Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2007 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Áramótagrein í Fréttablaðið 2007

Sjálfstæðisstefnan áfram leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum

Árið sem nú er senn á enda hefur verið tíðindamikið í íslenskum stjórnmálum og að mörgu leyti markað tímamót. Sá viðburður sem stendur upp að mínu mati eru kosningarnar til Alþingis í maí en Sjálfstæðisflokkurinn kom afar sterkur út úr þeim kosningum og bætti við sig umtalsverðu fylgi og þremur þingmönnum miðað við síðustu kosningar. Ennfremur er flokkurinn nú í þeirri stöðu að eiga fyrsta þingmann í öllum kjördæmum landsins. Þessi árangur er ekki síst eftirtektarverður í ljósi þeirrar staðreyndar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystuhlutverki í ríkisstjórn í 16 ár.

Ný ríkisstjórn mynduð

Í kosningunum í maí var ekki síst tekist á um verk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafði starfað saman í tólf ár og hélt sú stjórn þingmeirihluta sínum. Því var eðlilegt að þessir flokkar byrjuðu á að ræða saman eftir kosningarnar en fljótlega kom í ljós að skiptar skoðanir voru meðal Framsóknarmanna um áframhaldandi samstarf þessara flokka. Niðurstaðan varð því sú að stjórnarmyndunarviðræður hófust milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og mynduð var ríkisstjórn þessara tveggja flokka undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Myndun þessarar nýju stjórnar markaði eðlilega nokkur tímamót í íslenskum stjórnmálum enda leiða þar saman hesta sína flokkar sem hafa undanfarin ár verið höfuðandstæðingar í íslenskum stjórnmálum. Stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu hins vegar vel og báðir flokkar gátu afar vel við stjórnarsáttmálann unað enda er þar kveðið á um mörg framfaramál.

 

Árangur í málefnum aldraðra

Nú þegar hefur talsvert áunnist, sérstaklega í málefnum aldraðra en í sumar voru gerðar lagabreytingar sem gerðu þeim sem eru 70 ára og eldri kleift að vinna án þess að atvinnutekjur skertu bætur. Í desember kynnti ríkisstjórnin áform sín um enn frekari umbætur í þessum málaflokki, sem snúa m.a. að því að afnema skerðingu bóta vegna tekna maka. Þessi skref koma til viðbótar þeim aðgerðum sem síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir í upphafi árs og miðuðu einnig að því að draga úr skerðingum og hækka lífeyri en þær byggðu m.a. á samkomulagi við samtök eldri borgara frá því um sumarið 2006. Ég tel því að nokkuð vel hafi verið að verki staðið í þessum málaflokki að undanförnu.

 

Öflugra heilbrigðis- og velferðarkerfi

Miklar væntingar eru gerðar til hinnar nýju stjórnar og hún hefur sterkan meirihluta á þingi. Ég og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kvíðum þó ekki þeim væntingum heldur erum þvert á móti full tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem bíða. Mörg þessara verkefna, eins og t.d. að tryggja hagfellda umgjörð efnahagslífsins og viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins, eru þess eðlis að við stöndum afar vel þótt brýnt sé að áfram verði vel haldið á spöðunum.

Önnur verkefni eru þannig að gera þarf stærri breytingar. Þar horfi ég ekki síst til heilbrigiðis- og velferðarmála, þar sem ríkisstjórnin hefur þegar hafist handa með tilfærslu verkefna milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins.

Mikil og góð sátt ríkir um það innan ríkisstjórnarinnar, eins og raunar meðal þjóðarinnar, að meginreglan varðandi heilbrigðisþjónustu sé sú að ríkið greiði fyrir þjónustuna. Að sama skapi er samstaða um að bjóða upp á fjölbreyttari rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og þá hugmyndafræði að þótt ríkið greiði fyrir þjónustuna þurfi það ekki í öllum tilvikum að veita hana sjálft.

 

Byggjum á góðum árangri

Sjálfstæðisflokkurinn hélt inn í kosningar á þessu ári undir slagorðinu „Nýir tímar - á traustum grunni“. Það rammar að mínu mati vel inn þá stöðu sem nú er uppi í íslensku þjóðfélagi og stjórnmálunum.

Við höfum náð gríðarlega miklum árangri undanfarin undir forystu stefnu okkar sjálfstæðismanna um að gefa einstaklingunum svigrúm ásamt því að tryggja að íbúar þessa lands búi við traust öryggisnet.

Ánægjuleg vísbending um þennan árangur okkar barst á þessu ári þegar Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna kynnti þá niðurstöðu sína að lífskjör og skilyrði til þroska væru best á Íslandi af þeim 177 þjóðum sem bornar voru saman í könnun stofnunarinnar.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að þótt grunnurinn sé traustur og margt hafi áunnist eru verkefnin mýmörg. Styrkur Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar ávallt verið sá að hann er ekki hræddur við breytingar og undir því leiðarljósi eigum við að ganga inn í nýtt ár, full bjartsýni og tilhlökkunar.

 

Ég þakka landsmönnum samfylgdina á liðnum árum og óska lesendum velfarnaðar á nýju ári.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta