Ræða forsætisráðherra um efnahagsmál á Alþingi, 22. janúar 2009
Hr. forseti.
Ég fagna því að eiga þess kost hér að ræða um efnahags- og atvinnumál með skipulögðum hætti nú svo skömmu eftir að þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi.
Því verður ekki á móti mælt að efnahagshorfur hér á landi eru dökkar um þessar mundir – það höfum við margrætt í þessum sal og og nýbirt spá fjármálaráðuneytisins ber það með sér. En við erum ekki einir á báti, Íslendingar, í þeim efnum. Aðstæður í nágrannalöndunum eru einnig gríðarlega erfiðar, enda er heimsbúskapurinn nú að kljást við eina erfiðustu kreppu sem riðið hefur yfir allt frá tímum heimskreppunnar miklu á fjórða tug síðustu aldar.
Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði neikvæður á þessu ári um 9,6%, sem er gríðarlega mikil breyting, og að samdráttur einkaneyslunnar verði rúm 24% að raungildi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun þó dragast mun minna saman eða um rúm 13% og hefur þá verið tekið tillit til áhrifa vaxandi atvinnuleysis sem samkvæmt spánni verður 7,8% á þessu ári.
Verðbólgan hefur verið erfið viðureignar upp á síðkastið, eins og við þekkjum, ekki hvað síst vegna mikils gengisfalls íslensku krónunnar á síðasta ári. Hins vegar eru flestir sammála um að góðar horfur séu á því að verðbólgan fari hratt lækkandi þegar líður á árið og verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans undir lok ársins.
Mikill viðsnúningur hefur þegar átt sér stað í utanríkisviðskiptum þar sem innflutningur dregst nú hratt saman á sama tíma og útflutningur fer vaxandi. Aukinn þorskkvóti á yfirstandandi fiskveiðiári um 30.000 tonn eykur að sjálfsögðu útflutning sjávarafurða, styrkir stöðu greinarinnar og bætir enn í útflutningsframleiðsluna. Vöruskiptajöfnuðurinn verður því jákvæður um rúmlega 14 af hundraði af landsframleiðslu á þessu ári sem eru mikil umskipti til hins betra frá síðustu árum.
Á næsta ári eru horfur á að hagvöxtur verði lítill sem enginn þar sem efnahagslífið verður væntanlega enn ekki búið að ná sér að fullu eftir bankaáfallið. En það er ekki gert ráð fyrir því að þjóðarframleiðslan dragist enn frekar saman heldur en verður á þessu ári. En það eru góðar horfur á því að þegar á næsta ári, þegar líða tekur á árið, blasi við efnahagslegur viðsnúningur og að hjól efnahagslífsins geti farið að snúast af fullum krafti á nýjan leik.
Atvinnumálin hafa verið mikið í deiglunni upp á síðkastið, enda fátt sem brennur meira á heimilunum en örugg atvinna sem tryggir afkomuöryggi fjölskyldunnar. Til að tryggja árangur á þessu sviði þarf annars vegar að grípa til sértækra aðgerða þar sem það á við en þegar upp er staðið er það árangur efnahagsstefnunnar í heild sem tryggir bestu niðurstöðuna fyrir alla.
Ef við lítum fyrst á heildarmyndina þá skiptir sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf að ríkisstjórnin hefur frá því í nóvember unnið eftir skýrri efnahagsstefnu sem unnin var í samstarfi við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og liggur hún til grundvallar samstarfi Íslands og sjóðsins næstu tvö árin. Áætlunin er metnaðarfull og skýr – en tekur að sjálfsögðu mið af því fordæmalausa áfalli sem íslenskt fjármálakerfi hefur orðið fyrir og þeim mikla samdrætti sem efnahagslíf okkar mun þurfa að ganga í gegnum af þeim sökum næstu tvö ár. Áætlunin er skýrt tímasett en mun þó taka breytingum eftir því sem ástandið þróast og verður endurskoðuð af sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þriggja mánaða fresti.
Herra forseti.
Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til þess að bregðast við þeim miklu erfiðleikum sem íslenskt efnahagslíf gengur nú í gegnum. Þetta eru að sjálfsögðu mikil öfugmæli eins og ég vona að eftirfarandi yfirlit sýni um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á undanförnum vikum og mánuðum til að koma til móts við einstaklinga og fjölskyldufólk:
- Greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán hefur verið létt með því að beita greiðslujafnaðarvísitölu, þ.e. launavísitölu sem tekur mið af atvinnustigi.
- Fjölgað verður úrræðum Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við almenning í greiðsluvanda, svo sem með lengingu og skuldbreytingu lána, auknum sveigjanleika og rýmri heimildum gagnvart innheimtu.
- Íbúðalánasjóði hafa verið veittar lagaheimildir til að leigja húsnæði í eigu sjóðsins til að fjölga úrræðum fyrir einstaklinga í greiðsluvanda. Heimilt verði að leita eftir samstarfi við sveitarfélög eða aðra rekstraraðila með samningi.
- Gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar til bráðabirgða á lögum eða reglugerðum svo fella megi niður ýmis gjöld vegna skilmálabreytinga sem torveldað hafa skuldbreytingar og uppgreiðslu lána, svo sem stimpilgjöld og þinglýsingargjöld.
- Felld hefur verið úr gildi heimild til að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum.
- Felld hefur verið úr gildi heimild til að skuldajafna vaxtabótum á móti afborgunum lána hjá Íbúðalánasjóði.
- Barnabætur eru nú greiddar út mánaðarlega gagnvart þeim sem það kjósa en ekki á þriggja mánaða fresti.
- Opinberum innheimtuaðilum hafa verið veittar tímabundið frekari heimildir til sveigjanleika í samningum um gjaldfallnar kröfur sem taka mið af mismunandi aðstæðum einstaklinga.
- Lögfestar hafa verið tímabundnar heimildir til innheimtumanna ríkissjóðs um mögulega niðurfellingu dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda í sérstökum, skýrt afmörkuðum tilfellum.
- Öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins hafa fengið fyrirmæli um að milda sem kostur er innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum, þar með talið að takmarkað verði sem kostur er það hlutfall launa sem ríkið getur nýtt til skuldajöfnunar.
- Lög um dráttarvexti hafa verið endurskoðuð með það að markmiði að dráttarvextir lækki.
- Heimild til að setja reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar hefur verið nýtt.
- Alþingi samþykkti í desember að heimila greiðslu hlutabóta vegna atvinnuleysis til þess að hvetja atvinnurekendur til þess að lækka frekar starfshlutfall en að grípa til uppsagna. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú einnig tekið að sér tilfallandi verkefni án þess að missa bótaréttinn.
- Fyrirtækjum og stofnunum hefur einnig verið gert kleift að ráða til sín tímabundið fólk í atvinnuleit. Bætur fylgja þá starfsfólkinu. Einnig hafa réttindi atvinnulausra verið aukin til þess að auðvelda þeim að fara út á vinnumarkaðinn á nýjan leik, t.d. með búferlaflutningsstyrkjum.
- Gripið hefur verið til aðgerða til að styðja við sprotafyrirtæki og verður gert enn frekar. Á síðasta ári tók Nýsköpunarsjóður þátt í stofnun nýs, öflugs fjárfestingarsjóðs, Frumtaks, sem mun styrkja þessa mikilvægu vaxtarsprota næstu árin. Einnig er mikilvægt að bygging álvers í Helguvík miði vel og hafa stjórnvöld unnið hart að því að tryggja að það gangi eftir, m.a. með fjárfestingarsamningi í síðasta mánuði.
- Einnig hefur verið gripið til ýmissa aðgerða á sviði menntamála. Þannig geta atvinnulausir einstaklingar fengið greiddar atvinnuleysisbætur, samkvæmt áunnum réttindum sínum samhliða því að stunda ákveðið nám eða sækja námskeið. Auk þess tókst að tryggja nær öllum sem þess óskuðu inngöngu í framhaldsskóla á vorönn 2009 og leitaðist menntamálaráðuneytið við að skapa sveigjanleika í fjárveitingum til skóla til að svo gæti orðið.
Af þessari upptalningu má sjá að það er fjarstæða að halda því fram að ríkisstjórnin hafi setið aðgerðalaus og það þekkja menn auðvitað af störfum hér á Alþingi vegna þess að mörg þessara mála hafa komið til kasta þingsins á liðnum vikum. Þvert á móti hefur verið unnið ötullega á öllum vígstöðvum að því að draga úr neikvæðum áhrifum efnahagserfiðleikanna á hag heimilanna.
Til viðbótar þessu má nefna að ríkisstjórnin hefur ýmist þegar hrint í framkvæmd eða er langt komin með undirbúning fjölmargra aðgerða til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja.
- Í fyrsta lagi var bönkunum gert að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiði að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja. Reglurnar taki m.a. til lengingar lána, niðurfærslu skulda, breytingar lána í eigið fé og sameiningar fyrirtækja. Settar verði reglur sem tryggi gegnsæi í ákvarðanatöku bankanna og hlutlæga fyrirgreiðslu, þar sem hugað verði að samræmdum vinnubrögðum gagnvart fyrirtækjum en innra eftirlit bankanna jafnframt eflt.
- Bankarnir eru nú ýmist búnir eða um það bil að verða búnir að stofna sérstök eignaumsýslufélög sem hafa munu umsjón með eignarhlutum í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé.
- Liðkað verður fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingarsjóðs atvinnulífsins með þátttöku lífeyrissjóða, banka og annarra fjárfesta. Ríkisstjórnin hvetur til þess að í fjárfestingarstefnu sinni taki endurreisnarsjóðurinn m.a. tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnunarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, þar á meðal áherslu fyrirtækja á að viðhalda eða fjölga störfum. Auk þess verður lögð áhersla á launastefnu, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu, framlög til rannsókna og þróunar, mikilvægi starfsemi fyrir grunnþjónustu samfélagsins o.s.frv.
- Fyrirtækjum sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laga hefur verið gert kleift að gera ársreikninga upp í erlendri mynt með lagasetningu sem gildir afturvirkt frá 1. janúar 2008 og hefur nokkur fjöldi fyrirtækja nýtt sér þetta, þ.a. það er ljóst að það er ávinningur af því fyrir ýmis fyrirtæki.
- Lagt er til að skipaður verði óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka og er búið að auglýsa eftir slíkum aðila í a.m.k. tveimur af viðskiptabönkunum. Skal hann m.a. hafa það hlutverk að gæta þess að viðkomandi banki mismuni ekki viðskiptavinum með óeðlilegum hætti, að ferli við endurskipulagningu fyrirtækja og aðrar mikilvægar ráðstafanir sé gagnsætt og skráð og að bankinn gæti að samkeppnissjónarmiðum. Bankaráð velji umboðsmann í hverjum banka og tryggi að hann geti sinnt eftirliti sínu.
- Við endurskipulagningu fyrirtækja verða valdar leiðir sem efla samkeppni og hamla henni sem minnst. Á sama hátt verði svigrúm til að draga úr fákeppni eða markaðsráðandi stöðu nýtt sem kostur er. Þeim tilmælum er beint til bankaráða að hafa hliðsjón af þeim meginreglum um samkeppnissjónarmið sem koma fram í nýlegu áliti Samkeppniseftirlitsins.
- Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum, m.a. í því skyni að tryggja endurfjármögnun þeirra, fjölbreyttara bankaumhverfi og greiða fyrir eðlilegum lánaviðskiptum innlendra aðila og erlendra banka.
- Stjórnvöld hafa hugsað sér að greiða með lagasetningu fyrir langtímaeign lífeyrissjóða á fasteignum sem þeir hafa lánað fyrir. Þannig má bjóða einstaklingum og fyrirtækjum sem missa fasteignir sínar að búa eða starfa áfram í fasteigninni með því að leigja hana af lífeyrissjóðunum.
- Lögð verður sérstök áhersla á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum ríkisins og leitað samstarfs við sveitarfélög um tímasetningu framkvæmda með það fyrir augum að standa vörð um atvinnu fólks og auka hagkvæmni. Samgönguráðherra vinnur sérstaklega að þessu máli.
- Stjórnvöld munu beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga í því skyni að auðvelda stjórnendum fyrirtækja að komast í gegnum tímabundna erfiðleika vegna efnahagsástandsins.
- Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins fara yfir reglur um gjaldeyrishömlur sem ætlað er að styrkja gengi krónunnar til að takmarka neikvæð hliðaráhrif þeirra eins og kostur er.
Þessi aðgerðalisti staðfestir vonandi að ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að viðbrögðum við efnahagserfiðleikunum jafnframt því að skapa hér forsendur fyrir endurreisn efnahagslífsins. Það má bæta því við, listanum um aðgerðir í þágu heimilanna, eins og áður hefur komið fram hér í þessum sal, að á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur verið unnið að breytingum á gjaldþrotalögum til að greiða fyrir svokallaðri greiðsluaðlögun einstaklinga. Það frumvarp er vonandi á leiðinni í þingið nú á allra næstu dögum.
Herra forseti.
Ég vil nú víkja frekar að þeirri efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin hefur markað í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vinnur nú eftir. Áætlunin tekur skýrt mið af því ástandi sem nú ríkir í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Hún hefur þrjú meginmarkmið sem öll miða að því grundvallarmarki að endurvekja traust og trúverðugleika hagkerfisins og búa í haginn fyrir bætta fjárhagsstöðu íslenskra heimila og fyrirtækja eins fljótt og auðið er.
Gengis- og peningamálastefna
Fyrsta markmið áætlunarinnar er að koma stöðugleika á gengi á krónunnar og tryggja hér hratt lækkandi verðbólgu. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess hve skuldsett fyrirtæki og einstaklingar eru í erlendri mynt og verðtryggðum lánum. Fátt myndi því verða meira til hagsbóta fyrir heimilin og flest fyrirtæki í landinu en styrking krónunnar og aukinn verðstöðugleiki. Lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vinaþjóða eru hugsuð til að greiða fyrir því að þetta markmið náist – að vera til taks sem varasjóður á gjaldeyrismarkaðnum.
Alþingi samþykkti lög um gjaldeyrishöft í lok nóvember og hefur sú lagasetning, að því er best verður séð, að flestu leyti skilað því sem til var ætlast. Krónan styrktist nokkuð í fyrstu en hefur síðan gefið nokkuð eftir. Það kemur á óvart í ljósi þess að metafgangur var af vöruskiptum við útlönd í desember ásamt því að vaxtamunur við útlönd hefur aukist nokkuð. Unnið er ötullega að því að straumlínulaga reglurnar og fylgja eftir framkvæmd þeirra svo viðsnúningur í utanríkisviðskiptum skili sér í styrkingu krónunnar sem hefur í för með sér augljósan hag fyrir allan almenning og stærstan hluta íslenskra fyrirtækja.
Þrátt fyrir að mikilvægir áfangasigrar hafi náðst í gengis- og verðlagsmálum þá eru enn stór viðfangsefni sem bíða úrlausnar. Næstu skref snúa að því að fullmóta stefnu um það hvenær og hvernig dregið verður úr höftum á gjaldeyrismarkaði og stýrivextir lækkaðir. Því fyrr sem jákvæð staða í utanríkisviðskiptum skilar styrkara gengi, þeim mun styttra er í að vextir geti farið lækkandi.
Ljóst er að vilji er til þess að lyfta og afnema gjaldeyrishöftin um leið og tækifæri gefst – en slík höft hafa almennt neikvæð áhrif á hagkerfi til lengri tíma litið og eru því í sjálfu sér aðeins hugsuð til skamms tíma, í raun og veru neyðaraðgerð eins og mönnum er kunnugt. Hins vegar mun verða einhver bið á því að fjármagnsflæði verði fullkomlega frjálst og ljóst að ekki verður mögulegt að lina höftin fyrr en aukinn stöðugleiki hefur komist á gengi krónunnar og ljóst er hvernig stýritæki Seðlabankans vinna við nýjar aðstæður. Nauðsynlegt er einnig að gæta aðhalds í peningamálastefnu þegar höftum verður létt en búast má við að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir hröðum skrefum um leið og tækifæri gefst til.
Ríkisfjármál
Annað markmið efnahagsáætlunarinnar er að ná tökum á ríkisfjármálum í ljósi þeirra miklu byrða sem ríkissjóður axlar vegna endurfjármögnunar bankakerfisins og þess mikla halla sem verður fyrirsjáanlega á ríkissjóði á næstu árum. Greiðslubyrði lána verður mjög mikil næstu árin þar sem brúttóskuldir hins opinbera verða mjög háar. Hins vegar koma þar á móti allmiklar eignir og því er nettóskuldin mun lægri, eða hugsanlega nærri 70% af landsframleiðslu. Við núverandi aðstæður er þetta mat að sjálfsögðu mikilli óvissu undirorpið. Gangi þessar áætlanir eftir verður nettóskuldastaðan ekki fjarri því sem gerist að meðaltali á evrusvæðinu. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta atriði þar sem hér hafa því miður verið á ferðinni miklar rangfærslur í þessum efnum.
Starf vegna stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum hefur beinst sérstaklega að breytingum á fjárlagafrumvarpi ársins 2009 í ljósi nýrra aðstæðna frá því efnahagsáætlun stjórnvalda var samþykkt. Nauðsynlegt reyndist að bæta afkomu ríkissjóðs með því að draga úr útgjöldum og auka tekjur um 45 ma. kr. fyrir árið 2009 miðað við það sem annars hefði orðið. Halli ársins samkvæmt fjárlögunum verður því nærri 154 ma. kr., sem samsvarar um 10% af áætlaðri landsframleiðslu. Miðað hefur verið við að verja grunnþjónustu ríkisins í mennta-, heilbrigðis-, félags- og löggæslumálum. Í ljósi þess hefur ríkisstjórnin sem fyrr segir einnig kynnt aðgerðaráætlanir fyrir heimili og fyrirtæki en fjárhagsleg staða ríkissjóðs setur slíkum aðgerðum augljóslega ákveðin takmörk.
Við núverandi aðstæður eru aðeins tvær leiðir færar til þess að fjármagna fjárlagahallann. Annars vegar er hægt að ganga á inneign ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands, sem sem betur fer er mikil og hefur safnast upp á undanförnum árum, það er hægt að ganga á þá inneign en áætlað er að um allt að 100 ma. kr. verði nýttir af reikningi ríkissjóðs til þess að fjármagna hallann á þessu ári. Frekari úttektir gætu hins vegar skapað hættu á hratt hækkandi verðbólgu. Hin leiðin til að fjármagna ríkissjóðshallann er útgáfa ríkisskuldabréfa. Mikil aukning í útgáfu slíkra bréfa gæti leitt til hækkandi vaxta. Hvorug leiðin er því kostnaðarlaus fyrir heimili og fyrirtæki í landinu sem munu um síðir þurfa að greiða niður skuldir ríkissjóðs vegna hallans.
Vinna er einnig hafin í mótun ríkisfjármála til næstu þriggja til fjögurra ára. Stefnt er að því að fullmótuð slík stefna verði birt á fyrri hluta þessa árs en mikilvægt er að ráðuneyti og stofnanir fái skýra mynd af fjárveitingum sínum næstu árin til þess að hægt sé að grípa til viðeigandi sparnaðaraðgerða. Skýr markmið til næstu ára ættu að skapa grundvöll til endurskipulagningar.
Enduruppbygging bankakerfisins
Þriðja markmið stjórnvalda er að endurbyggja íslenskt bankakerfi svo það geti veitt einstaklingum og fyrirtækjum ábyrga og kröftuga þjónustu en vel virkt fjármálakerfi eru grundvöllur enduruppbyggingar í hagkerfinu og forsenda fyrir því að fyrirtækin í landinu nái að blómstra.
Starfið er hins vegar tröllvaxið þar sem um 85% bankakerfisins hefur nú hrunið – sem er hlutfallslega mesta áfall sem nokkurt fjármálakerfi í heiminum hefur orðið fyrir. Stefnt er að því að ríkissjóður veiti eigin fé inn í ríkisbankana þrjá sem nemur allt að 400 mö. kr. Þessi tilhögun var samþykkt í fjárlögum ársins 2009. Ekki mun reynast nauðsynlegt að fara í sérstakar skuldabréfaútgáfur vegna þess. Því ætti endurfjármögnun kerfisins að þessu leyti ekki að hafa áhrif á vaxtastig í landinu. Einnig er unnið að því að styrkja stoðir sparisjóða og annarra smærri fjármálastofnana, sem margar hverjar hafa orðið fyrir áföllum vegna lánsfjárkreppunnar. Einnig hefur verið ákveðið að endurfjármagna Seðlabankann að hluta til með útgáfu skuldabréfs eins og fram hefur komið og er verið að ganga frá þeim málum.
Til þess að tryggja framgang mála varðandi endurreisn bankakerfisins og gera tillögur um frekari aðgerðir sem miða að enduruppbyggingu þess hefur verið skipuð sérstök nefnd undir forystu virts sænsks bankasérfræðings sem auk þess er fyrrum starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til margra ára. Þá hefur finnskur fjármálasérfræðingur verið ráðinn til að endurskoða reglu- og lagaumhverfi fjármálakerfisins. Loks má nefna að við höfum gert samning við hið virta alþjóðlega fjármálafyrirtæki Oliver Wyman um að hafa yfirumsjón með verðmati nýju og gömlu bankanna.
Allt miðar þetta að þvi að því að endurreisa íslenskt bankakerfi og skapa því trúverðugleika og traust á nýjan leik. Til þess að svo megi verða þurfa öll vinnubrögð að vera gagnsæ og unnin af fagmennsku og ábyrgð.