Framtíð lýðheilsu
Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra
Ávarp heilbrigðisráðherra á málþingi
Félags lýðheilsufræðinga
Grand Hotel Reykjavik 2. okt. 2008
Ágætu gestir.
Það er mér sönn ánægja að ávarpa hér fyrsta málþing Félags lýðheilsufræðinga. Þetta unga félag er vettvangur þeirra sem aflað hafa sér formlegrar menntunar í lýðheilsufræðum og er þar með nýjasti sprotinn á meiði lýðheilsustarfs á Íslandi sem hefur verið að eflast og vaxa undanfarin ár.
Fyrir um 8-10 árum var lýðheilsa nær óþekkt fræðigrein hér á landi, en nú hefur lýðheilsa svo sannarlega komist á kortið á Íslandi. Fyrsta stóra skrefið var stigið árið 2001 þegar stofnað var Félag um lýðheilsu sem hefur starfað af krafti æ síðan og átt þátt í að vekja athygli á málefnum lýðheilsu og þörf fyrir menntun í faginu á Íslandi. Næsta skref var stofnun Lýðheilsustöðvar árið 2003 og var þá formgert það starf sem unnið hafði verið á þessum vettvangi áður og nýjar áherslur kynntar til sögunnar. Síðan hófst meistaranámið í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík haustið 2005 og nú síðast við Háskóla Íslands haustið 2007. Ég fagna fjölgun lýðheilsufræðinga og tel það nauðsynlegt að því fólki fjölgi sem hefur menntun og kunnáttu til að starfa við þetta málefni hér á landi enda er það stefna stjórnvalda að auka veg lýðheilsustarfs í landinu og þessi liðsauki er því sérstaklega ánægjulegur.
Ég geri mér fulla grein fyrir mikilvægi þess að samræmd stefna í lýðheilsu sé fyrir hendi og að lýðheilsa er ekki aðeins heilbrigðismál í þröngum skilningi heldur að margir þættir hafa áhrif á heilsufar okkar. Þessir áhrifaþættir snerta líkamlegt og andlegt atgervi og félagslega þætti eins og samfélagsgerð og efnahag sem og skipulag og umhverfi. Allar stórar ákvarðanir sem teknar eru og hafa áhrif á umhverfi okkar, stöðu og aðbúnað, hafa jafnframt áhrif á heilsu.
Vísindalegri þekkingu á orsökum margra illvígra sjúkdóma hefur fleygt fram á síðustu áratugum, en því miður eru líka margir sjúkdómar sem við vitum ekki enn hvað orsakar og getum þar af leiðandi ekki læknað eða fyrirbyggt. Þó vitum við að lífsstíll hefur áhrif á heilsu fólks og þá sérstaklega að reykingar og hreyfingarleysi eru áhættuþættir fyrir m.a. hjartasjúkdóma og krabbamein sem valda flestum dauðsföllum. Samt er stærsta sjúkdómsbyrðin af völdum sjúkdóma sem eru ekki beint lífshættulegir í þeim skilningi eins og til dæmis bak- og gigtarsjúkdómar, en þar hefur lífsstíll einnig þýðingu, bæði sem forvörn og í sambandi við lífsgæði þeirra sem lifa með sjúkdóminn.
Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að ég legg mikla áherslu á það að við stuðlum að því að fyrirbyggja sjúkdóma og auka hreysti almennings. Til þess þurfum við að fara réttar leiðir.
Hinn frægi breski faraldsfræðingur Geoffrey Rose lýsir í bók sinni „The Strategy of Preventive Medicine“ frá 1992, þjóðfélagslegri nálgun við forvarnir sjúkdóma (population strategy). Kenning Rose gekk út á það að jafnvel litlar breytingar á lífsstíl gætu haft gífurleg áhrif á heilsufar almennings ef þær væru nógu útbreiddar. Þó kenning Rose sé ekki álitin gallalaus frekar en aðrar kenningar hefur hún haft mikil áhrif víða um lönd og þessi þjóðfélagslega nálgun hefur lagt grunn að mörgum forvarnaráætlunum. Rose var einnig þeirrar skoðunar að þar sem helstu áhrifavaldar sjúkdóma væru félagslegir og efnahagslegir yrði að ráðast gegn þeim með sömu meðulum, þ.e.a.s. félagslegum og efnahagslegum. Þegar um lýðheilsu væri að ræða væri semsagt ekki hægt að aðskilja ábyrgð stjórnmálanna og læknisfræðinnar.
Ég álít að við hér á Íslandi eigum að nýta okkur það sem best er vitað, og við þekkjum vel samhengið milli umhverfis og heilsu einstaklingsins. En ég lít ekki fram hjá því að forvarnir þurfa bæði að vera á breiðum grunni og ná til margra um leið og leita þarf uppi þá sem eru í sérstakri áhættu með sértækum aðgerðum og meðferð. Þannig er mikilvægt að allar aðgerðir til að hafa áhrif á heilsufar fólks séu vel studdar með þekkingu sem byggir bæði á læknisfræðilegum og faraldsfræðilegum rannsóknum.
Svokallað heilsumat eða það sem á ensku kallast Health Impact Assessment er þekkt og útbreidd tækni við að setja hlutina þannig í samhengi. Slíkt mat er nokkurs konar umhverfismat á heilsufari. Við metum áhrif stórra aðgerða á náttúruna með umhverfismati og því ætti þá ekki að gera slíkt hið sama um áhrif á heilsufar?
Þetta tæki, heilsumatið, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mælir með, beitir ýmsum aðferðum til að meta hvaða áhrif stefnumótandi verkefni eða aðgerðir geta haft á heilsufar landsmanna í heild eða á mismunandi hópa þeirra. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að geta fengið yfirsýn yfir þróun, dreifingu og alvarleika sjúkdóma og nýtt sér þar upplýsingar frá heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og víðar. Slík yfirsýn til viðbótar við sértækt mat eins og heilsumatið geta verið ómetanleg til þess að stefna og ákvarðanir hvíli á upplýstum grunni.
Undanfarið ár hefur farið fram vinna á vegum heilbrigðisráðuneytisins við að móta einmitt slíka stefnu í lýðheilsumálum þjóðarinnar. Á næstu vikum verður afrakstur vinnunnar kynntur og íslensk heilsustefna ásamt aðgerðaráætlun til næstu ára lítur dagsins ljós.
Stefnumörkunarvinnan og vinnan við aðgerðaráætlunina hefur farið fram með víðtæku samráði við marga aðila, sveitarfélög, opinbera aðila, hagsmunasamtök og almenna borgara. Markmiðið hefur fyrst og fremst verið að marka stefnu sem hvílir á vitneskju okkar um eðli og orsakir sjúkdóma ásamt reynslu og þekkingu í forvarnarstarfi sem eru samtvinnuð í skynsamlegar og áhrifamiklar aðgerðir til að bæta heilsu almennings.
Þetta málþing gefur góð fyrirheit um öflugt starf ykkar unga félags í framtíðinni og ég óska eftir góðu samstarfi við ykkur.
Takk fyrir
(Talað orð gildir)