Þjónusta við fatlaða – málaflokkur á tímamótum
Grein eftir Guðbjart Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra.
Birt í Fréttablaðinu 18. september 2010.
Töluverð umræða hefur orðið um þjónustu við fatlaða í kjölfar nýútkominnar skýrslu Ríkisendurskoðunar um efnið. Sumir kalla skýrsluna áfellisdóm yfir skipulagi og framkvæmd þjónustunnar og draga jafnvel þá ályktun að ekki sé tímabært að flytja þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga. Þetta get ég ekki tekið undir. Þvert á móti eigum við að horfa fram á við og nýta uppbyggilega gagnrýni til góðra verka.
Flutningur þjónustunnar til sveitarfélaganna markar tímamót og felur í sér margvísleg tækifæri til að endurskipuleggja hana og sníða af vankanta. Sameining heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í nýtt velferðarráðuneyti mun styrkja þetta ferli þar sem unnt verður að tengja betur saman ýmsa þætti velferðarþjónustunnar, byggja upp sterkari einingar og einfalda aðgengi og skipulag þjónustunnar til hagsbóta fyrir alla notendur hennar.
Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu málaflokksins
Það er rétt að Ríkisendurskoðun setur fram ábendingar um sitthvað sem betur má fara í þjónustu við fatlaða og þær ber að taka alvarlega. Hins ber að geta að við undirbúning verkefnisstjórnar um tilfærsluna til sveitarfélaga er að mörgu leyti búið að fjalla um þá þætti sem ábendingar Ríkisendurskoðunar lúta að. Í drögum að samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærsluna eru skilgreindir þeir þjónustuþættir sem sveitarfélög taka fjárhagslega og faglega ábyrgð á að framkvæma. Lýst er markmiðum með yfirfærslunni, sett fram áætlun um nauðsynlegar lagabreytingar og fjallað ítarlega um myndun þjónustusvæða og lágmarksíbúafjölda svæða til að tryggja faglegt og fjárhagslegt öryggi þjónustunnar og jafnræði með þjónustuþegum.
Í samkomulagsdrögunum er einnig fjallað um fjárhagsramma tilfærslunnar og jöfnunaraðgerðir, gerð grein fyrir aðgerðum til að tryggja rétt fatlaðra til þjónustu og skilgreint nýtt samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Fjallað er um mat á biðlistum og innleiðingu á nýju þjónustumati sem er grundvöllur jöfnunarkerfis milli þeirra sem veita þjónustuna. Loks er umfjöllun um eftirlit með þjónustunni og faglegt og fjárhagslegt endurmat á árangri tilfærslunnar.
Stefna í málaflokknum þarf víðtækan stuðning
Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við að stefna í málefnum fatlaðra sem legið hefur fyrir í drögum frá árinu 2007 hefur ekki verið staðfest og skortir því formlegt gildi. Ljóst er að ráðuneytið verður að ráða bót á þessu, setja fram skýra stefnu og tryggja henni víðtækan stuðning. Til greina kemur að leggja slíka stefnu fram sem tillögu til þingsályktunar með aðgerðaáætlun til fjögurra ára og verður sú leið skoðuð af hálfu ráðuneytisins. Undirbúningur að slíkri þingsályktunartillögu myndi fara fram í nánu samstarfi við sveitarfélögin.
Réttindagæsla fatlaðra og eftirlit með velferðarþjónustu
Eftirlit með velferðarþjónustu og réttindagæsla notenda er mikilvæg. Eftirlitið þarf að vera faglegt og trúverðugleiki eftirlitsaðilans skiptir miklu máli. Ráðuneytið hefur um skeið haft til skoðunar að koma á fót eftirlitsstofnun til að annast eftirlit með velferðarþjónustu. Skrefin sem nú hafa verið stigin í átt að sameiningu ráðuneyta renna styrkari stoðum undir slíka stofnun þar sem unnt væri að sameina á einum stað öflugt eftirlit með þjónustu á sviði félags- og heilbrigðismála.
Réttindagæsla er mikilvægur þáttur í starfsemi svæðisráða og trúnaðarmanna fatlaðra en hlutverk svæðisráðanna er að hafa faglegt og fjárhagslegt eftirlit með starfsemi og rekstri þeirra sem þjónusta fólk með fötlun. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur þetta skipulag varðandi réttindagæslu fatlaðra ekki verið virkt sem skyldi. Með þetta í huga fól ráðuneytið starfshópi að gera tillögur um úrbætur í þessum efnum og skilaði hann niðurstöðu í mars 2009, þar á meðal drögum að frumvarpi um réttindagæslu fólks með fötlun. Ráðuneytið mun taka afstöðu til þessara tillagna fljótlega og væntanlega munu næstu skref til úrbóta að einhverju leyti byggjast á þeim.
Í breytingum felast tækifæri
Sú stefna að flytja ábyrgð á þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga hefur legið fyrir allt frá árinu 1992 þegar ákvæði um það var sett í lög um málefni fatlaðra og enn frekar var hert á því við endurskoðun laganna árið 1996. Aðdragandinn er orðinn býsna langur en auðvitað mun öll sú umræða og undirbúningsvinna sem fram hefur farið á þessum tíma nýtast við yfirfærsluna.
Íslenskt samfélag stendur á tímamótum. Framundan eru margvíslegar breytingar sem nauðsynlegt er að gera í ljósi reynslunnar til að bæta stjórnsýsluna og einn liður í því er að efla sveitarstjórnarstigið. Á sviði heilbrigðis- og félagsmála er markmiðið að tryggja almenningi skilvirkari, betri og aðgengilegri þjónustu og það er ég viss um að okkur muni takast með flutningi þjónustu við fatlaða til sveitarfélaganna. Í breytingum felast margvísleg tækifæri sem við þurfum að vera vakandi fyrir og nýta til góðs.
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra.