Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. nóvember 2006 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

40 ára afmæli Sjúkraliðafélags Íslands – ávarp ráðherra

Ágætu sjúkraliðar og aðrir ráðstefnugestir,

Ég vil byrja á að óska félagsmönnum Sjúkraliðafélags Íslands til hamingju með 40 ára afmæli fagfélags sjúkraliða. Afmælisins er minnst með ýmsum hætti, þar á meðal þessari áhugaverðu ráðstefnu sem haldin er hér í dag. Á tímamótum sem þessum er við hæfi að líta um öxl, sjá hvað áunnist hefur um leið og horft er til framtíðar.

Fyrstu sjúkraliðarnir sem luku námi á Íslandi útskrifuðust frá Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar árið 1966.   Forstöðukona sjúkrahússins á þeim tíma var Ingibjörg R. Magnúsdóttir, síðar lengi starfsmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, en það var hún sem kom með sjúkraliða nafnið  fyrir stéttina sem fylgt hefur henni æ síðan. Í aðdraganda námsins  var notað orðið sjúkrahjálpari, sem er þýðing af  danska orðinu sygehjælper.  Fyrsta árið sem  boðið var upp á sjúkraliðanám luku  60 sjúkraliðar námi frá flestum stærri sjúkrahúsum landsins. Í dag hafa 3.713 sjúkraliðar fengið starfsleyfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.  Þar af eru 88 karlmenn eða aðeins 2,4%.

Ingibjörg Magnúsdóttir, segir frá því í grein sem hún ritar í Sjúkraliðann í tilefni af 30 ára afmæli félagsins að á árunum fyrir norðan þegar hún sá um kennslu sjúkraliða hafi hún aðeins brautskráð einn karlmann, en það var Jóhann Konráðsson, söngvari, faðir Kristjáns óperusöngvara.  Jóhann mun hafa annast sjúklinga á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri í mörg ár ásamt konu sinni Fanneyju.

Þegar litið er yfir veg Sjúkraliðafélagsins eru fjölmargar vörður á leiðinni.  Sjúkraliðaskóli Íslands hóf störf 1975, og sama ár var skrifað undir reglugerð um starfsréttindi sjúkraliða. Upp frá því þurftu sjúkraliðar að sækja um löggildingu hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu eins og aðrar heilbrigðisstéttir.

Sjúkraliðaskólinn starfaði til ársins 1990 eða í 15 ár samfleytt en þá var allt nám sjúkraliða flutt yfir í menntamálaráðuneytið og skólinn lagður niður.  Á þeim tíma hafði skólinn mætt sívaxandi kröfum um aukið nám, bæði bóklegt og verklegt og brautskráði alls 1.074 sjúkraliða.  Á þessu tímabili var sjúkraliðanámið einnig í fjölbrautarskólum, og var fyrsti fjölbrautarskólinn til að útskrifa sjúkraliða Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, en það var árið 1976.

Ýmsar fleiri vörður á leiðinni mætti nefna, eins og framhaldsnám fyrir sjúkraliða, sem  var merkur áfangi,  og núna síðast sjúkraliðabrúna.

Mér er kunnugt um einhverjir sjúkraliðar hafa lýst yfir óánægju með sjúkraliðabrúna.  Ég vona þó að umræðan um námið leiði til meiri sáttar um þá námsleið og að jafnframt verði tekið vel á móti þeim sem ljúka náminu,  sem ég efast reyndar ekki um.

Ég geri mér grein fyrir að oft hafa blásið vindar um nám og störf sjúkraliða. En í heildina tel ég að mikill árangur hafi náðst í baráttu stéttarinnar fyrir aukinni menntun og bættri stöðu félagsmanna á þeim 40 árum sem liðin eru frá því að fagfélag sjúkraliða var stofnað.

Málefni sjúkraliða hafa gjarnan verið á borði heilbrigðisráðuneytisins meðal annars í gegnum ýmiss konar nefndarstörf. Nefni ég þar sem dæmi nefnd sem sett var á laggirnar árið 2000, undir formennsku Ragnheiðar  Haraldsdóttur skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,   sem skilaði tillögum um framhaldsnám sjúkraliða og viðbótarréttindi  sem námið  gæti veitt. Það var einmitt í framhaldi af þeirri vinnu sem framhaldsnám sjúkraliða  í öldrunarhjúkrun var sett á stofn, en Sjúkraliðafélagið  hafði  lengi barist fyrir  framhaldsnámi fyrir sína félagsmenn. Önnur nefnd sem starfaði samkvæmt bókun 6 í kjarasamningi sjúkraliðafélagsins og fjármálaráðherra frá 21. nóvember 2001 skilaði skýrslu á þessu ári sem kallast “ Skýrsla nefndar um framtíðarstöðu sjúkraliðastarfsins”. Í skýrslunni eru reifaðar sjö tillögur   um það  hvernig unnt er að efla stéttina og leita leiða til að  fjölga sjúkraliðum á komandi árum. Ég tel þetta allt mikilsverðar tillögur sem  ýmist hafa verið teknar til  athugunar eða verða skoðaðar á næstunni.

Sjúkraliðar eru jafnframt ein af fjórum stéttum sem ráðuneytið hefur látið skoða sérstaklega með tilliti til þarfar fyrir vinnuafl í heilbrigðisþjónustunni en það var árið 2004 sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera spá um þörf fyrir vinnuafl fjögurra stétta heilbrigðisstarfsfólks, þ.e.a.s. lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraþjálfara.  Er það í fyrsta skipti sem slíkar spár fyrir vinnuafl eru unnar og verður aðferðin sem beitt var væntanlega þróuð frekar og spár birtar reglulega á komandi árum.

Í skýrslu Hagfræðistofnunnar, sem fljótlega verður gefin út, kemur fram að skortur er mestur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum nú í dag og fyrirsjáanlega á næstu árum.  Það út af fyrir sig er ekki alveg ný vitneskja en  báðar stéttirnar hafa verið skoðaðar sérstaklega og gerðar kannanir á fjölda og nýliðun í stéttunum.  Skýrsla og spá  Hagfræðistofnunar er hins vegar mun ítarlegri en fyrri kannanir og spár og fleiri þættir teknir með í myndina. Má þar nefna ýmsa þætti sem hafa áhrif á framboð og eftirspurn eftir heilbrigðisstarfsfólki s.s. lýðfræðilega þætti eins og fæðingar- og dánartíðni, fólksfjölgun og breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar.  Tækniframfarir hafa einnig áhrif , breyttir lifnaðarhættir, menntun og almenn hagsæld í landinu.  Allt  þetta hefur mikil áhrif á eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu og þar af leiðandi á eftirspurn eftir heilbrigðisstarfsfólki. Í skýrslunni er jafnframt beitt meira en einu spálíkani og skoðað  hver munurinn er á niðurstöðum úr þeim.

Ef horft er á þætti sem nefndir eru í skýrslunni að hafi áhrif á framboð heilbrigðisstarfsfólks má  nefna breyttan vinnumarkað með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Nú er auðveldara en áður fyrir einstaklinga að sækja sér grunnmenntun í öðrum löndum innan svæðisins og eins að fara til starfa á svæðinu (frjálst flæði vinnuafls milli aðildarríkja). Vinnutilskipun Evrópusambandsins, (sem kveður á um vikulegan hámarksvinnutíma 48 klukkustundir) hefur einnig áhrif svo og breyttur tíðarandi  sem m.a. birtist í kröfum fólks um styttingu vinnutíma og meiri frítíma til að geta sinnt fjölskyldu og ýmsu er tengist áhugamálum.  Hér vegur einnig breytt löggjöf um fæðingarorlof og breyting á eftirlaunaaldri þungt.

Ljóst er að meðalaldur sjúkraliðastéttarinnar er fremur hár og nýliðun of lítil.  Í skýrslunni kemur fram að síðustu 10 árin hafi að jafnaði um 87 sjúkraliðaleyfi verið gefin út á ári.   Sá fjöldi annar ekki eftirspurn innan heilbrigðisþjónustunnar  og við vitum jafnframt að færri sjúkraliðar eru hér á landi en í öðrum Norðurlöndum. Í sameiginlegri skýrslu Norðurlandanna sem gefin er út af NOMESCO árið 2003 kemur fram að  fleiri sjúkraliðar eru starfandi á hverja 100.000 íbúa innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar í Noregi, Svíþjóð og  Finnlandi en á Íslandi. Líklega má segja það sama um Danmörku  en skv. NOMESCO eru  þó færri  þar sem kallast sjúkraliðar. Aftur á móti eru  fleiri stéttir í Danmörku  sem  starfa við umönnun en þetta sýnir að samanburður milli landa getur verið erfiður. Þetta segir okkur þó örugglega að  fjölga þarf þeim sem ljúka sjúkraliðanámi á Íslandi. 

Í títtnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar er  áætlað að útskrifa þurfi á bilinu 120-140 sjúkraliða á ári.  Það skal þó  ítrekað að þegar spá skal um réttan fjölda heilbrigðisstarfsfólks eru margir óvissuþættir sem hafa áhrif. Ég hef þegar nefnt hér nýja tækni og meðferðarmöguleika, almennt efnahagsástand og ýmislegt fleira. Erfitt er að spá fyrir um þróun þessara þátta af nokkurri vissu.  Það er þó von mín að þegar þessi skýrsla liggur fyrir geti hún orðið gagnlegt vinnuskjal  fyrir ýmsa aðila, stofnanir og stjórnvöld  þ.m.t.  heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og  menntamálaráðuneyti. Þar gæti hún  orðið grundvöllur að frekari vinnu og samstarfi með það að markmiði að efla áhuga á sjúkraliðanámi og fjölga þeim sem ljúka því,   um leið og hugað væri  vel að þeim  sem þegar eru í starfi. 

Ágætu sjúkraliðar.

Ég hef oft sagt að mikil sóknarfæri séu innan heilbrigðisþjónustunnar fyrir ykkar stétt.  Tökum  sem dæmi hjúkrun og umönnun í heimahúsi. Síðast liðið sumar setti ég fram  nýja sýn og nýjar áherslur í öldrunarmálum þar sem lögð er áhersla á fjölgun valkosta fyrir aldraða og aukna þjónustu í heimahúsum. Þar tel  ég að sjúkraliðar eigi að gegna veigamiklu hlutverki.  Þessi sýn er einnig í samræmi við markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 en þar er einnig gert ráð fyrir aukinni heimaþjónustu fyrir aldraða. Ýmislegt fleira mætti nefna og vil ég leggja áherslu á að störf sjúkraliða á vettvangi heilbrigðisþjónustunnar eru afar mikilvæg og kann ég félagsmönnum bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Ég vil að lokum þakka formanni ykkar Kristínu Guðmundsdóttur, og framkvæmdastjóra félagsins, Gunnari Gunnarssyni fyrir gott samstarf  á þeim tíma sem ég hef setið í heilbrigðis- og trygginamálaráðuneytinu.

Ég ítreka  einnig árnaðaróskir mínar í tilefni af afmæli félagsins og  óska félagsmönnum  allra heilla í lífi og starfi.

 

Talað orð gildir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta