Ávarp forsætisráðherra við minningartónleika um Einar Odd Kristjánsson á Flateyri 12. júlí 2008
Kæra Sigrún Gerða, ágæta fjölskylda, góðir gestir!
Það er hátíðleg stund hér á Flateyri í dag. Tilefnið þekkjum við öll. Fráfall Einars Odds fyrir ári síðan var hörmulegt en í dag erum við hér saman komin til að minnast hans og til að horfa fram á veg. Einar Oddur lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Þess vegna var hann vinsæll og vel látinn. Hann hafði einlægan áhuga á að efla og auðga mannlífið úti í hinum dreifðu byggðum víðs vegar um landið. Hann laðaði fólk að sér með framkomu sinni og hann var áhugasamur hlustandi sem jók honum fróðleik og víðsýni. Flestir þekktu Einar Odd sem umsvifamikinn athafnamann, forystumann í hópi vinnuveitenda og sem stjórnmálamann. Færri þekktu hina hliðina á honum, menningarhliðina, tónlistarunnandann, manninn sem mætti á alla tónleika og listviðburði og sem keypti flygilinn í mötuneyti frystihússins; fagurkerann. Einar hafði næman skilning á því að hágæða menning væri mikilvæg forsenda þess að búseta á landsbyggðinni teldist eftirsóknarverð á tímum breyttra atvinnuhátta. En jafnframt var hann meðvitaður um að gera yrði menntuðu listafólki kleift að stunda list sína úti á landi og að koma henni á framfæri við landsmenn alla og helst einnig utan landsteinanna. Hann studdi því heilshugar þær hugmyndir að stjórnvöld aðstoðuðu stærri bæjarfélög á landsbyggðinni við að reisa vel búin menningarhús þar sem unnt væri að stunda alhliða menningarstarfsemi af háum gæðum. Með þeim myndu skapast ný og betri tækifæri til fleiri atburða og aukinna gæða. En hann lét ekki þar við sitja. Hann gekk til samstarfs við Jónas Ingimundarson, okkar ástsæla píanóleikara, Bjarka Sveinbjörnsson útvarpsmann, framkvæmdamanninn Víglund Þorsteinsson og Vigdísi Esradóttur forstöðumann Salarins í Kópavogi um að þróa nýjar og djarfar hugmyndir í þessum efnum. Öll höfðu þau einlægan áhuga á að efla og breiða út í fjölvarpi það fjölbreytta starf sem fram fer á menningarsviðinu um allt land. Í þessum hópi fæddust m.a. hugmyndir um miðlun menningarviðburða á landsbyggðinni, hljóðritanir þeirra, útsendingar og varðveislu. Hugmyndir Einars Odds og félaga gengu í sem allra stystu máli út á að þétta FM-dreifikerfið til að unnt væri að efla beinar útsendingar frá menningarviðburðum og að keyptur yrði sérútbúinn upptökubíll til að senda beint út menningarefni utan af landi. Einnig að hin svokallaða Rondó rás Ríkisútvarpsins yrði efld og vistuð hjá fyrirhuguðu Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi, sem jafnframt hefði umsjón með að yfirfæra allar hljóðritanir RÚV á stafrænt form til varðveislu og nýtingar. Loks taldi hópurinn að það það væri mikilvægt hlutverk atvinnufyrirtækja í hverju byggðarlagi að leggja sitt af mörkum til eflingar menningu í sinni heimabyggð. Það gætu þau gert með því að standa straum af kostnaði við útsendingar helstu viðburða með sérstökum samningi og að leggja fram sína sérþekkingu á sviði sölu- og markaðsmála. Einar Oddur taldi þessar hugmyndir mikilsverðar til eflingar allri menningarstarfsemi í landinu og raunar bráðnauðsynlegar fyrir starfið í nýju menningarhúsunum. Með þessu móti væri unnt að miðla þessari menningarstarfsemi til landsmanna allra og styrkja það sem kalla mætti sjálfbæra menningu í landinu. Einar Oddur kynnti hugmyndir hópsins veturinn og vorið 2007 fyrir ýmsum ráðamönnum þjóðarinnar og mætti hvarvetna allgóðum skilningi. Nú er mikilvægt að halda þessum hugmyndum lifandi en þeim fylgir hins vegar nokkur kostnaður og þær þurfa sinn tíma til að mótast að fullu. Ég vil nota þetta tækifæri til að láta þess getið að núverandi ríkisstjórn mun áfram vinna að þessu máli, en að því munu þurfa að koma menntamála- og samgönguráðuneyti og e.t.v. fleiri ráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum eins og RÚV og fjarskiptasjóður. Að sjálfsögðu þarf síðan að tryggja fjármögnun til málsins á næstu árum og hugsanlega breyta lögum. Vona ég að draumur Einars Odds og félaga í þessu efni muni rætast í fyllingu tímans. Góðir gestir. Ég man glöggt úr athöfninni í Hallgrímskirkju fyrir ári síðan hvernig sr. Hjálmar Jónsson vitnaði í orð Einars sjálfs, sem hann lét falla í kjölfar snjóflóðanna hörmulegu hér á Flateyri árið 1995: „Við sem eftir lifum, við verðum að halda áfram með þetta líf.“ Fátt veit ég betra í þeirri viðleitni en að njóta góðrar tónlistar og nú fáum við að hlýða á þá stórkostlegu félaga Jónas Ingimundarson og Kristin Sigmundsson.
Takk fyrir.