Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, 4. október 2010

Ræða Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 4. október 2010.

 

Hæstvirtur forseti, ágætu Íslendingar.


Við hefjum nýtt þing þar sem íslenska þjóðin stendur enn í miðjum afleiðingum efnahagshrunsins með tilheyrandi fjárhagslegum erfiðleikum fyrir einstaklinga, heimili og ríkissjóð.

Öllum er ljóst að glíman við skuldavanda heimilanna er brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar, Alþingis og þjóðarinnar á næstu dögum og vikum. Það er verkefni okkar að verja barnafjölskyldur og heimilin, tryggja að einstaklingar og fjölskyldur hafi öruggt heimili, tryggja lágmarksafkomu og eyða fátækt.

Hægar hefur gengið að leysa úr skuldamálum en áætlað var, úrræði hafa ekki virkað nægilega hratt og samstaða um lausnir ekki verið næg.

Nú er komið að ögurstundu og Alþingi Íslendinga, hver einasti þingmaður og stjórnvöld, verður að gefa afdráttarlaus skilaboð um að nú verði tekið á málum af festu og fundnar lausnir sem duga.

Þverpólitísk samstaða náðist um lög um umboðsmann skuldara, frjálsa greiðsluaðlögun og lausnir á vanda þeirra sem sitja uppi með tvær eignir. Þessum lögum þarf að fylgja eftir og tryggja að þau nái hratt og vel tilgangi sínum, laga og breyta ef með þarf.

Nýju embætti Umboðsmanns skuldara, sem þegar er með 50 starfsmenn og fær 500 milljónir króna til ráðstöfunar á næsta ári, er ekki aðeins ætlað að gæta hagsmuna skuldara heldur einnig að sækja rétt þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt að allir sem eiga í fjárhagsvanda, að ekki sé minnst á þá sem eiga yfir höfði sér nauðungarsölur eða telja að fjármálafyrirtæki eða opinberir aðilar beiti þá fjárhagslegum órétti, leiti til Umboðsmanns skuldara.

Tryggja þarf að þeir sem missa húseign geti búið áfram í íbúðinni eins og lög gera ráð fyrir, gegn hóflegri leigu. Þar hefur orðið misbrestur á. Gera þarf allt sem hægt er til að hindra að lán sem felld verða niður í greiðsluaðlögun falli ekki á ábyrgðarmenn eða þá sem veitt hafa lánsveð. Þá þarf að styrkja ýmis úrræði varðandi leiguhúsnæði, félagslegar íbúðir, kaupleigu- og búseturétt til að tryggja öllum öruggt heimili. Og það er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að meira verði ekki gert eftir 1. nóvember vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það verður gripið til þeirra ráða sem duga.

Efnahags- og viðskiptaráðherra mun leggja fram frumvarp um samræmda meðferð allra gengistryggðra bíla- og húsnæðislána þannig að litið verði á þau sem ólögleg og þau leiðrétt. Þarna er um að ræða um 43 milljarða króna. Verkefni okkar næstu daga og vikur er einnig að tryggja enn betur lágmarksframfærslu.

Það er sama hvað er á undan gengið, hvað flokki við tilheyrum, hvaða hugmyndir við höfum, við þurfum að sameina krafta okkar, allir 63 þingmennirnir sem einn, í leit að lausnum á vanda heimilanna og skoða allar – og ég segi allar – framkomnar hugmyndir í leit að bestu lausnum.

Þetta verkefni verður aðeins leyst með samstilltu átaki. Aðeins þannig getum við eytt óöryggi, ótta, vanlíðan og óánægju sem birtist hér með mótmælum í kvöld.

- - - -
Hruninu fylgdi fjöldaatvinnuleysi í þeim mæli sem við Íslendingar höfum varla áður kynnst. Aðgerðir stjórnvalda hafa dregið úr versta skellinum þannig að svartsýnustu spár um atvinnuleysi hafa sem betur fer ekki ræst.

Hér er enn mikið verk að vinna. Fyrst og fremst þarf að hraða endurreisn íslenskra fyrirtækja með endurskoðun skulda, sölu fyrirtækja og uppstokkun svo fyrirtækin geti farið að horfa til framtíðar og hjól atvinnulífsins að snúast hraðar. Atvinnurekendur, bankar og ríki verða að leggjast á eitt um að ýta málum áfram.

- - - -

Í jafn harðri aðlögun og við göngum nú í gegnum í ríkisfjármálum er mikilvægara en nokkru sinni að forgangsraða, greina hvaða þjónustu er mikilvægast að veita og hvar er best og hagkvæmast að veita hana, um leið og horft er til þess hvernig við tryggjum sem best jafnræði og réttlæti í okkar samfélagi, meðal annars jafnræði íbúa landsins, óháð búsetu og kynferði.

Heilsugæslan verður áfram grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar og er fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf á þjónustu að halda. Því er reynt að tryggja að heilsugæslan verði öflug um allt land en ráðist í endurskoðun á starfsemi sjúkrasviða heilbrigðisstofnana nema á stærstu sjúkrahúsunum þar sem veitt verður áfram sérhæfðasta þjónustan. 

Málefni aldraðra, búseta og hjúkrun, munu falla undir nýtt velferðarráðuneyti. Þannig fæst heildarsýn yfir málaflokkinn, auðveldara er að tryggja samræmda, öfluga þjónustu og með vaxandi samvinnu við sveitarfélögin er unnt að samhæfa þjónustuna betur.

Flutningur þjónustu við fólk með fötlun um næstu áramót til sveitarfélaganna markar tímamót og felur í sér tækifæri til endurskipulagningar í samstarfi við notendur og þá sem veita þjónustuna. Sátt þarf að nást um kjör og réttindi starfsmanna við flutninginn. Fagna ber að samhliða flutningnum á að þróa notendastýrða þjónustu og tryggja þannig að einstaklingum með fötlun verði tryggð þau mannréttindi sem þeim ber.

- - - -

Með vísun í góð fræði um uppeldi til ábyrgðar vísa ég hér í lokin til heilræða sem gefin eru kennurum í samskiptum við börn og unglinga sem hafa lent í árekstrum eða erfiðleikum. Þar segir: Ásakanir, afsakanir eða skammir eru vonlaus viðbrögð við vanda, viðbrögð sem við höfum engan áhuga á. Það eina sem við höfum áhuga á er að koma hlutunum í lag. Þannig hljóðar það þar og það er þetta sem við alþingismenn eigum að hafa í huga á nýju þingi.

Megi það verða leiðarljós okkar hér á Alþingi á næstu dögum og vikum að leita lausna og koma hlutunum í lag þannig að allir geti lifað öruggu, mannsæmandi lífi á okkar ríka landi. Við verðum að nýta alla þá styrkleika sem íslenskt samfélag býr yfir í þágu íbúa þessa lands.

- - - -
Hlusta/horfa á ræðu ráðherra á vef Alþingis

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta