Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. maí 2007 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Úthlutun úr Forvarnasjóði

Ágætu styrktaraðilar, forstjóri Lýðheilustöðvar og aðrir góðir gestir.

Það er mér ánægja að vera hér í dag og úthluta styrkjum úr Forvarnasjóði, en einnig verða nýjustu niðurstöður um áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna í 10. bekk kynntar.

Allir eru sammála því að forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu eru mikilvægar og að aldrei megi slaka þar á. En þegar kemur að aðferðum og leiðum eru menn ekki alltaf sammála. Samstarf og samráð þeirra aðila sem að forvörnum vinna er því mjög mikilvægt og einungis á þann hátt getum við unnið á heildrænan hátt að forvörnum.

Fjölmargir aðilar sinna mjög góðu og óeigingjörnu forvarnastarfi og verður starf þeirra ekki metið til fjár. Grasrótarsamtök eru mikilvægur hlekkur í þeirri forvarnakeðju sem mynda þarf um forvarnir. Fjölmörg samtök og stofnanir sinna á beinan eða óbeinan hátt forvörnum. Má þar nefna þá aðila og félög sem sinna skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. En forvarnir snúast ekki eingöngu um fræðslu um skaðsemi áfengis- og vímuefna heldur einnig um heilbrigða lífshætti og tækifæri til þess að standast það áreiti sem fylgir m.a. markaðssetningu áfengis og aðgengi.

Það er nefnilega ekki síður mikilvægt að sporna við framboði og fækka þar með tækifærum og aðstæðum fyrir ungt fólk að verða sér út um áfengi og önnur vímuefni. Aðgengi að áfengi þ.e. fjöldi útsölustaða áfengis, sölutími og aldursmörk til áfengiskaupa hefur umtalsverð áhrif á þróun áfengisneyslu þjóða og eru ungmenni þar ekki undanskilin.

Það þarf því hvorutveggja að fara saman, stefna og aðgerðir ríkisstjórna og það grasrótarstarf sem fer fram. Hvorutveggja þurfa svo að byggja á staðreyndum og reynslu annarra ásamt rannsóknum, ekki síst innlendum.

Til þess að viðhalda og þróa áfram forvarnastarf á Íslandi var ákveðið árið 1995 að stofna Forvarnasjóð og var úthlutað úr honum fyrst árið 1996. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni á sviði áfengis- og vímuvarna í samræmi við stefnu og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í áfengis- og vímuvörnum hverju sinni. Styrkir eru veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum.

Undanfarin ár hefur mátt sjá jákvæða þróun hvað varðar neyslu áfengis og annarra vímuefna meðal 10. bekkinga og má það eflaust þakka m.a. þrotlausu starfi margra hagsmunaaðila. Það er því áhugavert að sjá hvernig nýjustu niðurstöðurnar, sem kynntar verða hér á eftir, eru hvað varðar þennan aldurshóp. Það er engin einhlít skýring til á því hvað felst í ,,forvarnastarfi”. Innihald og meining getur verið breytileg allt eftir því hvaða hefðir og grunnhugsanir eru lagðar til grundvallar starfinu. Um getur verið að ræða rannsóknar- og þróunarstarf eða framkvæmd af ákveðnum verkefnum og aðgerðum t.d. í skólum eða í samfélaginu. Forvarnir eru því margslungið hugtak á hugsunum og aðgerðum sem spanna allt frá tilraunum til að koma í veg fyrir eða útrýma óæskilegri þróun til aðgerða sem auka lífsgæði og stjórnun.

Ég vil óska þeim fölmörgu aðilum sem fá nú úthlutað úr forvarnasjóði alls hins besta. Það er von mín að styrkirnir nýtist sem best, í þágu öflugra og fjölbreyttra forvarna. Til hamingju, starf ykkar er mikilvægt og gangi ykkur vel! Bið ég forstjóra Lýðheilsustöðvar Önnu Elísabetu Ólafsdóttur að taka hér við og lýsa úthlutuninni.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta