Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2007 HeilbrigðisráðuneytiðSiv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra 2006-2007

Framvirkur samningur um kauptryggingu á inflúensubóluefni í heimsfaraldri inflúensu.

Ávarp Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við undirritun samnings við GlaxoSmithKline um bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu þann 4. maí 2007.

Reynsla undanfarinna alda sýnir að búast megi við heimsfaraldri inflúensu tvisvar til þrisvar á öld. Slíkir heimsfaraldrar eru að jafnaði mun skæðari en árstíðabundin inflúensa því þá er um nýjan stofn inflúensu að ræða og fólk hefur ekki mótefni gegn honum. Þegar slíkir heimsfaraldrar ríða yfir valda þeir oft alvarlegum sjúkdómseinkennum meðal manna og dánartíðnin er há. Undanfarin ár hefur nýr inflúensustofn gert vart við sig sem valdið hefur miklu tjóni í alifuglarækt víða um heim. Þessi fuglainflúensa berst af og til í menn og hefur hún valdið alvarlegum sjúkdómseinkennum og gerir enn. Smitleið manna á milli er enn sem komið er takmörkuð. Hugsanlegt er þó að þessi stofn taki breytingum þannig að smit berist greiðlega manna á milli. Gæti það verið upphaf alvarlegs heimsfaraldurs inflúensu. Hitt gæti einnig gerst að annar áður óþekktur stofn valdi næsta heimsfaraldri.

Eins og málum er háttað telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að við séum á svokölluðu viðbúnaðarstigi og hvetur hún því þjóðir heims til að huga að viðbúnaðar- og viðbragðsáætlunum við heimsfaraldri inflúensu. Stjórnvöld hér á landi hafa undanfarin ár unnið að slíkum viðbúnaði. Afar mikilvægur liður undirbúningsins er að tryggja landsmönnum bóluefni eins skjótt og auðið er. Vandamálið er að ekki er vitað fyrirfram hvaða inflúensustofn það er sem veldur næsta heimsfaraldri. Því mun taka 3-6 mánuði að framleiða slíkt bóluefni og nauðsynlegt er fyrir Íslendinga að tryggja sér aðgang að því ef á þarf að halda.

Það er mér því ánægjuefni að geta nú undirritað samning við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline um að það tryggi Íslendingum 300.000 skammta af slíku bóluefni eins fljótt og auðið er eftir að framleiðsla hefst. Hér er um kauptryggingu að ræða sem gildir til ársins 2011. Kostnaður við hana er um 20 mkr. á þessu ári og 20 mkr. á því næsta. Samningur þessi er samhljóða samningi sem dönsk stjórnvöld hafa gert við fyrirtækið. Framkvæmd þessa samnings verður á höndum sóttvarnalæknis.

Þess má geta að gerðir hafa verið samningar um kaup á inflúensulyfjum, dreypilyfjum og hlífðarbúnaði vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Einnig er unnið að því að tryggja nægar birgðir af nauðsynlegustu lyfjum í landinu til að standast alvarlegan heimsfaldur á borð við inflúensu.


Talað orð gildir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta