Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, 12. maí 2011
Góðir gestir.
Enn er komið að árlegri vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem nú er haldin í 26. sinn. Ráðstefnan hefur fyrir löngu fest sig í sessi og er afar mikilvægur vettvangur foreldra og fagfólks sem kemur að málefnum barna með alvarleg frávik í þroska og færni til að fræðast, deila reynslu sinni og miðla þekkingu.
Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að Greiningar- og ráðgjafarstöðin er 25 ára á þessu ári og ég óska viðstöddum til hamingju með það. Forveri hennar var athugunar- og greiningardeildin í Kjarvalshúsi sem var formlega stofnuð árið 1975 en Greiningar- og ráðgjafarstöðin var sett á fót árið 1986 í kjölfar gildistöku laga um málefni fatlaðra og með stoð í þeim.
Starfsemi og þjónusta á vettvangi Greiningarstöðvarinnar hefur vitanlega tekið ýmsum breytingum á aldarfjórðungi, enda hefur þekkingu á þessu sviði fleygt fram, viðhorf hafa breyst og réttmætar kröfur um bætta og aukna þjónustu við börn með sérþarfir og foreldra þeirra hafa fengið vaxandi hljómgrunn og aukinn skilning í samfélaginu. Þekking fagfólks á starfssviði stofnunarinnar hefur einnig aukist verulega á þessum tíma.
Tímamót urðu um síðustu áramót við tilfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Breytingin byggist á þeirri sýn að veita skuli þjónustu í sem mestum mæli í nærumhverfi þeirra sem á henni þurfa að halda. Þessi hugmyndafræði hefur átt vaxandi fylgi að fagna á flestum sviðum velferðarþjónustu síðustu ár og áratugi og þróunin hefur öll verið í þá átt. Vægi stofnanatengdra úrræða hefur minnkað. Reynt er að veita fólki þjónustu, meðferð og stuðning í sínu umhverfi eins og kostur er í stað þess að slíta það úr tengslum við daglegan veruleika með innlögn á stofnun.
Þessar áherslubreytingar og flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga tel ég líklegt að muni leiða til ákveðinna breytinga hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni einkum með auknum kröfum til hennar á sviði ráðgjafar og fræðslu og vegna samstarfs við tilvísendur og þjónustuaðila í nærumhverfi barna og fjölskyldna sem þurfa á þjónustu og stuðningi að halda.
Greiningar- og ráðgjafarstöðin er miðlæg þjónustustofnun á landsvísu sem gegnir afar sérhæfðum verkefnum, einkum á sviði þriðja stigs þjónustu. Forvarnar- og ráðgjafarhlutverkið nær þó til fyrsta stigs þjónustu vegna fræðslu, forvarnarstarfs og ráðgjafar og til annars stigsins þegar kemur að sértækum úrlausnarefnum vegna leiðbeininga til félagsþjónustu sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.
Ég tel afar mikilvægt í velferðarþjónustunni að skerpa línur milli fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu og tryggja þannig að þjónusta við einstaklinga sé veitt á réttum forsendum á réttum tíma og réttum stað og flæði milli þessara þriggja þjónustustiga sé tryggt. Fagfólk á hverjum stað á að fást við þau verkefni sem það kann best og gerir best í ljósi sérþekkingar sinnar og reynslu. Þannig tryggjum við best hagsmuni notenda og stuðlum jafnframt að markvissri uppbyggingu þekkingar og reynslu þar sem hún nýtist best. Uppbygging á sérhæfðri miðlægri þjónustu byggist á þessari hugsun og þar með áherslan á heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga sem fyrsta viðkomustað þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Þaðan er fólki síðan vísað í sérhæfðari þjónustu eftir þörfum.
Umræða um biðtíma eftir greiningu hefur verið áberandi og í því sambandi er rétt að hvetja stofnanir sveitarfélaga að hefja strax stuðningsaðgerðir þegar frumgreining sérfræðinga liggur fyrir. Í tengslum við þessa umræðu er líka ástæða til að vekja athygli á sérstöku tveggja ára átaki sem ráðist var í að frumkvæði ríkisstjórnarinnar haustið 2007 sem leysti vanda tvö hundruð barna og ungmenna sem höfðu beðið óheyrilega lengi. Þetta verkefni skilaði þannig miklum árangri og var afar mikilvægt.
Greiningarstöðin hefur verið að styrkja sig í sessi sem þriðja stigs þjónustustofnun, meðal annars með endurskoðun tilvísana þar sem börnum hefur verið í auknum mæli vísað frá þegar fært er talið að veita þeim þjónustu í nærumhverfi sínu án íhlutunar Greiningarstöðvarinnar.
Auk þessa hefur verið unnið að áherslubreytingum í tengslum við greiningar þar sem vaxandi áhersla er lögð á að meta stuðningsþörf barna, getu þeirra og færni, frekar en að flokka vandann. Hluti af þessari þróun felst í innleiðingu alþjóðlega SIS-matskerfisins fyrir fullorðið fólk með fötlun sem fyrirhugað er að þýða og staðfæra einnig til mats á stuðningsþörf barna með sérþarfir.
Góðir gestir.
Efnahagsþrengingar í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafa sett mark sitt á öll svið þjóðlífsins. Þótt reynt hafi verið að hlífa velferðarþjónustunni eftir megni hefur hún þó ekki farið varhluta af breyttum aðstæðum og efnahagserfiðleikarnir hafa gert kröfu um margvíslega endurskoðun og skipulagsbreytingar þar eins og annars staðar.
Vissulega er þetta erfitt og krefst mikils af þeim sem bera ábyrgð á að halda uppi mikilvægri þjónustu sem verður að tryggja notendum þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir og kröfur um sparnað. Þetta hefur þó tekist ótrúlega vel og ég er ákaflega þakklátur stjórnendum og öðru starfsfólki stofnana velferðarráðuneytisins fyrir allt sem það hefur lagt á sig til þess að gera þetta mögulegt.
Um síðustu áramót sameinuðust heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið í nýtt ráðuneyti velferðarmála. Það tel ég hafa verið heillaskref og vel til þess fallið að brjóta niður múra milli fagfólks og stofnana, efla samvinnu og stuðla að aukinni samfellu í þjónustu við notendur. Ég er sannfærður um að við eigum eftir að sjá jákvæðan árangur þessara breytinga í vaxandi mæli næstu misserin.
Góðir gestir.
Þótt erfiðasti tími kreppunnar sé að baki og við stefnum hægt en örugglega upp á við er fjárhag ríkisins enn þröngt sniðinn stakkur. Árið 2010 voru gerð fjárlög sem gerðu ráð fyrir tapi á hverjum einasta degi upp á 250 milljónir króna. Í ár er áætlað tap á hverjum einasta degi um 100 milljónir króna og þetta eru aðstæður sem við búum við meðan við erum enn að greiða niður vexti. Ráðuneytin eru auðvitað bundin af fjárlögum hvers árs sem þýðir einfaldlega að ákveði ég að auka útgjöld á einum stað verð ég að draga úr kostnaði einhvers staðar annars staðar. Þetta er hinn blákaldi veruleiki og í viðkvæmri velferðarþjónustu eru yfirleitt allir kostir slæmir í þessum efnum.
Þrátt fyrir erfiðleika höldum við ótrauð áfram – og vegna þessara aðstæðna verðum við að sýna meiri útsjónarsemi en áður, vera reiðubúin að endurskoða skipulag, verklag og vinnubrögð og síðast en ekki síst skiptir samráð og samvinna miklu máli.
Andstreymið afhjúpar snilldina sem velgengnin dylur sagði rómverska skáldið og heimspekingurinn Hóratíus fyrir um það bil tvö þúsund árum. Mér finnst sannleikurinn í þessum orðum hafa sýnt sig margsinnis í okkar andstreymi og er viss um að fyrr en varir munum við standa sterkari en við gerðum á árum áður.
Við verðum að horfa til framtíðar. Lausnir sem hentuðu í gær eru ekki endilega góðar í dag. Stöðug endurskoðun með opnum huga er af hinu góða þar sem tekið er mið af þróun þekkingar og þeim breytingum sem verða á þörfum og kröfum samfélagsins.
Góðir gestir.
Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og segi ráðstefnuna setta.