Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins 2004
Ræða Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 4. maí 2004
Góðir fundarmenn
Fyrir rúmri öld þótti mörgum það óraunhæf og glæfraleg hugmynd að fámenn þjóð norður í hafi væri þess umkomin að stofna sjálfstætt ríki. Ýmislegt var týnt til sem átti að verða þessum umkomulausu eyjarskeggjum fjötur um fót við sköpun á nútíma ríki sem stæðist samanburð við það sem aðrar þjóðir byggju við. En svo fór að saga síðustu hundrað ára varð saga sigurs þeirra sem trúðu á getu þjóðarinnar, afl hennar, kjark og vilja til að skapa íslenskt frjálst og fullvalda ríki, sem stæðist samanburð við önnur ríki álfunnar. Þó allar aldir Íslandssögunnar hafi átt eitthvað til síns ágætis, þá má með öryggi kalla síðustu öld hina ,,íslensku öld". Á þeirri öld endurheimtum við þjóðfrelsið og með það að vopni tókst okkur að brjótast úr fátækt til bjargálna á örfáum áratugum og nú erum við í hópi þeirra þjóða heims sem í senn búa við hvað mest ríkidæmi og mestu lífskjarajöfnun. Aflvaki þessa er frelsið.
Við fögnum nú 100 ára afmæli heimastjórnarinnar. Þau tímamót eru mikill áfangi í sögu þjóðarinnar því með heimastjórninni losnaði úr læðingi orkan sem bjó með þjóðinni og trúin á framtíð Íslands vaknaði. Hið pólitíska vald kom heim til þjóðarinnar og með því ábyrgð á okkar eigin gæfu. Og svo sannarlega var heimastjórnin eins og leysing að vori. Framfarirnar urðu gríðarlegar, á öllum sviðum þjóðlífsins. En það er ekki einungis frelsi þjóðarinnar sem er hreyfiaflið. Þjóðfrelsinu verður að fylgja frelsi einstaklingsins. Án frelsis einstaklingsins getur ekkert samfélag blómstrað, án þess verður grámuggan litur lífsins og án þess koðnar allur skapandi hugur og starf. Stjórnmáladeilur síðustu aldar mörkuðust einkum af átökum milli þeirra sem trúðu á frelsið og þeirra sem töldu að ríkisvaldið væri upphaf og endir alls sem máli skiptir í samfélaginu. Saga tuttugustu aldarinnar er því einnig sagan um hvernig hugsjón einstaklingsfrelsis vann sigur á stjórnlyndinu og forræðishyggjunni. Síðastliðinn áratug og rúmlega það höfum við Íslendingar reynt á eigin skinni hversu mikinn fjörkipp þjóðfélagið tekur um leið og stjórnmálamennirnir losa tökin á samfélaginu og láta valdið aftur í hendur almennings, þar sem það á heima. Ekki einvörðungu hefur efnahagslíf okkar vaxið hraðar en flestra þjóða sem við berum okkur við. Menningarlíf hefur blómstrað, samfélagsþjónustan styrkst, samgöngur eflst og á sama tíma hafa skattar lækkað og sameiginlegur sjóður okkar landsmanna stendur með miklum ágætum. Aukið frelsi einstaklingsins, möguleiki hvers og eins okkar til að ráða eigin málum og bera ábyrgð þar á, hefur rétt eins og þjóðfrelsið fyrir 100 árum, leyst úr læðingi sköpunarmátt, hugvit og verkgleði sem á örfáum árum hefur skilað þjóðinni stórkostlega bættum lífskjörum. Auðvitað voru hörð pólitísk átök um þær aðgerðir sem grípa þurfti til þannig að einstaklingurinn fái notið sín. Við því var að búast. Nú er hins vegar svo komið að þeir eru ekki margir sem í opinberri umræðu telja að stjórnlyndið sé allra meina bót. En þrátt fyrir það er baráttunni fyrir frelsinu ekki lokið. Vígvöllurinn hefur sannarlega færst til, en átökin halda áfram. Frelsinu er ekki komið á í eitt skipti fyrir öll. Það er því nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og minnumst þess að það þættu ekki mikil tíðindin úti í hinum stóra heimi, ef eyþjóð lengst norður í hafi glutraði niður sæti sínu í fremstu röð og jafnvel frelsi sínu og framtíð.
Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum. Hvernig kemur það heim við það sem ég var að segja við ykkur, einmitt núna? Það er von að spurt sé því svo margt hefur verið látið falla í þeirri umræðu, eins og verða vill þegar átakamál koma fram. Fjölmiðlafrumvarpið er lagt fram af brýnni nauðsyn. Svo var komið að ástandið á íslenska fjölmiðlamarkaðinum var orðið með öllu óviðunandi. Mikilvægi fjölmiðla er hafið yfir allan vafa. Þeir eru ein meginstoð lýðræðisins í landinu og því má öllum vera ljóst að þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðla eru aðrar og meiri en gerðar eru til reksturs fyrirtækja almennt. Aðeins örfáar þjóðir myndu láta samþjöppun eins og hér hefur orðið afskiptalausa. Og þegar við bætist að aðaleigandi fjölmiðlaveldisins er eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins þá hljóta allir sem vilja varðveita frelsi og lýðræði í landinu að bregðast við. Ríkisstjórnin byggir afstöðu sína á því að markaðsráðandi fyrirtæki séu óheppilegir eigendur fjölmiðla og gengur það að sjálfsögðu jafnt yfir öll fyrirtæki sem eru í slíkri stöðu. Það er ekki hægt að réttlæta það að fyrirtæki geti haft tangarhald á mikilvægum mörkuðum annars vegar og hins vegar haft úrslitaáhrif á umræðu í þjóðfélaginu með því að beita fjölmiðlum í eigu sinni. Þessar áhyggjur eru réttmætar og algerlega óháðar því hverjir það eru sem reka fjölmiðla á þessu augnabliki. Aukið frelsi, sem við höfum barist fyrir að koma á undanfarin áratug, má aldrei verða frelsi hinna fáu á kostnað hinna mörgu. Frelsið er ekki frelsi örfárra auðmanna til að tryggja sterka stöðu sína á markaði með eignarhaldi á fjölmiðlun og á kostnað trúverðugleika þeirra. Og frelsið er ekki frelsi auðhringa til að hneppa stjórnmálaflokka í gíslingu í krafti fjölmiðlavalds síns og peninga. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa alla tíð barist fyrir auknu viðskiptafrelsi. Um leið hafa þeir gætt þess að sátt þarf að vera á milli almennings og viðskiptalífsins og þjóðin hefur getað treyst því að viðskiptafrelsinu fylgdu skýrar leikreglur sem m.a. tryggðu að almenningur yrði ekki ofurseldur valdi einhverja örfárra fyrirtækja. Fjölmiðlafrumvarpið er svo sannarlega í anda þessarar stefnu.
Í fjölmiðlafrumvarpinu er lagt til að ljósvakamiðlar og prentmiðlar geti ekki verið á einni hendi og að auki eru sett takmörk fyrir því hversu mikið einstök fyrirtæki mega eiga í ljósvakamiðlum. Þessi ákvæði eru sett til að tryggja dreifða eignaraðild og til að koma í veg fyrir að einhver einn fjölmiðill verði um of yfirgnæfandi á þessum mikilvæga markaði. Það er ekki hægt að neita því að mér hefur komið nokkuð á óvart afstaða einstakra stjórnmálaflokka í þessu mikilvæga máli. Undanfarin ár hafa talmenn Samfylkingarinnar, stórir og smáir, vart tjáð sig um nokkurt mál án þess að nefna í leiðinni að þeir séu nú orðnir sérstakir málsvarar einstaklingsfrelsisins. Kveður nú orðið svo rammt að þessu að mín ágæta vinkona Jóhanna Sigurðardóttir hastaði á mig fyrir að vera ekki búinn að lækka skattana! Maður þurfti að klípa sig í handlegginn. Ég taldi víst að næst myndi Ögmundur Jónasson fara að reka á eftir einkavæðingunni. Fjölmiðlafrumvarpið var lagt fram til að tryggja að fjölmiðlarnir geti með trúverðugum hætti sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Lýðræðið og þá um leið frelsið mun aldrei þrífast til lengdar ef brestir eru í þessum mikilvæga þætti þjóðfélagsins. Ég hafði því talið fullvíst að Samfylkingin myndi flykkja sér að baki þessa frumvarps og styðja það af mætti. Forystumaður þess flokks krafðist þess í umræðum á Alþingi fyrir fáeinum misserum að ríkisstjórnin gripi til sérstakra ráðstafana gegn fyrirtækinu Baugi sökum sterkrar stöðu þess fyrirtækis á ýmsum mörkuðum. Svar mitt við þeirri kröfu var að ekki væri ástæða til að grípa til nokkurra aðgerða nema sýnt þætti að fyrirtækið misnotaði það vald sem það hefði í krafti sinnar sterku stöðu. En nú kveður við annan tón. Fyrirtækið sem áður þurfti jafnvel að búta niður sökum áhrifa sinna á matvörumarkaði er nú orðinn langumsvifamesti aðilinn á íslenska fjölmiðlamarkaðinum. Og í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar segir, að ekki hefðu fundist nokkur dæmi erlendis um sambærilegt ástand á fjölmiðlamarkaði eins og hér hefur skapast eftir að fyrirtækið hóf innreið sína á fjölmiðlamarkaðinn. Það er ekki mitt að útskýra það hvað veldur þessum furðulega hringsnúningi, en hann er allrar athygli verður. Hvað í ósköpunum fær flokkinn til að berjast svo mjög fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki geti átt hlut í ljósvakamiðlum. Það er rétt að frelsið hefur eignast marga nýja og óvænta málsvara á undanförnum árum og það er fagnaðarefni. En þeir eru ekki allir að mínu mati jafn staðfastir. Fjölmiðlafrumvarpið er heilmikill prófsteinn á festu stjórnmálaflokkanna og vilja þeirra til að gera það sem rétt er og nauðsynlegt til að tryggja raunverulegt frelsi. Lagaumhverfi fjölmiðla verður að vera heilbrigt og það verður að tryggja að þeir sinni sínu hlutverki. Sá sem hér stendur er einn þeirra sem ber ábyrgð á því að frelsi í viðskiptum hefur verið aukið jafnt og þétt á undanförnum árum. Þeirri ábyrgð fylgir sú skylda að tryggja það að frelsið snúist ekki upp í andhverfu sína. Frumvarpi til laga um eignarhald á fjölmiðlum er ætlað að tryggja að stórfyrirtæki geti ekki náð heljartaki á íslensku þjóðlífi. Við viljum tryggja fyrirtækjunum traust og gott rekstrarumhverfi. Þannig geta eigendur þeirra hagnast vel og starfsfólk fengið góð laun. Það hefur tekist vel á undanförnum árum. Einkavæðing, lágir skattar, samkeppnislög og stjórnsýslulög, eru allt skref í þá átt að færa valdið frá stjórnmálamönnunum til almennings í landinu. Fjölmiðlafrumvarpinu er ætlað að tryggja að auðhringir hrifsi ekki það vald til sín sem almenningur á með réttu. Með því frumvarpi er í engu verið að efla hlut ríkisins á kostnað markaðarins. Það er verið að tryggja að jafnvel þeir yfirgangssömustu verði að hlíta almennum leikreglum.
Góðir fundarmenn.
Efnahagsmál okkar Íslendinga eru í góðu horfi um þessar mundir. Á síðasta ári er talið að hagvöxtur hafi verið um 4%. Sé sú mæling rétt þá er það vöxtur nokkuð umfram það sem vísustu menn spáðu. Hagspekingar meta stöðu mála nú svo að framundan sé tímabil mikils hagvaxtar. Ekki er hægt að ætlast til að spár þeirra um prósentur gangi allar eftir frekar en vanalega, en greinilegt er að allar forsendur eru nú til staðar fyrir góðum vexti. Það er mikið ánægjuefni. Hagvöxtur hefur því verið góður allt frá 1995. Aukin erlend fjárfesting ræður hér nokkru um, en hún er þó einungis ánægjuleg viðbót við vöxt hagkerfisins. Mestu skiptir að kaupmátturinn hefur vaxið jafnt og þétt í heilan áratug. Þessi langi samfelldi tími vaxandi kaupmáttar sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að kjarasamningar séu í samræmi við greiðslugetu atvinnuveganna. Það er síðan verkefni okkar allra að búa atvinnulífinu þannig aðstæður að greiðslugetan verði sem mest. Þannig fær launafólk mest í sinn hlut. Nýgerðir kjarasamningar eru til langs tíma. Það er mikill kostur. Friður á vinnumarkaði er forsenda þess að fyrirtæki geti skipulagt starfsemi sína þannig að gagn sé að. Framundan er því mikið tækifæri fyrir Ísland og nú ríður á að nýta það vel. Ég vil þó nota þetta tilefni hér og enn á ný vara við því að menn gangi um of djarft fram. Það er langur vegur á milli varkárni og dugleysis. Reynsla okkar af því þegar íslenska hagkerfið hitnaði um of á árunum 2000 og 2001 ætti að vera öllum í fersku minni. Engin ástæða er til að endurtaka það ferli að óþörfu. Við höfum saman ágætt vald á þessum málum og getum því við engan sakast nema okkur sjálf, ef ekki er skynsamlega haldið á.
Hún er rík í huga okkar Íslendinga sú hugsun að hver sé sinnar gæfu smiður. Engin fær þó við allt ráðið, en það þarf ekki að horfa á mannlífið lengi til að sjá að þeim vegnar betur sem hafa eigin ráð í hendi sér og taka ábyrgð á örlögum sínum, heldur en þeim er sitja og bíða þess að forsjónin færi þeim hamingju og velgengni. Þessi heilbrigða lífssýn hefur reynst okkur Íslendingum ágætlega vel. Hún fer vel saman við þá hugsun að þá farnist þjóðum best þegar frelsi þeirra er sem mest.
Nú nýverið lauk fimmtu lotu stækkunar Evrópusambandsins. Þá gengu tíu þjóðir með 75 milljónir íbúa í sambandið og féllu um leið að þeim markaði sem við erum hluti að. Þessi stækkun er einstaklega ánægjuleg. Þarna eru einkum á ferðinni ríki sem lutu helstefnu sósíalismans. Þau líta svo á að þátttaka í Evrópusambandinu og Nató séu besta tryggingin sem þau hafi gegn því að glata frelsi sínu á ný. Þau eru líkleg til að leggja sitt af mörkum til að bæta samskiptin á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og styrkja tengslin yfir Atlantshafið innan Nató. Hvoru tveggja fellur mjög að okkar stefnu. En þau munu einnig fljótt læra að innan Evrópusambandsins dansa menn ekki eingöngu á rósum. Kanslari Þýskalands krafðist þess á dögunum að skattar Evrópuríkjanna verði samræmdir hið fyrsta. Hljómar svo sem ekki illa. En því miður er samræmingin öll að háskattalöndunum. Þannig vill kanslarinn að skattar á fyrirtæki í öllum Evrópulöndum hækki í 43% eins og þeir eru í Þýskalandi. Það fellur ekki vel að okkar stefnu. Ef við viljum halda forystuhlut okkar í þeim efnum ættum við þvert á móti að stefna að því að þeir skattar verði ekki yfir 15% í framtíðinni.
Enginn efi er á því að EES-samningurinn hafði ýmis góð áhrif á íslenskt atvinnulíf. En það er sérstakt að hlýða á suma þá sem nú tala hvað mest um að EES samningurinn sé veikur og fullyrða gjarnan að þær efnahagsframfarir sem orðið hafa undanfarin áratug eigi allar upphaf sitt og endi í þeim samningum. Þessi skoðun er að mínu mati slík endaleysa að vart er á hana orðum eyðandi ef ekki væri fyrir þá sök að hún endurspeglar afstöðu sem ég tel mjög varhugaverða. Undirliggjandi er sú skoðun að velmegun okkar og árangur sé ekki til kominn vegna þess að þjóðin öll, atvinnulífið, verkalýðshreyfing og stjórnvöld hafi sýnt ábyrgð og árvekni í sínum störfum. Nei, árangurinn kom að utan, hann féll eins og manna af himni ofan. Ég er jafn sannfærður og áður um að hver sé sinnar gæfu smiður. Það var gæfa að ná samninginum um evrópska efnahagssvæðið, en sá samningur var einungis tækifæri. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið gerði enga kröfu um það að Íslendingar næðu tökum á ríkisfjármálum sínum. Skuldir hins opinbera hafa lækkað mjög á undanförnum árum. Þær voru komnar í rúm 50% af þjóðarframleiðslu en verða á næsta ári komnar í rúm 15%. Viðsnúningurinn er alger. Tekjuskattur fyrirtækja hefur lækkað úr 50% í 18% á nokkrum árum. Skattar á einstaklinga hafa lækkað og munu lækka mjög á þessu kjörtímabili. Engin krafa var gerð um slíkt í EES samningnum. Hugur manna í Brussel stefnir í aðra átt, eins og fram hefur komið. Einkavæðingin hefur nú staðið yfir í rúman áratug. Búið er að selja mikinn fjölda ríkisfyrirtækja á þeim tíma. Áður var t.d. allur fjármálamarkaðurinn bundinn af eignarhaldi ríkisins á viðskiptabönkunum. Nú hafa þeir allir verið seldir og verið er að undirbúa sölu á Landssíma Íslands. Engin krafa var gerð um einkavæðingu í samningnum um EES. Það var heldur ekki gerð krafa um aukin framlög til menntamála, heilbrigðismála eða félagsmála. Og þaðan af síður um aukin útgjöld til samgöngumála. Erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir um uppbyggingu þorskstofnsins voru ekki á borðum samningamanna þegar EES samningurinn var undirritaður. Álver var byggt hér áður en EES samningurinn var gerður og þau voru einnig byggð hér eftir að hann var gerður. Svona mætti lengi halda áfram. Aðalatriðið er að það var íslenska þjóðin sjálf sem stýrði þessum málum, það var hún sem hafði vald á þeim ekki aðrir. Þetta skiptir máli. Þess vegna náðu Íslendingar árangri. Frjáls þjóð ber ábyrgð á eigin framtíð. Og eftir því sem frelsið eykst, því ríkari verður krafan um ábyrgð einstaklingsins á eigin framtíð. Við Íslendingar erum að sönnu mikil evrópuþjóð. Menning okkar og saga er evrópsk. En hvorki samningurinn um EES né dularfullir draumar um eitthvert stökkbreytt ESB sem myndi henta okkur, geta komið í staðinn fyrir forræði á okkar eigin málum. Síðastliðin hundrað ár, íslenska öldin, hefur sýnt og sannað að þegar frelsi og ábyrgð fara saman, vegnar okkur best.
Ágætu fundarmenn
Ég vil ítreka þakkir mínar til forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins. Samtökin gegna lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi og á engan hallað þegar á það er bent hversu stóran þátt þau ásamt viðsemjendum eiga í þeim ágæta stöðugleika sem nú ríkir í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég óska forystumönnum samtakanna alls hins besta á nýju starfsári og óska þess að í störfum sínum verði þeir farsælir og giftudrjúgir. Þegar þeim tekst best upp hagnast öll þjóðin.