Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. apríl 2007 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Ávarp á ársfundi Landspítala - háskólasjúkrahúss

Góðir ársfundargestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og fá tækifæri til að ávarpa ársfund LSH í annað sinn sem heilbrigðisráðherra.

Ársfundur Landspítalans er alltaf nokkur viðburður, því hér er um að ræða gríðarlega stóra stofnun með umfangsmikil verkefni. Ár í lífi slíkrar stofnunar er alltaf viðburðaríkt og þar skiptast jafnan á skin og skúrir.

Nýbirtar niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til sjúkrahússins, sem Capacent Gallup vann fyrir LSH, bera ótvírætt vitni um traust og jákvæða afstöðu almennings gagnvart sjúkrahúsinu og starfsfólki þess. Um og yfir 90% svarenda segjast bera mjög mikið eða frekar mikið traust til sjúkrahússins, álíka hátt hlutfall telur sjúkrahúsið veita mjög góða eða frekar góða þjónustu og yfir 90% telja að starfsfólk sjúkrahússins leggi mjög mikla eða frekar mikla áherslu á að leysa vel úr þeim málum sem lögð eru fyrir stofnunina.

Það er tæpast hægt að skora hærra. Við getum svo sannarlega verið stolt yfir þessum niðurstöðum. Niðurstöðurnar segja meira en mörg orð um sjúkrahúsið og starfsfólk þess.

En - eins og ég sagði þá skiptast á skin og skúrir í rekstri Landspítalans og því ætla ég að fara nokkrum orðum um það sem vel gengur ? og einnig um það sem betur mætti fara.

Það má öllum vera ljóst að mikilvægasta auðlind Landspítalans er starfsfólkið. Því verður að gæta að hag starfsmanna og tryggja þeim gott starfsumhverfi sem mætir þörfum þeirra eftir því sem unnt er.

Í nýlegri könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna kom fram að starfsmenn Landspítalans telja störf sín erfið og álag oft mikið, meðal annars vegna manneklu. Mat starfsfólks á starfsumhverfi sínu ræðst af mörgum þáttum og því ekki hægt að benda á eina leið til úrbóta. Á hinn bóginn er ljóst að forsenda þess að við getum bætt starfsumhverfið er að við gefum gaum að þeim vísbendingum og skilaboðum sem lesa má úr þessari og öðrum viðlíka könnunum. Ánægja fólks í starfi er forsenda fyrir góðum árangri, en fjölmargar kannanir hafa sýnt að ánægja í starfi eykur framleiðni og bætir árangur. Hér er því jafnt um að ræða hagsmunamál starfsfólksins, sjúkrahússins og þeirra sem þurfa á þjónustu þess að halda.

Landspítalinn hefur líkt og flestar aðrar heilbrigðisstofnanir glímt við mönnunarvanda sem hefur skapað stofnuninni margvíslega erfiðleika. Þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á starfsemi sjúkrahússins kalla á aukna hjúkrun og þjónustu á fleiri sviðum.

Í ljósi þessa beitti ég mér fyrir því á síðasta ári að fjárveitingar yrðu auknar og námsstöðum í hjúkrunarfræði fjölgað við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Nú eru 157 nemendur á fyrsta ári í hjúkrunarfræði í báðum skólunum sem er yfir 30% aukning milli ára.

Það skortir einnig starfsfólk í öðrum stéttum og má þar meðal annars nefna sjúkraliða og annað starfsfólk í umönnun, auk annarra fámennari hópa.

Þegar rætt er um skort á starfsfólki verður ekki undan því vikist að nefna kaup og kjör, þ.e. opinbera kjarasamninga þótt launamálin séu ekki á minni hendi heldur á ábyrgð fjármálaráðuneytis og viðsemjenda þess. Það eru uppgangstímar og þensla í efnahagslífinu, fólk sækir í önnur störf séu þau betur launuð og það leiðir síðan til aukinnar starfsmannaveltu. Í kjarasamningum þarf að einbeita sér sérstaklega að því að lyfta umönnunarstörfum upp en þau hafa frá upphafi verið aðallega á hendi kvenna, en launamunur kynjanna er um 15-16% hér á landi eins og flestir vita. En starfsumhverfi skiptir líka máli.

Meðal minna fyrstu starfa sem ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála var að fara á flestar deildir spítalans og ræða við starfsfólk um áformin um byggingu nýja spítalans. Þetta voru skemmtilegar heimsóknir og ég fann mikla jákvæðni í garð verkefnisins. Við höldum ágætlega tímaáætlun og áform standast. Vil ég þakka fyrir þann brennandi áhuga sem starfsmenn sýna verkinu og fyrir þann tíma sem þeir hafa varið og munu verja í undirbúning þess.

Á næstunni verður áfram mjög mikil umræða um byggingu spítalans. Stundum heyrast yfirlýsingar eins og ?til hvers að byggja nýtt hús ef ekki eru starfsmenn til að vinna í því? og ?væri ekki peningunum betur varið í eitthvað annað s.s. samgöngumál?? Ég hvet alla starfsmenn til að leggja sitt af mörkum við að útskýra fyrir almenningi hve mikilvægt verkefnið er. Enginn veit betur en þið hve mikil þörf er á nýju húsnæði fyrir starfsemi spítalans.

Með nýjum spítala mun vinnuaðstaða batna og mun það væntanlega auðvelda störf fólks og gera spítalann að eftirsóknarverðari vinnustað. Á meðan við bíðum eftir nýju húsnæði veit ég að stjórnendur munu áfram leggja sig fram um að bæta vinnuaðstöðu á sjúkrahúsinu eftir því sem mögulegt er.

Á undanförum árum hefur mönnum orðið tíðrætt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Bilið á milli þess sem er tæknilega mögulegt og þess sem fjárhagur leyfir er nokkurt og fer vaxandi, því þarf að forgangsraða og hagræða.

Tölur OECD sýna að Íslendingar verja hlutfallslega mestu fé til heilbrigðisþjónustunnar af Norðurlandaþjóðunum, en árið 2004 voru útgjöld til heilbrigðisþjónustu hér á landi 10,2% af vergri þjóðarframleiðslu. OECD tölur sýna einnig að Ísland er meðal þeirra ríkja þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu er hvað lægst og hlutur hins opinbera hvað hæstur. Hlutur sjúklinga hér á landi er um 17%, líkt og víðast annars staðar á Norðurlöndunum, en að jafnaði er greiðsluþátttaka sjúklinga í OECD ríkjunum um 25%.

Nýleg landskönnun um heilbrigði og aðstæður Íslendinga leiddi í ljós að yfir 80% Íslendinga telja að hið opinbera eigi að leggja enn meira fé til heilbrigðisþjónustunnar en gert er í dag. Framfarir í heilbrigðisvísindum, ný tækni og ný lyf gera það að verkum að við verðum að hagræða í heilbrigðiskerfinu þótt við séum að leggja æ meira fé til þjónustunnar.

Eitt dæmi um hagræðingu er að nú er lögð áhersla á aukna göngudeildarþjónustu og að útskrifa sjúklinga sem fyrst þegar þeir eru færir um að fara af spítalanum. Þessi þróun er sú sama í öllum vestrænum ríkjum.

Annað dæmi er frá því í gær þegar gerður var samningur Landspítalans, Hjúkrunarheimilisins Eirar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um endurhæfingarrými fyrir aldraða. Endurhæfingarrýmin á Eir verða mun ódýrari en rými á bráðadeildum sjúkrahússins, en munu án efa nýtast hinum öldruðu betur til endurhæfingar til að gera þeim kleift að snúa aftur heim. Bráðarýmin á LSH verða síðan til taks fyrir þá sem mest þurfa á þeim að halda. Ég vil einnig nefna sérstaklega sjúkrahústengda heimahjúkrun fyrir aldraða frá LSH sem hefur skilað góðum árangri. Sjúklingarnir geta farið fyrr heim og bráðarými sjúkrahússins teppast síður.

Það er einnig ánægjulegt til þess að vita að betur hefur gengið að útskrifa aldraða af Landspítalanum inn á hjúkrunarheimili en áður. Árið 2006 voru 40% fleiri sjúklingar af sjúkrahúsinu sem fengu hjúkrunarheimilispláss en árið áður. Nú bíða um 60 aldraðir inni á LSH eftir hjúkrunarrými sem er veruleg fækkun, því þegar mest var voru þeir um 120 sem biðu. Hér hefur því náðst verulegur árangur.

Ég vil líka nefna ánægjulega þróun sem orðið hefur á biðlistum aldraðra í Reykjavík eftir hjúkrunarrými. Í mars í fyrra biðu 260 í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrými en nú eru þeir um 220.

Óhætt er að segja að Landspítalinn beri mikla ábyrgð á gæðum heilbrigðisþjónustu bæði í nútíð og framtíð. Þar fer m.a. fram kennsla heilbrigðisstétta og rannsóknir eru snar þáttur í starfseminni.

Rannsóknir íslenskra vísindamanna hafa á liðnum árum vakið athygli á alþjóðavettvangi og þar hafa rannsóknir í heilbrigðisvísindum verið áberandi. Þegar framlög Íslendinga til vísindarannsókna eru skoðuð má sjá að stærstur hlutinn fer til heilbrigðisrannsókna sem að stórum hluta tengjast Landspítalanum.

Í stefnumótun Vísinda- og tækniráðs Íslands fyrir tímabilið 2006-2009 er lögð áhersla á að rannsóknir á heilbrigðissviði séu grunnur heilbrigðisþjónustunnar. Með endurskoðun metnaðarfullrar vísindastefnu Landspítalans nýlega var rennt enn styrkari stoðum undir fræðastarf á spítalanum og í kjölfar þeirrar samþykktar verður samstarf við háskólana aukið enn frekar.

Landspítalinn er sú stofnun sem veitir flestum nemum við Háskóla Íslands framhaldsmenntun, en hér fara í gegn um ellefu hundruð nemendur á hverju ári. Nýlega hefur Háskólinn sett sér það markmið að verða í hópi 100 bestu háskóla í heimi. Forsenda þess að það markmið náist er m.a. þróttmikið og gott faglegt starf heilbrigðisgreina Háskóla Íslands og Landspítalans.

Á vorþingi samþykkti Alþingi ný lög um heilbrigðisþjónustu sem taka gildi 1. september n.k. Með nýju lögunum er bætt úr brýnni þörf fyrir skýran lagaramma um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis og hlutverk Landspítalans skilgreint nákvæmlega, m.a. sem háskólasjúkrahús. Vil ég þakka öllum þeim sem komu að því að gera umsagnir um frumvarpið, áður en það varð að lögum, fyrir þeirra mikilvægu sjónarmið.

Fram til þessa hefur tekist að tryggja sjúklingum spítalans aðgang að öllum nauðsynlegum lyfjum þeim að kostnaðarlausu. Þetta er ekki sjálfgefið í öllum löndum, en þykir hins vegar sjálfsagt í því Norræna velferðarsamfélagi sem við erum hluti af og viljum halda áfram að tilheyra.

Þrátt fyrir að innlögnum og aðgerðum hafi fjölgað hefur á sama tíma tekist að hemja nokkuð lyfjakostnað með ýmsum aðgerðum, svo sem með útboðum á lyfjum, lyfjalistavinnu og með reglum um notkun nýrra og mjög dýrra lyfja.

Óhætt er að fullyrða að í dag er staðið mun faglegar en áður að ákvörðunum um val og notkun lyfja á Landspítalanum með skýrt skilgreindum vinnuferlum sem eru í samræmi við nýsamþykkta Lyfjastefnu til 2012. Það er bæði eðlilegt og bráðnauðsynlegt að slíkir vinnuferlar séu fyrir hendi. Góð samvinna hefur verið við ráðuneytið um þessa ábyrgu stefnu LSH sem hefur tryggt eðlilegan aðgang að nýjum og góðum lyfjum ýmist fyrr eða á svipuðum tíma og þau hafa verið tekin í notkun á bestu sjúkrahúsum Norðurlanda.

Heilbrigðisyfirvöld telja að markvisst gæðastarf sé mikilvæg forsenda þess að almenningur fái faglega og örugga heilbrigðisþjónustu og að hún sé veitt á hagkvæman hátt. Þess vegna er mikilvægt að á hverjum tíma sé fyrir hendi skýr gæðastefna.

Nú hefur gæðaáætlun ráðuneytisins frá árinu 1999 verið endurskoðuð og í gær kynntu heilbrigðis- og tryggingamálaráðneytið og Landlæknisembættið Stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010. Bind ég góðar vonir við að nýja gæðastefnan fái góðan framgang.

Stjórnun og starfsmannamál eru stórmál í daglegum rekstri stofnunar sem er jafn stór, margþætt og sérhæfð og Landspítalinn. Varðar það bæði kaup og kjör, framgang í starfi og skiptingu ábyrgðar, hvort sem hún er fagleg eða fjárhagsleg. Það hefur gengið á ýmsu í þessum efnum og það er fullkomlega eðlilegt að stundum sé hart tekist á og sjónarmið séu ólík. Ég hef hingað til varast að blanda mér í deilur sem varða stjórnun sjúkrahússins þar sem ég lít svo á að afskipti ráðherra af innri málefnum undirstofnana geti verið vafasöm og vandratað meðalhófið í þeim efnum. Deilur sem varða starfssvið og verkefni sviðsstjóra og yfirlækna hafa farið hátt og reynt á alla sem að þeim hafa komið. Ég trúi því hins vegar og treysti að nú sjái fyrir endann á þessum deilum. Af hverju segi ég það? Jú, m.a. vegna þess að nýlega kom fram álit umboðsmanns Alþingis og ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt, en bæði álit umboðsmanns og nýju lögin skýra og skerpa faglegt og fjárhagslegt vald og ábyrgð innan spítalans.

Forstjóri sjúkrahússins hefur einnig ásamt fjölda starfsmanna verið að vinna í að skilgreina sérgreinar sjúkrahússins og mun kynna á eftir stöðu þess máls. Að sjálfsögðu geta skoðanir verið skiptar um hvernig sérgreinar eigi að skiptast innan sjúkrahússins en vona ég að menn sameinist um góða niðurstöðu í því máli.

Ágætu gestir.

Nú er kjörtímabilið á enda og ég hef gegnt hlutverki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í rúmt ár. Ef til vill ávarpa ég ykkur að ári, etv. ekki. Ég vil þakka starfsfólki sjúkrahússins fyrir samstarfið á þessum tíma. Heimsóknir mínar á LSH vegna nýja sjúkrahússins hafa verið margar og góðar, ég hef komið oft á Barnaspítalann með gesti, átti til dæmis mjög skemmtilega stund á gamlaárskvöld á bráðavaktinni í Fossvogi þar sem ég leit við til að heilsa upp á starfsfólkið. Ég hef líka átt erfiða fundi vegna aðstæðna sem hafa komið upp í starfsemi spítalans eins og gefur að skilja að koma upp á stórum vinnustað sem er að sinna okkar veikasta fólki. Að öllu samanlögðu er ég þakklát fyrir samstarfið við ykkur og vil hvetja ykkur áfram á sömu góðu braut og þið eruð á. Ég vil þakka sérstakleg Magnúsi Péturssyni, Jóhannesi Gunnarssyni, Önnu Stefánsdóttur, Birnu Svavarsdóttur, Gyðu Baldursdóttur og Friðbirni Sigurðssyni en við þau öll hef ég haft náið og gott samstarf.

Ég er stolt af Landspítalanum. Það er rétt að við gleymum því ekki hvað við erum með mikilvæga og merkilega stofnun í höndum okkar. Ég hef lagt mig fram í störfum mínum við að styðja við bak sjúkrahússins. Tel ég að ágætlega hafi til tekist og lít því ánægð yfir farinn veg.

Talað orð gildir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta