Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. júní 2004 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Ávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2004

Góðir Íslendingar, Á þessu ári er tvíheilagt hjá okkur. Við fögnum eitt hundrað ára afmæli heimastjórnarinnar, mikilvægasta áfanga sjálfstæðisbaráttunnar og gleðjumst um leið yfir því, að sextíu ár eru síðan stofnað var til lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

Jón Sigurðsson var fullhugi mikill og framsýnn baráttumaður, en jafnvel hann hvorki sá fyrir né gerði kröfu um að slíkur endapunktur í sjálfstæðisbaráttunni myndi nást. En svo vel þekkjum við persónu hans og innri mann, þrátt fyrir mistur liðins tíma, að við erum þess fullviss að enginn hefði verið glaðari og stoltari en hann yfir úrslitunum og þeim árangri sem þjóðin hefur náð.

Sagan virðist oft sundurleit og flöktandi, og kaflaskipt með kúnstugum hætti, en þó er samhengið meira en sýnist, þegar grannt er skoðað. Aðeins fjórum vikum eftir að jarðarför þeirra Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar er gerð frá Dómkirkjunni okkar, að viðstöddu fjölmenni er syrgði þau mjög, komu menn saman á ný og nú glaðir í bragði til að leggja hornstein að Alþingishúsinu vestan við kirkjuna. Í steinninn er lagður silfurskjöldur og á hann skráð orðin ,,sannleikurinn mun gera yður frjálsa“. Það má margt gott og göfugt segja um Alþingishúsið og það sem þar fer fram innan dyra. En ekki er endilega víst að sannleikanum sé alltaf haldið betur til haga í því húsi en öðrum á Íslandi. Í mörgum bardaganum hefur hann fallið fyrstur. Það breytir þó ekki því, að engin ein stofnun hefur meiri þýðingu fyrir heill og hamingju þjóðarinnar en Alþingi Íslendinga. Dæmin sanna, að þá Alþingi tekst best til í verkum sínum er árangurinn mikill fyrir land og þjóð og leiðin til betra lífs greiðari fyrir sérhvern mann. Þó er það svo, að virðing fyrir þinginu hefur verið með ýmsum hætti gegnum tíðina og algengara er, en ætla mætti, að hnýtt sé harkalega í þá, sem þar sýsla í þjóðarumboði. Þingið hefur jafnvel orðið fyrir beinum sem óbeinum árásum og var hin harkalegasta þeirra, þegar lýðveldið Ísland var aðeins fárra ára gamalt. En þó er enginn vafi á að innst inni finnst fólkinu í landinu vænt um þingið sitt og vill veg þess og virðingu. Hornsteinn hússins var áðan nefndur til sögunnar, en sjálft er þingið hornsteinn lýðræðis og frelsis á Íslandi. Og þegar árangur þess er skoðaður á aldarafmæli heimastjórnar og af sanngirni dæmt er einkunnin góð. Ísland, sem um aldir hafði verið eitt fátækasta ríki Evrópu er nú komið í hóp efnuðustu ríkja veraldar. Þetta hefur tekist þrátt fyrir fámennið, en sumir töldu að Ísland gæti aldrei staðið á eigin fótum af þeim sökum. Og þetta hefur tekist þótt landið sé fjarri því að vera í alfaraleið. Þegar árangur á einstaka sviðum er veginn og metinn ber þjóðin sig aðeins saman við þá sem náð hafa lengst á því sviði, sem til umræðu er. Nú er reyndar svo komið að það er eins og flestum Íslendingum þyki sjálfsagt að svo vel hafi til tekist og gæli jafnvel við að ekki þurfi mikið að leggja á sig til að þjóðin fái haldið svo sterkri stöðu um alla framtíð. Vissulega eigum við góða möguleika á næstu árum og áratugum. Tækifærin eru fjölmörg og þau eru víða, en það þýðir ekki, að við getum fengið allt fyrir ekkert. Við munum alltaf þurfa að hafa fyrir því að skipa eitt af forystusætunum í samfélagi þjóðanna.

Ég gat áðan um tvo atburði, sem urðu á þessum stað, með fáeinna daga millibili fyrir eitthundrað tuttugu og fimm árum. Annar var jarðarför brautryðjendanna og hinn þá hornsteinninn var lagður að Alþingishúsinu. Þótt mér vitanlega séu ekki til um það skriflegar heimildir, er næsta öruggt, að nemandi, sem þá var í efsta bekk Lærða skólans og gegndi embætti Inspectors Scholae, Hannes Hafstein, hefur verið viðstaddur báða atburðina og mjög sennilega borið, eins og skólapiltar gerðu, kistu Jóns eða Ingibjargar hluta af leið. Hannes átti síðar eftir að verða flestum skörungum meiri í húsinu, sem hornsteinninn var lagður að. Því fór þó fjarri, að hann ætti þar alltaf sæla daga, enda varð hann iðulega að sitja undir árásum og jafnvel ótrúlegum svívirðingum, þegar mestur hiti hljóp í leikinn. Þótt honum mislíkaði þetta oft, eins og mannlegt er, erfði hann það ekki við einstaka þingmenn. Sjálfur var Hannes annálað prúðmenni, þótt vitað væri, að hann væri bæði geðríkur og skapstór og hefur því orðið að beita sig hörðu. Stundum gefa einstök dægurmál, sem upp koma, þann svip af þinginu að þar logi allt í átökum, klögumál og brigslyrði ganga á víxl og stóryrði og svigurmæli hvergi spöruð. En hafa verður í huga að þessi þáttur er minnstur hluti af starfi þingsins og telst jafnvel til nauðsynlegrar kappræðu þjóðarmálstofunnar, þótt auðvitað reyni flestir þingmenn að halda sér innan málefnalegra marka. Landsmenn mega trúa því að þingheimur sem heild gerir sér fullvel grein fyrir þeirri ábyrgð sem á honum hvílir og hávært vopnaglamur skylminganna í málstofunni breytir engu um það. Þingmenn hafa hlotið þau forréttindi að fá að starfa um stundarsakir í umboði og þjónustu þjóðar sinnar á virðulegasta vettvangi hennar. Þeir eru auðvitað þakklátir fyrir það tækifæri. Og Hannes Hafstein var það svo sannarlega. Það var hann á hinn bóginn sem hvatti landa sína til að fara ekki offari og sagði: „Strikum yfir stóru orðin, standa við þau minni reynum.“ Og kvæðinu lauk hann svo:

„Burt með holu hismisorðin,
hrokareiging, froðuspenning.
Burt með raga skríldóms skjallið!
Skiljum heimsins sönnu menning.“

Hannes Hafstein hafði, aðeins 18 ára gamall, ort sína innilegu ástarjátningu til Íslands:

„Ef verð ég að manni, og veiti það sá,
sem vald hefur tíða og þjóða,
að eitthvað ég megni, sem lið má þér ljá,
þótt lítið ég hafi að bjóða,
þá legg ég, að föngum, mitt líf við þitt mál,
hvern ljóðstaf, hvern blóðdropa, hjarta og sál.“

Tómas Guðmundsson segir um þetta kvæði hins unga manns. „Sjaldan hefur svo drengileg rödd og þróttmikil kveðið sér hljóðs að upphafi skáldferils, og enn sjaldnar hefur ungur fullhugi leitað æskuheitorði sínu efnda af afdráttarlausari trúnaði en Hannes Hafstein.“

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir þingmenn sem nú um stundir skipa Alþingi, hvar sem þeir í fylking standa, taka af einlægum hug og heilindum undir þá heitstrengingu, sem Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann okkar, orðaði svo tærlega og gera hana að sinni. Geri þeir það,

„Þá mun sá guð, sem veitti frægð til forna, fósturjörð vora reisa endurborna. Þá munu bætast harmasár þess horfna, hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna.“

Ég óska löndum mínum farsældar í framtíð og þakka þeim þolinmæði og umburðarlyndi við mig, er ég segi í fjórtánda sinn frá þessum stað:

„Gleðilega hátíð, góðir Íslendingar.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta