Skýrsla Geirs H. Haarde forsætisráðherra um efnahagsmál á Alþingi 2. september 2008
Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að fá tækifæri hér við upphaf þessa þingfundar, sem til er boðað í byrjun september samkvæmt nýjum þingskapalögum, til að gera þingheimi grein fyrir stöðu og horfum í efnahagsmálum um þessar mundir. Tel ég eðlilegt að hefja þingstörfin nú með slíkum umræðum í ljósi þess hve efnahagsástandið hefur breyst hratt til hins verra undanfarna mánuði.
Efnahagsvandi okkar Íslendinga er að segja má tvíþættur. Í fyrsta lagi glímum við við hefðbundinn samdrátt í kjölfar mikilla uppgangstíma sem fært hafa þjóðinni betri lífskjör en nokkru sinni fyrr. Gengi krónunnar, sem almennt var talið of hátt skráð um nokkra hríð, lækkaði hratt fyrri hluta ársins með þeim afleiðingum að verðlag hækkaði og kaupmáttur rýrnaði. Hafa verður hugfast að þrátt fyrir kaupmáttarskerðingu undanfarinna mánaða er staðan enn sú að lífskjör eru hér jafngóð og þau voru fyrir rúmum tveimur árum og höfðu þau þá aldrei verið betri.
Á hinn bóginn er við að fást afleiðingar alþjóðlegar fjármálakreppu í kjölfar erfiðleika á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum. Þetta ástand hefur haft alvarlegar afleiðingar víða í nálægum löndum og lýst sér í miklum erfiðleikum og jafnvel gjaldþrotum virtra lánastofnana og mikilli áhættufælni fjárfesta sem gert hefur öllum erfitt fyrir um lánsfjáröflun. Augljóst er að slíkt ástand hlaut að hafa áhrif hér á landi miðað við hversu opið okkar hagkerfi er orðið gagnvart fjármagnsflutningum milli landa og hversu stórir íslensku bankarnir eru orðnir miðað við hagkerfið í heild.
Þessu til viðbótar hefur heimsbyggðin þurft að horfast í augu við stórfelldar hækkanir á olíumörkuðum og verði matvæla og annarra hrávara.
Undanfarin ár hafa verið okkur Íslendingum sérstaklega hagfelld. Kaupmáttur hefur vaxið mikið og stöðugt fleiri stoðum hefur verið skotið undir efnahagslífið. Þessi aukna fjölbreytni tryggir betur en áður sjálfbærni þess og þá um leið velferð Íslendinga til langframa.
Mjög mikilvægt er að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki ein á báti í þessu efnahagslega umróti. Fjármálaráðherra Bretlands lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að efnahagslægðin þar í landi væru sú dýpsta frá lokum síðari heimsstyrjaldar og að allt að tvær milljónir Breta ættu á hættu að missa vinnuna fyrir næstu jól. Í Danmörku riða rótgrónar fjármálastofnanir á borð við Hróarskeldubanka til falls og í Bandaríkjunum hafa þegar orðið stór gjaldþrot sem rekja má beint til fjármálakreppunnar sem nú skekur heimsbyggðina.
Það er líka óhjákvæmilegt að þessar hræringar komi fram í vaxandi verðbólgu í heiminum, hér á landi sem annars staðar, og stöðugt auknu álagi á hagstjórnina. Ísland er langt því frá eitt að finna fyrir vanmætti hagstjórnar gegn ástandinu. Við þurfum líka að átta okkur á því að í þessum efnum eru engar töfralausnir til. Engin ríkisstjórn nokkurs staðar í heiminum er fær um að veifa töfrasprota til að rétta efnahagslífið við, ekki sú íslenska, ekki sú breska og ekki sú bandaríska. Margir þeirra sem farið hafa mikinn í umræðu um efnahagsmál hér á landi á síðustu mánuðum virðast ekki hafa áttað sig á þessum veruleika.
Almenningur á Íslandi, líkt og annars staðar í heiminum, finnur óhjákvæmilega fyrir hinum alþjóðlegu þrengingum. Við finnum fyrir þeim á bensínstöðinni, í matvörubúðinni og þegar við borgum af húsnæðislánunum okkar. Það er bæði erfitt og sársaukafullt að sætta sig við versnandi lífskjör en hitt er þó sýnu verra að neita að rifa seglin þegar ágjöfin er mikil eins og nú. Íslenska þjóðin er ekki óvön því að takast á við erfiðleika og við munum vinna bug á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. En það krefst þolinmæði og þrautseigju. Þetta tekur tíma, við þurfum öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð.
Í þessum þrengingum er gott að hugsa til þess að íslenska þjóðin, almenningur, fyrirtæki og ríkissjóður, hafa aldrei verið eins vel í stakk búin til að standast ágjöf í efnahagslífinu. Við notuðum uppgangstímann til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, safna í digra sjóði og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og þar með verðmætasköpunina í þjóðfélaginu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hitti nefnilega naglann á höfuðið í nýrri skýrslu sinni þar sem hann segir að efnahagslegar framtíðarhorfur Íslands séu öfundsverðar. Lífskjör hér á landi munu batna hratt á nýjan leik þegar við erum komin í gegnum yfirstandandi erfiðleika. Sá lífskjarabati mun ekki byggjast á lánum, töfrabrögðum eða skyndilausnum, heldur aukinni framleiðslu og nýtingu mannauðs og annarra auðlinda.
Við Íslendingar erum góðu vön og eftir eitt lengsta, samfellda hagvaxtarskeið sögunnar hefur hagkerfið hægt á. Það lá fyrir að það mundi gerast þegar lotu virkjunar- og álversframkvæmda lyki. En enginn sá fyrir þær þrengingar sem átt hafa sér stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og afleiðingar þeirra fyrir Ísland. Eðli hagkerfa er einfaldlega að ganga í gegnum samdráttarskeið eftir löng hagvaxtarskeið. Eftir langhlaup þurfa jafnvel bestu hlauparar að stoppa og ná andanum áður en haldið er af stað á nýjan leik.
Ekki þarf að hafa mörg orð um það, herra forseti, hversu miklum stakkaskiptum íslenskt samfélag hefur tekið á síðustu tveimur áratugum. Aldrei í sögunni hefur kaupmáttur aukist jafnmikið, menntunarstig þjóðarinnar hefur vaxið jafnt og þétt og við sýndum þá ábyrgð að greiða niður skuldir ríkissjóðs þegar vel áraði. Það ber vott um fyrirhyggju og ráðdeild. Sökum þessa stöndum við frammi fyrir núverandi áskorunum í efnahagslífinu með mikil og góð vopn í höndum, vel menntaða þjóð, fleiri styrkar stoðir undir atvinnulífinu, skuldlausan ríkissjóð og digra sjóði.
Höfuðviðfangsefnið nú er að setja fram trúverðugar lausnir og fylgja eftir markaðri stefnu af ákveðni og yfirvegun. Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa sannarlega tekið á þrengingum í efnahagslífinu af festu og gert það sem í þeirra valdi stendur til að vinna að lausn vanda síðustu mánaða. Stjórnarandstaðan og aðrir efasemdamenn hafa sakað ríkisstjórnina um aðgerðaleysi í efnahagsmálum. Þær ásakanir eru ekki á rökum reistar. Á síðustu mánuðum hafa mörg og markviss skref verið tekin til að sporna við áhrifum fjármálakreppunnar á íslenskt efnahagslíf.
Seðlabankinn hefur á árinu rýmkað reglur um veð í reglulegum viðskiptum hans við fjármálastofnanir. Veðhæfum eignum hefur verið fjölgað og með því hefur viðskiptaumhverfi íslenskra banka breyst í átt til þess sem tíðkast í nálægum löndum. Reglur Evrópska seðlabankans hafa einkum verið hafðar hér til hliðsjónar. Útistandandi fjárhæð veðlána er nú rúmlega 400 milljarðar króna og hefur hækkað undanfarin missiri líkt og gerst hefur annars staðar.
Í maí gerði Seðlabanki Íslands gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur sem fela í sér bakstuðning bankanna og styrkir gjaldeyrissjóð Seðlabanka Íslands með þeim hætti um 180 milljarða.
Seinna í maí heimilaði Alþingi ríkissjóði að taka allt að 500 milljarða króna að láni, erlendis og innan lands, til að styrkja gjaldeyrisforðann enn frekar. Þessa heimild er nú verið að nýta í áföngum.
Í júní var tilkynnt um ráðstafanir tengdar Íbúðalánasjóði sem veita fjármálafyrirtækjum möguleika á að koma húsbréfum í verð og bæta þannig lausafjárstöðu sína. Þetta kemur einkum smærri aðilum á fjármálamarkaði til góða.
Í lok júní var tilkynnt um 75 milljarða króna skuldabréfaútgáfu ríkisins sem var mikilvægt skref til að laða að erlenda fjárfesta til Íslands og auka gengisstöðugleika. Hefur þetta þegar skilað góðum árangri.
Í byrjun júlí voru felld niður stimpilgjöld vegna kaupa á fyrstu íbúð. Sú aðgerð dregur úr kostnaði við íbúðakaup og er til þess fallin að glæða fasteignamarkaðinn og auðvelda ungu fólki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og það er athyglisvert að í morgun var tilkynnt að bresk stjórnvöld hefðu hugsað sér að ráðast í nákvæmlega sambærilega aðgerð.
Í lok júlí var gjaldeyrisvarasjóðurinn aukinn um liðlega 12% með víxlaútgáfu ríkissjóðs.
Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í 15% á þessu ári og búa íslensk fyrirtæki nú við einna lægsta skatta í álfunni, sem aftur endurspeglast í samkeppnishæfni þeirra til langs tíma litið.
Þá hefur samist um að Ísland verði aðili að samkomulagi Evrópusambandsþjóða um viðbrögð við fjármálakreppu til þess að auka fjármálastöðugleika á Evrópska efnahagssvæðinu.
Nú þessa dagana er verið að ganga frá nýju gjaldeyrisláni að að fjárhæð a.m.k. 250 milljónir evra, á kjörum sem eru mun hagstæðari en svokallað skuldatryggingarálag á ríkissjóð gefur til kynna. Það atriði er að sjálfsögðu mjög mikilvægt frá sjónarhóli skattgreiðenda en ekki síður annarra lántakenda á markaðnum og sýnir enn á ný hve skuldatryggingarálög á alþjóðlega fjármálamarkaðnum geta verið fjarri raunveruleikanum.
Gjaldeyrisforðinn nam um 200 milljörðum króna í lok júní sl. Í júlí og ágúst var hann stækkaður í nokkrum áföngum og nam í lok ágúst um 300 milljörðum. Með hinu nýja láni, sem ég greini nú frá ásamt með áðurnefndum gjaldeyrisskiptasamningum og lánalínum ríkissjóðs og Seðlabankans, nemur forðinn nú jafnvirði rúmlega 500 milljarða króna. Á miðju ári 2006 var hann rúmlega 100 milljarðar króna á sambærilegu gengi. Gjaldeyrisforði okkar hefur því fimmfaldast á þessum stutta tíma og er nú hlutfallslega mun meiri en í flestum nágrannalöndum ef miðað er við landsframleiðslu. En það er eins og þeir sem nú tala mest um að auka þurfi gjaldeyrisforðann séu ekki alltaf með á nótunum.
Herra forseti. Allar þessar aðgerðir virka saman að lausn vandans. Áfram er unnið að mörgum öðrum atriðum sem öll miða að því að mæta hinum tímabundna vanda okkar. Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að taka á vandanum til skemmri tíma og auka stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Fjárlagafrumvarpið og stefnuræða mín í byrjun október munu bera þess merki. Ríkisstjórnin hefur forðast innihaldslausar upphrópanir sem engu skila og eru síst til þess fallnar að treysta trúverðugleika okkar, inn á við sem út á við. Í efnahagslegu umróti eru yfirvegaðar aðgerðir mikilvægari en upphrópanir og úrtölur.
Allar þessar aðgerðir, sem ég hef minnst hér á sem og annað sem er í athugun, miða í fyrsta lagi að því að draga úr lausafjárerfiðleikum fjármálastofnana til skemmri tíma, í öðru lagi að því að auka fjármálalegan stöðugleika til frambúðar og í þriðja lagi að því langtímamarkmiði að skjóta traustum stoðum undir framtíðarhagvöxt og þar með bætt lífskjör í landinu.
Undanfarið hefur verðbólgan aftur látið á sér kræla. Nú eru orsakirnar aðrar en á árum áður. Allt er til þess vinnandi að ná niður verðbólgu áður en víxlhækkanir verðlags og launa, sem við þekkjum frá áttunda og níunda áratugnum, grafa um sig á nýjan leik. Margt bendir til þess að frá og með haustinu gangi verðbólgan tiltölulega hratt niður ef ekki verða óvænt áföll. Við þær aðstæður gætu vextir einnig lækkað hratt og fyrirtækin í landinu á ný ráðið fleira fólk til starfa.
Það hefur vissulega gefið á bátinn að undanförnu og andstreymið verið töluvert. Það gerist á sama tíma að olíuverð nær nýjum hæðum, hrávara og matvæli hækka í verði og krónan gefur eftir á gjaldeyrismarkaði með tilheyrandi hækkun innflutningsverðlags, eins og ég áður rakti. Þessi þróun er því miður ávísun á tímabundna kjaraskerðingu.
Til að mæta þessu er mikilvægt að allir sýni skilning. Ríkisstjórnin mun leita samráðs og hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og fleiri til að ná sem bestri samstöðu í þessari baráttu. Full ástæða er til að hvetja heimilin í landinu til að sýna aðhaldssemi og það rétt er að halda því til haga að í verðbólgu er fátt skynsamlegra en að borga niður skuldir og leggja fé til hliðar ef þess er nokkur kostur. Þannig sláum við ekki aðeins á verðbólgu heldur styrkjum um leið eignastöðu heimilanna sem skilar aftur auknum hagvexti og stöðugleika þegar fram í sækir.
Við erum öll á sama báti í þessum málum. Um þessar stundir er mikilvægasta framlag hvers okkar að ná niður verðbólgu sem er versti óvinur heimilanna í landinu. Ekkert viðfangsefni á sviði efnahagsmála skilar okkur meiri arði en að kveða niður verðbólgudrauginn. Fyrsta skrefið er að sjálfsögðu að greina aðstæður rétt. Þær birtast okkur vissulega sem krefjandi verkefni en ekki neyðarástand eða raunveruleg kreppa eins og Íslendingar kynntust fyrr á árum.
Við getum hins vegar fagnað því að verðbólgan stafar um þessar mundir ekki af eitraðri víxlverkun launa og verðbólgu heldur fyrst og fremst af hækkun innflutningsverðlags. Þetta er lykilatriði í allri umræðu um þessi mál. Verðbólgu sem má rekja til hækkun innflutningsverðlags verður einfaldlega skjótar hrundið þar sem hún lækkar á ný þegar krónan nær nýju jafnvægi. Því er brýnt að allir sem hlut eiga að máli standist þá freistingu að hækka verð en bíði þess í stað af sér storminn. Það er ábati allra til langs tíma litið.
Í bakgrunni allra þessara hræringa er mikilvægt að muna að styrkur og sveigjanleiki þjóðarbúsins er mikill. Þótt þrenginga hafi orðið vart á vinnumarkaði upp á síðkastið megum við ekki gleyma því að langflestir Íslendingar geta gengið að fullri atvinnu með vissu. Þeir sem missa vinnuna geta treyst á netið sem sterkt velferðarkerfi býður upp á. Þeir geta treyst á sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar. Verið vissir um að atvinnuleysi verður hrundið með því að auka verðmætasköpun í landinu. Við munum aldrei sætta okkur við skerta möguleika fólks til að framfleyta fjölskyldum sínum og það er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja að hér eftir sem hingað til verði full atvinna fyrir vinnufúsar hendur í landinu.
Það er brýnt verkefni að auka verðmætasköpun í landinu með aukinni framleiðslugetu. Við verðum að nýta það sem okkur sem þjóð er gefið. Ekkert verður til úr engu. Allir þjóðir heims kappkosta að nýta auðlindir sínar á sem hagkvæmastan og skynsamlegastan hátt. Við getum ekki verið undantekning þar á. Það eru breyttir tímar í heiminum og við erum svo lánsöm, Íslendingar, að eiga dýrmætar orkuauðlindir. Með aukinni tækni og þekkingu ber okkur að nýta þær auðlindir á arðbæran hátt en jafnframt umhverfislega ábyrgan og sjálfbæran hátt. Besta leiðin til að vinna okkur út úr tímabundnum erfiðleikum er að framleiða, framleiða og aftur framleiða.
Auðlindir eru lítils virði nema þær séu nýttar á hagkvæman hátt og engin þjóð hefur efni á að vannýta auðlindir sínar. Besta andsvar okkar við núverandi þrengingum er að virkja auðlindirnar í auknum mæli með ábyrgum og sjálfbærum hætti, jarðhita jafnt sem vatnsafl. Það eru hagsmunir almennings í landinu að stjórnvöld liðki fyrir arðbærri nýtingu orkuauðlindanna.
Á síðustu árum höfum við, herra forseti, stóraukið fjárfestingu í menntun á háskólastigi og til langs tíma mun það heillaskref skila sér í hæfara vinnuafli og meiri hagvexti. Á tíu árum hefur háskólanemum fjölgað um ríflega 10 þúsund, úr 7 þúsund árið 1997 í rétt um 17.500 árið 2007. Þetta er fjárfesting til framtíðar.
Samhliða uppbyggingu orkugeirans á síðastliðnum árum höfum við lagt ofurkapp á að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar og auka áhættudreifingu. Þetta sést best í því að útflutningur fiskafurða og áls er nú jafnverðmætur. Nú eru tvær meginstoðir á útflutningshliðinni þar sem áður var aðeins ein. Auk þess hafa ferðamannaþjónustan og ýmsar aðrar greinar vaxið hratt á undanförnum árum. Við eigum að reyna að fjölga þessum stoðum enn frekar. Til þess eru ótal tækifæri fyrir hendi.
Verkefni stjórnmálanna er ekki síst að tryggja ramma til vaxtar og viðgangs atvinnulífs og mannlífs. Ég er sannfærður um að tímabundnar áskoranir munu reynast okkur lyftistöng til framtíðar ef við berum gæfu til að hagræða, endurskipuleggja, skapa ný tækifæri og nýta bæði auðlindir lands og sjávar. Við höfum lifað ótrúlega tíma uppgangs í heiminum en nú er kominn tími til að skerpa sýnina og lagfæra það sem betur má fara. Við vitum hvert við stefnum og að við munum komast í gegnum brimskaflinn.
Við megum aldrei gleyma því að á bak við kaldar hagtölur og þurrar skýrslur um þjóðarhag er fólk, venjulegir Íslendingar. Fólk sem sinnir sínum daglegu störfum, borgar reikninga og fylgist með börnum sínum og vinum við leik og störf. Íslenska þjóðin hefur áður lent í þrengingum og sigrast á þeim með dugnaði og elju sem einkennir þjóðina. Tækifærin eru fyrir hendi. Skuldlaus ríkissjóður, ung þjóð, öflugt lífeyrissjóðakerfi og miklar auðlindir gera okkur kleift að auka framleiðslugetu okkar, bæta við okkur menntun og ganga í forðabúrin til að mæta tímabundnum áföllum í efnahagslífinu. Þetta eru öfundsverð forréttindi sem við verðum að nýta að fullu, forréttindi og aðstaða sem margir öfunda okkur af, aðstæður sem margir vildu vera í. Við þurfum að nýta tækifærin öll sem eitt, enda höfum við séð á síðustu vikum hverju samhent liðsheild getur áorkað undir merki Íslands. Íslenska þjóðin mun leggjast samhent á árarnar í þessu máli og í sameiningu búum við okkur undir framtíðina, sameiginlega framtíð okkar allra.