Hjálp til sjálfshjálpar
Góðir fundarmenn.
Ég býð ykkur öll velkomin og þakka ykkur fyrir að taka þátt í þessum samráðsfundi sem markar ákveðin tímamót. Hér koma saman fulltrúar opinberra aðila og þriðja geirans til að ræða hvernig best megi haga aðstoð við þá sem standa höllum fæti í samfélaginu þannig að sú aðstoð komi að sem mestu haldi og sé veitt á besta mögulegan máta. Þetta er mjög alvarlegt viðfangsefni og að ýmsu leyti flókið.
Hér á landi er löng hefð fyrir starfsemi hjálparsamtaka af ýmsu tagi, auk starfsemi félaga- og hagsmunasamtaka sem berjast fyrir réttindum og bættri stöðu ákveðinna hópa eftir því sem brýnast þykir á hverjum tíma. Oft hefur þriðji geirinn verið í hlutverki brautryðjandans og byrjað með vísi að ýmis konar samfélagslegri þjónustu sem síðar hefur orðið sjálfsagður þáttur í þjónustu hins opinbera.
Ef við ímyndum okkur hið fullkomna samfélag myndum við eflaust mörg segja að hjálparsamtök væru óþörf þar sem öllum sem þyrftu aðstoðar við væri tryggður fullnægjandi stuðningur af hálfu hins opinbera. Við nánari skoðun held ég þó að það sé ekki rétt, heldur muni alltaf verða þörf fyrir aðkomu þriðja geirans að velferðarmálum, meðal annars vegna brautryðjendastarfsins sem ég nefndi áðan, vegna þess að þar eru skapandi öfl sem oft sjá hlutina í víðara samhengi en gerist hjá kerfum hins opinbera og eins vegna þess að þriðji geirinn virkar bæði sem drifkraftur og mikilvægt aðhald fyrir hið opinbera á öllum tímum. Þátttaka í starfi frjálsra félagasamtaka að ýmsum velferðarmálum getur einnig verið mikils virði, ekki aðeins þeim sem njóta þess heldur einnig þeim sem gefa af sér með sjálfboðavinnu og láta þannig gott af sér leiða.
Það er hins vegar umhugsunarefni hvert eigi að vera hlutverk þriðja geirans. Hvaða verkefnum er eðlilegt og æskilegt að hann sinni, hver á að vera umgjörð starfsins, eiga stjórnvöld að hafa af því einhver afskipti og ef svo er, í hverju eiga þau að felast? Eru einhver verkefni sem stjórnvöld verða skilyrðislaust að sinna og eiga ekki undir neinum kringumstæðum að vera liður í starfi þriðja geirans? Allt eru þetta spurningar sem ástæða er til að velta fyrir sér og leita svara við.
Á þeim erfiðu tímum sem við glímum nú við í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins hefur reynt verulega á starfsemi þriðja geirans. Fjöldi þeirra sem leitar stuðnings og aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum hefur aukist verulega. Vandamál fólks sem tengjast afleiðingum efnahagshrunsins eru margvísleg. Sumir leita til frjálsra félagasamtaka eftir félagslegum og sálrænum stuðningi. Vaxandi hópur fólks nær ekki endum saman og þarf að leita til hjálparstofnana eftir fjárhagslegum stuðningi sem veittur er í ýmsu formi, allt frá beinum fjárstyrk til fata- og matargjafa og úthlutun annarra nauðsynja.
Það eru þessi síðasttöldu verkefni sem erfitt er að sætta sig við að þriðji geirinn þurfi að sinna í samfélagi eins og okkar sem er í raun og veru velmegandi og ríkt, þrátt fyrir kreppuna. Við erum að tala um fátækt, raunveruleika þar sem hópur fólks býr við það mikla neyð að ráðstöfunartekjur duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum.
Það er sorglegt til þess að vita að sá tími sem við álitum uppgangs- og góðæristíma skyldi ekki nýttur til kjarabóta fyrir þá sem minnst hafa. Á árunum 2007–2008 var reyndar töluvert gert í þessu skyni. Bætur almannatrygginga voru hækkaðar, dregið var úr tekjutengingum hjá lífeyrisþegum, sett frítekjumörk á atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur og síðast en ekki síst var sett lágmarksframfærslutrygging sem bætti umtalsvert kjör þeirra lífeyrisþega sem minnst báru úr býtum. Þessar aðgerðir voru að einhverju leyti látnar ganga til baka í kjölfar efnahagshrunsins en þær skerðingar bitnuðu þó síst á þeim tekjulægstu.
Því miður voru framantaldar úrbætur á kjörum þeirra verst settu ekki nægar og nú þegar kaupmáttur hefur minnkað, skuldir fólks hafa hækkað og atvinnuleysi er mikið eiga margir í verulegum vanda og búa í versta falli við sára fátækt.
Það er vont til þess að vita til þess að fólk skuli nú standa í biðröðum fyrir utan hjálparstofnanir til að sækja sér nauðþurftir. Við getum ekki og megum ekki sætta okkur við þetta. Það er vegið að sjálfsvirðingu fólks og eins og formaður velferðarvaktarinnar hefur sagt þá er í rauninni verið að setja plástur á svöðusár. Hér verða stjórnvöld að axla ábyrgð og finna leiðir til að útrýma þessum biðröðum. Það á ekki að vera hlutverk hjálparsamtaka að gefa fólki mat. Stjórnvöld verða að sjá til þess að ekki sé þörf fyrir aðstoð af þessu tagi.
Unnið er að setningu neysluviðmiða þar sem lagt er mat á raunverulegan kostnað fólks við mismunandi aðstæður við að framfleyta sér og sínum. Ég vænti þess að viðmiðin verði tilbúin öðru hvoru megin við áramótin og er sannfærður um að þar fáum við afar gagnlegan leiðarvísi sem nýtist við gerð framfærsluviðmiðs sem ákveðið hefur verið að vinna samhliða. Með því fáum við gagnlegt tæki í hendur til að leiðrétta stöðu þess fólks sem verst er sett fjárhagslega.
Verið er að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og eitt af því sem væntanlega kemur út úr þeirri vinnu er að réttur fólks til atvinnuleysisbóta verði lengdur úr þremur árum í fjögur. Þetta mun leiða til þess að fleiri fá greiddar atvinnuleysisbætur sem ella ættu ekki annars úrkosta en að sækja fjárhagsaðstoð til sveitarfélaganna. Að jafnaði nemur fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til einstaklings um 126.000 krónum á mánuði en 200.000 krónum til sambúðarfólks. Það er augljóst að fyrir þá sem ekki hafa annað sér til framfærslu er úr vöndu að ráða. Ég hef hug á því að ræða við sveitarfélögin um hækkun framfærsluviðmiðanna og tel það raunar algjörlega nauðsynlegt því þar erum við að ræða um þann hóp fólks sem hefur allra minnst milli handanna.
Góðir fundarmenn.
Umfjöllunarefni þessa samráðsfundar er mikilvægt, viðkvæmt og vandasamt. Ég ítreka þakkir mínar til ykkar sem hér eruð, jafnt fyrir þau störf sem þið sinnið og fyrir viljann til samráðs og viðræðna við stjórnvöld um leiðir til að takast á við erfitt viðfangsefni. Þriðji geirinn verður alltaf mikilvægur þáttur í samfélaginu en það eru ákveðin verkefni sem ég vonast til að þið þurfið ekki að sinna í framtíðinni, með betri lausnum hins opinbera á vanda þeirra sem búa við raunverulega fátækt.