Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Stefnuræða Geirs H. Haarde forsætisráðherra 28. október 2008 - Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009

Frú/Herra forseti

Þær leiðir sem við veljum okkur í lífinu ráðast af gildum og gildismati. Þau eru eins konar áttaviti – kompás. Sameiginlegt gildismat, saga og menning styrkir stöðu okkar Norðurlandabúa vissulega í síbreytilegum heimi.

 

Hnattvæðingin er ferli sem kallar á sífellda sjálfsskoðun og endurmat á gildum og forgangsmálum. Þróun á alþjóðlegum fjármálamarkaði síðustu vikur hefur sýnt okkur hversu skjótt geta skipast veður í lofti – í þeim ólgusjó er meiri en nokkru sinni þörf fyrir norræn gildi og samstöðu.

 

Til grundvallar þeim stefnumiðum sem Ísland leggur til að fylgt verði í norrænu samstarfi á árinu 2009 undir fyrirsögninni Norrænn áttaviti eru gildi sem lengi hefur verið sátt um í norrænu samstarfi; frumkvæði, sköpunarkraftur, margbreytileiki og samábyrgð. Þau eru sem fyrr leiðarljós í því brýna verkefnið sem við stöndum nú frammi fyrir – að tryggja áfram samkeppnisstöðu Norðurlanda – og leggja lóð á vogarskálar í alþjóðasamstarfi til að samstaða náist um aðgerðir til að takast á við loftslagsvandann.

 

*

Á hnattvæðingartímum þegar samkeppni á alþjóðamarkaði um fjármagn, fólk og þekkingu er svo hörð sem dæmin sanna þarf að nýta sköpunar- og frumkvöðlakraftinn til hins ýtrasta. Án frumkvæðis og traustrar þekkingar missum við forskotið og stefnan verður mörkuð af öðrum.

Það hlýtur ævinlega að vera meginmarkmið okkar að samnýta sem best norræna sérþekkingu og tryggja samlegðaráhrif, ekki einungis á norrænum, heldur á hnattrænum mælikvarða. Metnaðarfullri norrænni áætlun um öndvegisrannsóknir, Frá Norðurlöndum til heimsins, verður hleypt af stokkum á árinu 2009. Í henni er lögð áhersla á þverfaglegt fræða- og frumkvöðlastarf og samstarf stofnana og fyrirtækja til að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og útrás atvinnulífs. Í fyrsta áfanga áætlunarinnar verða orku-, loftslags- og umhverfismál í brennidepli, en sú sérþekking sem norrænar þjóðir búa yfir á því sviði er auðlind fyrir allan heiminn sem brýnt er að koma á framfæri.

 

Sérþekking norrænna þjóða á heilbrigðis- og velferðarsviði er líka auðlind sem nýta má til frumkvöðlastarfs og útflutnings.Víðast hvar í heiminum er litið á norræna velferðarkerfið með sinn sveigjanleika sem hornstein að samkeppnisstöðu Norðurlanda. Á það verða ekki bornar brigður, því á sama hátt og þekking og vellíðan starfsfólks tryggir fyrirtækjum sterka stöðu – þá er sterkt velferðarsamfélag, með góðu skólakerfi og velferðarþjónustu, grundvöllur og aflvaki frekari hagvaxtar. Því er nauðsynlegt að þróa áfram norræna velferðarkerfið svo þau gildi sem það byggir á styrki áfram borgara og fyrirtæki í opnu alþjóðlegu hagkerfi. Íslendingar munu á formennskutímanum undirbúa næsta áfanga í norrænni áætlun um öndvegisrannsóknir og nýsköpun, þar sem sjónum verður einmitt beint að heilbrigðis- og velferðarmálum.

 

Með sterku samnorrænu háskólakerfi, nýsköpunarkrafti og virkri aðkomu atvinnulífs að rannsóknar- og frumkvöðlastarfi má skapa flæði hugmynda og fjármagns og byggja upp klasastarfsemi – agóratorg frumkvöðla og fræðimanna. Þrjár norrænar rannsóknastofnanir gegna lykilhlutverki í þessu samhengi, Norræna rannsóknaráðið, Norræna nýsköpunarmiðstöðin og Norrænar orkurannsóknir. Íslendingar leggja mikið kapp á að treysta innbyrðis samstarf þessara stofnana, og tengsl þeirra við nýsköpunarmiðstöðvar í löndunum og við atvinnulífið. Þá er einnig forgangsmál að efla hlut listmennta og þverfagleg tengsl þeirra við hefðbundin fræðasvið háskólanna svo hugmyndauðgi og sköpunarkraftur geti verið aflvaki í menningartengdum atvinnugreinum. Þar hafa Norðurlönd allar forsendur til að ná forystu.  

*

Íslendingar og aðrar þjóðir á norðurslóð hafa ekki farið varhluta af afleiðingum loftslags-breytinga. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á loftslagsvandanum, en ekki verður tekist á við hann nema í skuldbindandi alþjóðasamstarfi. Það er því verðugt verkefni fyrir Norðurlönd að vera ötulir málsvarar náttúrunnar á alþjóðavettvangi, ekki aðeins í orði heldur á borði.
Á formennskutíma Íslands verða umhverfis- orku og loftslagsmál í brennidepli í öllu fjölþjóðlegu starfi á vegum ráðherranefndarinnar.

 

Norrænu ríkin búa yfir víðtækri tækniþekkingu til að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og stýra orkunotkun til hagsbóta fyrir umhverfið. Þeirri þekkingu þurfum við að koma á framfæri til hagsbóta fyrir alla jarðarbúa.

 

Íslendingar eru stoltir af því að norrænu umhverfisverðlaunin skuli nú koma í hlut íslenska fyrirtækisins Marorku. Það hefur í anda helstu stefnumiða Íslendinga í norrænu samstarfi þróað tækni til að draga úr mengandi orkubrennslu skipa og þar með mengun á höfunum. Þessi tækni nýtist öllum heiminum í baráttunni gegn loftslagsvandanum og er jafnframt árangur af árangursríku rannsóknarstarfi sem fjármagnað hefur verið með framlögum úr íslenskum og norrænum sjóðum.

 

*

Við Íslendingar höfum löngum litið á okkur sem útverði norræns samstarfs í vestri. Við tökum líka það hlutverk alvarlega að standa vörð um lífríki og lifandi auðlindir hafsins. Sá vandi sem nú steðjar að vegna loftslagsbreytinga, mengunar og aukinnar sóknar í náttúruauðlindir, setur okkur enn meiri ábyrgð á herðar. Hafið er hálft föðurland okkar sem búum við Norður-Atlantshafið. Ísland liggur í miðju hafstraumabelta Golfstraumsins úr suðri og strauma úr norðurhöfum sem skapað hafa auðug fiskimið. Breyting í hafstraumum getur haft afgerandi áhrif á afkomu og lífsskilyrði þjóða á norðurslóð.

 

Aukin sókn í náttúruauðlindir á heimskautasvæðunum og auknar siglingar í norðurhöfum þar sem nýjar leiðir eru að opnast milli Evrópu og Asíu skapa bæði tækifæri og hættur. Íslendingar leggja ríka áherslu á að þegar verði hafist handa við gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið. Slíkt vákort er grundvöllur samræmdra og skipulagðra viðbragða skapist hættuástand fyrir lífríki hafsins. Þetta er að sönnu stórt verkefni en afar brýnt. Norðurlöndum ber að takast það á hendur sem lið í framtíðarstefnumótun um verndun hafsins.

 

* Frú/herra forseti

Ut vil ek – þessa setningu skilja vonandi allir Norðurlandabúar. Snorri Sturluson, höfundur Eddu, Heimskringlu og Egils sögu,  lét svo ummælt þegar Noregskonungur bannaði honum för heim til Íslands. Í seinni tíð hafa Íslendingar víkkað út merkingu þessa gullna orðtaks – og líka notað það um útrás Íslendinga á alþjóða fjármálamarkað sem að sönnu hefur verið þeim afdrifarík. En ég vil nota þau hér til að minna á að sjálfsmynd og samkennd okkar Norðurlandabúa felst að stórum hluta í tungunni, sameiginlegri sögu, menningu og sama gildismati eins og ég kom inn á hér í upphafi.
Á norrænu málsvæði eigum við að setja norræn tungumál í forgang í samskiptum og stuðla að gagnkvæmum skilningi með því að nota tungumálin í skólakerfinu og vera ötul við að miðla norrænni menningu. Við verðum að horfa til sameiginlegrar fortíðar okkar um leið og við treystum samstöðuna og horfum fram á veginn. Í því tilliti er mér gildi margbreytileikans hugleikið. Fjölbreytileiki mannfólksins – vinnandi fólks, fyrirtækja og þjóða. Norræn menningin er ekki heilög kýr. Reynslan sýnir að þar sem ólík menning blandast í góðum vilja og sköpunargleði - þar gerist eitthvað nýtt og óvænt. Það er því fremsta skylda okkar að hlúa að lifandi menntun og menningu og efla félagsauðinn. Við þurfum ekki síst á því að halda nú þegar á móti blæs. Jafnframt verðum við í verki að styrkja frændsemi og samkennd norrænna þjóða – því nú sem fyrr eru það hin raunverulegu gildi sem munu vísa okkur veginn. 

 

Reykjavík 28. október 2008

 

Ræðan á norsku:

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta