Úthlutun úr starfsmenntasjóði árið 2010
Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra við úthlutun úr starfsmenntasjóði félags- og tryggingamálaráðuneytisins, 12. október 2010.
Góðir gestir.
Á þeim rúma eina og hálfa áratug sem liðinn er frá því að lög um starfsmenntun í atvinnulífinu voru sett, hafa miklar breytingar orðið á því umhverfi sem Starfsmenntaráð hefur starfað í. Þróun atvinnulífsins hefur einkennst af stórstígum tækniframförum, breytingum á skipulagi og starfsemi fyrirtækja og stofnana og þeim störfum sem þar eru unnin. Sama gildir um starfsumhverfið sem einkennist stöðugt meir af alþjóðlegum samanburði, samstarfi og samkeppni.
Samhliða hefur orðið mikil breyting á uppbyggingu og framboði starfsmenntunar hér á landi. Fræðslustofnanir atvinnulífsins hafa eflst mjög á síðustu árum og gegna æ mikilvægara hlutverki á sviði endur- og símenntunar. Því má segja að lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu hafi þjónað vel markmiðunum sem með þeim voru sett í upphafi.
Við núverandi aðstæður í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar er þörfin fyrir öflugt starfsmenntakerfi mikilvægari en nokkru sinni. Núverandi kerfi hefur reynst vel. Það er mjög sveigjanlegt og því hefur verið mögulegt að bregðast hratt og víða við þeim erfiðu aðstæðum sem nú eru í þjóðfélaginu. Stór hópur atvinnuleitenda hefur sótt sér starfsmenntun til að halda sér virkum og viðhalda færni sinni á vinnumarkaði en einnig til þess að afla nýrrar þekkingar og skapa sér tækifæri til þess að breyta um starfsvettvang.
-------
Það er ljóst að sí- og endurmenntun skiptir gríðarlega miklu máli fyrir vinnumarkaðinn og atvinnulífið í heild. Það veltur á miklu að atvinnulífið hafi á að skipa hæfu og vel menntuðu fólki. Þetta er lykilatriði í framþróun fyrirtækja og er ekki síður mikilvægt fyrir starfsfólkið sjálft.
Góðir gestir.
Það eru ákveðin tímamót hér í dag því þetta er í síðasta sinn sem Starfsmenntaráð félags- og tryggingamálaráðuneytisins úthlutar styrkjum úr starfsmenntasjóði. Þann 1. október tóku gildi ný lög um framhaldsfræðslu sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og með þeim voru felld úr gildi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er þó síður en svo verið að draga úr vægi starfsmenntunar með þessu, heldur miklu fremur að styrkja hana og efla og treysta grundvöll hennar.
Orðið „framhaldsmenntun“ er skilgreint í lögunum sem hvers konar menntun sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla og háskóla. Framhaldsmenntun í þessum skilningi er lögfest sem viðurkennt menntunarkerfi til hliðar við formlegar námsbrautir í framhaldsskóla. Þá eru settar í lög skilgreindar kröfur til fræðsluaðila, þ.e. þeirra félaga og stofnana sem öðlast geta viðurkenningu sem slíkar á grundvelli laganna.
Ég vil halda því sérstaklega til haga hér að hlutverk aðila vinnumarkaðarins varðandi menntun og fræðslu er undirstrikað með nýju lögunum, meðal annars með því að ráðherra eru veittar heimildir til að fela félögum eða stofnunum á þeirra vegum ábyrgð á tilteknum þáttum sem varða framkvæmd laganna. Stofnaður verður sérstakur Fræðslusjóður þar sem sitja fulltrúar launafólks og launagreiðenda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita fé til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald og kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og eins til að veita styrki til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.
Það hefur verið samdóma álit þeirra sem fjalla um nám fullorðinna að til þess að það skili tilætluðum árangri verði að afla því formlegrar viðurkenningar. Þetta er eitt af meginmarkmiðum nýju laganna og með því er lagður grunnur að heildstæðu kerfi framhaldsfræðslu þar sem stuðningur er veittur einstaklingum óháð stéttarfélagsaðild.
- - - -
Það er tímabært að snúa sér að meginviðfangsefni dagsins sem er úthlutun úr starfsmenntasjóði árið 2010.
Til úthlutunar voru 55 milljónir króna. Auglýst var eftir umsóknum sem stuðluðu að atvinnusköpun og fólu í sér nýsköpun og einnig var auglýst eftir þróunarverkefnum sem miðuðu að því að vinna gegn neikvæðum áhrifum breytinga sem orðið hafa á vinnumarkaði í kjölfar efnahagskreppunnar.
Alls sóttu 49 aðilar um styrk til 78 verkefna. Samkvæmt niðurstöðu Starfsmenntaráðs hljóta 29 umsækjendur styrki til 39 verkefna og er heildarfjárhæð styrkjanna rúmar 55 milljónir króna.
Í fyrirliggjandi gögnum er listi yfir styrkveitingar ársins og eins og jafnan er þar að finna mörg áhugaverð verkefni.
Eitt verkefni er tilnefnt sérstaklega sem áhugavert sýnishorn margra góðra og velútfærðra umsókna. Það er verkefni sem heitir ,,Víst geturðu lært stærðfræði” og Mímir-símenntun stendur að í samstarfi við Flöt – félag stærðfræðikennara.
Erfiðleikar við stærðfræðinám er ein algengasta ástæðan fyrir brottfalli úr námi og hefur reynsla námsráðgjafa hjá Mími sýnt að fjöldi nemenda telur sig ekki geta lært stærðfræði. Markmið verkefnisins er að finna leiðir til þess að brjóta niður hindranir í stærðfræðinámi fullorðins fólks og þróa til þess námsefni við hæfi. Styrkur til verkefnisins nemur 1,9 milljónum króna. Það er mér sönn ánægja að óska aðstandendum þess til hamingju með styrkinn og óska þeim og nemendum þeirra velgengni.
- - - -
Frá árinu 1992 hefur Starfsmenntaráð veitt rúmlega 800 milljónum króna til um 900 starfsmenntaverkefna sem hafa það að markmiði að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi. Starfsmenntaráð hefur gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir einstaklinga, atvinnulífið og samfélagið í heild og skapað þannig gífurleg verðmæti sem seint verða metin að fullu til fjár.
Eins og ég sagði áðan er þetta í síðasta sinn sem styrkjum er úthlutað úr starfsmenntasjóði og ég vil því þakka öllum þeim sem starfað hafa á vettvangi þess fyrir vel unnin störf.
Að lokum þakka ég öllum þeim sem sóttu um styrki í sjóðinn að þessu sinni og óska þeim innilega til hamingju sem styrki hlutu, sannfærður um að verkefni þeirra muni verða mörgum til hagsbóta.