Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnu um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi
Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde,
á ráðstefnu vegna útgáfu skýrslu nefndar forsætisráðherra
um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi
Þjóðleikhúsinu, 10. nóvember 2006
Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir.
Það er mér mikil ánægja að fara nokkrum orðum um þá skýrslu um alþjóðlega fjármálastarfsemi sem hér liggur fyrir og þær hugmyndir sem þar koma fram. Ég hef kynnt þessa skýrslu í ríkisstjórn sem ákvað að fela embættismönnum forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta að vinna frekar úr þessum hugmyndum.
Eins og fram kemur í erindisbréfi nefndarinnar var henni falið að reifa þau tækifæri sem alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi gæti skapað og mögulegan ávinning fyrir efnahags- og atvinnulíf í landinu. Í þessu skyni var nefndinni falið að skoða lög og reglur um fjármálastarfsemi, fjármagnsmarkað, skattheimtu og félagaumsvif út frá því sjónarmiði hvort gera þyrfti umbætur á löggjöf til að ýta undir alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi án þess að slaka á kröfum um eðlilegt aðhald og eftirlit. Ennfremur var nefndinni ætlað að efna til faglegrar umræðu um alþjóðlega fjármálastarfsemi og kynna nýjustu viðhorf í þeim efnum á opinberum vettvangi. Afrakstur þessarar vinnu er að finna í skýrslu nefndarinnar.
Í skýrslunni er það rakið að mikilvægustu forsendur þeirrar miklu framþróunar og lífskjarabóta sem hér hefur orðið á síðustu 10-15 árum séu þær grundvallarbreytingar í skipulagi efnahagsmála sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir, meðal annars með ákvörðunum um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, frelsi í vaxtaákvörðunum, einkavæðingu ríkisbanka og róttækum breytingum til að stuðla að hagstæðu skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi.
Þessar ákvarðanir hafa leitt til þess að fjármálastarfsemi er nú orðin ein af mikilvægustu atvinnuvegum hér á landi sem skapar athafnafólki á fjölmörgum sviðum möguleika á því að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Það er fagnaðarefni.
Ég er sammála þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í skýrslu nefndarinnar um að það sé mikilvægt nú að huga að því hvaða nýjar ákvarðanir þurfi að taka til þess að framhald geti orðið á þróun fjármálastarfseminnar á Íslandi. Þetta er ekki alveg sjálfgefið þar sem taka þarf tillit til fjölmargra og að mörgu leyti mismunandi sjónarmiða, bæði hvað varðar eftirlitsmál, alþjóðasamninga, svo sem tvísköttunarsamninga og EES-samninginn, auk ýmissa skattalegra atriða og fleiri þátta.
Það er hins vegar nauðsynlegt að menn geri sér frá upphafi skýra grein fyrir því um hvað málið fjallar. Fyrsta spurningin er: Hvað er átt við með alþjóðlegri fjármálastarfsemi. Eins og segir í skýrslunni þá vísar alþjóðleg fjármálastarfsemi til þess sem á ensku er kallað „international financial services“ sem hefur víðtæka skírskotun til alþjóðlegrar fjármálastarfsemi fyrirtækja. Þá er alþjóðleg fjármálastarfsemi einkum rædd í sambandi við það laga- og rekstrarumhverfi sem fjármála- og þjónustufyrirtækjum er skapað í svokölluðum alþjóðlegum fjármálamiðstöðvum, svo sem í Sviss, Lúxemborg, Hollandi og á Írlandi svo og í einstaka borgum eins og London og New York.
Við þurfum hins vegar að gæta þess að rugla ekki saman tveimur ólíkum og andstæðum hugtökum, þ.e. annars vegar því sem kallað er „offshore“ og hins vegar „onshore.“
Með hinu fyrra er einkum átt við lögsögur þar sem ekki gilda sambærilegar skattareglur fyrir innlenda og erlenda aðila, eftirlit er ýmist ófullnægjandi eða ekki fyrir hendi, gagnsæi lítið sem ekkert og þar sem takmarkaðar ráðstafanir eru gerðar til að koma í veg fyrir peningaþvætti o.s.frv. Hér er gjarnan vísað til einstakra eylanda, s.s. í Karabíska hafinu. Þessi tegund fjármálastarfsemi er alls ekki til fyrirmyndar og kemur ekki til greina á Íslandi.
Sú fjármálastarfsemi sem nefndin telur eftirsóknarverða er aftur á móti það sem kallast „onshore“ en þar er fyrst og fremst átt við lögsögur sem hafa þróað lagaumhverfi fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi og sem eru virkar í alþjóðlegu samstarfi og veita einstaklingum og félögum ekki eingöngu þjónustu heldur einnig markvisst aðhald og eftirlit. Hér má nefna lögsögur eins og Bretland, Írland, Lúxemborg, Holland og Sviss.
Í þessum löndum er laga- og viðskiptaumhverfi gagnsætt, öruggt, stöðugt og reglulega aðlagað að þróun í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum þar sem starfsemin sætir hóflegri skattlagningu, nýtur velvildar og þjónustu opinberra stofnana og býr við virkt eftirlit.
Þau lönd sem hafa náð hvað mestum árangri á sviði alþjóðlegrar fjármálastarfsemi eiga það sameiginlegt að hafa það beinlínis sem yfirlýsta stefnu að stuðla að uppbyggingu slíkrar starfsemi. Þessari stefnumörkun er síðan fylgt eftir með ábyrgum hætti í stjórnsýslu og lagasetningu. Þá er ljóst að stjórnsýsla vegna málaflokksins er ekki tilviljunarkennd, heldur er hún vel skipulögð, ábyrg og gagnsæ. Það einkennir þessar lögsögur jafnframt að stöðugt er unnið að því að bæta þá þætti sem taldir eru skipta sköpum um enn betri árangur. Sérfræðingar eru almennt sammála um að skattareglur, þjónusta og viðmót skattyfirvalda séu mikilvægustu mælikvarðarnir á árangur í samkeppninni um alþjóðlegar fjárfestingar og virkni alþjóðlegrar fjármálastarfsemi í viðkomandi lögsögu.
Lítið hagkerfi, eins og það íslenska, hefur upp á takmarkaða eftirspurn eða framleiðslugetu að bjóða til að laða að starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja. Á hinn bóginn eru innviðir efnahagslífsins mjög samkeppnishæfir og stjórnkerfið hefur til að bera sveigjanleika sem gæti stuðlað að verulegri tekjuaukningu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi.
Miklu skiptir að skilgreina bestu möguleika Íslands í samkeppni landa á sviði alþjóðlegrar fjármálastarfsemi og hvar styrkleikar og veikleikar landsins liggja. Almennt gildir hið sama um alþjóðlega fjármálastarfsemi og framrás íslenskra félaga á alþjóðlegum mörkuðum.
Það segir sig sjálft að fyrir okkar litla hagkerfi getur það haft gífurlega þýðingu ef innlend fyrirtæki ná fótfestu í atvinnulífi þjóða þar sem íbúar skipta tugum milljóna. Hugmyndin um að efla alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi snýst um að veita hingað alþjóðlegum fjármagnshreyfingum, ná hingað höfuðstöðvum alþjóðlegra fyrirtækja og mynda tekjustrauma sem með hóflegri skattlagningu yrðu mikilvæg tekjulind fyrir íslenska ríkið og uppspretta nýrra og arðbærra sérfræðistarfa.
Ég er opinn fyrir mörgum þeirra hugmynda sem nefndin hefur sett fram í þessum efnum. Við höfum góða reynslu af því að lækka skatthlutföll, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Það hefur skilað sér margfalt til baka: Í auknum kaupmætti heimilanna og þar með auknum umsvifum í efnahagslífinu og meiri skatttekjum ríkissjóðs; í betri afkomu fyrirtækja, auknum fjárfestingum og þar með auknum tekjum ríkissjóðs.
Ég legg þó áherslu á og er sammála því viðhorfi nefndarinnar að hér verði einungis settar almennar reglur sem þurfa að sjálfsögðu að samræmast öllum EES-kvöðum og koma öllum atvinnurekstri til góða. Tími sértækra aðgerða á þessu sviði er löngu liðinn. Ennfremur er ég sammála þeirri ábendingu nefndarinnar að fjármagn sé kvikasti skattstofn sem fyrirfinnst. Á þessu hafa ríkisstjórnir fjölmargra vestrænna ríkja áttað sig og beitt sér fyrir umbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækja, sér í lagi með það fyrir augum að laða að fyrirtæki og einstaklinga í alþjóðlegri fjármálastarfsemi.
Á undanförnum fimm árum hafa Danir, Svíar, Hollendingar, Belgar, Ástralir og Írar komið á víðtækum umbótum á skattkerfi og rekstarumhverfi fyrirtækja með það fyrir augum að laða til sín aukna starfsemi á sviði alþjóðlegra fjármála.
Þjóðirnar hafa gengið misjafnlega langt í umbótunum. Hins vegar er stefnufesta stjórnvalda rauður þráður í uppbyggingu alþjóðlegrar fjármálastarfsemi - enda líta erlendir fjárfestar einkum til stöðugs rekstrarumhverfis og fyrirsjáanleika við ákvörðun á staðsetningu.
Ég tel að við séum að mörgu leyti vel undirbúin til að takast á við hliðstætt verkefni. Íslenska hagkerfið er opið og sveigjanlegt. Almennt séð er lagaumhverfi á Íslandi einnig hagstætt fyrirtækjum þótt þörf kunni að vera á einstökum breytingum á lögum og reglum til að stuðla enn frekar að auknum tækifærum fyrirtækja til útrásar á alþjóðavettvangi.
Einsýnt er að við verðum á næstu árum að horfa til þess hvernig við getum gert rekstrarumhverfi fyrirtækja enn hagstæðara en nú er ef við ætlum okkur að standast þá miklu samkeppni sem framundan er á alþjóðavettvangi.
Ég vil nefna nokkur atriði sem nauðsynlegt er að taka til frekari skoðunar.
Mikilvægt er að horfa til þess sem langtímamarkmiðs að ganga helst aldrei skemur í umbótum á rekstrarskilyrðum fyrirtækja en viðmiðunarþjóðir okkar. Sömuleiðis er nauðsynlegt að markaðsaðilum sé auðveldað að leita til stjórnvalda, til dæmis ráðuneyta og skattyfirvalda, með nýjar hugmyndir, fyrirspurnir og álitamál og fá fram opinskáa umræðu um slík mál og skjót svör.
Þá vil ég taka undir það sjónarmið að dregið verði sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Nú þegar hafa verið tekin mikilvæg skref í þessu skyni. Starfshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem forsætisráðherra skipaði til að undirbúa aðgerðaáætlunina „Einfaldara Ísland“ skilaði tillögum í september síðastliðnum. Þar segir meðal annars að samkeppnishæfni atvinnulífs og lífskjör almennings ráðist að töluverðu leyti af því hvernig til tekst við opinbera reglusetningu. Flóknar og torskildar reglur geti valdið óþarfa kostnaði fyrir atvinnulífið og þar með dregið úr samkeppnishæfni þess. Skýrar og sanngjarnar leikreglur stuðli á hinn bóginn að bættum lífskjörum almennings og auðveldi jafnramt ríki og sveitarfélögum að sinna verkefnum sínum. Starfshópurinn setti fram tillögur í sérstakri aðgerðaáætlun um hvernig megi með markvissum hætti ná fram einfaldara og skilvirkara laga- og regluverki á þremur árum sem ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt.
Enn eitt atriði sem ég vil taka undir með nefndinni snýr að mikilvægi þess að fjarskiptasamband Íslands við önnur lönd sé tryggt og öflugt. Þetta er ein af meginforsendum þess að hægt sé að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegt land fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi. Örugg og öflug millilandasamskipti eru það sem erlend félög skoða fyrst þegar til álita kemur að hefja starfsemi í nýju landi og á það raunar ekki síður við um hagkvæmar og tíðar flug- og skipasamgöngur.
Sú hugmynd nefndarinnar að settir yrðu á laggirnar alþjóðlegir lífeyrissjóðir sem uppfylli íslensk lög og reglur en jafnframt Evróputilskipunina í lífeyrismálum er einnig áhugaverð. Aðalatriði þessarar hugmyndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi vegna sjóðsöfnunar og samspils samtryggingar og séreignar í sjóðunum. Það er án efa hægt að markaðssetja íslenska lífeyrissjóðakerfið erlendis og koma til móts við áhuga stjórnenda alþjóðafyrirtækja um fjölþjóðlega lífeyrissjóði sem starfi innan lagaramma ESB.
Ég vil einnig skoða með jákvæðum huga þær hugmyndir um skattbreytingar sem nefndin reifar í skýrslunni, einkum með tilliti til samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum í nágrannalöndunum. En ég þekki það sem fjármálaráðherra til margra ára að þessi mál eru ekki einföld úrlausnarefni, meðal annars vegna þess að Ísland er í dag með tvísköttunarsamninga við sum ríki og önnur ekki. Sú staða býður upp á endalaus flækjuefni.
Frá sjónarhóli okkar stjórnmálamanna horfir málið hins vegar þannig við að við þurfum að laga okkur að þeirri staðreynd að við lifum í breyttum heimi, heimi þar sem samkeppnin hefur harðnað og önnur lögmál gilda í dag en í gær.
______________
Árið 1979 skrifaði ungur maður eftirfarandi í grein í bók:
„Vegna fjarskiptatækni nútímans og góðra samgangna skiptir það þær stofnanir, sem starfa í hinum alþjóðlega fjármálaheimi, í raun litlu máli, hvar skrifstofur þeirra eru. Atriði eins og skattar, öryggi starfsfólks og fleira þess háttar geta ráðið úrslitum í þeim efnum. Sennilega væri auðvelt að gera Ísland að aðlaðandi samastað fyrir skrifstofur erlendra banka, þótt bankaviðskipti þeirra yrðu eftir sem áður við aðila í öðrum löndum. Lega landsins milli Bandaríkjanna og Evrópu og mörg fleiri atriði gera það að verkum, að hér gæti verið hagstætt fyrir erlenda banka að hafa skrifstofur, væri þeim það auðveldað af hálfu stjórnvalda. Með þessum hætti mætti útvega töluverðum hópi fólks trausta atvinnu, ýmist í störfum hjá þessum peningastofnunum eða í vinnu, sem óbeint tengist þeim. Inn í landið kæmu samhliða verulegar gjaldeyristekjur.”
Síðar segir: „Til þess að þessi hugmynd yrði framkvæmanleg, þyrfti vitaskuld ýmsu að breyta í löggjöf landsins, en það ætti ekki að verða Íslendingum erfiðara en t.d. Lúxemborgarbúum, en þar í landi starfa nú um 100 bankar, langflestir erlendir, þótt í Lúxemborg búi innan við hálf milljón manna. Starfsemi af þessu tagi yrði þjóðerni Íslendinga og menningu ekki hættulegri en t.d. skrifstofur erlendra flugfélaga, sem hér eru starfræktar, eða innlendar verksmiðjur, sem framleiða erlenda gosdrykki. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka þessi mál til athugunar.”
Ég er enn sömu skoðunar og þegar ég skrifaði þetta í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar 1979. Og nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin ekki að taka þessi mál til athugunar heldur er nú kominn tími athafna.
Aðalatriðið er að mínu mati að hafa skýra sýn á það hvert við viljum stefna. Við viljum auðvitað stefna að því að gera íslensk fyrirtæki og íslenskt efnahagslíf sem samkeppnishæfast og þannig stuðla að bættum lífskjörum í landinu. Við erum ekki ein um að stefna að þessu markmiði. Þetta er auðvitað það sem flestar okkar samkeppnisþjóðir hafa sett á oddinn. Það gildir í þessu eins og hverju öðru kapphlaupi að sá vinnur sem hleypur hraðast. Það er ekkert mikið flóknara.
Ég vil að endingu þakka nefndinni, formanni hennar og starfsmanni, fyrir afar gott starf. Hún hefur fyllilega staðið undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Ég vonast til að þær hugmyndir sem hér liggja fyrir verði tilefni frjórra og fordómalausra umræðna um það hvernig við Íslendingar getum gert okkar góða land enn betra og tekið enn eitt skref í átt til bættra lífskjara heimilanna í landinu. Til þess er leikurinn gerður. Ég vil að einnig þakka forvera mínum, Halldóri Ásgrímssyni, fyrir að setja þetta starf að stað fyrir um ári síðan.