Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. febrúar 2010 HeilbrigðisráðuneytiðÁlfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra 2009-2010

Heilbrigðiskerfi á krepputímum

Álfheiður Ingadóttir,
heilbrigðisráðherra.

 

 

Ráðstefna í Norræna húsinu á vegum SÍBS um

“Heilbrigðiskerfi á krepputímum” 23. febrúar 2010.

 

 

 

Ágætu ráðstefnugestir!

Það er mér mikil ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu. Heilbrigðiskerfi á krepputíma er sannarlega viðeigandi og verðugt umfjöllunarefni nú á tímum og ég þakka kærlega fyrir frumkvæði sem þið hafið tekið hér og nú í þeirri umræðu.

Ég tel mikilsvert, nú þegar við sjáum fram á minnkandi fjárframlög næstu misserin, að við skiptumst á skoðunum um hvernig við getum tryggt öryggi sjúklinga og haldið uppi grunnþjónustu.

Hér duga sannarlega engin töfraráð en með sameiginlegu átaki og samvinnu heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisþjónustunnar, fagfólks og frjálsra félagasamtaka ætti að vera unnt að verjast verstu ágjöfunum og komast í gegnum þetta niðurskurðartímabil án þess að ganga svo nærri innviðum heilbrigðisþjónustunnar að hún beri skaða af til frambúðar.

Við búum við góða heilbrigðisþjónustu, sama á hvaða mælikvarða er litið. Auðvitað má alltaf gera betur en við skulum samt viðurkenna að margt og reyndar flest er mjög gott í heilbrigðisþjónustunni okkar.

Við stöndum nú frammi fyrir risavöxnu verkefni, sem er að koma Íslandi út úr afleiðingum bankahrunsins án þess að afleiðingar þess verði félagsleg kreppa og heilsufarsleg kreppa.

Við hrunið varð til yfir 300 milljarða gat í ríkissjóði, mest vegna tekjutaps en einnig vegna aukinna útgjalda, m.a. í vexti. Á síðasta ári var fjárlagahallinn yfir 160 milljarðar króna, á þessu ári 100 milljarðar.

Leiðirnar út úr þessari stöðu, sem ríkisstjórnin valdi og kynnti í þriggja ára áætlun um aðlögun í ríkisfjármálum s.l. sumar, er svokölluð blönduð leið, sem felur í sér hækkun skatta og gjalda annars vegar og samdrátt og niðurskurð í þjónustu og framkvæmdum hins vegar.

Bent hefur verið á að þessi hraða aðlögun á þremur  árum þýði mjög brattan niðurskurð sem gæti kollvarpað velferðarkerfinu okkar og þar með heilbrigðisþjónustunni.  Á móti er bent á að bara á síðasta ári greiddum við 100 milljarða króna í vexti, en það er svipað og ívið meira en öll framlög til heilbrigðisþjónustunnar á árinu 2009.

Þetta eru blóðpeningar í mínum huga og sýnir hversu mikilsvert það er að reyna að klára þetta gat á sem allra stystum tíma og með sem allra minnstum tilkostnaði.

Eðlilega er spurt hvernig gengur í þessari þriggja ára vegferð og hvert stefnir?

Í reynd gekk niðurskurðurinn sem heilbrigðisþjónustunni var úthlutað á síðasta ári ótrúlega vel. Um 9% niðurskurður gekk fram án þess að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni versnaði og án þess að biðlistar lengdust. Um þetta vitna m.a. skýrslur landlæknis og velferðarvaktarinnar.

En nú er komið árið 2010 og enn skal skorið. Heilbrigðisþjónustunni er í reynd hlíft miðað við annað. Aðlögunarkrafan á hana og félagsþjónustuna er 5% niðurskurður frá fjárlögum fyrra árs , 7% í menntakerfinu og 10% í stjórnsýslunni, þ.m.t. stjórnsýslu heilbrigðismála. Af þessu leiðir að niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni er að meðaltali um 8%, einstaka heilbrigðisstofnanir eru með kröfu frá  4 til 11%, en allir þjónustusamningar svo sem við Reykjalund fá á sig 6,7% aðlögunarkröfu.

Þetta er gífurlega erfitt verkefni og mikilvægt að það náist án þess að öryggi sjúklinga verði ógnað. Það verður ekki gert nema með stífri forgangsröðun en um leið verðum við að tryggja grunngildin, þ.e. að í heilbrigðisþjónustunni ríki jöfnuður, góð þjónusta og hagkvæmni.

Forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu er ekki nýtt fyrirbæri hér á landi. Fyrir rúmum áratug voru settar ákveðnar viðmiðanir eða reglur um forgangsröðun í heilbrigðismálum sem voru byggðar á tillögum þverpólitískrar og þverfaglegrar nefndar. Þessi viðmið urðu síðan hluti af Heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

Þessi viðmið fela í stuttu máli í sér að þegar þörf er á að forgangsraða sjúklingum skuli sú ákvörðun fyrst og fremst byggð á siðfræðilegum og læknisfræðilegum sjónarmiðum.

Þetta þýðir að þeir sem eru í mestri þörf fyrir heilbrigðisþjónustu skuli ganga fyrir. Sömuleiðis er því verklagi fylgt að þegar valið stendur á milli mismunandi tegunda meðferða eða lyfjagjafar sem taldar eru jafnárangursríkar er eðlilegt að sú sem er fjárhagslega hagkvæmari gangi fyrir.

Í niðurskurði síðasta árs og þessa hefur heilbrigðisráðuneytið fylgt ákveðnum leiðarljósum og brýnt fyrir forstjórum heilbrigðisstofnana að gera það.

Í fyrsta lagi að vernda störfin, verja lægstu launin og stuðla að launajöfnun, en þar er eins og menn vita eftir nokkru að slægjast í heilbrigðisþjónustunni þar sem launamunur er enn mjög mikill.

En við höfum einnig brýnt fyrir forstöðumönnum og viðsemjendum ráðuneytisins að líta út fyrir eigið bókhald; og huga að félagslegum og þjóðhagslegum áhrifum sem ákvarðanir þeirra hafa. Huga að sérstaklega viðkvæmum hópum sem eru háðir heilbrigðisþjónustunni, konum, börnum, öldruðum, fötluðum og innflytjendum og ennfremur að velta ekki kostnaði yfir á atvinnuleysistryggingasjóð, sveitarfélög eða notendur þjónustunnar.

Ég vil ítreka eins og ég hef jafnan gert, að engin ákvörðun er endanleg í þessum efnum. Bankahrunið kom okkur að óvörum, því miður. Við vorum ekki með áætlun að grípa til eins og við höfðum þegar svínaflensan brast á og því er hætt við að ákvarðanir geti orðið tilviljanakenndar. Ef ákvarðanir ná ekki tilætluðum árangri eða hafa beinlínis þveröfug áhrif, þá verðum við að vera menn til að taka þær aftur.

Að lokum vil ég minna á að það er mjög mikilvægt að horfa til þess að þetta eru tímabundnar ráðstafanir, til að brúa tveggja til þriggja ára tímabil þar til ríkissjóður verður kominn aftur á sléttan sjó. Og það er markmiðið.

 

Góðir ráðstefnugestir.

Fyrir um ári síðan voru gerðar breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tilteknum lyfjaflokkum þ.e. magalyfjum og blóðfitulækkandi lyfjum sem byggja á svipaðri hugmyndafræði, sem kölluð hefur verið “verðlagning eftir virði” eða “value based pricing”. Síðar á árinu voru samsvarandi breytingar gerðar á greiðsluþátttöku lyfja við of háum blóðþrýstingi, beinþéttnilyfja og nú um áramótin astma- og ofnæmislyfja.

Nú er verið að vinna að sams konar breytingum á greiðsluþátttöku tauga- og geðlyfja. Þessar breytingar ganga út að skilyrða greiðsluþátttöku dýrustu úrræða við ákveðin viðmið.

Engin lyf eru útilokuð frá greiðsluþátttöku heldur aðeins krafist rökstuðnings læknis fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna dýrustu lyfjana.

Lækkun lyfjaútgjalda Sjúkratrygginga Íslands vegna þessara breytinga urðu á síðasta ári um einn milljarður króna en með öðrum aðgerðum tókst að lækka heildarútgjöld sjúkratrygginga um 1.6 milljarð króna.

Þessi árangur sem náðist án verulegra vandkvæða, skertrar þjónustu eða öryggis, er fyrst og fremst að þakka góðum skilningi og þátttöku lækna, lyfjafræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Um þessar breytingar sagði landlæknir í bréfi til mín dags. 1. nóvember s.l.:

"Skemmst er frá að segja að breytingarnar hafa tekist með afbrigðum vel. Allir þeir sem komið hafa að þessum breytingum hafa staðið vel að verki. Sparnaður nemur hundruðum milljóna króna á ársgrundvelli. Undirritaður þekkir engin dæmi þess að heilsufar einstaklinga hafi skaðast við þessar breytingar. Yfirlæknir bráðamóttöku Landspítala, Guðmundur Þorgeirsson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum, segir engan hafa komið inn á bráðamóttöku með einkenni sem rekja mætti til breytingarinnar. Heilsugæslulæknar sem undirritaður hefur haft samband við hafa sömu sögu að segja.”

 

Ágætu ráðstefnugestir!

Í ljósi þess að SÍBS stendur fyrir þessari ráðstefnu vil ég leggja áherslu á að frjáls félagasamtök hafa um langt skeið gengt þýðingamiklu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Mikilvægt er að nýta áfram samtakamátt þeirra og tengsl í þeirri viðleitni að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og bæta stöðu fólks.

Ekki er aðeins um að ræða samtök þeirra sem orðið hafa fórnarlömb langvinnra sjúkdóma og aðstandenda þeirra, heldur einnig félög af ýmsu tagi sem vinna að fyrirbyggjandi upplýsinga- og fræðslustarfi á sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Saga SÍBS – Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga – er samofin þeim þjóðfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað á Íslandi frá því skömmu fyrir miðbik síðustu aldar. Í upphafi var tilgangur starfseminnar að aðstoða útskrifaða berklasjúklinga við að reyna að ná fótfestu í lífinu eftir að hafa dvalið langdvölum á heilsuhælum.

Með fækkun berklasjúklinga hefur síðan fjöldi annarra samtaka brjóstholssjúklinga gengið til liðs við SÍBS. Innan vébanda SÍBS eru nú sameinuð samtök sem sinna fólki með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmis, svefnháðar öndunartruflanir og fleiri sjúkdóma.

Reykjalundur, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, er nú stærsta endurhæfingarstofnun landsins og ein meginstoð alls endurhæfingarstarfs í landinu. Reykjalundur er sjálfseignarstofnun sem ávallt hefur haft hagsmuni sinna sjúklinga og félagasamtaka að leiðarljósi.

Okkur er hollt að minnast þess nú þegar við heyrum um stórkarlaleg áform um uppbyggingu einkasjúkrahúsa fyrir erlenda sjúklinga hér á landi að þegar og ef fjárhagslegur ávinningur hefur orðið af starfsemi Reykjalundar eða SÍBS, þá hefur sá arður runnið óskiptur til þess að bæta hag skjólstæðinga ykkar enn frekar, en ekki til að fita buddu fjárfesta innan lands eða utan.

Frjáls félagasamtök, eða þriðji geirinn eins og þau eru stundum nefnd, eru mikilvægur hluti af samfélaginu. Þau veita landsmönnum óeigingjarna og mikilvæga þjónustu um leið og þau veita fólki tækifæri til að sameinast um málefni og hafa áhrif. Sjálfseignarstofnanir á þeirra vegum gegna mjög mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónsustu landsmanna eins og þið vitað manna best.

Stefnumót við „þriðja geirann“ er yfirskrift ráðstefnu sem ég hef boðað til þann 24. mars næst komandi. Til stefnumótsins er boðið fulltrúum um eitthundrað félagasamtaka sem sinna verkefnum sem falla að starfssviði heilbrigðisráðuneytisins.

Stefnumótið er hugsað sem samráðsvettvangur þar sem fulltrúum félagasamtaka gefst tækifæri til að hitta ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins, skiptast á skoðunum og varpa fram nýjum hugmyndum. Meginþemu og umræðuefni á þessu fyrsta stefnumóti ráðuneytisins við þriðja geirann verða lífsgæði og grunnþjónusta.

Alþjóðlegar stofnanir og samtök hafa um langt skeið átt samráð og samstarf við þriðja geirann með góðum árangri. Slíkt vinnulag er hluti af opnu lýðræði og hæfir vel á tímum gagnsæis og opinnar stjórnsýslu.

Gangi ykkur vel.

 

(Talað orð gildir)


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta