Framsöguræða Geirs H. Haarde á Alþingi um Skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra
Virðulegi forseti,
Skömmu fyrir jólahlé Alþingis var útbýtt hér í þinginu skýrslu frá mér um fátækt barna og hag þeirra, að beiðni nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar. Skýrsluna er að finna á þingskjali 613.
Skilgreining á fátækt og samanburður milli landa er ekki einfalt reiknidæmi. Það sem telst fátækt í einu landi kann að vera metið með allt öðrum hætti í öðru landi. Í þessari skýrslu er notast við aðferðafræði OECD sem reiknar fátæktarmörkin út sem tiltekið hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna. Þetta er ein aðferð af nokkrum og á henni eru bæði kostir og gallar eins og gengur. Hún felur það í sér að aukin velmegun einnar þjóðar umfram aðra á tilteknu árabili skilar sér ekki endilega í minni hlutfallslegri fátækt því fátæktarmörkin hækka í takt við auknar tekjur. Með þessari aðferðafræði verður niðurstaðan alltaf sú að einhverjir munu teljast fátækir alveg sama hvernig haldið er á málum viðkomandi lands.
Svo dæmi sé tekið af Íslandi þá leiðir mikil hækkun tekna og kaupmáttaraukning undanfarin ár til þess að fátæktarmörkin hækka um nálægt 50% að raunvirði milli áranna 1994 og 2004, eða um svipað og kaupmáttur heimilanna almennt. Þetta er mun meiri hækkun en í flestum OECD-ríkjunum á sama tíma, bæði hvað varðar kaupmátt og fátæktarmörk. Af þessu leiðir að ráðstöfunartekjur þeirra sem flokkast fátækir eru miklu hærri í dag en ráðstöfunartekjur þeirra sem töldust fátækir hér á landi fyrir tíu árum. Hins vegar helst hlutfallsleg fátækt nánast óbreytt hér á landi á þessu árabili.
Ennfremur má nefna þann annmarka á þeirri aðferðafræði að mæla fátæktina í einum tímapunkti að á hverjum tíma geta einhverjir ábyrgðamenn barna haft litlar tekjur á þeim tiltekna tímapunkti. Þeir geta verið nýkomnir inn á vinnumarkað eða hafa lent í tímabundnum áföllum. Mæling á fjárhagslegri stöðu á tilteknum tímapunkti gefur því rangar upplýsingar um raunverulega fátækt til lengri tíma og mælir hana meiri en hún er í raun og veru.
Það er þess vegna mikilvægt og nauðsynlegt að menn hafi þessa fyrirvara í huga þegar skýrslan er lesin og fari varlega í að túlka þessar niðurstöður sem endanlegan sannleika. Nærtækara er að líta á þetta sem ákveðnar vísbendingar um stöðuna hér á landi í samanburði við önnur lönd.
Lítum þá á helstu niðurstöður skýrslunnar. Það er meginniðurstaða þessarar skýrslu, sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, að Ísland sé í hópi þeirra OECD-ríkja þar sem fátækt barna mælist hvað minnst. Þetta er í senn athyglisverð og mjög jákvæð niðurstaða sem ekki kemur á óvart. Sama gildir um aðra mikilvæga niðurstöðu sem er sú að hlutfallsleg fátækt hefur ekki aukist hér á landi á þessu tímabili, öfugt við það sem gerst hefur í OECD-ríkjunum.
Á árinu 2004 töldust 6,6% íslenskra barna hafa búið við fátækt sem er nær helmingi lægra en að meðaltali í OECD-ríkjunum. Ef tekið er tillit til námslána frá LÍN lækkar hlutfallið í 6,3%. Meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra lækka þetta hlutfall enn frekar þannig að ætla má að rétt um 6% íslenskra barna teljist búa við fátækt miðað við þennan mælikvarða.
Þessi tala ein og sér segir hins vegar langt frá alla söguna heldur er nauðsynlegt að greina stöðuna betur og skoða hvaða aðstæður og ástæður búi að baki. Veigamestu skýringar fátæktar barna eru aldur foreldra þeirra, hjúskaparstaða sem og tímabundnar aðstæður þeirra.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar virðist sem fátækt sé mjög tímabundið hlutskipti hjá flestum sem betur fer og sérstök athugun leiddi í ljós að þrír-fjórðu hlutar þeirra fjölskyldna sem töldust fátækar hér á landi árið 2000 voru það ekki lengur árið 2004. Hér virðist því að miklu leyti vera um tímabundið ástand að ræða.
Það er líka nauðsynlegt að skoða aldursskiptingu foreldra barna. Samkvæmt skýrslunni virðist sem fátækt mælist mest hjá ungu fólki, einkum einstæðum foreldrum, á aldrinum 16 ára til tvítugs. Þannig mælist hlutfall fátækra barnafjölskyldna af öllum barnafjölskyldum nálægt tveimur-þriðju hjá foreldrum innan við tvítugt. Hins vegar er fjöldi barna ekki mikill þar sem innan við tvö hundruð börn bjuggu við þessar aðstæður árið 2004. Hlutfall fátækra barnafjölskyldna lækkar síðan mjög hratt eftir því sem foreldrar verða eldri og er nálægt meðaltali þegar foreldrarnir eru orðnir þrítugir. Hjá foreldrum eldri en 30 ára mælast síðan um og innan við 4% barna í fátækt.
Þá er nauðsynlegt að hafa í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar, sem nánast segir sig sjálft, en það er að í yngsta aldurshópi foreldra er mikið um námsfólk og fólk sem býr enn í foreldrahúsum á framfæri foreldra sinna, þótt hér sé um að ræða sjálfstæða framteljendur til skatts. Þetta fólk er almennt með lágar tekjur og lendir þar af leiðandi undir fátæktarmörkum. Í mörgum tilvikum gefa tekjur þessara einstaklinga hins vegar ekki rétta mynd af afkomu þeirra og barnanna. Jafnframt má ætla að þessar aðstæður geti átt við um fólk sem er komið á þrítugsaldurinn, sérstaklega námsmenn. Ennfremur þarf að hafa í huga að skattframtöl námsmanna gefa í mörgum tilfellum ekki rétta mynd af ráðstöfunartekjum þeirra þar sem framfærslulán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna teljast ekki með í tekjum þeirra.
Annað atriði sem gæti skýrt tímabundna fátækt er atvinnuleysi. Þetta kemur skýrt fram í skýrslunni sem sýnir að það er tvisvar sinnum algengara að fátækar barnafjölskyldur hafi fengið atvinnuleysisbætur en gildir um barnafjölskyldur í heild. Þannig höfðu um 22% fátækra barnafjölskyldna fengið atvinnuleysisbætur en einungis 10% af heildinni.
Hægt er að mæla fátækt bæði miðað við tekjur og ráðstöfunartekjur og þá kemur í ljós hvað skatta- og bótakerfið hefur gríðarmikil áhrif til jöfnunar. Ef fátækt er mæld miðað við tekjur einvörðungu teljast 12,7% barna hafa búið við fátækt árið 2004, en þetta hlutfall lækkar hins vegar um nær helming, eða í 6,6%, fyrir áhrif skatta- og bótakerfisins, fyrst og fremst vegna barna- og vaxtabóta sem eru að hluta tekjutengdar og eru hæstar hjá hinum tekjulægstu. Ennfremur fer tekjuskattur einstaklinga stighækkandi eftir tekjum, er lægstur og jafnvel enginn hjá hinum tekjulægstu en fer síðan hækkandi.
Ég vil einnig benda á hlutverk sveitarfélaganna í þessum efnum. Sérstaklega fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, sem er ætlað að koma til móts við tímabundna erfiðleika, en hún gegnir hér mikilvægu hlutverki. Þannig fékk ríflega tíunda hver fátæk barnafjölskylda fjárhagslegan stuðning frá sveitarfélagi samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2004. Í langflestum tilvikum er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga veitt skemur en í þrjá mánuði á ári til hvers umsækjanda sem aftur bendir til þess að yfirleitt sé um tímabundin vandamál að ræða.
---------------
Ég tel að þessi skýrsla geti verið mikilvægt og þarft innlegg í efnahags- og kjaraumræðuna hér á landi þrátt fyrir ýmsa aðferðarfræðilega annmarka. Hún sýnir svo ekki verður um villst að staðan hér á landi er góð miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Þegar nánar er rýnt í einstök atriði og viðbótarskýringar kemur í ljós að við stöndum jafnvel enn betur en mælingin ein og sér sýnir.
Það má hins vegar alltaf gera betur og við þurfum stöðugt að stefna að því að gera enn betur og bæta lífskjörin hér á landi. Það á ekki síst við um stöðu hinna lakast settu. Ég tel að við höfum svo sannarlega verið á réttri leið hvað það varðar. Þar vil ég sérstaklega nefna þær breytingar sem ákveðnar voru á skattalögunum á árinu 2004 og komu til framkvæmda á árunum 2005 til 2007. Þessar breytingar munu án nokkurs efa styrkja stöðu tekjulágs barnafólks verulega og þar með verða til þess að lækka hlutfallslega fátækt. Hér munar sérstaklega mikið um stórfellda hækkun barnabóta, sem mun ekki síst koma hinum tekjulægstu til góða. Sama gildir um þá breytingu að taka upp greiðslu barnabóta vegna 16 og 17 ára barna frá og með þessu ári. Einnig má nefna verulega hækkun skattleysismarka nú um áramótin o.fl. Þessar aðgerðir leiða til þess að heildarfjárhæð barnabóta hækkar úr 5,4 milljörðum króna árið 2004 í 8,5 milljarða á árinu 2007, eða um nær 60%. Þetta er líklega eitthvert stærsta skref sem stigið hefur verið til þess að bæta stöðu tekjulágra barnafjölskyldna.