Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. september 2008 HeilbrigðisráðuneytiðGuðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra 2009

Glímutök geðsjúkdóma á aðstandendum

Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp ráðherra á fundi Geðhjálpar,

Geðsviðs Landspítalans og Astra Zeneca

um aðstæður og upplifun aðstandenda geðsjúkra á Íslandi

18. september 2008

Grand Hótel kl. 19:00-21:00.

Ágætu fundargestir!

Ég vil byrja á að þakka Geðhjálp og Geðsviði Landspítalans fyrir að standa að þessum fundi um málefni aðstandenda geðsjúkra. Yfirskrift fundarins er „Glímutök geðsjúkdóma á aðstandendum“. Umræðuefnið er þarft, því margir hafa upplifað að náinn ættingi hafi greinst með geðsjúkdóm. Á þessum fundi verða kynntar tvær bækur um aðstandendur og geðsjúkdóma. Þær bækur eiga það sammerkt að fjalla um geðsjúkdóma og aðstandendur, sem er þarft viðfangsefni að fjalla um á breiðan og fordómalausan hátt. Ég fagna útgáfu þessara bóka. Þessi fundur og þessar bækur eru innlegg í þá þróun að gera umræðu um geðsjúkdóma og birtingarmyndir þeirra fordómalausa og eðlilega.

Ég vil upplifa samfélag þar sem enginn líður fyrir veikindi sín eða ættingja sinna. Þessi fundur og útgáfa þessara bóka er því þarft framtak til að stuðla að auknu umburðarlyndi hjá öllum í samfélaginu.

Í þessu samhengi er áhugavert að greina frá athyglisverðu þróunarverkefni sem fram fer á geðsviði Landspítalans og kallast „Fjölskyldubrú“. „Fjölskyldubrúin“ er nýtt meðferðarúrræði í þróun á geðsviði LSH.  Um er að ræða fjölskyldustuðning við foreldra sem glíma við geðræn vandamál sem veittur er af sérþjálfuðu fagfólki. Nauðsynlegt er að foreldrið sem glímir við geðsjúkdóminn sé í eftirfylgd hjá meðferðaraðila á geðsviði á sama tíma og fjölskyldustuðningur fer fram. Á geðsviði Landspítala hafa rúmlega 30 fjölskyldur fengið fjölskyldustuðninginn. Fjölskyldurnar hafa tekið þessum stuðningi fagnandi og talað um að hann sé tákn fyrir ný viðhorf í meðferðarnálgun sem þau hafi ekki fengið áður í veikindum sínum.

Annað verkefni sem ég vil nefna er að Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala hefur ákveðið að innleiða fjölskylduhjúkrun samkvæmt kanadísku fjölskylduhjúkrunarlíkani á allar deildir LSH á næstu misserum (2008-2010). Hjúkrunarfræðingar eru þjálfaðir til að eiga markviss, tillitssöm og batahvetjandi samskipti við aðstandendur og sjúklinga sem sækja þjónustu til spítalans. Í tengslum við þessa innleiðingu er umfangsmikil doktorsrannsókn í gangi á bráðageðdeildum LSH þar sem verið er að rannsaka árangur slíks stuðnings fyrir notendur og aðstandendur þeirra. Niðurstöður þeirrar rannsóknar verða kynntar á næsta ári.

Fyrir um þremur áratugum síðan, eða árið 1979 var félagið Geðhjálp stofnað. Tilgangur félagsins er að bæta hag þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða svo og aðstandenda þeirra. 

Geðhjálp er félag sem byggir á samhjálp og hefur starfsemi þess vakið verðskuldaða athygli. Geðhjálp hefur frá stofnun barist fyrir auknum réttindum þeirra sem hafa geðsjúkdóm og viðurkenningu sjúkdómsins í samfélaginu. Félagið hefur í gegnum tíðina stuðlað að aukinni þekkingu, umræðu og skilningi annarra í þjóðfélaginu á geðsjúkdómum og að geðfötluðum sé sýnd virðing og umburðarlyndi. Félag á borð við Geðhjálp eru afar mikilvægt fyrir þá sem eru geðfatlaðir, aðstandendur þeirra sem og samfélagið allt. 

Frá því að ég settist í stól heilbrigðisráðherra hefur mér orðið tíðrætt um gildi forvarna og heilsueflingar. Heilsuefling er í allra þágu. Ég legg hins vegar áherslu á að forvörnum skuli ávallt beint að skilgreindum hópi þar sem markmiðin eru skýr og aðgerðir raunhæfar. Ég tel að leggja beri enn meiri áherslu en gert hefur verið á forvarnir á sviði  geðheilbrigðis.

Við lifum í hröðum og síbreytilegum heimi þar sem við stöndum frammi fyrir ógnunum við heilsufar og lýðheilsu. Breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör, en jafnframt verðum við að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum. Þar má m.a. nefna aukna kyrrsetu, aukið áreiti, breytt mataræði, aukna félagslega einangrun og aukna vímuefnaneyslu sem nokkra orsakaþætti sem m.a. hafa leitt af sér offitu og tengda sjúkdóma og aukna tíðni geðraskana. Því er mótun Heilsustefnu og aðgerðir tengdar orsakaþáttum heilbrigðis í kjölfarið málefni sem færist ört framar á forgangslista heilbrigðisyfirvalda á Vesturlöndum. Þetta sést glöggt þegar litið er á hvernig forgangsmál Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa þróast á síðustu árum. Í þessu sambandi vil ég nefna að á næstu vikum verður kynnt sérstök heilsustefna heilbrigðisráðherra sem tekur mark á ofangreindum atriðum, þar á meðal eru atriði sem stuðla að meiri geðrækt.

Til að ná árangri þarf að hvetja fólk til jákvæðrar breytni og atlætis, gefa fólki tækifæri til að breyta sjálft og umbuna fyrir jákvæða breytingu á lífsháttum. Þannig getum við náð árangri í því að efla heilbrigði þjóðarinnar, með samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar. Það þarf að efla starf grasrótarinnar, hinna frjálsu félagasamtaka og treysta þarf samstarf þeirra við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess auk þess sem treysta þarf samstarf ólíkra fræðigreina.

Að mínu mati vex vitund okkar um geðsjúkdóma og afleiðingar þeirra mest með fordómalausri og hreinskiptinni umræðu, uppbyggilegri gagnrýni og virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra sem eitthvað hafa til málanna að leggja. Við þurfum að halda áfram baráttu gegn fordómum og við þurfum að leggja ríka áherslu á forvarnir. Talið er að um fjórðungur fólks þjáist einhvern tímann á ævinni af geðrænum vandamálum. Okkur er því öllum málið skylt. Við þurfum að gera fólki sem auðveldast fyrir að leita sér aðstoðar þegar hennar er þörf og vinna þannig gegn vandanum áður en hann verður djúpstæður og erfiður viðureignar. Ég fagna því að fordómar gagnvart þeim sem eiga við geðraskanir að stríða hafa farið minnkandi hin seinni ár.

Í þessu ljósi er vert að geta að alþjóðageðheilbrigðisdagurinn verður 10. október nk.. Þema alþjóða geðheilbrigðisdagsins í ár er að auka þekkingu og meðvitund um geðsjúkdóma í samfélaginu. Alþjóðageðheilbrigðisdeginum er ætlað að auka umræðu um geðsjúkdóma, forvarnir og meðferð við honum.

Ágætu gestir!

Mér sem heilbrigðisráðherra er efst í huga á þessari stundu þakkir til Geðhjálpar fyrir það óeigingjarna starf sem félagar þess hafa unnið til að auka skilning og þekkingu á geðsjúkdómum í þjóðfélaginu. Á bak við Geðhjálp standa einstaklingar sem hafa unnið gríðarlegt hugsjónastarf. Vil ég þakka þessum aðilum og öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg að auka þekkingu og skilning á geðsjúkdómum í þjóðfélaginu og um leið hjálpað þeim einstaklingum sem hafa greinst með geðsjúkdóm að lifa sem mest eðlilegu lífi með sjúkdómi sínum.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta