Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. október 2008 HeilbrigðisráðuneytiðGuðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra 2009

Að sjálfsögðu kaupi ég slaufu

Þegar vel gengur hættir mönnum til að gleyma því að velgengnin kemur ekki af sjálfu sér.

Það var engan veginn sjálfgefið á sínum tíma að íslenskar konur sem greindust með brjóstakrabbamein árið 2008 gætu átt von á einni bestu meðferð og mestu lífslíkum sem vænta má í öllum heiminum. Þessi árangur kom ekki af sjálfu sér. Hann má þakka eljusemi frumkvöðlanna, óbilandi dugnaði og baráttuþreki sem fljótlega leiddi til stofnunar Krabbameinsfélagsins, sem tók baráttuna gegn krabbameini alvarlega. Þessi barátta var leidd áfram af djúpri þekkingu og miklum eldmóði sem smitaði frá sér um allt land.

Að sjálfsögðu má að hluta til rekja þessi áhrif til þess að alvarleiki sjúkdómsins og grimm örlög margra kvenna og fjölskyldna þeirra voru öllum ljós og því voru margir reiðubúnir til að styðja við starfsemina. Góður árangur af starfi Leitarstöðvarinnar hefur vakið athygli víða um heim. Með sama hætti hefur starfsemi krabbameinsskrárinnar vakið heimsathygli vegna vandaðrar vinnu sem hefur skapað grundvöll að frekari þróun.

Dugnaður og kraftur krabbameinsfélaganna sjálfra er ekki síður athyglisverður en mörg og stór skref í þessari þróun hafa byggst á elju og frumkvæði krabbameinsfélaganna. Nú er verið að stíga enn eitt skrefið sem mun gagnast öllum konum á Íslandi. Enn á ný er leitað til þjóðarinnar um stuðning með sölu á bleiku slaufunni. Ágóðinn verður notaður til að taka í notkun stafræna myndgreiningu við leit að brjóstakrabbameini, en það er tækni sem nú er verið að taka í notkun víða um heim. Þetta mun gjörbreyta og bæta möguleika til leitar og þar með auka möguleika íslenskra kvenna til að njóta áfram einhverrar bestu umönnunar sem þekkist í heiminum ef upp kemur grunur eða staðfesting á brjóstakrabba.

Um leið og ég fagna þessu átaki og þakka frumkvæði Krabbameinsfélagsins hvet ég alla til að styðja við þetta átak með því að kaupa bleiku slaufuna. Að sjálfsögðu mun ég kaupa slaufu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta