Ræða forsætisráðherra Geirs H. Haarde á Viðskiptaþingi 2007
Fundarstjóri og formaður Viðskiptaráðs.
Góðir gestir, til hamingju með daginn.
Íslenskt atvinnulíf hefur gengið vel á undanförnum árum. Afkoma fyrirtækja hefur batnað og lífskjör almennings eru nú með þeim bestu í heimi. Fyrirtækin hafa í ríkum mæli fært sér í nyt þær breyttu aðstæður sem stjórnvöld hafa skapað. Saman og í samstarfi við launþegahreyfinguna höfum við náð gríðarlegum árangri. Nýjar atvinnugreinar hafa náð góðri fótfestu og fjöldi fyrirtækja hefur reynt fyrir sér á erlendri grundu, sum hver með hreint ótrúlegum árangri.
Síðustu 10-15 árin hafa verið afar spennandi í viðskiptalífinu. Minni ríkisafskipti og aukið frelsi í viðskiptum, t.d. með inngöngu í EES, lækkun skatta og einkavæðingu bankanna, skapaði það svigrúm sem stórhugar í viðskiptalífinu þurftu.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Það er nánast sama hvaða alþjóðlegi samanburður er birtur, alls staðar er Ísland í fremstu röð. Síðast í gær kom samanburðarrannsókn frá evrópskum samtökum fjárfesta um að af 21 Evrópulandi væri hér á landi hagstæðasta fjárfestingarumhverfið næst á eftir Bretlandi.
Yfirskrift þessa viðskiptaþings, Ísland, best í heimi? er eðlilegt viðbragð við þeirri sókn sem staðið hefur yfir á undanförnum árum og þeim árangri sem Íslendingar og íslenskt efnahagslíf hefur náð. Árangur þessa fámenna samfélags í miðju Norður-Atlantshafi hefur vakið athygli víða um heim. Athygli sem leitt hefur til umræðu, stundum neikvæðrar en miklu oftar jákvæðrar. Alþjóðlegt orðspor og ímynd skiptir miklu máli, en má þó ekki stjórna okkar för. Við eigum með verkum okkar og athöfnum að skapa gott orðspor og góða ímynd.
Í okkar landi eru að mörgu leyti kjöraðstæður til að skapa fyrirmyndar þjóðfélag, samfélag eins og þau gerast best í veröldinni og við eigum að láta einskis ófreistað til að ná því marki. Fámennið er stundum galli en því fylgja líka kostir. Nálægðin er oftast góð, hér er gott að ala upp börn, við erum í góðum tengslum við náttúruna, landið okkar er hreint og auðlindir gjöfular.
Frelsi hefur verið leiðarljós þeirra breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum og leitt til bestu lífskjara sem þjóðin hefur nokkru sinni búið við. Frelsinu fylgja tækifæri til nýrrar sóknar á mörgum vígstöðum. Frelsinu fylgja möguleikar til að breyta hugmyndum og hugsjónum í veruleika. En frelsinu fylgir líka mikil ábyrgð. Það er ekki sama hvernig því er beitt og til hvers það er notað.
Hvað felst í því að vilja keppa að því að verða best í heimi? Í því á ekki bara að felast að ná bestum árangri efnahagslega séð. Við viljum líka vera fremst miðað við ýmsa aðra mælikvarða. Við viljum að samfélag okkar búi þannig að fólkinu sínu að þar geti allir notið sín og sinna hæfileika, stórir jafnt sem smáir, notið menntunar, velferðar og öryggis.
Íslenskir athafnamenn hafa ávallt verið sér meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð sína. Það á að vera fyrirtækjunum, ekki síður en stjórnvöldum, kappsmál að vinna að því markmiði. Það er lofsvert hve mörg fyrirtæki eru vel meðvituð um aðra þætti í umhverfi sínu en þá sem einvörðungu snúa að niðurstöðutölum ársreikninga. Ég trúi því að við viljum öll að Ísland sé líka í fremstu röð á ýmsa aðra mælikvarða en þá fjárhagslegu. Atvinnulífið verður áfram að taka virkan þátt í að búa til eftirsóknarvert samfélag.
Mannauðurinn er dýrmætasta auðlindin sem við eigum. Forstjórar í nútíma fyrirtækjum skilja æ betur nauðsyn þess að starfsfólk sé vel menntað og eigi kost á stöðugri sí- og endurmenntun. Samningar við launþegasamtök um starfsmenntun ófaglærðra eru mjög mikilvægir. Frumkvæði atvinnulífsins og einstakra fyrirtækja í menntamálum er víða sýnilegt. Nýr samningur ríkisins við Háskóla Íslands er til marks um þá fullvissu stjórnvalda að vísinda- og rannsóknastarfsemi muni skila miklu í framtíðinni til atvinnulífs og framþróunar þjóðfélagsins. Sömuleiðis hefur verið lögð áhersla á að auka fjölbreytni og fleiri möguleika í háskólamenntun og þar hefur atvinnulífið komið að með öflugum hætti. Að auki vil ég nefna hér nauðsyn þess, að fólk af erlendum uppruna, sem vill setjast hér að, fái tækifæri til raunverulegrar aðlögunar og það á að vera fyrirtækjunum keppikefli að þjálfa sitt fólk til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
Um langa hríð hefur mikil þátttaka kvenna á vinnumarkaði verið einkennandi fyrir íslenskt samfélag. Konur eru í meirihluta þeirra sem stunda háskólanám og ungt fólk sem kemur út á vinnumarkaðinn á að standa jafnfætis, hvort sem er karlar eða konur. Fyrir nokkrum árum gerðu stjórnvöld breytingu á lögum um fæðingarorlof þannig að feður ætti líka sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs. Þau lög breyttu miklu.
En það er enn verk að vinna í jafnréttismálum hvað varðar launamun kynja. Rannsóknir sýna að hann er enn nokkur og það er brýnt að stjórnvöld og fyrirtækin taki höndum saman um að útrýma honum. Í þessum sal situr áreiðanlega enginn sem mundi segja við dóttur sína að hún eigi að fá lægri laun en skólabræður hennar af því að hún sé kona. Samt er þetta sums staðar þannig og því er hægt að breyta. Mannauður kvenna er jafn verðmætur mannauði karla.
Það á að vera hluti af orðspori og ímynd Íslands.
Samkeppnishæfasta skattaumhverfið
Síðustu árin hafa miklar og jákvæðar breytingar verið gerðar á íslenska skattkerfinu. Eitt dæmi um það er lækkun tekjuskatts lögaðila. Árið 2001 þegar skatthlutfallið var 30% námu tekjur ríkisins einungis 9 milljörðum króna, en á síðasta ári skilaði 18% skattur tæplega 34 milljörðum. Árið 2001 var skatturinn aðeins 5% af skatttekjum ríkisins en 10% í fyrra. Útúrsnúningafólkið myndi halda því fram að hinar auknu skatttekjur væru vitnisburður um skattahækkun en ekki lækkun. Þannig er stundum þvælt með mikið notuð hugtök og reynt að villa um fyrir fólki.
Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að það var hárrétt ákvörðun á sínum tíma að lækka skatthlutfall lögaðila. Ef við hefðum hlustað á úrtöluraddirnar innan þings og utan, og fullyrðingar þeirra um að tekjur ríkisins myndu minnka, byggju bæði ríkissjóður og atvinnulífið við mun lakari skilyrði en nú. Staðreyndin er sú að þessi skattstofn, tekjuskattur fyrirtækja, stendur nú í raun undir öllu menntakerfi landsmanna og rúmlega það. Lágir skattar eru þannig hornsteinar velferðaríkisins þegar öllu er á botninn hvolft.
Þetta sýnir ennfremur að til þess að tekjur af sköttum sem þessum verði sem tryggastar er ekki vænlegast að hafa skattprósentuna sem hæsta, heldur er mikilvægara að skattstofninn sé sem breiðastur.
Jákvæð reynsla okkar af skattbreytingum á undanförnum árum styrkir mig í þeirri trú að ef við göngum enn lengra í þessum efnum munum við ná meiri árangri við að byggja hér upp öflug fyrirtæki sem aftur skila miklum skatttekjum. Við eigum ekki að vera í samkeppni við skattaparadísir um illa fengið fé. En íslensk stjórnvöld eiga að setja sér það markmið að vera með eitt samkeppnishæfasta skattaumhverfi í heimi og ganga helst aldrei skemur en samkeppnisþjóðir okkar í umbótum. Ef við náum árangri í að laða hingað fjármagn skjótum við sterkari stoðum undir hinn opinbera rekstur og tryggjum öflugt velferðarkerfi þjóðarinnar.
En hver eru þá næstu verkefni? Hvað þurfum við að gera til að bæta hið skattalega umhverfi? Besta leiðin til að svara því er að skoða þau lönd sem standa okkur framar á þessu sviði og reyna að læra af þeim.
Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi
Mér finnst nærtækt að fara nokkrum orðum um skýrslu nefndar um alþjóðlega fjármálastarfsemi sem kynnt var fyrr í vetur, en hugmyndir nefndarinnar hafa verið til frekari úrvinnslu á vegum ríkisstjórnarinnar. Nú þegar hefur verið ákveðið að hrinda ýmsum af þessum hugmyndum í framkvæmd og annað er í undirbúningi.
Hér er af mörgu að taka. Fyrst vil ég nefna nokkur atriði sem snúa að samskiptum stjórnvalda og atvinnulífs:
-
Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar, „Einfaldara Ísland“. Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins. Skýrar og sanngjarnar leikreglur stuðla á hinn bóginn að bættum lífskjörum og auðvelda jafnframt ríki og sveitarfélögum að sinna verkefnum sínum.
-
Í beinu framhaldi af þessu vil ég nefna uppsetningu vefsins Ísland.is sem verður opnaður innan fárra vikna. Honum er ætlað að auðvelda aðgang og samskipti jafnt almennings sem fyrirtækja að stjórnvöldum og helstu upplýsingaveitum.
-
Enn eitt atriði sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið stefnumótandi ákvörðun um snýr að auknu öryggi í fjarskiptasambandi Íslands við önnur lönd með því að hefja undirbúning að lagningu nýs sæstrengs. Örugg og öflug millilandasamskipti eru forsenda þess að erlend félög hugleiði að hefja starfsemi í nýju landi og á það raunar ekki síður við um hagkvæmar og tíðar flug- og skipasamgöngur.
Í öðru lagi eru atriði sem snúa að frekari uppbyggingu fjármagnsmarkaðarins:
-
Þar vil ég nefna að nú þegar hefur verið ákveðið að innleiða Evróputilskipunina í lífeyrismálum og er frumvarp fjármálaráðherra þar að lútandi komið fram á Alþingi. Þetta er mikilvæg forsenda fyrir því að unnt sé að stofna hér alþjóðlega lífeyrissjóði sem uppfylli íslensk lög og reglur. Kjarni þessarar hugmyndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi vegna sjóðsöfnunar og samspils samtryggingar og séreignar í sjóðunum. Án efa er hægt að markaðssetja íslenska lífeyrissjóðakerfið erlendis og koma til móts við áhuga stjórnenda alþjóðafyrirtækja um fjölþjóðlega lífeyrissjóði sem starfi innan lagaramma ESB.
-
Á vegum viðskiptaráðherra er unnið að gerð frumvarps til breytinga á lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði þar sem fjallað er um verðbréfalán. Þar er kveðið á um að heimilt verði að lána verðbréf verðbréfasjóða enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Talið er að þetta ákvæði geti orðið fyrsta skrefið í innleiðingu virks lánamarkaðar með verðbréf sem talin er nauðsynleg forsenda alþjóðlegs verðbréfamarkaða.
-
Í framangreindu frumvarpi er jafnframt lagt til að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum verði gert kleift að starfa undir sérstökum einkahlutafélögum í eigu rekstrarfélags fjármálastofnunar. Í ráðuneytinu stendur jafnframt yfir könnun á því hvort rétt sé að taka til endurskoðunar ákvæði um fagfjárfestasjóði og hvort rétt sé að heimila slíkum sjóðum að starfa undir sérstöku einkahlutafélagi.
Víkjum þá að þriðja þætti þessa máls, sem ég hygg að sé ekki síst áhugaverður, en það eru skattamálin. Þar eru á ferðinni ýmsar athyglisverðar hugmyndir, einkum þær sem snúa að því að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja enn frekar gagnvart fyrirtækjum í nágrannalöndunum:
-
Hér vil ég fyrst nefna atriði sem margir telja að eigi að hafa forgang, þ.e. skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa fyrirtækja. Samkvæmt íslenskum skattalögum ber að greiða tekjuskatt af þessum söluhagnaði, ólíkt arði. Ef fjárfest er aftur innan tiltekins tíma er reyndar hægt að fresta skattgreiðslunni þar til selt er aftur og þannig koll af kolli. Að undanförnu hafa ýmsir aðilar brugðið á það ráð að stofna sérstök eignarhaldsfélög í löndum þar sem slík skattlagning er ekki fyrir hendi, til dæmis í Hollandi, í þeim eina tilgangi að komast hjá skattgreiðslum. Þessa skattlagningu er heldur ekki að finna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og víðar og virðist hún almennt á undanhaldi. Ég tel eðlilegt að breyta ákvæðum okkar laga og undanþiggja þessa skattlagningu hér á landi með sama hætti og í okkar nágrannalöndum að uppfylltum hliðstæðum skilyrðum og þar gilda. Þetta mundi ekki hafa í för með sér tekjutap hjá ríkissjóði. Þvert á móti er líklegt að hið gagnstæða gerðist þar sem þessi starfsemi flyttist inn í landið á nýjan leik.
-
Annað skattalegt atriði snýr að skattlagningu af greiðslu arðs frá Íslandi til landa á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi skattlagning hefur sætt vaxandi gagnrýni þar sem hún hefur mismunað þessum aðilum samanborið við skattlagningu arðs innanlands. Fjármálaráðherra hefur kynnt frumvarp um að afnema þessa skattlagningu með sambærilegum hætti og tíðkast í okkar nágrannalöndum, t.d. Noregi, Svíþjóð og Írlandi.
-
Ég hef þegar nefnt jákvæð áhrif lækkunar tekjuskatts fyrirtækja á undanförnum árum. Þegar við lækkuðum skattinn árið 2001 var nánast ekkert ríki með lægra skatthlutfall en 20%. Nú eru þau orðin nokkur. Þróun tekjuskattsprósentunnar í 86 ríkjum síðastliðin 15 ár sýnir að meðaltalið hefur lækkað úr 38% í 27%. Ef við ætlum að halda okkur í fremstu röð verðum við að fylgjast grannt með þessari þróun og vera tilbúin til að taka frekari skref.
Ýmis önnur atriði eru til skoðunar, meðal annars í samráði við Samband banka og verðbréfasjóða, og ég vænti niðurstöðu um þau fljótlega. Aðalatriðið er að mínu mati að hafa skýra sýn á það hvert við viljum stefna. Við viljum auðvitað stefna að því að gera íslensk fyrirtæki og íslenskt efnahagslíf sem samkeppnishæfast og þannig stuðla að bættum lífskjörum í landinu.
Góðir fundarmenn.
Árið 1997 var tekinn upp hér á landi samræmdur 10% fjármagnstekjuskattur á einstaklinga. Slíkur skattur var áður ekki til enda voru vextir skattfrjálsir til þess tíma. Aðrar tekjur af fjármagni voru skattlagðar sem launatekjur, sem hafði það í för með sér að lítið myndaðist af slíkum tekjum, söluhagnaður var ekki innleystur, arðgreiðslur voru lágar o.s.frv. Hinn nýi skattur mun samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs skila ríkissjóði 19 milljörðum króna í nýjar tekjur.
Reglulega kemur upp umræða um að fjármagnstekjuskatturinn sé óréttlátur með tilliti til þess sem greitt er í staðgreiðslu af launum í tekjuskatt og útsvar. Þegar skattinum var komið á kom vissulega til greina að fara flókna leið til álagningar með verðbreytingarútreikningum af einhverju tagi og miða skatthlutfallið við staðgreiðsluhlutfallið. Í staðinn var farin einföld leið og miðað við að skatthlutfallið væri um helmingur af meðaltali staðgreiðsluskatts þess tíma. Það var vegna þess að hér er um að ræða brúttóskatt sem leggst m.a. á verðbætur, sem eru ekki raunverulegar tekjur. Við álagningu hans er heldur ekki tekið tillit til þess sem yfirleitt er talinn réttmætur frádráttur, vaxtagjöld á móti vaxtatekjum, afskriftir og viðhald á móti leigu, tap á móti söluhagnaði o.s.frv. Einnig eru það rök fyrir tiltölulega lágri skattprósentu að skapa frekari hvatningu til sparnaðar. Þeir sem binda fé í fjárfestingum og sparnaði eiga alltaf þann kost að verja fjármunum sínum í staðinn til neyslu og losa sig þannig við fjármagnstekjuskattinn.
Við bárum gæfu til þess á sínum tíma að taka hér upp einfaldan en afar skilvirkan fjármagnstekjuskatt sem nú skilar ríkissjóði verulegum tekjum. Það væri glapræði að slátra slíkri gullgæs, eins og karlinn gerði í græðgi sinni í þjóðsögunni, en það mun gerast ef byrjað verður að fikta við þennan kvika skattstofn, sem getur hæglega leitað í aðrar skattalögsögur. Það er sem sumir fáist ekki til að skilja að 10% af miklu er mun meira en 18% af engu.
Upptaka sérstaks fjármagnstekjuskatts og lækkun tekjuskatts fyrirtækja hefur aukið tekjur ríkisins um 4,5% af landsframleiðslu. Þetta hefur skapað okkur svigrúm til að lækka aðra skatta, eins og til að mynda tekjuskatt einstaklinga. Ef okkur auðnast að byggja hér upp enn öflugri fjármálageira munum við skapa ríkissjóði auknar tekjur og fjölga hálaunastörfum. Ég deili ekki þeirri skoðun sumra að best væri að hrekja þessa starfsemi úr landi til þess að auka hér meintan jöfnuð.
Það er því að mörgu að hyggja og mörg verkefni sem blasa við í skattamálum. Ef við viljum gera skattkerfið samkeppnishæfara má í stuttu máli segja að það sé best gert með því að hafa það sem einfaldast og skilvirkast. Slíkt er líka til þess fallið að gera kerfinu auðveldara að þjóna hlutverki sínu sem tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð. Þess vegna tel ég heppilegast að litlir skattar sem skila tiltölulega litlu en kosta mikið umstang hverfi smám saman úr skattkerfinu.
Góðir fundarmenn.
Ímynd Íslands
Ég vil að endingu víkja aðeins að meginþema þessa viðskiptaþings – ímynd Íslands.
Árið 2006 var stormasamt en jafnframt lærdómsríkt. Við lærðum hversu mikilvægt alþjóðlegt orðspor og ímynd er fyrir lítið þjóðfélag. Ég vil þakka Viðskiptaráði hér sérstaklega fyrir að hafa frumkvæði að gerð Mishkin skýrslunnar svokölluðu og einnig Tryggva Þór Herbertssyni, og auðvitað Mishkin sjálfum, fyrir að hafa með skýrslunni útskýrt fyrir umheiminum staðreyndir málsins hvað varðar íslensk efnahagsmál.
Atvinnulífið átti alfarið frumkvæði að þessu framtaki og stýrði því. Aðkoma mín sem þáverandi utanríkisráðherra fólst í því að veita aðgang að utanríkisþjónustunni til að auðvelda útbreiðslu og kynningu skýrslunnar auk þess sem ég flutti ræðu á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í New York. Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel.
Þegar Viðskiptaráð óskaði eftir samstarfi við ríkisstjórnina um stefnumörkun í ímyndarmálum Íslands þótti okkur sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. Ég er mjög ánægður með þá vinnu til þessa og tel að þar hafi verið stigin gagnleg skref til undirbúnings því verkefni að styrkja ímynd landsins.
Hér er um langtímaverkefni að ræða þar sem við verðum að skoða með opnum huga hvernig við getum náð meiri árangri. Við getum ekki verið sátt við að vera í 19. sæti eins og fram kom í máli Simons Anholt, því neðsta meðal Norðurlanda, því við vitum að við höfum allt sem þarf til þess að skipa okkur í röð fyrirmyndarríkja. Þótt fjölmargir vinni nú þegar af einurð og dugnaði að ímyndarmálum Íslands, þá er sú vinna ekki nægilega samhæfð og nær þar af leiðandi ekki þeim slagkrafti sem nauðsynlegur er. Ég tel að við þurfum að taka höndum saman um þetta verkefni – þetta þarf að vera sameiginlegt átak, bæði innan og á milli opinberra aðila og einkaaðila. Samstillt átak mun skila bestum árangri.
Ég hef því í hyggju að setja saman lítinn starfshóp, sem kalla mætti sérsveit, fámennan vinnuhóp með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins til að skoða fordómalaust hvernig við stöndum að vinnu við ímynd Íslands og hvernig við getum náð betri árangri. Við verðum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og leiðum og setja okkur það markmið að Ísland skari framúr, bæði í reynd en einnig hvað varðar ímynd landsins.
Góðir fundarmenn.
Lokaorð
Mikið er rætt um jöfnuð í íslensku samfélagi og stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd. Hagstofa Íslands hefur nú birt niðurstöður úr samræmdri lífskjarakönnun Evrópusambandsins sem einnig nær til Íslands, Noregs og Sviss. Þar kemur fram svart á hvítu að fullyrðingar um mikinn og vaxandi ójöfnuð hér á landi eru að mestu hugarburður.
Niðurstöðurnar sýna ótvírætt að Ísland stendur afar vel að vígi í samanburði við önnur lönd hvað varðar jöfnuð milli einstakra tekjuhópa í þjóðfélaginu. Þannig eru einungis þrjár Evrópuþjóðir með lægri Ginistuðul og þar með meiri tekjujöfnuð en Ísland á árinu 2004, en það eru Svíþjóð, Danmörk og Slóvenía. Samanburðurinn er enn hagstæðari þegar horft er á svokölluð lágtekjumörk en aðeins Svíþjóð reyndist vera með lægra lágtekjuhlutfall. Hér er gengið út frá ráðstöfunartekjum einstaklinga, þ.e. að teknu tilliti til skatta. Jafnframt eru fjármagnstekjur, aðrar en söluhagnaður af hlutabréfum, teknar með í reikninginn.
Við hljótum að fagna þessum niðurstöðum enda eru þær áreiðanlega í samræmi við það sem flest fólk hefur á tilfinningunni. Hér hefur á undanförnum árum verið lyft grettistaki til að bæta lífskjörin. Skattamál fyrirtækja og einstaklinga skipta þar verulegu máli eins og ég hef rakið í dag.
Sameiginlegt markmið okkar hlýtur að vera að halda áfram á sömu braut til að ná enn meiri árangri. Þeir eru til sem vilja hverfa af þessari braut, jafnvel ýmsir sem eru áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Átökin um þá stefnu verða háð á Alþingi og hinum pólitíska vettvangi úti í þjóðfélaginu en ekki á viðskiptaþingi. En atvinnulífið verður áfram að huga að sinni ábyrgð.
Framhald þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í skattamálum og átak í ímyndarmálum Íslands mun gera okkur enn betur samkeppnishæf og hjálpa okkur til að tryggja að Ísland verði til fyrirmyndar: Best í heimi!