Afkoma heimilanna - utandagskrárumræða á Alþingi 6. nóv. 2008
Talað mál gildir
Framsaga Geirs H. Haarde forsætisráðherra
Herra forseti
Ég hyggst nota þetta tækifæri í dag til að gera grein fyrir margvíslegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem ákveðnar hafa verið eða eru í undirbúningi til að létta undir með fjölskyldum og heimilum við að komast í gegnum það gríðarlega mótlæti sem er afleiðing einhverrar dýpstu og alvarlegustu lánsfjárkreppu sem riðið hefur yfir heiminn.
Þau áföll sem orðið hafa gera það að verkum að útlitið framundan er dökkt og við megum búast við miklum erfiðleikum. Á það dreg ég enga dul. Margir velta því fyrir sér hvenær við förum að sjá til sólar á nýjan leik. Það getur enginn sagt til um með vissu. Enginn veit það með nákvæmni núna hvenær sá tímapunktur kemur vegna þess að hann er mörgu háður en við gerum okkur vonir um að í lok árs 2009 verði mesti vandinn að baki og strax á árinu 2010 taki að rofa til á ný. Yfirlit Alþýðusambandsins um efnahagshorfur og fleiri aðila bendir einnig til þessa.
Margs konar erfiðleikar eru framundan. Ég hef rakið þá hér í þingræðum oftar en einu sinni að undanförnu. Landsframleiðsla okkar Íslendinga er talin geta dregist saman um tæplega 10% á næsta ári vegna þeirra áfalla sem dunið hafa á bankakerfinu og atvinnulífinu. Samtímis mun ríkissjóður verða fyrir miklu tekjutapi og halli á rekstri ríkissjóðs er áætlaður um 10% af landsframleiðslu á næsta ári þótt endanleg spá liggi ekki enn fyrir um það efni. Sviptingar í ríkisfjármálum eru því gríðarlegar þegar haft er í huga að afgangur á ríkissjóði nam tæplega 7% árið 2007.
Einkaneyslan er talin dragast saman um fjórðung á næsta ári og rýrnun kaupmáttar launa verður um 12%.
Bankakreppan mun því setja opinbera geiranum verulega þrengri mörk og leggja þungar byrðar á almenning á næstu árum. Í fyrsta skipti í langan tíma stöndum við frammi fyrir alvarlegu atvinnuleysi, því miður.
Óvissan er því mikil og gremja almennings skiljanleg. Flestir finna á eigin skinni fyrir fjárhagslegu tjóni og margir bera kvíðboga fyrir nánustu framtíð. Það eru erfiðar tímar framundan og ástandið á atvinnumarkaði er ótryggt. En vil biðja landsmenn um að beina kröftum sínum í jákvæðari áttir og fullvissa fólk um að ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að lágmarka tjón þjóðarinnar vegna bankahrunsins og að aðstoða heimilin í landinu til að komast í gegnum þá brimskafla sem þau þurfa að fara í gegnum.
Ríkisstjórnin hefur brugðist skjótt við aðsteðjandi vanda og með margvíslegum hætti. Fáar þjóðir hafa gripið til jafn afgerandi og róttækra aðgerða og við. Með setningu neyðarlaganna hér á Alþingi að kvöldi 6. október var gripið til aðgerða sem meðal annars miðuðu að því að lágmarka það fjárhagslega tjón sem hlýst af alþjóðlegu fjármálakreppunni. Til að tryggja áframhaldandi innlenda fjármálaþjónustu við venjulegt fólk og fyrirtæki var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til þess að taka yfir starfsemi bankanna og skipta upp starfsemi þeirra.
Í annan stað var komið á samstarfi stjórnvalda við sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við að meta ástand og horfur í þjóðarbúskapnum og til hverra ráða væri unnt að grípa til að vinna á aðsteðjandi vanda. Það samstarf leiddi til þess að ríkisstjórnin óskaði eftir formlegu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi.
Eitt brýnasta verkefnið sem framundan er, er að koma aftur á starfhæfu bankakerfi og stöðugleika krónunnar. Það gerir okkur kleift að ná niður verðbólgunni aftur á næstu mánuðum og þar með skapast grundvöllur til varanlegrar vaxtalækkunar í landinu. Til að vel takist við það verkefni þarf að styrkja gjaldeyrisforðann og eiga greiðan aðgang að erlendum lánum. Atvinnulífinu og heimilunum í landinu er fátt mikilvægara en að okkur takist að ná efnahagslegum stöðugleika hið fyrsta.
Samningur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lánaaðstoð aðildarríkja hans mun tryggja eðlileg greiðslusamskipti við útlönd og við eygjum möguleika á stöðugleika í gengi sem stuðlar að stöðugleika í verðlagi tiltölulega hratt í kjölfar þess að þessar aðgerðir nái fram að ganga.
Án aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði okkur verið um megn að tryggja nægjanlegt lánsfé. Samstarf Íslands og sjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að jafnvirði rúmlega tveimur milljörðum Bandaríkjadala og koma um 830 milljónir af þeirri fjárhæð til greiðslu við staðfestingu stjórnar sjóðsins sem nú er gert ráð fyrir að verði nk. mánudag. Samstarf við sjóðinn mun einnig opna dyr að lánsfé frá öðrum þjóðum sem ella hefðu staðið lokaðar.
Háttvirtur þingmaður Ögmundur Jónasson og fyrirspyrjandi hér, málshefjandi, gerði mikið úr aðkomu sjóðsins að málinu og tortryggir hana á alla lund. Ég hef áður svarað því hér að slík tortryggni á ekki við rök að styðjast og það verður í einu og öllu unnið í samræmi við bestu hagsmuni Íslands en einnig að sjálfsögðu í samræmi við reglur sjóðsins. Það bréf sem sent hefur verið til sjóðsins og byggist á samkomulagi okkar og þeirra mun að sjálfsögðu verða birt jafnskjótt og öllum formkröfum hefur verið fullnægt.
Vegna þeirra sérstöku aðstæðna á fjármálamarkaði sem við blasa núna hefur ríkisstjórnin beitt sér á undanförnum vikum fyrir ýmsum aðgerðum til að koma til móts við einstaklinga og fjölskyldufólk.
- Heimildir Íbúðalánasjóðs voru rýmkaðar til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluerfiðleikum ásamt því að sjóðurinn mildaði innheimtuaðgerðir með tilliti til ástands efnahagsmála.
- Þjónusta Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefur verið efld.
- Beint hefur verið tilmælum til hinna nýju ríkisbanka um að þeir frysti tímabundið afborganir og vexti af myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, sé þess óskað, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Ennfremur að bankarnir bjóði fólki í greiðsluerfiðleikum sömu úrræði og eru hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika. Ég tel einnig að skoða þurfi þá hugmynd að gefa fólki kosti á því að breyta gengisbundnum lánum í annars konar lán á viðráðanlegu gengi.
- Þá hefur ríkisstjórnin boðað lagafrumvarp sem felli tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingalánum af íbúðarhúsnæðisveðlánum.
- Ríkisstjórnin hefur samþykkt framlagningu frumvarps um breytingu á lögum um húsnæðismál sem heimili lengingu skuldbreytingalána vegna vanskila hjá Íbúðalánasjóði úr 15 árum í 30 og að lengja upphaflegan lánstíma lána sjóðsins vegna greiðsluerfiðleika. Einnig er gert ráð fyrir því að fólk sem missir íbúð sína geti leigt hana áfram af Íbúðalánasjóði í ákveðinn tíma. Þessi aðgerð er langt komin í undirbúningi.
- Þá hefur verið fallist á tillögur stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um breytingu á úthlutunarreglum sjóðsins fyrir yfirstandandi skólaár, einkum til hagsbóta fyrir íslenska nemendur erlendis og fjölskyldur þeirra. Hér er um að ræða mjög mikilvæga aðgerð í þágu þessa tiltekna hóps.
- Háskólar landsins hafa þegar lýst yfir vilja sínum til að bregðast við efnahagsvandanum, m.a. með auknu námsframboði á ýmsum sviðum hefðbundins náms og á vegum endurmenntunarstofnana.
- Leitað verður samráðs við framhaldsskólana um möguleika á aðkomu þeirra að stofnun stuttra námsbrauta og tækifærum til endurmenntunar, ekki síst fyrir iðnaðarmenn sem misst hafa vinnuna.
- Menntamálaráðuneyti og Vinnumálastofnun taka þátt í samráði með aðilum vinnumarkaðarins sem hefur það verkefni að vakta breytingar á vinnumarkaði og hvernig hægt er að bregðast við þeim með ráðgjafar- og námsúrræðum. Áhersla er á menntun og ráðgjöf til fólks á vinnumarkaði sem hefur stutta menntun að baki.
- Sett var á fót samræmt þjónustunet til að auðvelda fólki aðgang að upplýsingum um stofnanir og samtök sem veitt geta mikilvægar upplýsingar, leiðbeiningar og ráðgjöf.
- Tilmælum var beint til skólastjórnenda og forstöðumanna opinberra stofnana að huga að almennri velferð nemenda og starfsfólks stofnana og að sérstaklega verði gætt að þeim sem kunna að hafa orðið fyrir skakkaföllum í tengslum við atburði síðustu vikna.
- Til að sporna við vaxandi atvinnuleysi hefur ríkisstjórnin samþykkt tillögur um tímabundnar aðgerðir sem miða að því að lengja þann tíma sem heimilt er að greiða launamanni tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samræmi við lækkað starfshlutfall og að fella niður skerðingu atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna frá vinnuveitenda fyrir hlutastarf. Ennfremur er gert ráð fyrir að greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa verði miðaðar við tekjur launamanns samkvæmt því starfshlutfalli sem hann gegndi áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu. Frumvarp þessa efnis var unnið í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins og verður rætt hér á Alþingi í dag.
- Þá má ekki gleyma aðgerðum sem ákveðnar voru á síðasta þingi og tengdust gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum í febrúarmánuði. Þar var um að ræða aðgerðir til að hækka skattleysismörk, hækka barnabætur, lækka skerðingarmörk vegna barnabóta og loks voru húsaleigubætur hækkaðar verulega í aprílmánuði sl. eins og þingmenn væntanlega muna.
Þá vil ég geta þess að ég skipaði fyrir nokkru sérstaka samráðsnefnd vegna þessara mála undir forystu Ásmundar Stefánssonar, fyrrverandi ríkissáttasemjara og forseta ASÍ, til þess að hafa yfirumsjón með því starfi sem lýtur að viðbrögðum, jafnt á vettvangi ríkisstjórnar sem hinna ýmsu stofnana samfélagsins, við þeim erfiðleikum sem við er að glíma vegna áfallsins á fjármálamarkaði. Að því starfi koma, auk fjölda innlendra aðila, erlendir sérfræðingar frá fjárfestingabankanum J.P. Morgan, alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og bresku lögmannsstofunni Lovells. Ríkisstjórnin hefur einnig notið ráðgjafar almannatengslafyrirtækja á Norðurlöndum og víðar til að bregðast við umræðu í útlöndum.
Ríkisstjórnin vinnur að frekari aðgerðum sem miða að því að byggja upp á ný traust og öflugt atvinnulíf. Þar eru m.a. lagðar til grundvallar áherslur í rannsóknum, tækni og nýsköpun sem Vísinda- og tækniráð hefur mótað á undanförnum árum á sama tíma og opinberir samkeppnissjóðir á þessu sviði hafa verið stórefldir. Skýr framtíðarsýn og raunhæf framkvæmd verða að fara saman. Stefnumörkun um uppbyggingu verður að laga að aðstæðum á hverjum tíma því mikilvægt er að bregðast skjótt og stöðugt við úrlausnarefnum þegar þau birtast.
Herra forseti.
Í því björgunarstarfi sem framundan er og sem við erum nú önnum kafin við að sinna mun ríkisstjórnin leggja höfuðáherslu á að koma í veg fyrir umfangsmikið og langvarandi atvinnuleysi. Þjóðfélagið þarf á að halda sem flestum vinnandi höndum og vinnan hefur um langan aldur verið okkur Íslendingum töm og eðlilegur hluti daglegs lífs. Ríkisstjórnin mun á næstu vikum og mánuðum verða í nánu samstarfi við samtök launafólks og samtök atvinnulífsins um hvernig best verður brugðist við til að forða því að við lendum í langtímafjötrum atvinnuleysis eins og svo margar Evrópuþjóðir hafa lent í á undanförnum áratugum og eru enn að glíma við, eins og flestir þekkja. Ég hef fulla trú á því að aðilar vinnumarkaðarins nái niðurstöðu í kjarasamningaviðræðum sem framundan eru sem verður einnig til þess vænti ég að draga úr verðbólgu og hörmungum atvinnuleysis. Ég treysti á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins í þessu efni og við munum eiga náið samstarf við þá. Í þessu sambandi er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að skapa hér ný atvinnutækifæri í landinu, byggjum á auðlindum lands og sjávar í því efni og sameinumst um nýja atvinnustefnu, ný atvinnutækifæri í þágu landsmanna.
Reykjavík 6. nóvember 2008