Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Fíkn á efri árum. Ávarp velferðarráðherra á námsstefnu Öldrunarfræðafélags Íslands og Öldrunarráðs

Fíkn á efri árum
Námsstefna Öldrunarfræðafélags Íslands og Öldrunarráðs, 24. mars 2011.
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.

Góðir gestir.
Hvers vegna drekkur Jeppi? Um þetta spyrja Danir gjarna og vísa þá til þekktrar persónu úr leikriti Ludvigs Holberg frá árinu 1772 um Jeppa á Fjalli.

Enn í dag er glímt við spurningar um það hvers vegna fólk misnotar áfengi eða önnur fíkniefni. Svörin höfum við ekki í hendi. Við vitum aðeins að ástæðurnar geta verið margvíslegar og við vitum að afleiðingarnar geta verið miklar og alvarlegar fyrir viðkomandi og samfélagið í heild. Það nægir ekki að leita skýringanna fyrst og fremst hjá einstaklingnum, því margt í samfélaginu sjálfu og menningu þess skiptir einnig máli.

Í stórri rannsókn sem gerð var í Evrópu árið 2009 um áfengisneyslu eldra fólks kom fram að dauðsföll af völdum áfengis hafa aukist hlutfallslega á síðustu tíu árum. Ísland var ekki með í rannsókninni en fram kom að hjá hinum Norðurlandaþjóðunum hafa orðið miklar breytingar á áfengisnotkun á síðustu árum, ekki síst hjá eldra fólki sem drekkur mun oftar en áður. Sama þróun sést hér á landi. Til dæmis drukku 9,5% karla á aldrinum 56–60 ára áfengi vikulega eða oftar árið 1984. Árið 2007 var þetta hlutfall komið í 46%. Þróunin hefur verið í sömu átt hjá konum á þessum aldri. Afleiðingarnar birtast þegar frá líður og ég geri ráð fyrir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, muni lýsa því hér á eftir hvernig þetta hefur haft áhrif á meðferð og innlagnir þar á seinni árum.

Viðhorf fólks til áfengis hafa breyst og neyslan aukist. Fólk virðist hvorki gera sér grein fyrir skaðsemi áfengis á líkamann né átta sig á því að dagdrykkja getur orðið vandamál þótt ekki sé mikið drukkið í hvert sinn. Það er engin ástæða til að ætla að fólk sem er orðið háð áfengi losni undan vandanum þegar árin færast yfir. Aftur á móti virðist drykkjumynstrið breytast og kannski er vandinn duldari fyrir vikið. Í þessum efnum tel ég þörf á aukinni fræðslu um áhrif og skaðsemi drykkju. 

En það er ekki einungis áfengisneysla sem hefur breyst og aukist hjá eldra fólki. Notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja er mikil og vaxandi hjá fólki á efri árum. Notkunin hefur lengi verið meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum og hér heldur hún áfram að aukast meðan heldur dregur úr henni hjá grannþjóðunum.

Mörg þessara lyfja eru mjög ávanabindandi og notkun þeirra samhliða áfengisneyslu er yfirleitt óheppileg og jafnvel skaðleg. Lyfjunum fylgja oft ýmsar aukaverkanir eins og þreyta, minnistruflanir, sljóleiki, máttleysi og jafnvægistruflanir. Þetta kallar á byltur og beinbrot með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum. Veruleg hætta er á því að fólk leiðist inn í vítahring lyfjaneyslu, virkni fólks og geta til að takast á við vandann minnkar, andleg og líkamleg heilsa versnar og þá er eins víst að vandanum sé mætt með enn meiri lyfjanotkun. Þá hefur einnig verið bent á að ýmis þessara einkenna eru síðan ranglega heimfærð upp á versnandi heilsu vegna eðlilegrar öldrunar.

Í lok þessa áratugar er fyrirsjáanlegt að meira en fjórðungur Evrópubúa verði á aldrinum 65 ára og eldri. Í ljósi þróunarinnar sem ég hef áður lýst mun rosknu fólki sem á í vanda vegna ávanabindandi lyfja eða þarfnast meðferðar af völdum þeirra fjölga verulega. Þetta er raunverulegt og alvarlegt vandamál sem við verðum að takast á við í fullri alvöru. Vandinn snýr að einstaklingunum sjálfum og samfélaginu í heild.

Enn má spyrja: Hvers vegna drekkur Jeppi? – og í nútímanum má bæta við spurningu um það hvers vegna notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja er orðin eins mikil og raun ber vitni hjá eldra fólki?

Notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja er um tvöfalt meiri hér á landi en í Danmörku og um þriðjungi meiri en í Finnlandi. Í rannsókn á algengi geðlyfjanotkunar eldri Íslendinga utan stofnana frá árinu 2006 kom í ljós að einstaklingar 70 ára og eldri leystu út þriðjung allra lyfjaávísana á Íslandi og þar af var fjórðungur geðlyf. Notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja var algengust og töluvert meiri hjá konum en körlum.

Rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjung svefntruflana meðal aldraðra má rekja til þunglyndis auk þess sem kvíðaeinkenni fylgja oft þunglyndi hjá þessum hópi. Því hefur verið bent á að með aukinni notkun þunglyndislyfja á seinni árum hefði mátt ætla að draga myndi úr notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja en það hefur ekki verið raunin.

Vitað er að vanda margra sem ánetjast ávanabindandi lyfjum og vímugjöfum á seinni hluta ævinnar má oft rekja til þess að þeir hafa orðið fyrir áföllum, gengið í gegnum skilnað, misst maka eða upplifað félagslega einangrun og einmanaleika, til dæmis í kjölfar þess að hætta þátttöku á vinnumarkaði.

Ástæður fyrir ofneyslu áfengis, fíkniefna og ávanabindandi lyfja geta verið margvíslegar. Meðalhófið er vandratað í þessu sem öðru. Það er auðvitað mikilvægt að veita fólki nauðsynlega meðferð við þunglyndi og rétt meðferð getur bætt lífsgæði fólks verulega. Sama máli gegnir um svefntruflanir en hins vegar vitum við að langvarandi notkun svefnlyfja er mjög varasöm og getur valdið fólki miklum erfiðleikum vegna þess hve þau eru ávanabindandi og vegna aukaverkana.

Góðir gestir.

Við vitum öll að áfengis- og vímuefnaneysla er vandamál hér á landi en kannski er skaðleg neysla áfengis meðal aldraðra þáttur sem við höfum ekki gert okkur nógu ljósa grein fyrir hingað til.

Okkur hefur hins vegar lengi verið kunnugt um mikla notkun geðlyfja og notkun róandi lyfja og svefnlyfja hér á landi og hve notkunin eykst ört með hækkandi aldri. Við getum ekki haldið áfram á þessari braut og verðum að taka lyfjastefnu okkar og framkvæmd hennar til gagngerrar endurskoðunar hvað þetta varðar.

Vera kann að við höfum oftrú á lyfjum og gagnsemi þeirra og lítum á þau sem þægilega og einfalda lausn til að afgreiða vandamál hratt og örugglega. Spyrja má hvort okkur sé orðið tamt að deyfa sorg, einmanaleika og leiða með lyfjum eða áfengi. Ef sú er raunin held ég að við getum öll verið sammála um að það er ekki rétta leiðin.

Ég hef ekki enn nefnt niðurstöður úr doktorsverkefni Ingibjargar Hjaltadóttur sem nokkuð hefur verið rætt um í fjölmiðlum að undanförnu og verða birtar á næstunni, en rannsókn hennar beindist að gæðum umönnunar og heilsufari íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum. Þar er meðal annars fjallað um lyfjanotkun sem reynist það mikil að nauðsynlegt er að skoða það sérstaklega. Eins kemur fram að einkenni þunglyndis meðal heimilisfólks á hjúkrunarheimilum er yfir gæðaviðmiðum sem hópur sérfræðinga setti í tengslum við rannsóknina og eru leiddar líkur að því að það megi tengja því að fólkið hafi við lítið að vera og afþreying sé af skornum skammti. Nú vill svo til að ég á fund með Ingibjörgu síðar í dag þar sem hún mun kynna mér niðurstöður rannsóknarinnar sem ég veit að getur orðið mikilvægt innlegg í framhald þeirrar umræðu sem efnt var til hér í dag.

Ég vil að lokum þakka Öldrunarfræðafélagi Íslands og Öldrunarráði fyrir að halda námsstefnu um þessi mikilvægu mál til að vekja athygli á þörfum hópsins sem um ræðir og eins og segir í fundarboði, til að fá góðar hugmyndir og ræða um lausnir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta