Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
Grand Hótel Reykjavík, 19. maí 2011


Góðir fundarmenn.

Mér var bæði ljúft og skylt að verða við ósk formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um að segja nokkur orð í upphafi aðalfundar ykkar. Þetta er líka kærkomið tækifæri fyrir mig. Hér get ég talað beint til fjölmennrar heilbrigðisstéttar sem starfar á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins og er því fátt óviðkomandi í þessum stóra málaflokki.

Það var sérstaklega óskað eftir því að ég fjallaði um þær breytingar sem framundan eru á heilbrigðisþjónustunni og um framtíðarsýn mína í þessum efnum. Það ætla ég að gera eftir bestu getu og því sem tíminn leyfir.

Heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustan eru ekki föst stærð heldur eiga sér sífellt stað einhverjar breytingar í takt við breytta tíma og nýjar áherslur, þótt í mismiklum mæli sé. Síðustu misserin hafa breytingar þó verið meiri en við eigum að venjast. Erfiðar efnahagsaðstæður hafa gert okkur óhjákvæmilegt að fara ofan í saumana á öllum rekstri og endurskoða skipulag til þess að hagræða án þess að skerða þjónustu til baga eða tefla gæðum og öryggi þjónustu við sjúklinga í tvísýnu.

Með sameiningu ráðuneyta og stofnun nýs velferðarráðuneytis um síðustu áramót var lagður grunnur að ýmsum viðameiri breytingum á skipulagi velferðarmála til framtíðar. Heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið og almannatryggingakerfið eru að mínu áliti grunnstoðir velferðarkerfisins sem verður að skoða og skipuleggja í nánum tengslum hver við aðra. Á þetta hefur skort og skýr heildarsýn ekki verið fyrir hendi. Í stað samvinnu hefur ríkt togstreita, deilt hefur verið um verkaskiptingu milli þjónustukerfa og verkefni ýmist skarast eða hlekki vantað í keðjuna.

Málefni aldraðra eru augljóst dæmi um mikilvægan málaflokk sem um langt skeið hefur goldið fyrir skort á heildarsýn og togstreitu af þessu tagi. Verkefnaflutningar frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis árið 2008 áttu að bæta úr þessum vanda en sú varð ekki raunin. Áfram var deilt um ábyrgð og verkaskiptingu og þegar verulega reyndi á aðhald við ráðstöfun fjármuna og sparnaðaraðgerðir var augljóst að kerfin unnu ekki saman sem skyldi. Þessu erum við að breyta í nýju ráðuneyti.

Ef vel er á málum haldið tel ég að stofnun velferðarráðuneytisins geti orðið grunnur að miklu öflugra og skilvirkara þjónustukerfi fyrir alla notendur velferðarþjónustunnar. Við þurfum að nálgast skipulag þjónustunnar meira út frá þörfum notendanna í stað þess flokka notendur og ráðstafa þeim inn í skipulag og þarfir kerfisins.

Ég nefni í tengslum við þetta breytingar sem fyrirhugaðar eru á greiðsluþátttöku fólks í lyfjakostnaði samkvæmt frumvarpi sem ég mælti fyrir á Alþingi í vikunni. Í gildandi kerfi hafa niðurgreiðslur hins opinbera tekið mið af einstökum lyfjum og lyfjaávísunum. Einstaklingurinn greiðir ákveðið hlutfall af kostnaði lyfs á móti sjúkratryggingum. Einu gildir hvort hann þarf aðeins á einu lyfi að halda í skamman tíma eða mörgum lyfjum að staðaldri, jafnan skal hann greiða af hverju lyfi samkvæmt fyrirframákveðnu hlutfalli. Kostnaður þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda getur því orðið mjög hár. Í nýja kerfinu verður dæminu snúið við og greiðsluþátttakan ákveðin með hliðsjón af heildarútgjöldum sjúklingsins á tilteknu tímabili sem fer stiglækkandi og fellur niður þegar ákveðnu þaki er náð. Með þessu er stefnt að auknum jöfnuði þar sem betur verður stutt við bak þeirra sem bera mest útgjöld vegna heilsufarsvanda en á móti eykst kostnaður þeirra sem þurfa lítið eða sjaldan á lyfjum að halda.

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er ekki ókeypis en það ríkir fullkomin eining um að tryggja beri öllum heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Í grundvallaratriðum er þetta tryggt en sitthvað þarf þó að bæta til að auka jöfnuð og réttlæti í þessum efnum. Áformuð breyting á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði er skref í þessa átt en ég sé fyrir mér mun víðtækari breytingar af sama meiði sem taka til heilbrigðisþjónustunnar í heild. Ég nefni einnig heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins í þessu sambandi sem lengi hefur verið í undirbúningi en er nú komin í þann farveg að telja má raunhæft að um næstu áramót líti dagsins ljós frumvarp til nýrra laga um almannatryggingar.

Góðir fundarmenn.

Ég ætla að telja hér nokkrar megináherslur mínar í velferðarmálum til að draga upp mynd af framtíðarsýn minni í þessum efnum.

Ég legg áherslu á heildstæða stefnumörkun á sviði velferðarmála og tel nauðsynlegt að efla starf á þessu sviði, ekki síst með aukinni öflun og úrvinnslu gagna. Mikilvægar ákvarðanir á þessu sviði verður að byggja á glöggum upplýsingum og staðreyndum.

Heilsugæslan á að vera í öndvegi sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu og ég tel nauðsynlegt að efla starfsemi heilsugæslunnar í þessu skyni. Nýleg skýrsla með tillögum um eflingu heilsugæslunnar hefur verið til umsagnar um skeið og er til frekari skoðunar í ráðuneytinu.

Heilbrigðisþjónusta á að vera aðgengileg fólki á viðeigandi þjónustustigi, óháð efnahag og búsetu. Í þessum efnum er nauðsynlegt að skilgreina á faglegan hátt hvaða þjónustustigi er mögulegt og skynsamlegt að halda úti í einstökum landshlutum og heilbrigðisumdæmum, eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarrými aldraðra, sérhæfðari sjúkrahúsþjónustu eða þjónustu sem einungis er á færi Landspítala að veita. Þessi skipting byggist á stigskiptingu heilbrigðisþjónustu eftir sérhæfingu annars vegar og hins vegar á svæðaskiptingu líkt og kveðið er á um í reglugerð um skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi.

Ég er hlynntur fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu en í framkvæmd verður að tryggja að útvistun verkefna og ólík rekstrarform ógni á engan hátt öryggi sjúklinga. Gerð samninga og framkvæmd þeirra verður að taka mið af þessu og það þarf að vera öruggt að rekstraraðilar geti aldrei gengið frá samningi með litlum fyrirvara og skilið þjónustuna og notendur hennar eftir í uppnámi.

Öflugri nærþjónusta með flutningi verkefna til sveitarfélaga er meðal þess sem unnið er að. Málefni fatlaðra færðust á þeirra hendur um síðustu áramót og framundan er undirbúningur að flutningi málefna aldraðra til sveitarfélaganna. 

Skipa þarf forvarnar- og lýðheilsustarfi traustan sess og samþætta áherslur þess efnis inn í alla velferðarþjónustu. Miklu skiptir að setja skýr og mælanleg markmið eftir því sem kostur er og beina fjármagni í þau verkefni sem brýnust eru hverju sinni. Þann 1. maí síðastliðinn tóku gildi lög þar sem Lýðheilsustöð sameinaðist embætti landlæknis. Þetta gamla embætti hefur því öðlast nýtt og mun víðtækara hlutverk en áður sem ég legg áherslu á að hljóti veg og vanda í réttu samræmi við mikilvægi lýðheilsustarfs fyrir heilsu og velferð landsmanna.

Eins og ég sagði í upphafi hafa breytingar á heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisþjónustunni síðustu misserin einkennst af því hve mjög hefur þrengt að fjárhag hins opinbera. Grípa hefur þurft til aðgerða sem eru erfiðar og sársaukafullar og ég geri mér fulla grein fyrir því að við þessar aðstæður hefur mikið verið lagt á heilbrigðisstarfsfólk. Atvinnuöryggi er ekki hið sama og áður, vinnuálag hefur víða aukist mjög samhliða því sem fólk hefur þurft að leggja á sig margvíslega vinnu við að hrinda í framkvæmd ýmsum skipulagsbreytingum.

Þrátt fyrir þetta tel ég að ótrúlega vel hafi tekist til að gera vandasamar en nauðsynlegar breytingar vegna aðhaldsaðgerða án þess að skerða gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Erfiðasti hjallinn er að baki og fyrr en varir liggur leiðin upp á við á ný. Þegar upp er staðið hef ég trú á því að sá hreinsunareldur sem við höfum gengið í gegnum muni skila okkur öflugu og vel skipulögðu heilbrigðiskerfi með traustum undirstöðum að byggja á til framtíðar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta