Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. janúar 2010 HeilbrigðisráðuneytiðÁlfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra 2009-2010

40 ára afmæli heilbrigðisráðuneytisins

Álfheiður Ingadóttir,
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra,

þegar minnst var 40 ára afmælis heilbrigðisráðuneytisins

8. janúar 2010

 

 

 

Ágætu afmælisgestir !


Mér er það sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessarar samkomu, þegar við minnumst þess að 40 ár eru frá því lög um heilbrigðisráðuneytið tóku formlega gildi.

Sérstaklega vil ég bjóða velkomna þá tíu fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála og fyrrverandi ráðuneytisstjóra sem áttu þess kost að vera hér í dag og hitta gamla samstarfsmenn á þessum tímamótum. Nýskipaðan landlækni býð ég velkominn, forvera hans og starfsmenn.

Ég vil byrja á því að þakka þær góðu viðtökur sem ég hef notið í ráðuneytinu frá því ég kom þar til starfa 1.október á liðnu ári, en ég var þá þriðji ráðherra heilbrigðismála á árinu. Innan ráðuneytis og í stofnunum sem undir ráðuneytið heyra hef ég hvarvetna séð og fengið að heyra um þann mikla metnað sem starfsmenn hafa til að bera gagnvart störfum sínum í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það er vel.

Fyrir réttum 40 árum, hinn 1. janúar 1970, gengu í gildi ný lög um Stjórnarráð Íslands, en þá var ráðuneytum fjölgað og gerð umtalsverð breyting á starfsemi þeirra með tilliti til verkefna.

Á þessum tíma komu fram kröfur um markvissari stefnumótun og samræmingu verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Átti það bæði við um heildaráætlanir til langs tíma og áætlanir sem snéru að einstökum þáttum heilbrigðisþjónustu, svo sem uppbyggingu sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu og heilsuverndar. Rétturinn til þjónustu var skilgreindur og sértæk þjónusta við markhópa, t.d. fatlaða og aldraða var skipulögð.

Á þessum árum reis einnig hátt krafan um að tryggja yrði réttláta dreifingu á gögnum og gæðum heilbrigðisþjónustu, svo komið yrði í veg fyrir að íbúar landsins byggju við ójafna lífskosti í heilsufarslegum efnum. Aðgengi að heilbrigðisþjónustunni skyldi jafnframt vera auðvelt og sem jafnast fyrir alla íbúa og þjónustan greidd úr sameiginlegum sjóði, þ.e. af skattfé.

Flestir eru nú sammála um að stofnun ráðuneytisins á sínum tíma hafi verið skynsamleg ráðstöfun og að allt starf að heilbrigðismálum hafi orðið markvissara í sjálfstæðu ráðuneyti.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á þeim 40 árum sem liðin eru frá því  heilbrigðisráðuneytið var stofnað. Fólk lifir lengur en áður og íbúar landsins eru almennt við betri heilsu en fyrri kynslóðir. Allur aðbúnaður fólks hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum áratugum. Þetta má fyrst og fremst þakka almennri velsæld, breyttum lífsháttum og góðri heilbrigðisþjónustu sem byggist ekki hvað síst á góðri menntun heilbrigðisstarfsmanna.

Á 40 árum hefur orðið mikil breyting í viðhorfum manna til heilbrigðisþjónustunnar, sem endurspeglast m.a. í viðhorfi til lækna, sem menn líta ekki lengur á sem ofurmenni eða goð heldur sjálfsagða þjónustuaðila sem menn gera auknar kröfur til og hika ekki við að leita annað, eða gera athugasemdir ef á þarf að halda. Gildir þetta raunar um flesta starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar.

Það er rétt um áratugur frá því orðið lýðheilsa fór að heyrast í íslensku máli fyrir alvöru, en það hefur nú fest rætur, m.a. í lagasafni okkar þótt það hafi ekki orðið fyrr en á árinu 2003. Bætt lýðheilsa hefur verið sett í öndvegi með aukinni áherslu á að viðhalda og bæta heilsu og líðan fólks allt lífið. Í því skyni hafa heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn, frjáls félagasamtök og einstaklingar tekið höndum saman um margvíslegar aðgerðir á sviði forvarna, heilsuverndar og heilsueflingar. Margþætt samvinna og þverfaglegt samstarf beinist að því að halda við og efla lýðheilsu þjóðarinnar og vekja hana til vitundar um hvernig forðast má lífsstílssjúkdóma, sem er annað nýyrði sem er að festa sig í sessi í íslenskunni, af illri nauðsyn.

Viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar eru síbreytileg og ávallt krefjandi. Ný heilsufarsvandamál koma til sögunar og önnur skjóta upp kollinum aftur. Ný tækni býður upp á víðtækari möguleika til meðhöndlunar sjúkdóma og krankleika.

Á tímum efnahagskreppu þurfum við þess utan að huga að grunninum, standa vörð um innviði heilbrigðisþjónustunnar, þannig að niðurskurður í kjölfar hrunsins skaði þá ekki til frambúðar.  Ég ætla ekki að tala um þær efnahagslegu ógöngur sem við lentum í sem þjóð, en við skulum þó hafa hugfast að efnahagur þjóðar eða ríkidæmi þarf ekki að vera mælikvarði á heilbrigði þjóðar eða heilsu manna. Mestu skiptir nefnilega hvernig gæðunum er skipt, hvort jöfnuður ríkir eða ekki.

Á afmælisárinu eru fyrirhugaðir fjölmargir atburðir til þess að minnast þessara tímamóta og hrinda brýnum stefnumálum í framkvæmd.


Ég vil nefna þrennt:

  • Stefnumót með þriðja geiranum til samráðs og umræðna um þau mál er brenna á frjálsum félagsamtökum.
  • Málþing um „valfrjálst tilvísanakerfi“ í heilbrigðisþjónustunni undir yfirskriftinni FYRSTI VIÐKOMUSTAÐURINN.
  • Heilbrigðisþing þar sem aðalumræðuefnið verður framtíðarstefnumótun og ný Heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

 

Ágætu afmælisgestir !

Á næstu árum munum við sennilega upplifa verulegar breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta og skipulagi stjórnarráðsins. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í maí 2009 er gerð grein fyrir áformum um stjórnkerfisumbætur. Þar er meðal annars boðuð sameining heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í eitt velferðarráðuneyti.

Fastlega má því gera ráð fyrir að það fyrirkomulag sem verið hefur á skipan ráðuneyta og skipulagi velferðarþjónustu muni taka  breytingum á komandi árum, komi þau áform og tillögur sem nú eru uppi til framkvæmda. Það er þess vegna ekki gefið að tilefni verði til þess að halda upp á næsta stórafmæli heilbrigðisráðuneytisins eftir tíu ár.

Við skulum því gera okkur glaðan dag og fagna 40 ára afmæli heilbrigðisráðuneytisins!

 

(Talað orð gildir)

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta