Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. maí 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnunni Netríkið Ísland

Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér sönn ánægja opna þessa fjölmennu ráðstefnu og fylgja úr hlaði nýrri stefnu um upplýsingasamfélagið. Ráðstefnan er haldin í tilefni af degi upplýsingatækninnar eða UT-deginum sem nú er haldinn í þriðja sinn. Hafa tveir hinir fyrri tekist vel og vænti ég þess að svo verði einnig að þessu sinni.

Þessir þrír dagar hafa verið með ólíku sniði bæði hvað varðar efni og form. Lögð var áhersla á upplýsingatækniiðnaðinn á fyrsta degi upplýsingatækninnar en á síðastliðnu ári gegndi sýningin Tækni og vit mikilvægu hlutverki. Að þessu sinni er það ný stefna um upplýsingasamfélagið og framkvæmd hennar sem er miðpunktur dagsins. Stefnan ber yfirskriftina Netríkið Ísland og dregur ráðstefnan nafn sitt af henni. Mótun hennar hefur tekið um hálft ár og stór hópur fólks, bæði frá opinberum aðilum og ýmsum hagsmunaaðilum, hefur tekið þátt í verkefninu. Starfandi var stefnumótunarnefnd sem leiddi vinnuna og skilaði af sér tillögum nú í byrjun apríl. Kann ég öllu þessu fólki bestu þakkir fyrir þeirra störf.

Netríkið Ísland er kjörorð hinnar nýju stefnu sem ríkisstjórnin samþykkti þann 22. apríl síðastliðinn. Í henni kemur fram skýr vilji og ásetningur stjórnvalda til þess að ná fram ákveðnum breytingum í þjónustu við almenning og fyrirtæki og nútímavæða stjórnsýsluna. Stefnan er í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá árinu 2007, en þar kemur meðal annars fram að:

Unnið verði að einföldun og nútímavæðingu stjórnsýslunnar og aukinni notkun á upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu, auka skilvirkni og einfalda samskipti milli almennings og stjórnvalda. 

Á tímamótum sem þessum er nauðsynlegt að meta stöðuna rétt. Iðulega er gengið út frá því sem vísu að við Íslendingar séum í fremstu röð í notkun upplýsingatækni og að lítil ástæða sé til þess að knýja fram breytingar. Staðreyndin er sú að á mörgum sviðum tækninnar eru Íslendingar mjög vel staddir og í röð fremstu þjóða heims. Það á við um tölvueign, aðgengi að Interneti og notkun á tölvum og Interneti bæði hjá almenningi og fyrirtækjum. Kannanir sýna til dæmis að Íslendingar nýta vel alla þá rafrænu þjónustu sem í boði er hjá opinberum aðilum. Þessar upplýsingar eru mikilvægar því af þeim má ráða að þjóðin vill „afgreiða sig sjálf“ þar sem það er mögulegt. Hins vegar sýna margar kannanir að Íslendingar standa sig illa þegar skoðað er framboð á rafrænni þjónustu. Í könnun sem gerð var í Evrópu árið 2007 er Ísland í 22. sæti í hópi 31 þjóðar þegar skoðaðir eru 20 mikilvægir þjónustuþættir fyrir almenning og fyrirtæki. Kjarni málsins er að frammistaða Íslands eða íslenskrar stjórnsýslu í rafrænni þjónustu er óviðunandi og úr því þarf að bæta.

 

Í hinni nýju stefnunni er brugðist við og tekið á framboði á rafrænni þjónustu eða Netþjónustu sem greinilega er okkar Akkilesarhæll. Framtíðarsýnin er skýr en hún er að:

Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækninnar.

Og leiðarljós stefnunnar er:

Notendavæn og skilvirk þjónusta – engar biðraðir.

Undirstaða stefnunnar er sterk því eins og áður hefur komið fram standa Íslendingar vel á mörgum sviðum upplýsingatækninnar. Það er einnig styrkleiki þessarar stefnu að hún var mótuð í samráði við ráðuneyti og hagsmunaaðila til að stuðla að því að hún yrði í senn skynsamleg, raunhæf og framkvæmanleg. Almenningur átti að auki kost á að tjá sig um málið á vefnum Island.is.

 

Heiti stefnunnar er grípandi og vísar til þess að alla opinbera þjónustu verði hægt að nálgast á Netinu eftir því sem við á. Einnig vísar það til þess að ríkið vinni sem ein heild eða eitt samhæft net en slík samhæfing er lykilatriði til að bæta megi opinbera þjónustu, auka skilvirkni og stuðla að öflugri framþróun.

 

Stefnunni verður hrint í framkvæmd á árunum 2008-2012. Til þess að árangur náist þurfa lykilstjórnendur í ráðuneytum og stofnunum að tileinka sér innihald hennar og fylgja henni eftir af einurð. Þessu verkefni er ekki hægt að vísa alfarið til tæknimanna því í grunninn snýst innleiðingin um eðlilega þróun og nútímavæðingu stjórnsýslunnar. Það er sjálfsagt að þjónusta opinberra stofnana taki mið af þörfum samfélagsins og því tæknistigi sem þjóðin er á. Því þurfum við að gera fólki kleift að afgreiða sig sjálft á Netinu þegar því hentar og þar sem því hentar. Við það sparast mikill tími og biðraðir og bið í stofnunum heyra sögunni til. Um leið leggjum við lóð á vogarskál umhverfisverndar því ferðum fólks milli opinberra stofnana fækkar. Á tuttugustu og fyrstu öldinni eiga gögn að ferðast milli stofnana en ekki fólk.

 

Ágætu ráðstefnugestir,

Nú liggur fyrir hvernig áformað er að nýta upplýsingatæknina til að þróa og nútímavæða stjórnsýsluna á næstu árum. Á hverju sviði eða stofnun eru sértæk úrlausnarefni og mun þar reyna á frumkvæði og hugkvæmni starfsmanna við að finna bestu leiðir. En margir þættir eru þess eðlis að mikilvægt er að stofnanir og ráðuneyti vinni saman til að niðurstaðan verði samhæft og skilvirkt kerfi sem endurspeglar heiti stefnunnar, Netríkið Ísland.

 

Ég óska þess að dagskrá ráðstefnunnar sem nú er að hefjast verði ykkur gott veganesti og að henni lokinni hefjist kraftmikil framkvæmd hinnar nýju stefnu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta