Úthlutun úr starfsmenntasjóði
Blaðamannafundurinn er haldinn til að kynna úthlutun úr starfsmenntasjóði. Um sjóðinn gilda lög um starfsmenntun í atvinnulífinu sem voru samþykkt á Alþingi vorið 1992. Setning laganna átti sér nokkurn aðdraganda. Á árunum 1984 og 1985 var starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem hafði það hlutverk að gera úttekt á áhrifum nýrrar tækni á atvinnulífið. Nefndin skilaði af sér áliti um það hvernig skyldi bregaðst við tæknibreytingum. Nefndin lagði megináherslu á að fjölga kostum til endurmenntunar og endurþjálfunar.
Með lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu var stofnað starfsmenntaráð skipað sjö fulltrúum, þremur fulltrúum samtaka atvinnurekanda og þremur fulltrúum samtaka launafólks. Félagsmálaráðherra skipar sjöunda fulltrúann. Aðilar skiptast á um að gegna formennsku þannig að eitt árið gegnir fulltrúi félagsmálaráðhera formennsku og næsta fulltrúi atvinnurekanda og þriðja árið fulltrúi launafólks Þetta er gert til að undirstrika að hér er um að ræða sameiginlegt viðfangsefni þessara þriggja aðila.
Markmið laga er fyrst og fremst að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu, t.d. í þeim tilgangi að auka framleiðni, greiða fyrir tækninýjungum, bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum. Með lögunum var farin nokkuð önnur leið en flest nágrannalönd okkar höfðu farið. Í stað þess að leggja áherslu á miðstýrðar starfsmenntunar- og starfsþjálfunarmiðstöðvar var með lögunum mörkuð sú stefna að hvetja samtök atvinnurekenda og launafólks til að taka þessi mál í sínar hendur.
Á þeim rúma áratug sem liðin eru frá því lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu voru sett hafa miklar breytingar orðið á því umhverfi sem starfsmenntaráð starfar í. Þróun atvinnulífsins hefur einkennst af stórstígum tækniframförum, breytingum á starfsemi fyrirtækja og stofnana og þeim störfum sem þar eru unnin. Sama gildir um starfsumhverfið sem einkennist stöðugt meir af alþjóðlegum samanburði, samstarfi og samkeppni.
Samhliða hefur einnig orðið mikil breyting á uppbyggingu og framboði á starfsmenntun hér á landi. Fræðslustofnanir atvinnulífsins hafa eflst mjög á síðustu árum og gegna stöðugt mikilvægara hlutverki á sviði endur- og símenntunar. Á árinu 2000 gerðu samtök atvinnulífsins samninga við Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið og verslunarmannafélögin um stofnun sérstakra fræðslusjóða á almennum vinnumarkaði til að sinna starfsfræðsluþörfum ófaglærðs starfsfólks á vinnumarkaði. Áður höfðu verið gerðir sambærilegir samningar við iðnaðarmannafélögin. Á árinu 2002 gerðu Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna samkomulag við Sjómannasamband Íslands um stofnun fræðslusjóðs sjómanna.
Því má segja að lögin hafi þjónað vel því markmið sem þeim var sett.
Það er ljóst að sí – og endurmenntun gegna lykilhlutverki í möguleikum vinnumarkaðarins bæði hvað varðar möguleika fyrirtækjanna til framþróunar og einnig einstaklinganna á vinnumarkaðinum.
Árið 2004 var gefin út skýrsla á vegum félagsmálaráðuneytisins, um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Niðurstaða skýrslunnar er m.a. að endur- og símenntun virðist vera áhrifaþáttur varðandi möguleika miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði sem sífellt er í tæknilegri gerjun og breytingar krefjast þess að fólk sé í námi alla starfsævina. Í skýrslunni kemur fram að upp úr fimmtugu dregur úr þátttöku fólks í sí- og endurmenntun og er það byggt á gögnum frá starfsmenntasjóðum. Á vegum félagsmálaráðuneytis starfar nú verkefnisstjórn sem ætlað er að stýra fimm ára verkefni sem hefur það meginmarkmið að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Ljóst er að verkefnisstjórnin mun m.a. beina sjónum sínum að sí- og endurmenntun þessa hóps.
Starfsmenntaráð auglýsti í febrúar s.l. eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Að þessu sinni var ákveðið að leggja ekki áherslu á tiltekin verkefni eða málaflokka. Hins vegar var lögð áhersla á að verkefni fælu í sér frumkvæði og nýsköpun í starfsmenntun og væru líkleg til að efla viðkomandi starfsgrein eða atvinnusvæði. Þær umsóknir yrðu látnar njóta forgangs til styrkja umfram aðrar. Þá var einnig lögð áhersla á að verkefni sem sótt væri um styrk til, væru vel undirbúin og umsóknir vandaðar.
Samtals bárust 83 umsóknir frá 50 aðilum. Samtals var sótt um styrki að upphæð 156.882.000. Að tillögu starfsmenntaráðs var ákveðið að styrkja 42 verkefni frá 30 aðilum. Að þessu sinni var úthlutað rúmlega 54 milljónum kr. úr starfsmenntasjóði.
Okkur fannst vel við hæfi að tilnefna að þessu sinni verkefni Fræðsluráðs Hótel og matvælagreina “Sérstök matargerð” sem áhugavert sýnishorn þeirra verkefna sem borist hafa Starfsmenntaráði þetta árið. Markmið verkefnisins er að hanna og semja námsefni fyrir sérfæði sem ætlað verður til kennslu í framhaldsskólum og á endurmenntunarnámskeiðum. Efnið mun jafnframt nýtast öllum þeim sem matreiða sérfæði, bæði fagfólki og almenningi. Sérfæði er fæði fyrir fólk með ýmsa sjúkdóma, ofnæmi og óþol. Styrkurinn er kr. 2.800.000
Fulltrúar þessa aðila eru hér og vil ég óska þeim til hamingju með þetta áhugaverða verkefni sitt.
Síðan er hér í gögnunum fyrir framan ykkur listi yfir styrkveitingar ársins og eru þar að finna mörg áhugaverð verkefni. Ég vil sérstaklega nefna styrk til Rafiðnaðarskólans. Hann sótti um styrk til að setja upp námskeið sem hefur að markmiðið að gefa rafiðnaðarmönnum kost á að búa sig undir fyrirhugaða ljósleiðaravæðingu. Einnig eru veittir styrkir til að viðhalda og þróa íslenskt handverk. Ef vel tekst til getur þetta skapað störf ekki síst í dreifbýlinu og stutt við uppbyggingu ferðaþjónustu. Myndarlegur styrkur er veittur Miðstöðu símenntunar á Suðurnesjum. Öllum má vera ljóst að þörf er á viðtækri samstöðu um að bregaðst við breytingum sem þar eiga sér stað. Loks má nefna að nokkur verkefni sem hafa innflytjendur sem markhóp fá stuðning við þessa úthlutun.