Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra: málstofa um almannaheillasamtök og setningu heildarlöggjafar um starfsemi þeirra

 


Málstofa Fræðaseturs þriðja geirans og Almannaheilla: Heildarlöggjöf um starfsemi almannaheillasamtaka
Háskóla Íslands 14. febrúar 2011.
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir gestir.

Samtökin Almannaheill óskuðu eftir því við þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra í desember 2008 að kanna forsendur þess að lagt yrði fram frumvarp til heildarlaga um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Nokkru síðar skipaði ráðherra nefnd til að skoða hvort þörf væri fyrir slíka lagasetningu og þá hverjir væru kostir þess og gallar. Formaður nefndarinnar var Ómar Kristmundsson og hefur hún skilað tillögum sínum í ágætri skýrslu til ráðuneytisins.

Strax við upphaf nefndarstarfsins komu fram athugasemdir um að viðfangsefni hennar ætti betur heima undir efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem fer með mál félaga- og sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri í samræmi við reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Engu að síður var þess óskað að nefndin héldi áfram starfi sínu undir félags- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem mikil reynsla af samstarfi við félagasamtök væri til staðar. Það gerði nefndin og er það mat hennar að setja þurfi sérstök lög um þessa starfsemi. Byggt er á því að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri sinni í ákveðnum tilfellum opinberri þjónustu samkvæmt samningum við ríki og sveitarfélög. Bent er á auknar kröfur um formfestu í viðskiptum hins opinbera og einkaaðila og telur nefndin að skýrar reglur séu mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi viðskiptum þessara aðila.

Nefndin leggur til að samin verði löggjöf um félagasamtök og leggur áherslu á að samhæfa þurfi hana núgildandi löggjöf um sjálfseignarstofnanir. Tvær meginleiðir telur nefndin koma til álita. Annars vegar verði lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri endurskoðuð þannig að þau nái einnig til félagasamtaka í atvinnurekstri. Jafnframt verði skoðað hvort fella beri lög um sjálfseignarstofnanir og -sjóði sem ekki eru í atvinnurekstri undir sömu löggjöf. Hins vegar telur nefndin koma til álita að samin verði ný heildarlöggjöf um félagasamtök og sjálfseignarstofnanir þar sem reglur um þessi félagaform verði samhæfðar og lög um sjálfseignarstofnanir verði felld úr gildi.

Loks leggur nefndin til að efnahags- og viðskiptaráðherra verði falið að undirbúa löggjöf í samræmi við þetta og er áhersla lögð á að gott samráð verði við önnur ráðuneyti og hagsmunaaðila, svo sem Almannaheill – samtök þriðja geirans.

Góðir gestir.

Þegar skýrsla nefndarinnar er skoðuð kemur glöggt í ljós hvað flóra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana hér á landi er fjölbreytt, verkefnin margvísleg og tilgangur og markmið starfsemi þeirra af ólíkum toga. Hugtakið félagasamtök kemur fram í ýmsum lögum en er hvergi skilgreint sérstaklega. Þessi lög varða ekki sjálft félagsformið heldur þá málaflokka sem starf þeirra beinist að. Skýrsluhöfundar benda á að rekstrarform félagasamtaka og sjálfseignarstofnana séu oft felld undir það sem kallað er þriðji geirinn og lýsir hugtakið starfsemi sem liggur á milli hefðbundins einkareksturs og hins opinbera. Starfsemin beinist þá að ófjárhagslegum markmiðum í þágu almannaheilla.

Ég fellst fyllilega á rökin fyrir því að undirbúningur löggjafar um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana eigi best heima í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Ég legg hins vegar mjög mikla áherslu á aðkomu velferðarráðuneytisins að þeim undirbúningi vegna þess hve frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sinna umfangsmiklum verkefnum á sviði velferðarmála, oft mjög viðkvæmri þjónustu þar sem þörf er fyrir sterkan faglegan grundvöll og skýra umgjörð hvað það varðar, ekki síður en í því sem snýr að rekstrarumhverfi, fjárreiðum og fjárhagslegum skuldbindingum.

Félagafrelsi er varið í stjórnarskrá og það er líkleg skýring þess að ekki hefur verið sett löggjöf um starfsemi félagasamtaka hér á landi, þar sem ekki ber að setja þeim skorður um stofnun og skipulag nema brýna nauðsyn beri til. Auðvitað verður að standa vörð um félagafrelsið og því skiptir miklu hvernig staðið er að lagasetningu í þessum efnum eins og höfundar skýrslunnar um þetta efni benda á. Aftur á móti er það mat þeirra að með heildarlöggjöf um félagasamtök megi stuðla enn frekar að því að trausti sé viðhaldið sem almennt ríkir gagnvart félagasamtökum. Slík lagasetning sé einnig rökrétt viðbrögð við málum sem upp hafa komið vegna fjármálaóreiðu aðila sem störfuðu í almannaþágu og líta megi á setningu heildarlöggjafar sem mikilsvert hagsmunamál félagasamtaka. Það hefur líka sýnt sig í því að það voru frjáls félagasamtök sem tóku frumkvæði og fóru þess á leit við félags- og tryggingamálaráðuneytið að þetta mál yrði skoðað.

Starfsemi félaga og samtaka sem hér um ræðir er íslensku samfélagi mikilvæg. Oft er þetta starfsemi sem ber ekki mikið á og fer ekki mikið fyrir í opinberri umræðu en myndi rýra lífsgæði velferðarsamfélagsins ef hennar nyti skyndilega ekki lengur við.

Núverandi forsætisráðherra og þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, talaði á málþingi Samtaka um almannaheill í nóvember 2008 þar sem þessi mál voru til umræðu. Þar lagði hún áherslu á að ekki megi kæfa með regluverki starfsemi sem sprettur upp úr grasrótinni af hugsjónum og eldmóði einstaklinga sem hafa mikið fram að færa og vilja leyfa öðrum að njóta þess. Hið opinbera megi ekki taka ráðin af félögum sem starfa í þágu almennings, reyna að stýra starfi þeirra eða ætlast til þess að þau sinni verkefnum sem með réttu eiga að vera á hendi hins opinbera og firra sjálft sig ábyrgð. Undir þetta tek ég heilshugar og sömuleiðis að ekki megi viðgangast að hið opinbera veiti félagasamtökum fé til að sinna viðkvæmum verkefnum í velferðarþjónustu án skuldbindinga, skýrra reglna og eftirlits. Við höfum brennt okkur á slíku og enginn vill að það gerist aftur.

Ég held við getum öll verið sammála um að stjórnvöld þurfi að finna leið til þess að virða, meta og viðurkenna í verki allt það mikilvæga starf í almannaþágu sem frjáls félagasamtök inna af hendi, án þess að hefta þau eða kæfa. Það þarf að efla slíka starfsemi með umgjörð sem hvetur en ekki letur og sem styður en stjórnar ekki.

Þetta er ég viss um að okkur muni takast og raunar tel ég verkefnið komið vel á veg með þeirri skýrslu sem nú liggur fyrir, ásamt greinargóðri álitsgerð Hrafns Bragasonar sem fylgir skýrslunni, um heildarlöggjöf frjálsra félagasamtaka í nágrannalöndunum og um íslensk lög og reglur sem gilda á þessu sviði.

Ágætu fundarmenn. Allt krefst þetta vandaðs undirbúnings og góðrar samvinnu þeirra sem hlut eiga að máli en eins og ég segi sýnist mér þetta mál komið í góðan farveg.

 

 


 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta