Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2006 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Eru veikir aldraðir afskiptir? Viljum við ekki lækna aldraða líka?

Góðir gestir. Verið þið öll velkomin til þessa málþings um öldrunarlækningar og ég vil þakka þeim sem að því standa fyrir frumkvæðið. Jean-Claude Monfort and Anne-Marie Mathieu, welcome to Iceland, its a pleasure to have you here.

Yfirskrift málþingsins þar sem spurt er hvort veikir aldraðir séu afskiptir og hvort við viljum ekki lækna aldraða líka er athyglisverð. Ég velti því fyrir mér hvort við þyrftum raunverulega að spyrja okkur þessara spurninga og hvort við gengjum gruflandi að svörum við þeim.

Hvað fyrri spurninguna áhrærir - og að einhverju leyti einnig þá síðari - þá þurfum við fyrst og fremst að velta fyrir okkur viðhorfum samfélagsins til þeirra sem eru sjúkir og standa að einhverju leyti höllum fæti vegna heilsubrests af einhverju toga. Í fyrsta tölulið fyrstu greinar laga um heilbrigðisþjónustu segir að allir landsmenn skuli ,,eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði." Í fyrstu grein laga um réttindi sjúklinga segir að óheimilt sé að mismuna sjúklingum á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."

Þessi lagaákvæði tel ég vera lýsandi fyrir sameiginleg viðhorf þjóðarinnar til þess heilbrigðiskerfis sem við höfum byggt upp, erum stolt af og viljum því standa vörð um. Við viljum að allir njóti góðrar heilbrigðisþjónustu og líðum ekki mismunun af neinu tagi.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að takmarkanir heilbrigðisþjónustu ráðast ekki eingöngu af því hvað er fræðilega og tæknilega hægt að gera þegar kemur að því að veita sjúkum meðferð til skemmri eða lengri tíma. Fjármagn til þjónustunnar og almenn skynsemi er einnig takmarkandi þáttur sem leiðir til þess að forgangsröðun er alltaf nauðsynleg.

Hér á landi starfar mikill fjöldi sjúklingafélaga og félaga aðstandenda sjúklingahópa. Þessi félög gegna mikilvægu hlutverki sem málsvarar sinna hópa og baráttuafl fyrir bættum hag þeirra. Þessi félög veita stjórnvöldum aðhald og knýja á um úrbætur í samræmi við þau málefni sem heitast brenna á hverjum tíma.

Það er staðreynd að sumir sjúkdómar fá meiri athygli en aðrir og sumir sjúklingahópar eiga dýpri samúð og skilning meðal almennings en aðrir. Það er t.d. rótgróið í okkur öll að okkur beri að hlúa vel að börnum. Okkur rennur til rifja þegar börn þurfa að takast á við alvarlega og lífshættulega sjúkdóma og samfélagið vill allt gera til að mæta þörfum þeirra sem best. Trúlega gerist það án markvissrar ákvarðanatöku að heilbrigðiskerfið sinnir veikum börnum mjög vel. Ég nefni þetta til að útskýra að viðhorf í samfélaginu geta haft áhrif inn í heilbrigðiskerfið án þess að meðvituð ákvörðun liggi þar endilega að baki.

Hérlendis sem erlendis hafa geðsjúkir átt undir högg að sækja í gegnum tíðina vegna fordóma í samfélaginu og þeir telja að þjónusta við þá hafi ekki verið sem skyldi vegna þess. Þetta held ég því miður að eigi við rök að styðjast - en sem betur fer hefur okkur orðið verulega ágengt í baráttunni gegn fordómum á síðustu árum og áratugum, og við höfum stórbætt þjónustuna við þennan hóp.

Í íslensku samfélagi er borin virðing fyrir öldruðum og við teljum það öll vera sjálfsagða ábyrgð okkar og skyldu að sinna öldruðum vel og tryggja þeim góða heilbrigðisþjónustu sem á henni þurfa að halda. Þegar spurt er hvort aldraðir séu afskiptir þá má vera að svo hafi verið hér áður fyrr. Þetta hefur hins vegar breyst, raddir aldraðra sjálfra heyrast orðið æ betur og aðstandendur sjúkra aldraðra gera kröfur fyrir þeirra hönd til þjónustu og aðbúnaðar. Þetta er af hinu góða enda er það nauðsynlegt fyrir stolt, sjálfsmynd og ímynd þjóðarinnar að sinna öldruðum vel.

Ég hef í embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sett málefni aldraðra sem eitt af forgangsmálum mínum og legg mikla áherslu á uppbyggingu málaflokksins. Í vor kynnti ég sýn mína og áherslur í þessum málaflokki sem er of langt mál að rekja hér en megininntakið er að styðja aldraða til að búa sem lengst heima með aukinni þjónustu og fleiri og fjölbreyttari úrræðum sem styðja þetta markmið. Þá vil ég efla öldrunarlækningar með því að koma á fót öldrunarlækningum og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu fyrir aldraða við sjúkrahús eða heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum en slík þjónusta getur falið í sér greiningu, mat, endurhæfingu og ráðgjöf og einnig líknandi meðferð við lok lífs.

Faghópur sem skipaður var til að koma með tillögur um geðheilbrigðisþjónustu við aldraða skilaði mér tillögum sínum í mars. Þær fela meðal annars í sér að komið verði á fót geðdeild fyrir aldraða á Landakoti og jafnframt að sett verði á fót ráðgjafarþjónustu á landsvísu fyrir heilsugæslu, spítaladeildir og hjúkrunarheimili til að tryggja öldruðum um allt land sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu eftir þörfum. Þá liggur fyrir að sérhæfð hjúkrunardeild fyrir aldraða með geðsjúkdóma verður í nýju hjúkrunarheimili sem reist verður við Suðurlandsbraut. Tillögur faghópsins gerði ég að mínum og stefni að því að framkvæma þær á næsta ári.

Á málþinginu í dag er spurt hvort við viljum ekki lækna aldraða líka. Ég tel mig hafa reynt að svara þessari spurningu og niðurstaðan er sú að auðvitað viljum við það. Við verðum hins vegar að hafa það hugfast að sömu áherslur eiga ekki alltaf rétt á sér þegar kemur að meðferð, eftir því hvort í hlut á fólk á besta aldri eða gamalt fólk þar sem styttist í leiðarlokin. Það fara ekki alltaf saman lengd lífs og gæði. Þegar ávinningur af meðferð er lítill í tíma talið og dregur jafnframt úr lífsgæðum í samanburði við að meðferð sé sleppt þá er rétt að staldra við áður en meðferð er valin. Oflækningar eru ekki til góðs og hjá öldruðum getur verið betri kostur að leggja áherslu á meðferð sem bætir lífsgæðin þann tíma sem ólifaður er fremur en að lengja hann á kostnað gæðanna. Þessi umræða er auðvitað öll mjög viðkvæm, en þetta verðum við samt að hafa í huga þegar meðferð hjá öllum aldurshópum er valin.

Niðurstaða mín er að við erum að þjónusta eldra fólk með ágætum hætti, en getum á nokkrum sviðum gert betur. Að því erum við að stefna.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en óska gestum góðrar uppskeru á málþinginu í dag sem ég lýsi hér með sett.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta