Viðurkenning Barnaheilla á Íslandi - framlag í þágu barna og mannréttindi þeirra
Ávarp Guðbjarts Hannessonar, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra við afhendingu Barnaheilla á viðurkenningu samtakanna árið 2010. Þjóðmenningarhúsinu 19. nóvember 2010
Góðir gestir.
Það er alltaf gaman að gleðjast yfir góðu starfi. Við sem hér erum samgleðjumst Þórunni Ólý Óskarsdóttur sem hlýtur viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2010 fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.
Hjá Unglingasmiðjunum Stíg og Tröð sem Reykjavíkurborg rekur og Þórunn Ólý veitir forstöðu, er sinnt starfi sem fer ekki hátt en skiptir gífurlega miklu máli fyrir það unga fólk sem sækir þangað stuðning til sjálfseflingar og fyrir samfélagið allt.
Eins og Barnaheill benda á er því miður fjöldi barna á Íslandi sem elst upp við líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi, eru lögð í einelti eða vanrækt. Ofbeldi í öllum birtingarmyndum er gríðarlega alvarlegt og afleiðingarnar geta verið afdrifaríkar. Allra verst er þegar ofbeldið beinist að börnum og ungmennum, meðal annars af því að þau eru viðkvæmari fyrir en fullorðnir, enda á mótunarskeiði. Ofbeldi brýtur börn niður og rænir þau barnæskunni.
Ábyrgð okkar fullorðnu er mikil og við verðum að standa undir henni. Við megum ekki undir neinum kringumstæðum láta ofbeldi gagnvart börnum viðgangast og verðum að bregðast við ef minnsti grunur vaknar um illa meðferð á börnum af einhverju tagi. Mikilvæg lög sem varða réttindi og stöðu barna eru barnalög og barnaverndarlög. Í barnaverndarlögum er skýrt kveðið á um rétt barna til verndar og umönnunar, kveðið er á um skyldur þeirra sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum um að sýna þeim virðingu og umhyggju og lagt er fortakslaust bann við því að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
Meðal mikilvægustu ákvæða barnaverndarlaganna eru ákvæðin um tilkynningarskyldu almennings, fagfólks og lögreglu til barnaverndarnefnda ef grunur leikur á um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Við höfum vel búið kerfi til að taka á þessum málum og okkur ber skylda til að fara nákvæmlega að reglum þess.
Í júní á þessu ári skilaði samráðshópur þriggja ráðuneyta greinargerð með tillögum um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Þar voru lagðar fram 30 tillögur um aðgerðir til að sporna við einelti í samfélaginu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að ráðast í þessar aðgerðir og ákveðið að veita 9 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til að styðja við aðgerðirnar og er gert ráð fyrir sambærilegu framlagi á næstu árum. Skipuð verður verkefnisstjórn til þriggja ára til að fylgja eftir tillögum starfshópsins. Ég nefni hér einnig áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og börnum sem unnið hefur verið að frá árinu 2006 og gildir út þetta ár. Nú er í undirbúningi ný aðgerðaáætlun um þetta efni þar sem sérstök áhersla verður lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu, en sem kunnugt er fara afar fá mál af þessum toga alla leið í gegnum dómskerfið
Ég veit að við öll sem hér erum saman komin tökum heilshugar undir sýn Barnaheilla um heim þar sem réttur sérhvers barns til lífs, verndar, þroska og þátttöku er virtur. Markmið Barnaheilla er að vekja heiminn til vitundar um stöðu barna og ná fram tafarlausum og ævarandi breytingum í lífi þeirra. Þetta er óþrjótandi verkefni, en öll spor sem stigin eru í átt að þessu markmiði eru mikilvæg. Þess vegna er gott að gleðjast yfir góðu starfi í þágu barna eins og við gerum hér í dag og nota jafnframt tækifærið til að minna á þá staðreynd að framtíðin felst í börnum og ungu fólki. Með öflugu starfi í þágu barna og baráttu gegn öllu misrétti sem börn eru beitt leggjum við grunn að bjartari og betri framtíð.
Barnaheill veita viðurkenninguna í dag til að vekja athygli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn öðlaðist gildi hér á landi árið 1992 og á að vera öllum þeim sem vinna að hagsmunum barna leiðarljós, líkt og Barnaheill leggja ríka áherslu á í sínu starfi.
Þakka ykkur fyrir.