Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra á Læknadögum 2011

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á Læknadögum 2011, þann 25. janúar.
Yfirskrift dagskrárliðarinar var „Heilbrigðisþjónusta á krossgötum“ þar sem frumælendur fjölluðu um áskoranir og tækifæri í starfi á tímum efnahagskreppu og skipulagsbreytinga í heilbrigðisþjónustu.
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra.


Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa Læknadaga með nokkrum orðum, þennan fjölmenna vettvang lækna, til faglegrar umræðu sem haldnir hafa verið árlega frá árinu 1994. Umfjöllunarefnin hér eru mörg hver afar sérhæfð, eins og við er að búast, en hér er einnig horft vítt yfir sviðið eins og yfirskrift þessa dagskrárliðar heilbrigðisþjónusta á krossgötum felur í sér.

Það má raunar segja að við efnahagshrunið, haustið 2008, hafi íslenskt samfélag staðið á krossgötum í flestum skilningi. Það hrikti í öllum stoðum því undirstöðurnar voru ekki eins traustar og við höfðum talið. Gagnger endurskoðun var óhjákvæmileg á flestum sviðum samfélagsins.

Efnahagshrunið lék fjárhag ríkisins grátt. Það hefur krafist niðurskurðar og skipulagsbreytinga í heilbrigðisþjónustu líkt og öðrum opinberum rekstri. Það er hins vegar gæfa okkar Íslendinga að velferðarkerfi okkar er í grunninn traust — heilbrigðiskerfið stendur styrkum fótum og hefur alla burði til að veita landsmönnum áfram góða þjónustu.

Ég segi því að íslenska heilbrigðiskerfið stendur ekki á krossgötum í þeim skilningi að til standi að breyta um stefnu og halda í aðra átt. Grunnur heilbrigðisþjónustunnar verður eftir sem áður norrænt velferðarmódel þar sem þjónustan er kostuð úr sameiginlegum sjóðum og veitt öllum þeim sem á þurfa að halda án aðgreiningar vegna efnahags, búsetu, kyns eða aldurs.

Íslenska heilbrigðiskerfið krefst hins vegar endurskoðunar og skipulagsbreytinga þannig að við getum náð markmiðum okkar á sem hagkvæmastan hátt með aukinni skilvirkni. Þetta er stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir á tímum efnahagskreppu og ég er sannfærður um að við getum tekist á við hana og náð góðum árangri ef allir leggjast á eitt.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun heilbrigðisþjónustunnar með heildstæðri stefnumörkun til að draga úr kostnaði, nýta fjármuni skynsamlega og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um allt land. Áhersla er lögð á að heilsugæslan skuli sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Við fjárlagagerð ársins 2011 var þessi stefna höfð að leiðarljósi.

Það verður að segjast eins og er að uppbygging sjúkrahúsa eða sjúkrasviða heilbrigðisstofnana víða um land í gegnum tíðina hefur í sumum tilvikum farið fram meira af kappi en forsjá. Því eru takmörk sett hve mögulegt er og skynsamlegt að halda úti sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á mörgum stöðum. Þetta snýst ekki aðeins um kostnað, heldur einnig um mönnun og faglegar forsendur.

Aukin sérhæfing kallar á stærri einingar sem þjóna stærri landsvæðum en áður. Bættar samgöngur auka möguleika á slíkri endurskipulagningu og öflugt og traust sjúkraflutningakerfi er mikilvæg forsenda. Til mótvægis við aukna sérhæfingu í sjúkrahúsrekstri er unnið að því að efla heilsugæsluna og auka vægi hennar í heilbrigðisþjónustu við landsmenn.

Góðir fundarmenn.

Þau tímamót urðu 1. janúar síðastliðinn að heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið voru sameinuð og nýtt velferðarráðuneyti varð að veruleika. Félagsmálaráðuneytið varð til sem sjálfstætt ráðuneyti árið 1946 en heilbrigðisráðuneytið var stofnað árið 1970. Málefni þess höfðu áður verið vistuð á ýmsum stöðum; heilbrigðismálin aðallega í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en almannatryggingar í félagsmálaráðuneytinu. Sameining ráðuneytanna er því markverð í sögulegu samhengi en ekki síður boðar sameiningin breytta sýn og nálgun á tilhögun velferðarþjónustu framtíðarinnar, þar sem saman fer á einum stað rík ábyrgð á þáttum sem varða líkamlega, andlega og félagslega velferð fólks.

Verkefni velferðarráðuneytisins eru umfangsmikil og skipta landsmenn miklu máli frá degi til dags. Útgjöld ráðuneytisins segja sitt um umfang verkefnanna. Samkvæmt fjárlögum þessa árs nema útgjöld þess 41% af útgjöldum A-hluta ríkissjóðs, eða rúmum 209 milljörðum króna, þegar tekið hefur verið tillit til vaxtagjalda. Almannatryggingar eru stærsti útgjaldaliður ráðuneytisins, um 41% af heildarútgjöldum þess, sjúkrahús- og sjúkraþjónusta nemur um 18% og útgjöld til vinnumála 16,7%.

Þetta eru því gífurlegar fjárhæðir sem við er að fást að baki þessum verkefnum, það eru miklir hagsmunir í húfi og skipulag málaflokka og verkefna getur skipt sköpum um útkomuna. Þættir velferðarkerfisins eru margir og samofnir og því getur breyting á einum stað sem virðist léttvæg haft umtalsverð keðjuverkandi áhrif víða í kerfinu til lengri tíma litið.

Lyfjakostnaður er oft til umræðu þegar rætt er um útgjöld til heilbrigðismála enda gott dæmi um kostnaðarlið þar sem tiltölulega litlar skipulagsbreytingar geta leitt til verulegra breytinga á útgjöldum hins opinbera. Síðustu misseri hafa verið gerðar breytingar á greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjakostnaði, lyfjanotkun hefur verið beint markvisst að ódýrari lyfjum og tekist hefur að lækka verð á mörgum lyfjum. Fjárhagslegur ávinningur af þessum aðgerðum er verulegur og árangurinn hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.

Kerfisbreytingar geta breytt miklu um útgjöld til heilbrigðismála en kannski er þó annar þáttur veigameiri sem við eigum að einbeita okkur frekar að en hingað til – og þá á ég við forvarnir og mismunandi leiðir til að hafa áhrif á lýðheilsu.

Samkvæmt nýjustu tölum um tíðni daglegra reykinga fullorðinna Íslendinga hefur dregið úr þeim jafnt og þétt um langt skeið og var hlutfall fullorðinna sem reyktu að staðaldri í fyrra 14,2%. Árið 1999 reyktu 27% Íslendinga daglega og árið 1985 var þetta hlutfall um 40%. Það væri fróðlegt að vita hvað þessi þróun hefur sparað okkur í útgjöldum til heilbrigðismála, bjargað mörgum mannslífum og dregið úr tíðni alvarlegra sjúkdóma með tilheyrandi skerðingu lífsgæða. Þessi árangur ætti að vera okkur hvatning á öðrum sviðum forvarna.

Offita er vaxandi heilbrigðisvandamál hér á landi og samkvæmt upplýsingum frá OECD voru Íslendingar í fyrra í sjötta sæti á lista yfir of feitar þjóðir. Offita er orðið eitt útbreiddasta heilsufarsvandamál iðnvæddra þjóða og er þróuninni líkt við faraldur. Afleiðingarnar eru víðtækar því sterk fylgni er milli offitu og margra alvarlegra sjúkdóma á borð við sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, stoðkerfisvandamála og fleiri. Með breyttum lífsstíl almennings væri hægt að draga verulega úr tíðni þessara sjúkdóma, bæta þannig almennt heilsufar og vellíðan og draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Hér þurfum við að skoða hvaða aðgerðir eru raunhæfar til að hafa áhrif á lífsstíl fólks til betri vegar.

Mikið og viðvarandi atvinnuleysi og langtímaatvinnuleysi, sérstaklega meðal ungs fólks, er ávísun á félagsleg og sálræn vandamál, heilsubrest og örorku ef aðstæður eru ekki teknar föstum tökum. Þetta er stór áskorun sem við stöndum frammi fyrir þar sem við megum ekki bregðast og miklu skiptir að allir þættir velferðarkerfisins vinni saman.

Öll velferðarþjónusta er viðkvæm og því mjög mikilvægt að hafa skýra sýn til framtíðar. Allar aðgerðir og allar breytingar þarf að skoða og meta út frá mögulegum áhrifum þeirra, ekki aðeins skammtímaáhrifum heldur einnig til lengri tíma litið og í víðu samhengi. Þetta er hlutverk hins nýstofnaða velferðarráðuneytis og það krefst mikils og góðs samráðs og samvinnu við fjölda stofnana, fagfólks og stjórnenda.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég er fyrstur frummælenda undir þessum dagskrárlið þar sem hverju okkar er ætlað að fjalla um þær áskoranir og tækifæri sem við stöndum frammi fyrir í starfi á tímum efnahagskreppu og skipulagsbreytinga í heilbrigðisþjónustu. Okkur brennur eflaust öllum margt á hjarta, því vissulega eru þetta erfiðir tímar. Það hefur mikið mætt á starfsfólki og stjórnendum heilbrigðiskerfisins að undanförnu og ég veit að hagræðing og niðurskurður hefur haft mikil áhrif á starfsskilyrði ykkar allra.

Ég ætla að láta hér staðar numið og hleypa öðrum að en vil að lokum segja að ég treysti á gott samstarf við ykkur í þeim verkefnum sem framundan eru og ég er sannfærður um að okkur muni takast að tryggja áfram öfluga og góða heilbrigðisþjónustu í landinu fyrir alla landsmenn.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta