Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Afmælisráðstefna Jafnréttisstofu 10. september 2010

Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, á ráðstefnu sem Jafnréttisstofa hélt í tilefni af 10 ára starfsafmæli sínu 10. september. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, flutti ávarpið fyrir hans hönd. 

Góðir ráðstefnugestir.

Afmæli marka ávallt tímamót. Þau vekja okkur til umhugsunar um farinn veg, fá okkur til að endurmeta fortíðina með augum samtímans og skerpa sýn okkar á mikilvægustu verkefni framtíðarinnar. Þetta er markmið ráðstefnunnar í dag sem haldin er í tilefni af tíu ára afmæli Jafnréttisstofu.

Ég er þakklátur öllu því góða fólki sem vinnur að jafnréttismálum kynjanna í samfélaginu af óbilandi þrautsegju og þolgæði. Þetta er að mörgu leyti erfiður málaflokkur og oft ótrúlega þungt fyrir fæti að þoka málum áfram þrátt fyrir að öllum megi vera ljóst að jafnrétti kynjanna er allra hagur.  

Á fyrstu áratugum jafnréttisbaráttunnar bjuggu konur við lagalegt misrétti á mörgum sviðum. Hindranirnar sem þurfti að ryðja úr vegi voru augljósar og að því leyti auðvelt að setja baráttunni skýr markmið. Misrétti karla og kvenna var himinhrópandi og það þurfti mikil átök áður en konur öðluðust sjálfsögð réttindi til jafns við karla á borð við kosningarétt, kjörgengi og rétt til embætta, atvinnu og launa með sömu skilyrðum og þeir.

Í samfélagi númtímans er misrétti og ójöfn staða kynjanna að mörgu leyti dulin og af sumum dregin í efa sem raunverulegt vandamál. Það er tekist á um hvaða aðferðum eigi að beita til að stuðla að auknu jafnrétti, fólk greinir á um hvaða verkefni eigi að hafa forgang og það er jafnvel deilt um hvort aðgerða sé þörf.

En staðreyndirnar tala sínu máli.

Launamunur er enn fyrir hendi í samfélaginu konum í óhag – munur sem eingöngu skýrist af kynferði. Í efnahagslífinu ráða karlar för eins og sést glöggt í úttekt sem CreditInfó gerði á stjórnum fyrirtækja hér á landi árið 2009 og leiddi í ljós að hjá 71% allra fyrirtækja á Íslandi voru einungis karlar í stjórnum þeirra. Úttekt frá árinu 2008 sýndi svo að karlar voru í forstjórastóli hjá 81% allra fyrirtækja. Hlutur kvenna var enn rýrari þegar horft var til stærstu fyrirtækjanna. Hlutur karla og kvenna í stjórnum ríkisfyrirtækja er orðið nokkuð jafnt, en svo er hins vegar alls ekki þegar horft er til stjórnarformennsku, þar eru karlar alls ráðandi.

Það eru engar skynsamlegar skýringar á þessum mikla mun á stöðu kynjanna í efnahags- og atvinnulífi. Það þarf mikla vinnu og þrotlausa baráttu til að ná fram breytingum – en við vitum að það er hægt og við sjáum líka árangur á ýmsum sviðum.

Í stjórnmálum hefur orðið mikil breyting til batnaðar á liðnum árum. Í sveitarstjórnarkosningunum á þessu ári hlutu 512 frambjóðendur kosningu fulltrúa í sveitarstjórnir landsins, 308 karlar og 204 konur. Þar með náðist langþráð takmark um 40% hlutfall kvenna í sveitarstjórnum og jókst hlutur þeirra um 4% frá kosningunum árið 2006. Alþingiskosningarnar 2009 voru einnig sögulegar í þessu ljósi þar sem 43% kjörinna þingmanna voru konur. Í kosningunum á undan var hlutfallið 31%. Þetta er mikil breyting á tiltölulega skömmum tíma, því árið 1983 var hlutfall kvenna á þingi aðeins 15%. Þessi árangur er ekki sjálfsprottinn. Með markvissri fræðslu og umræðu um málefnið, átaksverkefnum og margvíslegri hvatningu hefur tekist að breyta viðhorfum til stjórnmálaþátttöku kvenna sem þykir nú ekki aðeins sjálfsögð heldur nauðsynleg.

Oft er sagt að góðir hlutir gerist hægt og það má auðveldlega heimfæra upp á þróun jafnréttismála hér á landi sem víðar. En þolinmæði okkar eru ákveðin takmörk sett. Jöfn staða karla og kvenna á öllum sviðum er mikið réttlætismál sem varðar jafnframt hagsmuni okkar allra og samfélagsins í heild.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi lög sem kveða á um að í lok árs 2013 skuli hlutur hvors kyns í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013. Í ljósi stöðunnar sem ég rakti áðan þótti ekki fært að bíða lengur í von um breytingar. Það var nauðsynlegt að grípa til beinna aðgerða og þess vegna voru lögin sett.

Á komandi þingi mun ég leggja fram tillögu til þingsályktunar í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2010-2014. Áætlunin er unnin í samráði við einstök ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Einnig var við gerð hennar höfð hliðsjón af umræðum sem fram fóru á jafnréttisþingi sem haldið var í janúar 2009 og skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem var birt þegar þingið var haldið.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 var mörkuð stefna um að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu. Sett var á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja undir forystu forsætisráðherra sem falið var það hlutverk að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Hlutverk ráðherranefndarinnar er meðal annars að fylgja því eftir að framkvæmdaáætluninni sé hrint í framkvæmd. Gert er ráð fyrir að árlega verði veittar 10 milljónir króna af fjárlögum til að styðja við framkvæmd hennar og er þá miðað við að ráðuneyti geti sótt um úthlutun af því fé til að innleiða aðgerðir, tillögur og ný verkefni sem varða verkefni í áætluninni sem heyra undir þau.

Af einstökum verkefnum áætlunarinnar má nefna átak til að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Áhersla er lögð á kynjaða hagstjórn og aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, meðal annars með því að samræma betur atvinnu- og fjölskyldulíf. Einnig eru í áætluninni lagðar til aðgerðir til að styðja við hvers kyns sköpun og frumkvöðlastarfsemi og leiðir til að styrkja stöðu kvenna á sviði sveitarstjórnarmála. Þá er fjallað um gerð áætlunar um jafnrétti í skólastarfi á öllum skólastigum allt frá leikskóla til háskóla og síðast en ekki síst endurskoðun aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi.

Við munum halda áfram að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla, enda verkefnin óþrjótandi. Jafnrétti snýst um að koma á og viðhalda jafnvægi í samfélaginu þar sem bæði kynin fá notið sín og eiga þess kost að takast á við fjölbreytt verkefni á öllum sviðum samfélagsins í samræmi við getu sína og langanir án þess að kynferði viðkomandi sé á nokkurn hátt hindrun. Þetta þarf að gilda jafnt í atvinnulífi, stjórnmálalífi og í fjölskyldulífinu. Í samfélagi stöðugra breytinga þarf sífellt að huga að þessu jafnvægi og endurmeta stöðu kynjanna í ljósi aðstæðna á hverjum tíma.

Það hefur lengi verið mér umhugsunarefni hvers vegna karlmenn sýna umræðu um jafnréttismál lítinn áhuga. Mismunandi staða kynjanna blasir við okkur öllum á hverjum degi í samfélaginu og þótt sá munur sé ekki endilega alltaf neikvæður þá er hann engu að síður staðreynd sem þarf skoðunar við, jafnt af hálfu karla og kvenna. Ég vil auka þátttöku karla í þessari umræðu. Í því skyni hef ég ákveðið að koma á fót nokkurs konar karlanefnd sem umræðuvettvangi á breiðum grundvelli um stöðu kynjanna. Það þarf jafnrétti í jafnréttisumræðunni og til þess þurfum við að draga fram sjónarmið beggja kynja og sýn þeirra á samfélagið í þessum efnum. Þetta er raunar eitt af lögbundnum verkefnum Jafnréttisstofu en þar segir að hún skuli auka virkni í jafnréttismálum, meðal annars með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi.

Góðir gestir.

Það er áhugaverð ráðstefna framundan enda á mælendaskránni fólk með mikla þekkingu á stöðu og þróun jafnréttismála hér á landi til fjölda ára og án efa sterka sýn á framtíðina. Að lokum vil ég þakka öllu því fólki sem starfað hefur hjá Jafnréttisstofu og forvera hennar, Skrifstofu jafnréttismála, í gegnum tíðina fyrir þeirra góðu störf. Ég óska Jafnréttisstofu til hamingju með daginn og segi ráðstefnuna setta.  

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta