþjóðlegu rannsóknaumhverfi fái forgang á æðstu skólastigum. Opinberar fjárveitingar til rannsókna hvetji háskóla til samstarfs við fyrirtæki og stofnanir um menntun og þjálfun ungra vísindamanna til rannsókna og nýsköpunar á öllum sviðum þjóðlífsins.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur þau atriði sem huga þarf að á næstunni en fjölmörg önnur mál munu koma til umfjöllunar í ráðinu. Ég vil að lokum færa Vísinda- og tækniráði bestu óskir um árangursríkt starf á komandi árum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta