Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. desember 2008 HeilbrigðisráðuneytiðGuðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra 2009

20 ára afmæli Alnæmissamtakanna HIV - Ísland

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp heilbrigðisráðherra, á afmælisfundi

Alnæmissamtakanna HIV - Ísland

þann 5. desember 2008 í Þjóðmenningarhúsinu

 

 

 Góðir fundarmenn

Ég vil þakka fyrir þann heiður að fá ávarpa ykkur í tilefni 20 ára afmælis Alnæmissamtakanna og opna nýja vefsíðu HIV-Íslands sem er hið nýja nafn samtakanna.

Það dylst engum að stofnun Alnæmissamtakanna á þessum degi fyrir 20 árum hefur reynst mikið gæfuspor, fyrst og fremst fyrir okkur sem þjóð.

Meginverkefni Alnæmissamtakanna hefur ávallt verið að styðja HIV-smitaða, alnæmissjúka og aðstandendur þeirra. Mér er kunnugt um það persónulega, að einmitt þetta hefur skipt gríðarlegu máli fyrir þá sem í hlut eiga.

Samtökin hafa staðið fyrir umtalsverðri fræðslu og forvörnum um HIV og alnæmi. Í þessu sambandi vil ég taka sérstaklega fram fræðslu- og forvarnarverkefni Alnæmissamtakanna fyrir nemendur í 9. og 10. bekkjum grunnskóla landsins.

Þetta er afar merkilegt framtak fyrir þá sök að þeir sem séð hafa um fræðsluna eru HIV-smitaðir og í sumum tilfellum aðstandendur þeirra, sem fengið hafa alnæmi.

Á því er enginn vafi að fræðsla til ungs fólks frá þeim sem þekkja sjúkdóminn af eigin reynslu er áhrifarík.

Í viðræðum við fulltrúa annarra þjóða á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem ég sótti í sumar gerði ég grein fyrir þessari nálgun samtakanna og vakti hún mikla athygli, en mjög víða hafa menn ekki treyst sér til að fara þessa leið, kannski vegna fordóma, eða einhvers annars sem við hér á Íslandi eigum erfitt með að skilja.

Ég vil trúa því að verulegur árangur hafi náðst hér á landi við að draga úr fordómum gegn HIV-smiti og það er áreiðanlegt að Alnæmissamtökin, HIV-Ísland, hafa átt drjúgan þátt í að draga úr þeim.

Ég nefndi að ég sat allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í sumar sem leið. Þetta var með fyrstu opinberu skyldum mínum á erlendri grundu sem heilbrigðisráðherra.

Þingið var sérstaklega helgað alnæmisvandanum í heiminum. Þar kom fram að þótt töluverður árangur hafi náðst í baráttunni við alnæmi á síðustu tveimur árum á heimsvísu, þá á það ekki alls staðar við. Víða fer fjöldi HIV-smitaðra vaxandi og forvarnir, meðferðarúrræði, hjúkrun og stuðningur við þá smituðu dugar ekki til að hafa hemil á faraldrinum.

Á allsherjarþinginu stjórnaði ég sérstökum þingfundi, sem fjallaði um tækifæri og takmarkanir í baráttunni gegn HIV-alnæmi. Þar kom fram að ef svo fer fram sem horfir þyrftu 10 milljónir manna á lyfjameðferð að halda árið 2010, en einungis 5 milljónir munu fá hana. Kostnaður við að tryggja þeim meðferð, sem þurfa á henni að halda á árinu 2010 er um 40 milljarðar dollara, en miðað við núverandi horfur verða einungis 16 milljarðar dollara til reiðu á því ári.

Það sér hver maður að við svo búið má ekki standa, og það er brýnt nú á þessum fjárhagslegu óvissutímum, að menn missi ekki sjónar á þessum staðreyndum.

Á Íslandi hefur okkur farnast betur en gengur og gerist í heiminum.

En þótt HIV-smituðum fjölgi ekki hér frá ári til árs, þá er þessi vágestur aldrei langt undan og við megum því ekki sofna á verðinum.

Alnæmissamtökin eða HIV-Ísland hafa gegnt lykilhlutverki í baráttunni gegn HIV-alnæmi og munu halda áfram að gera það af þeim metnaði sem einkennt hefur allt ykkar starf.

Um leið og ég færi samtökunum mínar bestu árnaðaróskir vil ég þakka alveg sérstaklega það góða samband sem ríkt hefur milli samtakanna og heilbrigðisyfirvalda alla tíð.

Minn vilji stendur til að svo verði áfram.

 

(Talað orð gildir)

 

 



 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta