Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2008 HeilbrigðisráðuneytiðGuðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra 2009

Heilsustefna heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

Ávarp heilbrigðisráðherra á

kynningu á heilsustefnu íslensku þjóðarinnar

18. nóvember 2008, á Hilton Hóteli í Reykjavík.

Ágætu gestir.


Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir að mæta hérna í dag. Það er sérstakt ánægjuefni að þið skulið öll vilja fylgja heilsustefnunni úr hlaði.

Við höfum að undanförnu unnið að stefnu til að stemma stigu við þróun sem hefur átt sér stað á síðastliðnum árum og ógnar heilsufari íslensku þjóðarinnar. Ýmsir langvinnir sjúkdómar hafa rutt sér til rúms, sjúkdómar sem tengjast að talsverðu leyti lífsháttum okkar. Meðal annars er um að ræða ýmsa geðræna sjúkdóma, svo og sjúkdóma í stoðkerfi, en þessir sjúkdómar eru þeir sem vega þyngst þegar orsakir örorku eru skoðaðar. Þá hefur íslenska þjóðin þyngst jafnt og þétt á undanförnum árum og áratugum en ofþyngd fylgja margskonar sjúkdómar sem hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks og eru eins og aðrir sjúkdómar afar kostnaðarsamir. Það er talið að afleiðingar offitu geti kostað þjóðfélagið 2 - 6 milljarða á ári og eru þá ótalin áhrif þeirra á lífsgæði viðkomandi einstaklinga.

En - LÍFSHÁTTUM ER HÆGT AÐ BREYTA - og það er markmið okkar með heilsustefnunni að hafa áhrif á lífshætti fólks til að draga úr hættu á ákveðnum langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum og afleiðingum þeirra.

Vinna við mótun heilsustefnunnar hefur tekið rúmt ár og það sem hér er kynnt er fyrsti hluti aðgerðaráætlunar sem tekur til þriggja ára. Ég vil taka það fram að þessi aðgerðaráætlun er ekki greypt í stein. Aðstæður geta breyst og við þurfum að geta brugðist við því.

Í heilsustefnunni er lögð sérstök áhersla á geðrækt, matarræði og hreyfingu og taka flestar aðgerðirnar mið af þessari áherslu.

Ég tel víst að fólk muni sakna hér einhverra aðgerða, en Róm var ekki byggð á einum degi og þetta er einungis fyrsta skrefið sem við erum að stíga. Í framhaldinu munum við kynna fleiri aðgerðir og margar þeirra verða sértækari en þær sem nú eru kynntar. Við munum einnig halda áfram að leita til ykkar eftir hugmyndum að frekari aðgerðum. Og í raun má segja að í heilsustefnunni felist áskorun til ykkar að leita hugmynda að aðgerðum og hrinda þeim í framkvæmd.

Við veltum því fyrir okkur hvort kynning á fyrstu aðgerðum Heilsustefnunnar væri heppileg á þessum erfiða tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum. Framtíðin er óviss og erfitt að gera áætlanir fram í tímann. En við höfum mörg tæki og heilsustefnan getur sparað mikið fé til framtíðar því aðgerðir sem efla lýðheilsu eru fjárfesting fremur en kostnaður. Það var niðurstaða okkar að þrátt fyrir þá þröngu fjárhagsstöðu sem við stöndum frammi fyrir væri ástæðulaust að bíða með að kynna þá hugmyndafræði og aðgerðir sem er niðurstaða þeirrar vinnu sem unnin hefur verið.

Því við höfum á miklu að byggja. Við eigum traustar stofnanir og sterk félagasamtök og við getum gert margt með samtakamættinum. Ég tel að á þessum tímapunkti sé ekki síður mikilvægt að auka vægi aðgerða sem stuðla að bættri lýðheilsu og vellíðan. Mjög margt er að gerast í samfélaginu nú sem mun hafa afar slæm áhrif á líðan fólks. Óvissa, eins og ég nefndi áðan, er einn þáttur og kaupmáttur allra mun rýrna. Hafi einhvern tíma verið þörf á að vekja athygli á leiðum til að auka vellíðan er það núna. Við þurfum að rækta og nýta það góða sem við höfum og aðgerðir þurfa ekki að vera kostnaðarsamar til að skila árangri.

Mótun heilsustefnunnar og framkvæmd hennar er samvinnuverkefni þar sem fullt tillit er tekið til þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram á vettvangi heilbrigðisgeirans, sveitarfélaga, opinberra aðila, meðal félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga.

Við undirbúning heilsustefnunnar var leitað til þeirra fjölmörgu aðila sem hafa unnið að forvörnum og heilsueflingu til að njóta þeirrar reynslu sem þeir búa yfir. Þeirra framlag hefur reynst okkur afar mikilvægt. Til þess að heilsustefnan standi undir nafni er afar brýnt að sem flestir komi að mótun hennar og framkvæmd.

Ég hef lagt mig fram um að veita sem flestum hlutdeild í heilsustefnunni.

Meðal annars sendi ég grein í Morgunblaðið fyrr á árinu þar sem ég fór þess á leit við þá landsmenn sem vildu leggja eitthvað fram við mótun eða framkvæmd heilsustefnunnar að þeir settu sig í samband við ðuneytið. Með þessu vildi ég veita þeim sem þess óskuðu hlutdeild í heilsustefnunni. Fjölmargir settu sig í samband við ráðuneytið og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.

Við héldum fundi með fjölmörgum aðilum við mótun heilsustefnunnar. Mögulega hefðu enn fleiri átt erindi á þá fundi og allt orkar tvímælis þá gert er. Telji einhver félagasamtök eða stofnanir sig hafa orðið útundan er hér með beðist velvirðingar á því.

Ég held að við getum öll verið sammála um að eitt mikilvægasta hlutverk hvers samfélags er að búa börnum sem best uppvaxtarskilyrði. Börn þurfa ástúð og umfram allt öryggi til sálar og líkama svo þau öðlist sterka sjálfsmynd og verði sjálfstæðir og öruggir einstaklingar. Á þeim óvissa tíma sem nú fer í hönd þurfum við sérstaklega að huga að velferð barnanna. Ábyrgð foreldra er mikil en við búum svo vel að eiga stofnanir sem styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Þessar stofnanir þurfum við að nýta til fullnustu.

Heilsugæslan sér um heilsuvernd ung- og smábarna og í raun má segja að hún nái jafnvel fyrr til barna í gegnum mæðraverndina Öll börn koma reglulega á heilsugæslustöð á fyrstu árum ævinnar. Þar er fylgst með þroska þeirra og heilbrigði og veitt alhliða heilsuvernd. Þar hitta foreldrar fagfólk sem er í einstakri aðstöðu til að greina vandamál og veita foreldrum stuðning í hinu mikilvæga uppeldishlutverki. Auk þessa hafa heilsugæslustöðvar boðið uppá uppeldisnámskeið fyrir foreldra. Það eru tækifæri til að gera enn betur.

Flest börn eru á leikskólum frá unga aldri. Í leikskólum starfar líka fagfólk sem getur veitt foreldrum mikilvægan stuðning auk þess að stuðla að góðum aðbúnaði barna. Hið sama gildir um grunnskóla og framhaldsskóla.

Með því að búa börnun góð uppvaxtarskilyrði búum við til betri framtíð fyrir alla og færri heilsufarsvandamál. Þess vegna er sérstök áhersla á aðgerðir sem beinast að börnum í þessum fyrsta hluta aðgerðaráætlunarinnar.

En við viljum líka ná í þá sem eldri eru því það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl.

Við Íslendingar búum við afar góða heilbrigðisþjónustu en með hækkandi aldri þjóðarinnar eru allar líkur á að kostnaður við hana muni verða okkur um megn ef fram fer sem horfir. Því verðum við að spyrna við fótum og reyna að draga úr þróun langvinnra sjúkdóma eins og hægt er. Heilsustefnan er tilraun til að gera einmitt það.

Við þurfum viðhorfsbreytingu - við þurfum þjóðarvakningu!

Ég treysti því að það takist að skapa samstöðu um markmið og aðgerðir, enda ræður heilbrigðisþjónustan ekki ein við þetta stóra og mikilvæga verkefni. Einhvers staðar segir að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Við þurfum í raun enduruppeldi og við þurfum öll að leggjast á árarnar. Því óska ég eftir samvinnu og stuðningi svo við getum breytt heilsufari þjóðarinnar til hins betra okkur öllum til hagsbóta.


(Talað orð gildir)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta