Ávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra á ráðstefnunni Upplýsingatæknin - á leið úr landi?
Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir,
Bein afskipti stjórnvalda af atvinnulífinu og sértækar aðgerðir fyrir eina atvinnugrein umfram aðra hafa sem betur fer minnkað jafnt og þétt á síðustu árum. Stjórnvöld og fulltrúar atvinnulífsins hafa verið sammála um að sú þróun væri heillavænleg. Stjórnvöld hafa þess í stað beint athygli sinni og kröftum að því að skapa gott samkeppnis- og rekstrarumhverfi fyrir allan atvinnurekstur í landinu. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skattakerfinu og lögð hefur verið áhersla á að styrkja innviði samfélagsins, efla menntakerfið, samgöngur og fjarskiptakerfið. Almennt má því segja að unnið hafi verið að því að gera Ísland að eftirsóknarverðu landi fyrir atvinnurekstur og þá um leið að eftirsóknarvert sé að búa hér og starfa. Með þessu móti hefur verið brugðist við alþjóðavæðingunni og þeirri staðreynd að lönd heimsins keppa nú í auknum mæli um fyrirtæki og sérhæft vinnuafl. Stjórnendur færa fyrirtæki sín einfaldlega milli landa ef skilyrðin eru ekki nógu hagstæð og starfsfólkið leitar til annarra landa bjóðist þar betri kjör.
Núverandi ríkisstjórn hefur metnað til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins og tryggja að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram skýr vilji til að efla hátækniiðnað á Íslandi því þar segir orðrétt:
„Íslensk fyrirtæki eru í harðnandi samkeppni við erlend fyrirtæki, bæði heima og heiman, og á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs.“ Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 kemur fram að ætlunin er að fvöfalda framlög í sjóðina á kjörtímabilinu.
Og síðar í stefnuyfirlýsingunni segir:
„Framfarir og hagvöxtur komandi ára verða knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar.“
Kjörtímabilið er nýhafið og því ekki við því að búast að hægt sé að lýsa mörgum fullkláruðum verkefnum á þessu sviði.
Við þetta tækifæri er þó ástæða til að nefna nokkur verkefni sem verið er að vinna að.
Fyrst má nefna fjarskiptamálin. Nauðsyn þess að til staðar sé öflugt og öruggt fjarskiptasamband við umheiminn hefur verið töluvert í umræðunni síðustu misseri í tengslum við vöxt og viðgang upplýsingatækniiðnaðarins á Íslandi. Nú eru uppi áform um að nýr sæstrengur verði lagður frá Íslandi til Evrópu á næsta ári og eykst þá öryggi og flutningsgeta fjarskiptasambanda við útlönd til mikilla muna. Sá strengur ætti að geta skapað tækifæri fyrir þá sem áhuga hafa á uppsetningu gagnamiðstöðva eða vilja reka hér ýmsa þjónustustarfsemi sem útheimtir öflug og örugg fjarskiptasambönd. Að auki má geta þess að unnið er að framkvæmd fjarskiptaáætlunar, þar sem m.a. eru boðin út verkefni sem tengjast uppbyggingu farsímakerfis og háhraðatenginga á landsbyggðinni.
Annað sem ég vil nefna sérstaklega er framboð á sérmenntuðu starfsfólki. Ein af forsendum þess að upplýsingatækniiðnaðurinn fái þrifist hér á landi er að nægt framboð sé af menntuðu fólki, ekki síst fólki með sérmenntun á sviði upplýsingatækni. Síðastliðið vor hóf störf óformlegur vinnuhópur sem mun fara yfir þetta mál. Staðan sem nú virðist blasa við er sú að viðvarandi skortur er á fólki með menntun á sviði upplýsingatækni og áhugi framhaldsskólanema fyrir því að sækja nám á því sviði er of lítill. Að þessari vinnu koma forsætis- og menntamálaráðuneyti ásamt fulltrúum háskólanna, iðnaðarins og ýmissa hagsmunaaðila.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að móta nýja stefnu um upplýsingasamfélagið sem ná mun til áranna 2008-2011. Skipuð verður stefnumótunarnefnd sem fær það veganesti að stefnan eigi m.a. að byggjast á fyrrnefndri stefnuyfirlýsingu. Á næstu mánuðum er því tækifæri til frjórra skoðanaskipta um öll málefni sem snerta upplýsingatæknina, hvort sem þau varða upplýsingtækniiðnaðinn, fjarskiptamálin, rafræna stjórnsýslu eða annað þessu tengt.
Ég vil því nota þetta tækifæri og hvetja fundarmenn til að leggja fram hugmyndir og tillögur sem að gagni gætu komið við mótun stefnunnar. Það er mín skoðun að stefna á svo víðfeðmu sviði sem þessu verði ekki góð nema beitt sé lýðræðislegum vinnubrögðum og sérfræðingar á sviðinu séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum. Áhersla verður því lögð á opið samráð í öllu ferlinu.
Upplýsingatækniiðnaður, hvort sem hann felst í framleiðslu hugbúnaðar, þjónustu, ráðgjöf, hýsingu eða öðru slíku, fellur einstaklega vel að hugmyndum um þróun þekkingar- og velferðarsamfélags. Ég vona því að niðurstaða umræðunnar hér í dag verði sú að upplýsingatæknin sé ekki á leið úr landi. Í öllu falli vil ég undirstrika að ríkisstjórnin hefur væntingar um annað því það er forgangsmál að efla hátækniiðnað á Íslandi.