Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Jafnréttisþing 2011, ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra

 


Jafnréttisþing 2011

Hilton Reykjavik Nordica, 4. febrúar 2011

Skýrsla Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um stöðu og þróun í jafnréttismálum og tillaga að nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum


Góðir gestir.

Ég býð ykkur öll velkomin til jafnréttisþings 2011 sem efnt er til samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Umfjöllunarefni

Umfjöllunarefni þingsins eru mörg og varða stór verkefni sem eru mikilvæg og vandasöm. Jafnréttisþing er mikilvægur vettvangur fólks til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Því er mér eins og öllum þeim sem að þinginu standa mjög í mun að það takist sem best og að sú umfjöllun sem hér fer fram nái út fyrir þessa veggi, út í samfélagið og verði sá þungi straumur sem markar jafnréttismálum farveg til framtíðar í þágu betra samfélags.

Hlutverk mitt hér sem ráðherra jafnréttismála er að leggja fram skýrslu um málaflokkinn sem ætlað er að gefa yfirlit yfir stöðu og þróun jafnréttis kynja á helstu sviðum samfélagsins. Í henni er meðal annars fjallað um þróun kynbundins launamunar, atvinnuþátttöku kvenna og karla, þátttöku kynjanna í stjórnmálum og hlutfall kynja í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum.

Jafnréttisþing var síðast haldið í janúar 2009. Síðan þá hefur verið unnin tillaga til þingsályktunar um nýja áætlun stjórnvalda í jafnréttismálum til fjögurra ára. Hana lagði ég fyrir Alþingi í nóvember síðastliðnum þar sem hún er til umfjöllunar og lauk fyrri umræðu þingsins um hana 20. janúar.

Ég mun á eftir gera grein fyrir helstu áhersluatriðum þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum en byrja á því að fara yfir stöðu og þróun á þessu sviði, hvað hefur áunnist og hvaða verkefni eru brýnust til að jafna stöðu og rétt kvenna og karla.

Leiðir til árangurs

Margt hefur áunnist á liðnum árum í jafnréttismálum og fært okkur í rétta átt. Í sumum tilvikum má þakka árangurinn beinum aðgerðum en oft er ekki augljóst hvað nákvæmlega hefur orðið til þess að bæta stöðuna. Vinna að jafnréttismálum snýst að verulegu leyti um að breyta viðhorfum, stuðla að auknum skilningi fólks á jafnréttishugtakinu, samfélagslegri ábyrgð og virðingu fyrir mannréttindum. Allt þetta starf skilar árangri og því mikilvægt að stjórnvöld leggi við það rækt og gæti jafnréttis í öllum sínum athöfnum.

Í stjórnmálum hefur hlutur kvenna aukist verulega á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins og kona leiðir ríkisstjórnina. Þá hefur hlutur kvenna í nefndum og ráðum hins opinbera farið ört vaxandi í kjölfar lagasetningar 2008 þar sem kveðið er á um hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífinu hefur lítið miðað í þessum efnum og því var samþykkt lagabreyting sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífinu. Einnig hafa verið gerðar lagabreytingar til að styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali.

Staða og þróun – alþjóðlegur samanburður

Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) gaf út skýrslu í október 2010 þar sem mat er lagt á rétt og stöðu kynjanna hjá einstökum þjóðum þar sem horft er til stöðu karla og kvenna í stjórnmálum, á sviði menntunar og atvinnu og út frá heilbrigði. Norðurlandaþjóðir skipuðu sér í efstu sætin á lista þeirra þjóða sem best þóttu standa sig á sviði jafnréttismála. Ísland var í efsta sæti, þá Noregur og Finnland í þriðja sæti.

Ísland skipaði efsta sætið þegar horft var til stjórnmálaþátttöku og aðgengis að menntun og einnig skipti atvinnuþátttaka kvenna miklu fyrir heildarniðurstöðu landsins.

Það skyggir hins vegar mjög á ánægjuna yfir þessari niðurstöðu sú staðreynd sem skýrsluhöfundar benda á að launamunur karla og kvenna á Íslandi er enn mjög mikill og eins að konur standa höllum fæti þegar horft er til hlutfalls kynjanna í stjórnunarstöðum. Aftur á móti var bent á setningu laganna sem ég nefndi áðan sem skylda fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn að tryggja jafnt hlutfall kynja í stjórnum. Ákvæði þessa efnis tekur gildi árið 2013.

Staða og þróun – vinnumarkaður

Mikil og almenn atvinnuþátttaka, löng starfsævi og atvinnuþátttaka kvenna hefur löngum skapað Íslandi algjöra sérstöðu í samanburði við aðrar þjóðir. Atvinnuleysi vegna efnahagsþrenginga hefur vissulega sett strik í reikninginn en engu að síður er hún enn mikil, þótt hún sé minni en þegar hún var mest árið 2007. Það ár var hlutfallsleg atvinnuþátttaka karla 87,5% og hjá konum 78,6% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Árið 2010 hafði atvinnuþátttaka karla dregist saman um 3% hjá körlum, var þá 84,5% en um 1% hjá konum og var þá 77,6%.

Erfitt atvinnuástand getur haft margháttuð áhrif á stöðu kynjanna og því mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni. Fyrst eftir efnahagsáfallið jókst atvinnuleysi langmest meðal karla en síðustu misseri hefur verulega dregið saman með kynjunum og í desember síðastliðnum var það 7,3% hjá konum en 8,5% hjá körlum. Við þurfum að vera sérstaklega vel á verði gagnvart launaþróun, frekari breytingum á atvinnuþátttöku kynjanna, lengd vinnutíma, breyttri nýtingu kynja á rétti til fæðingar- og foreldraorlofs og hvort og þá hvernig breyttar aðstæður á vinnumarkaði kunna að hafa áhrif á það hvernig karlar og konur deila með sér verkum og axla ábyrgð gagnvart fjölskyldunni.

Ég á von á áhugaverðu erindi hér á eftir sem tengist þessu efni frá Ingólfi V. Gíslasyni þar sem hann veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort kynjajafnrétti og velferð barna séu ósættanlegar andstæður. Þar verður byggt á nýrri samanburðarrannsókn á fæðingarorlofi og umönnunarstefnu Norðurlandaþjóðanna. Rannsóknin hófst árið 2009 að frumkvæði Íslands sem það ár fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og eru niðurstöðurnar nýkomnar út í bók norrænna fræðimanna um efnið sem Ingólfur og Guðný Björk Eydal ritstýrðu.

Ég bendi hér einnig á niðurstöður rannsóknarinnar Ánægja með fjölskyldulíf á Íslandi í kjölfar bankahruns sem Þóra Kristín Þórsdóttir og Kolbeinn Stefánsson unnu árið 2010. Rannsóknin er byggð á könnun International Social Survey Programme frá árinu 2002 á fjölskyldulífi og breytingum á kynhlutverkum sem og tveimur hliðstæðum könnunum sem framkvæmdar voru hér á landi af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands en jafnframt styrkti Jafnréttisráð framkvæmd kannananna.

Kynbundinn launamunur er svartur blettur á íslensku samfélagi og óþolandi hve illa gengur að leiðrétta þetta hróplega misrétti. Ég ætla ekki að rekja í löngu máli niðurstöður rannsókna á þessu sviði þótt áhugavert sé að skoða hvernig munurinn birtist eftir búsetu, aldri, menntun og fleiri þáttum. Það er líka fróðlegt að skoða hvernig þessu misrétti er pakkað inn í ýmsar umbúðir, svo sem í formi ógreiddrar yfirvinnu, þóknana, aksturspeninga og þar fram eftir götum. Meginmálið er að kynbundinn launamunur er staðreynd og til skammar í hvaða búningi sem er. Könnun Hagstofunnar sem birtist í febrúar 2010 fyrir árin 2000–2007 sýndi 7,3% kynbundinn launamun og launakönnun VR árið 2009 sýndi 10,1% launamun sem einungis var hægt að skýra með kynferði.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skyldi félags- og tryggingamálaráðherra í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sjá til þess að þróað yrði fyrir 1. janúar 2010 sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir. Um þetta var einnig fjallað í sérstakri bókun með kjarasamningi milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í febrúar 2008. Sama ár gáfu ráðuneytið, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífisins út viljayfirlýsingu um gerð staðals sem gæti nýst sem undirstaða vottunar um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði hvað varðar laun, ráðningar og uppsagnir og var samið við Staðlaráð Íslands um að hafa yfirumsjón með gerð staðalsins.

Svokölluð tækninefnd sem komið var á fót um gerð staðalsins vinnur að þessu verkefni sem hefur því miður reynst tímafrekara en upphaflega var áætlað og liggur ekki fyrir hvenær því lýkur.

Það er alveg ljóst að hér verðum við að taka okkur verulega á; stjórnvöld, atvinnurekendur og stéttarfélög og gildir það jafnt um almennan vinnumarkað og opinbera geirann. Um þetta er fjallað í tillögu til þingsályktunar í jafnréttismálum og lagðar til aðgerðir sem ég kem betur að hér á eftir.

Konur í stjórnmálum

Við erum sannarlega á réttri leið hvað varðar hlut kvenna í stjórnmálum. Tölurnar tala sínu máli, hvort sem horft er til kvenna í sveitarstjórnum, á Alþingi eða í ríkisstjórn og eins og allir vita varð núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrst kvenna til að leiða ríkisstjórn hér á landi og brjóta þannig glerhvolfið sem verið hefur yfir íslenskum stjórnmálum frá upphafi.

Konur í ýmsum áhrifastöðum

Tölur um hlut kvenna í ýmsum áhrifastöðum sýna vel að enn er langt í land á mörgum sviðum, þótt á mörgum þeirra þokist í rétta átt. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands rannsakaði hlut kvenna hjá einkafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum á árunum 1999–2009. Fram kom að hlutur kvenna í stjórnum opinberra fyrirtækja í lok tímabilsins var orðið nokkuð jafnt en hlutfall kvenna af stjórnarmönnum og æðstu stjórnenda hafði lítið aukist. Í stjórnum einkafyrirtækja hafði fátt breyst konum í hag en athyglisvert var að sú aukning sem þó hafði orðið var tilkomin vegna nýrra fyrirtækja.

Þegar breytingar eru jafnhægfara og þessar tölur sýna er óhjákvæmilegt fyrir stjórnvöld að grípa til aðgerða eins og gert var með breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem kveðið er á um kynjakvóta í stjórnum. Þessi lagasetning mun skila árangri og mikilvægt að fyrirtæki hefji þegar aðlögun í sínum ranni til að uppfylla ákvæði laganna við gildistöku þeirra.

Stjórnvöld þurfa að líta í eigin barm í öllum sínum gjörðum. Ég nefni hér ákvæði jafnréttislaga um skipan í ráð og nefndir sem kveða á um kynjahlutfallið 40/60 þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Það liggur fyrir að í heildina hafa ráðuneytin náð þessu markmiði en þegar hlutföllin eru greind hjá hverju ráðuneyti fyrir sig er staðan nokkuð misjöfn. Mörg þeirra hafa náð settu marki en þó ekki öll og þurfa því að taka sig á.

Fjölbreytt verkefni á sviði jafnréttismála

Verkefni sem unnið er að á sviði jafnréttismála eru fjölmörg og spanna vítt svið. Ég nefni hér aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi fyrir árin 2006-2010 þar sem mikið starf hefur verið unnið til að takast á við þetta skelfilega vandamál. Gefin hafa verið út fræðslurit fyrir fagfólk sem helst þarf að takast á við þessi mál í starfi og af viðtökum að dæma var þetta kærkomið efni sem nýtist vel. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi vandans og hvernig samfélagið er í stakk búið til að bregðast við, liðsinna þolendum þess og koma í veg fyrir ofbeldi. Á næstunni verður lögð skýrsla fyrir Alþingi með tillögum um frekari aðgerðir þar sem byggt er á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið. Unnið er að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar til fjögurra ára þar sem áhersla verður lögð á áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu. Einnig verður mótuð afstaða til meðferðar nýs s áttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og verkefni endurskilgreind með hliðsjón af honum.

Ég stikla á stóru en vil einnig geta hér um fleiri mikilvæg verkefni og aðgerðir á sviði jafnréttismála, svo sem verkefnið Karlar til ábyrgðar sem felst í sérhæfðri meðferð fyrir karla sem beita maka sinn ofbeldi og á annað hundrað karla hafa nýtt sér frá því verkefnið var endurvakið árið 2006.

Í mars 2009 var samþykkt aðgerðaáætlun gegn mansali sem gildir til ársloka 2012. Í tengslum við það var skipað sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal til að tryggja yfirsýn og þekkingu á mansalsmálum, fylgja vísbendingum um mansal, bera kennsl á fórnarlömb, tryggja þeim vernd og aðstoð, auk þess að sinna skráningu ætlaðra mansalsmála, veita fræðslu, hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar og vera stjórnvöldum til ráðgjafar í mansalsmálum.

Með breytingu á almennum hegningarlögum voru kaup á vændi gerð ólögleg – mál sem mikið hefur verið deilt um en ég er sannfærður um að hafi verið afar þýðingarmikil ákvörðun. Sama máli gegnir um bann við nektarsýningum með breytingu sem gerð var á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Ég nefni loks þátttöku Íslands í tveimur áætlunum Evrópusambandsins, Daphne III og Progress, en í gegnum þessar áætlanir höfum við sótt styrki til ýmissa góðra verkefna tengdum jafnrétti kynja og aðgerðum gegn ofbeldi og mismunun. 

Góðir gestir.

Ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á jafnrétti kynjanna og er mjög meðvituð um að árangur næst aðeins með þrotlausu starfi og markvissum aðgerðum. Jafnréttismál eru ekki gæluverkefni og ekki eitthvað sem gripið er til í hjáverkum ef tími vinnst til. Þótt við stöndum frammi fyrir því að þurfa að spara og gæta aðhalds á öllum sviðum þá þarf að vera alveg ljóst að það má aldrei líta á þennan málaflokk sem afgangsstærð. Við spörum ekki í vinnu að jafnréttismálum umfram önnur mikilvæg verkefni.

Með þetta að leiðarljósi hefur nú verið lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Ég ætla að nú að rekja helstu áhersluatriði hennar og einnig lýsa því hvernig hún er uppbyggð þar sem áætlunin er með nokkuð öðru sniði en verið hefur.

Þingsályktunartillaga um áætlun í jafnréttismálum

Í stað þess að telja upp verkefni eftir hverju ráðuneyti er henni skipt í átta kafla eftir áherslusviðum ríkisstjórnarinnar. Þessir kaflar eru:

  • Stjórnsýslan
  • Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur
  • Kyn og völd
  • Kynbundið ofbeldi
  • Menntir og jafnrétti
  • Karlar og jafnrétti
  • Alþjóðastarf
  • Eftirfylgni og endurskoðun

 Undir hverjum þessara kafla jafnréttisáætlunarinnar eru talin upp þau verkefni sem unnið verður að, þau tímasett, ábyrgðaraðilar tilgreindir og kostnaður vegna þeirra áætlaður.

 Verkefnin eru samtals 38 og er gerð grein fyrir hverju þeirra í þingsályktunartillögunni. Miklu skiptir að fylgja áætluninni eftir sem og framgangi verkefnanna.  

Helstu verkefni

Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til 2009, um að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu, var sett á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja og er hlutverk hennar að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Ráðherranefndin gegnir virku hlutverki við að fylgja framkvæmdaáætluninni eftir.

Sá kafli þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem snýr að stjórnsýslunni lýtur að því að tryggja að stjórnsýslan viðhafi vinnubrögð sem eru til þess fallin að auka jafnrétti kynja í samfélaginu. Í því felst samþætting kynjasjónarmiða inn í alla stefnumörkun, áætlanagerð og ákvarðanatöku. Því er rík áhersla lögð á að ráðuneytin nái markmiðinu 40/60 við skipun í nefndir, ráð og stjórnir. Síðast en ekki síst snýr þetta að því að kynjasamþættingu sé beitt í öllu vinnuferli við gerð fjárlaga og er miðað við að kynjuð fjárlagagerð verði innleidd í áföngum á næstu árunum. 2011

Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi heldur áfram og ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á að ná árangri. Unnið er að gerð nýrrar áætlunar um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi eins og ég gat um áðan.

Kveðið er á um endurskoðun gildandi jafnréttisáætlunar allra ráðuneyta. Þetta er nauðsynlegur þáttur í því að stuðla að og viðhalda jafnrétti kynja á málefnasviðum þeirra. Einnig er kveðið á um að styrkja stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Unnið verður að samþættingu jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslunni. Sem dæmi um verkefni þar sem kynjasamþættingu verður beitt eru aðgerðir til að vinna gegn kynbundnu starfsvali karla og kvenna við vinnumiðlun og skipulag virkra vinnumarkaðsúrræða þar sem tryggt verði að öll störf standi jafnt konum sem körlum til boða. Enn fremur verði gætt að jafnræði kynja við sértækar aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að fjölgun starfa og nýsköpun. Á sviði menntamála verði gert átak í jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.

Áfram verður unnið að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar sem felur í sér að kynjasamþættingu verði beitt í öllu fjárlagaferlinu. Þannig verði metið hver séu líkleg áhrif fjárlaga á aðstæður kynjanna og er markmiðið að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Fjármálaráðuneytið hefur gefið út handbók um kynjaða fjárlagagerð sem sérfræðingar innan Stjórnarráðsins geta nýtt sér við framkvæmd verkefnisins um kynjaða fjárlagagerð í þessari aðgerðaáætlun.

Eins og ég nefndi áðan mælist kynbundinn launamunur enn verulegur þótt mælingum beri ekki að öllu leyti saman vegna mismunandi aðferða við nálgun viðfangsefnisins. Í áætluninni eru lagðar til sjö aðgerðir í þessu skyni sem ráðist verður í á gildistíma áætlunarinnar, meðal annars að lokið verði við gerð jafnréttisstaðla eða -staðals og að launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt svo unnt verði að gera reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Þá verði starfsmat sveitarfélaganna skoðað út frá árangri við að draga úr launamun kynja og metinn ávinningur ríkisins af því að taka upp slíkt mat. Auk þessa verður efnt til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu vegvísis um launajafnrétti, gefinn verður út leiðbeiningarbæklingur um túlkun ákvæðis um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf og gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.

Góðir gestir.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur vel þingsályktunartillöguna um áætlun í jafnréttismálum sem nú er til umfjöllunar á Alþingi en hana er að finna meðal þeirra ráðstefnugagna sem þið fenguð afhent hér í morgun. Mig langar einnig að hvetja þau ykkar sem hafið athugasemdir við efni tillögunnar að koma þeim skriflega til félags- og tryggingamálanefndar Alþingis sem hefur tillöguna nú til umfjöllunar.

Við höfum miklar upplýsingar um stöðu jafnréttismála á fjölmörgum sviðum samfélagsins til að byggja á þegar við setjum okkur markmið og smíðum áætlanir um aðgerðir til úrbóta. Það verður fólki fljótt ljóst sem tekur þátt í störfum að jafnréttismálum að það er tæpast hægt að tala um þau sem afmarkað svið. Þegar við setjum á okkur kynjagleraugun sjáum við fljótt að fátt ef nokkuð í daglegu lífi okkar varðar ekki bæði kynin á einn eða annan hátt – og þá ekki endilega á sama hátt þegar betur er að gáð. Við þurfum að draga þetta fram í dagsljósið, gera þetta öllum ljóst – með eða án gleraugna. Eitt mikilvægasta tækið til þess eru kyngreindar upplýsingar alls staðar sem hægt er að koma því við. Við höfum mikið af slíkum upplýsingum og oft er þeim safnað en úrvinnsluna skortir. Úr því þarf að bæta.

Að lokum

Tími minn er á þrotum en áhugaverð dagskrá framundan sem ég vona að við njótum vel og verði okkur lærdómsrík, innblástur og hvatning til áframhaldandi starfa að mikilvægum verkefnum. Jafnréttisþing er mikilvægur vettvangur til að kryfja þessi mál, skiptast á skoðunum, benda á það sem betur má fara og fagna sigrum þar sem árangur hefur náðst.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta