Útskrift meistaraprófsnema í lýðheilsufræðum frá HR
Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra
Ávarp við útskrift meistaraprófsnema í lýðheilsufræðum í HR
30. ágúst 2008.
Ágætu útskriftarnemendur, rektor, góðir gestir.
Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessum merka áfanga í lífi ykkar, þegar þið útskrifist með meistarapróf frá kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.
Ég hef fylgst með störfum Háskólans í Reykjavík og veit að hér ríkir mikill metnaður og jákvæð orka. Þá veit ég að deildin ykkar hefur staðið sig gríðarlega vel í uppbyggingarstarfi sínu, - farið nýjar leiðir með samstarfi við virta erlenda háskóla, og lagt alúð við markmið sín um að standa framarlega á alþjóðavettvangi í rannsókum og kennslu – og ekki síst þegar náð verulegum árangri í að hafa áhrif á menntun og heilsu þjóðarinnar.
Ég veit að þeir kennarar sem útskrifast héðan koma til með að bæta íslenskt skólakerfi – ekki síst koma þeir til með að hafa jákvæð áhrif á kennslu í stærðfræði.
Það er þó ekki launungarmál að áhugi minn á deildinni byggir ekki síst á því að hér var farið af stað með nám í lýðheilsufræðum í fyrsta sinn á Íslandi, - en lýðheilsa og efling hennar eru mér mjög hugleikin og ég hef í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra lagt sérstaka áherslu á þennan þátt heilbrigðismála.
Áherslur heilbrigðisþjónustunnar hafa í gegnum tíðina beinst mest að því að meðhöndla bráðasjúkdóma og koma í veg fyrir hættulega smitsjúkdóma. Það er að mörgu leyti eðlilegt þar sem afleiðingar þeirra eru oftast mjög alvarlegar ef ekkert er að gert. Það eru ekki mjög margir áratugir síðan fólk á Íslandi dó úr skorti og einföldum sýkingum. Á þessu hefur tekist að ráða bót. Nú er það ekki skortur heldur fremur ofgnótt sem herjar á heilsu landsmanna. Og satt að segja gengur okkur ekki nógu vel að ráða við afleiðingarnar.
Meiri hluti heilbrigðisútgjalda nú fer í meðferð langvinnra sjúkdóma. Og þótt við þekkjum ekki aðferðir til að fyrirbyggja þá alla, vitum við þó að með réttum lifnaðarháttum getum við fyrirbyggt hluta þeirra og dregið verulega úr afleiðingum margra annarra. Þetta þarf ekki að segja þeim sem hér eru.
Hjá nágrönnum okkar í Bandaríkjum Norður Ameríku hefur aukning í offitu og afleiddum sjúkdómum verið gríðarleg á undanförnum árum. Hér á landi hefur þróunin verið í sömu átt þótt hún sé ekki komin á sama stig og vestra. Sem heilbrigðisráðherra hlýt ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva þessa þróun og snúa henni við. Annað væri ábyrgðarleysi og ávísun á gríðarlegan vöxt heilbrigðisútgjalda innan fáeinna áratuga.
Markmið ykkar um að hafa áhrif á menntun og heilsu fólks er skýrt og til eftirbreytni. Ekki síst hefur frumkvæði ykkar með því að bjóða upp á nám fyrir grunnskólanemendur í stærðfræði mælst vel fyrir. Eins hefur forvarnarstarf á ykkar vegum í þágu ungmenna, - bæði hér á landi og erlendis, vakið mikla athygli.
Mest áhrif komið þið þó eflaust til með að hafa í gegnum nemendur ykkar. Boðskapur og þekking skólans hríslast út í samfélagið, með sérhverjum nemanda sem frá honum fer.
Okkur veitir sannarlega ekki af því að sú þekking sem þið, ágætu útskriftarnemendur, hafið aflað ykkur í námi hafi áhrif á samfélagið allt; bæði á sviði mennta – en ekki síður á sviði heilbrigðismála.
Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju með þennan stóra áfanga og óska ykkur velfarnaðar í leik og starfi.
(Talað orð gildir)