Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. október 2006 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Ávarp ráðherra á málþingi SÍBS

Ágætu málþingsgestir.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa þessa samkomu sem haldin er í tengslum við 35. þing SÍBS, Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga.

Saga SÍBS er orðin samofin sögu íslensku þjóðarinnar á síðustu öld. Þegar sambandið var stofnað 1938 var það markmið sett að aðstoða berklasjúklinga til að fóta sig aftur í lífinu eftir að hafa dvalið langdvölum á heilsuhælum. Eins og allir vita hér, eru berklasjúklingar orðnir fremur fágætir og því hefur höfuðverkefni SÍBS útvíkkað mikið og er það nú að veita þjónustu fólki sem þarf á endurhæfingu að halda af margvíslegum ástæðum, en þjóna ekki eingöngu fólki með brjóstholssjúkdóma þótt nafnið gæti bent til annars.

Sú endurhæfing sem fram fer á Reykjalundi, bæði læknisfræðileg endurhæfing og atvinnuleg endurhæfing tengist mjög mikið hvers konar hreyfingu. Allt frá því að hreyfa sig í hjólastól allra sinna ferða og í að ganga um hæðir og dali, eins og hjartasjúklingar gera í endurhæfingu á Reykjalundi. Hluti af þessari starfsemi felur í sér beina endurhæfingu meðan annað er bæði endurhæfing og forvarnir til framtíðar.

Í dag er verið að fjalla um hreyfingu – lykil að betra lífi. Ég er hjartanlega sammála um að hreyfing er allra meina bót, eða að minnsta kosti ansi margra. Og það er mjög við hæfi að SÍBS, í ljósi sögu sinnar taki fyrir umræðu um hreyfingu sem er afar mikilvæg fyrir stóran hluta þess hóps sem sækir þjónustu á Reykjalundi.

Á undanförnum árum hafa komið fram sífellt áreiðanlegri upplýsingar um gildi hreyfingar til að fyrirbyggja sjúkdóma og bæta líðan vegna fjölmargra sjúkdóma og kvilla. Í ljós hefur komið að hreyfing hefur góð áhrif á þunglyndi, hjarta og æðakerfi og stoðkerfissjúkdóma svo fátt eitt sé talið. Þá er óumdeilt að kyrrseta eykur hættu á offitu en offita er einmitt vaxandi vandamál í öllum vestrænum löndum og hefur verið talað um offitu sem faraldur 21. aldarinnar. Með offitu fylgir verulega aukin áhætta á sykursýki og ýmsum sjúkdómum í stoðkerfi og hjarta og æðakerfi.

Öllum er ljóst að fólk þyngist aðallega vegna þess að það innbyrðir meiri orku en það nær að nýta.

Ég ætla ekki að tala um næringu hér, sem er auðvitað mjög mikilvæg þegar offita er annars vegar. Hreyfing er ekki síður mikilvægur þáttur til að fyrirbyggja offitu.

Niðurstöður rannsóknar sem fór fram hér á landi og birt var í Læknablaðinu á árinu 2004, benda til þess að fimmta hver kona og fjórði hver karlmaður stundi enga reglulega líkamsþjálfun á aldrinum 30 – 85 ára. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að helmingur fullorðinna Reykvíkinga sé of þungur. Við getum líka sagt að það sé gott að 80% kvenna og 75% karla stundi reglulega líkamsþjálfun en það þarf líka að ná hinum á hreyfingu. Það þarf að auka hreyfingu meðal þjóðarinnar í heild, bæði meðal þeirra sem eiga í langvinnum sjúkdómum og þeirra sem ekki kenna sér neins meins - ennþá.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að börn hafa þyngst á undanförnum árum. Fleiri börn eru með líkamþyngdarstuðul hærri en æskilegt er talið og þeim börnum sem glíma við offitu hefur líka fjölgað. Þetta er áhyggjuefni því takist ekki að snúa þróuninni við mun þetta þýða mikið aukið álag á heilbrigðiskerfið eftir nokkra áratugi. Þá þarf ekki að tíunda persónulega líðan fólks vegna sjúkdóma sem tengjast offitu.Því þarf að huga að því hvernig hægt er að efla hreyfingu meðal barna, sem hreyfa sig minna nú en áður var. Ýmsar ástæður eru fyrir hreyfingarleysinu. Skóladagurinn hefur lengst, skólaárið hefur lengst og tími til frjálsra leikja er minni en áður. Þá hefur dægradvöl barna einnig breyst. Börn dunduðu sér áður við að lesa bækur í frítíma og það var kannski ekki margt annað sem þau gerðu í frítíma sínum sem hafði sambærilega kyrrsetu í för með sér. Nú hafa tölvur, sjónvörp og alls kyns myndmiðlar bæst við og keppa um tíma þeirra. Þessi tegund af dægradvöl hvetur ekki til hreyfingar og með minni frítíma er hætt við að enn dragi úr hreyfingu nema hreyfing verði verulega aukin innan þess tíma sem börn verja í skóla.

Landlæknisembættið hefur í mörg ár lagt mikla áherslu á gildi hreyfingar. Lýðheilsustöð hefur einnig lagt áherslu á að auka hreyfingu meðal almennings. Á árinu var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri til að hafa yfirumsjón með verkefnum sem tengjast hreyfingu á Lýðheilsustöð og hreyfing hefur fengið aukið vægi innan stofnunarinnar, eins og lesa má í nýútkominni aðgerðaráætlun stöðvarinnar. Mig langar að minnast á örfá verkefni sem Lýðheilsustöð hefur unnið til að efla hreyfingu. Skemmst er að minnast átaksins ,,Hjólað í vinnuna” sem stöðin hefur gengist fyrir ásamt fleiri aðilum. Einnig hefur verkefnið ,,Allt hefur áhrif, einkum við sjálf” farið vel af stað með þátttöku fjölda sveitarfélaga. Þar er lögð áhersla á hreyfingu og næringu barna. Þá hefur Lýðheilsustöð gefið út fræðsluefni og stuðningsefni varðandi hreyfingu, bæði fyrir börn, aldraða og almenning. Þá er mér það mikil ánægja að minnast á tilrauna­verkefnið,  ,,Hreyfing fyrir alla”  sem verður unnið í samvinnu Heilbrigðis- og trygginga­málaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og ÍSÍ og fleiri aðila, og hefur það að markmiði að auka tilboð um hreyfingu fyrir almenning.  Ég sé á dagskránni að gerð verður grein fyrir þessu verkefni síðar í dag svo ég mun ekki dvelja við það lengur. Þá þykir mér rétt að benda á tillögu að íþróttastefnu Íslands, sem var unnin af starfshópi menntamála­ráðherra og birt á þessu ári. Þar er ekki aðeins lögð áhersla á íþróttaiðkun heldur á hreyfingu almennt. Ég nefni þessi verkefni sem dæmi um að ýmislegt er verið að gera til að vinna gegn hreyfingaleysi bæði almennings og barna. Ég gæti nefnt  fleiri verkefni en læt þetta nægja.

Að mínu mati er mjög mikilvægt að samfélagið í heild stuðli að aukinni hreyfingu almennings einnig áður en veikindi steðja að, því betra er heilt en vel gróið.  Því þarf að gera umhverfi fólks þannig úr garði að það hvetji til hreyfingar, til dæmis með því að skipuleggja samgöngu­mannvirki svo  auðvelt og öruggt sé að ferðast gangandi eða hjólandi milli staða. Hvati til hreyfingar felst í því að hafa góða göngustíga og hjólastíga sem víðast í og við þéttbýli, sem nýtast einstaklingum og fjölskyldum til útivistar í frítíma.

Heilbrigðisstarfsmenn þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að auka meðvitund fólks um gildi hreyfingar. Þeir hafa samskipti við mikinn fjölda fólks sem til þeirra leita vegna ýmissa heilsufarsvandamála. Þeir eru því í lykilstöðu til að koma á framfæri upplýsingum og leiðbeiningum um gildi hreyfingar, við getum líka kallað það áróður. Almenningur tekur mark á læknum, sjúkraþjálfurum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðsstarfsfólki. Í stað þess að veita eingöngu óvirka meðferð gefst þessum starfsmönnum tækifæri til að leiðbeina um heilbrigðan lífsstíl og möguleikana sem sá lífsstíll gefur fólki til betra og verkjaminna lífs. Ég tel að þessi tækifæri séu ekki nýtt til fullnustu. En ég skora á ykkur að velta því fyrir ykkur, hvar þið gætuð komið þessum boðskap á framfæri og hvernig. Við þurfum öll að vera fótgönguliðar í því verkefni að fá Íslendinga til að nota þann lífsins elexír, sem góð hreyfing sannarlega er. 


Takk fyrir.

 

Talað orð gildir.



 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta