Staða Íslands í samfélagi þjóðanna
Ávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í Hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 7. september 2007
Talað orð gildir
Fundarstjóri,
góðir áheyrendur.
Eftir rúmt ár mun atkvæðagreiðsla í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna leiða í ljós hvort Ísland verður í fyrsta sinn kjörið til setu í öryggisráði samtakanna. Ég er vongóður um að við munum hafa árangur sem erfiði en ljóst er að kynning á framboði Íslands á þessum lokaspretti getur ráðið úrslitum. Minnug þessa og fyrirheita stjórnvalda um viðeigandi hógværð ætlum við að greikka sporið næstu tólf mánuði.
Ríki geta aldrei gengið að neinu sem gefnu á alþjóðavettvangi og ekkert þeirra þriggja aðildarríkja sem keppast um tvö sæti Vesturlandahópsins í öryggisráðinu á tímabilinu 2009-2010 munu ganga til kosninganna fullvisst um sigur. Brugðið getur til beggja vona hjá þeim öllum. Hvað Ísland varðar þá erum við reiðubúin til að taka sæti í öryggisráðinu og sá vilji markar söguleg tímamót. Það er ástæða til að setja þetta í víðara samhengi.
Lýðveldið var stofnað í aðdraganda kalda stríðsins og fyrir Ísland fylgdi tæplega fimmtíu ára kyrrstaða í utanríkismálum. Við kringumstæður eftirstríðsáranna var skynsamlegt fyrir nýsjálfstætt smærra ríki að horfa sér nær og huga að eigin uppbyggingu. Þetta endurspeglaðist í því að helsta frumkvæði Íslendinga í utanríkismálum á þessum áratugum var réttilega í landhelgis- og hafréttarmálum. Það var eðlileg forgangsröðun en í öðrum málaflokkum var mjög leitað í smiðju vinaþjóða og bandamanna. Síðan hafa heyrst gagnrýnisraddir sem fullyrða að Íslendingar hafi lengi verið „farþegar“ í alþjóðasamstarfi en um það má eflaust deila.
Lok kalda stríðsins breyttu alþjóðlegri stöðu Íslands í grundvallaratriðum og fóru saman við miklar efnahagslegar og félagslegar breytingar hér á landi. Bæði ytri og innri aðstæður hafa gerbreyst. Nú er svo komið að íslensk hagsmunagæsla í hnattvæddum heimi er orðin mun margþættari en áður og að Íslendingar geta mun betur staðið vörð um eigin hagsmuni. Um leið er ljóst að framsal hagsmunagæslunnar til annarra ríkja verður sífellt vandasamara og óæskilegra. Ísland verður öðrum fremur að vinna vel með öðrum ríkjum, einkum þar sem um er að ræða mjög stór verkefni, en vonir um að þau gangi erinda sem Íslendingar geta vel annast sjálfir samrýmast hvorki hagsmunum, reisn né fullveldi. Þá eru ónefndar siðferðilegar og pólitískar skyldur Íslands sem þátttakanda í samfélagi þjóðanna og mikilvægi þess að halda fram þeim gildum sem Íslendingar hafa ávallt sameinast um.
Það var í þessu samhengi sem ákveðið var árið 1998 að bjóða Ísland fram til setu í öryggisráðinu í fyrsta sinn frá árinu 1946. Ákvörðunin lýsir nýrri sýn á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og nýju sjálfstrausti og virkni í utanríkismálum. Í þessu felst skilgreining á Íslandi sem öflugu smærra ríki en höfnun á þeirri sjálfsímynd að Ísland sé vanmáttugt örríki. Þetta lýsir ekki hégómlegu drambi heldur eðlilegu endurmati og sífelldri viðleitni til að treysta stöðu Íslands.
Ég nefndi í upphafi að ekkert er gefið í alþjóðasamskiptum. Þrátt fyrir bjartsýni getur farið svo að Ísland nái ekki kjöri í öryggisráðið. Það yrðu vissulega mikil vonbrigði en myndi engu breyta um stöðu Íslands. Markmiðið er að gæta íslenskra hagsmuna og halda fram íslenskum gildum og seta í öryggisráðinu er einungis ein af mörgum aðferðum til að ná því. Að því sögðu höldum við ótrauð áfram og stefnum að því að sýna að smærri aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga ekki einasta efnislegt erindi í öryggisráðið heldur að þátttaka þeirra muni styrkja lögmæti þessarar lykilstofnunar samtakanna.
Þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra haustið 2005, ákvað ég að setja framboðinu til öryggisráðsins hóflegar fjárhagslegar skorður og lagði áherslu á að efnislegar forsendur og sanngirni ættu að ráða því að Ísland tæki þar sæti en ekki aflsmunur eða fjáraustur. Þetta hefur síðan verið umgjörð framboðsins og það er samstaða um það innan ríkisstjórnarinnar að svo verði allt til loka. Ég tel að ekki séu mörg dæmi þess á undanförnum árum að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafi gengið til slíkrar kosningabaráttu með jafn litlum tilkostnaði og Ísland hefur borið.
Í ljósi þeirrar stöðu sem ég hef lýst hér og þess sem koma skal, er tilefni til að gera stuttlega grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hyggst styrkja faglega umfjöllun um íslensk utanríkis- og öryggismál. Í yfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnar frá 26. september á síðasta ári í tilefni af brottflutningi varnarliðsins segir m.a. að komið verði á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Þetta er ítrekað í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Utanríkisráðherra hefur einnig rætt sérstaklega um nauðsyn þess að stofna slíkan vettvang og skilgreinda öfluga rannsóknarstofnun.
Það er hugmynd ríkisstjórnarinnar að sameina samráðsvettvanginn og rannsóknarstörfin í sérstöku Rannsóknarsetri um utanríkis- og öryggismál. Þar gæfist stjórnmálamönnum, embættismönnum og fræðimönnum tækifæri til að fjalla um og rannsaka íslensk utanríkis- og öryggismál með markvissari hætti en tíðkast hefur. Það yrði gert í samstarfi við ráðuneyti, stofnanir, samtök og háskóla, auk hliðstæðra setra erlendis. Nánar verður unnið að þessu máli á næstunni.
Fundur af því tagi sem við sitjum hér í dag er einnig til þess fallinn að örva umræðu og skilning á alþjóðamálum og ég hvet viðstadda eindregið til að fylgjast vel með þeirri fundaröð sem fylgir í kjölfarið á næstu mánuðum í háskólum víða um landið.