Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins 2011

Tryggingastofnun
Tryggingastofnun ríkisins

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins 19. maí 2011


Góðir fundargestir.

Í dag er staður og stund til þess að líta yfir farinn veg liðins starfsárs, hrósa smáum og stórum sigrum, gleðjast yfir því sem vel hefur tekist og ræða hvað betur má fara. Þetta er einnig vettvangur til þess að taka pólhæðina og stilla kúrsinn fyrir næsta ár. Verkefni stofnunar eins og Tryggingastofnunar ríkisins eru óþrjótandi, hún þarf að ganga snurðulaust eins og vel smurð vél og veita sínum fjölmörgu viðskiptavinum óskeikula þjónustu frá degi til dags.

Fáar stofnanir ef nokkur hafa jafn mikinn snertiflöt við landsmenn og Tryggingastofnun. Langflestir njóta þjónustu hennar einhvern tíma á ævinni. Árlega eru um 120.000 einstaklingar 18 ára og eldri sem stofnunin þjónustar og mánaðarlega annast hún greiðslur úr almannatryggingakerfinu til um 70.000 einstaklinga. Árlegar greiðslur frá stofnuninni til viðskiptavina nema rúmlega 100 milljörðum króna. Það er því ekki ofsagt að þetta sé ein mikilvægasta stofnun landsins og miðstöð velferðarkerfisins á Íslandi.

Örugg framkvæmd almannatryggingalöggjafarinnar hvílir á stjórnendum og starfsfólki hér og ábyrgðin því gríðarlega mikil. Þetta er flókið kerfi, hvort sem horft er á það frá sjónarhóli þeirra sem sjá um framkvæmdina eða með augum notenda.

Ég er afar ánægður með hve Tryggingastofnun sinnir vel upplýsingagjöf um réttindi almennings og notar fjölbreyttar leiðir til þess að upplýsa og fræða fólk um almannatryggingakerfið. Stofnunin er í fremstu röð á sviði rafrænnar þjónustu með þjónustuvefnum Trygg sem er í stöðugri þróun, heimasíða stofnunarinnar er öflug en jafnframt er lögð áhersla á persónulega þjónustu gagnvart þeim sem ekki nota tölvur, net og rafræn samskipti.

Ég átti þess kost í byrjun árs að sækja þjóðfund um framtíðarsýn Tryggingastofnunar ríkisins. Fyrir fundinn kynnti ég mér ýmis gögn um stefnu hennar og markmið og það fyrsta sem blasti við mér voru gildin: – TraustSamvinna og Metnaður. Ef ég man rétt nefndi ég á fundinum að ekki væri nóg að eiga sér gildi og markmið. Stóra kúnstin væri að innleiða þau og samþætta inn í alla starfsemina – gera að einhvers konar lífsviðhorfi vinnustaðarins – þar sem starfsfólk allt er meðvitað um þau, tileinkar sér inntak þeirra og hefur að leiðarljósi í daglegu starfi.

Þetta tel ég hafa tekist vel hjá Tryggingastofnun ríkisins. Eins tel ég til fyrirmyndar afrakstur Þjóðfundarins sem meðal annars birtist í bæklingnum Framtíðarsýn 2015. Þar birtist framsýni, metnaður og vilji til að ná árangri og miklu skiptir að boðskapurinn kemur ekki einhliða að ofan heldur er þetta sýn sem jafnt stjórnendur sem aðrir starfsmenn hafa tekið þátt í að móta.

Ykkur er mögulega kunnugt um að í nýju velferðarráðuneyti er nú unnið að því að setja starfseminni gildi og móta framtíðarsýn. Þetta verk er komið vel á veg en ég tel augljóst að ráðuneytið getur nýtt sér aðferðafræði Tryggingastofnunar í þessari vinnu.

Eins og ég nefndi áðan er almannatryggingakerfið afar flókið, enda eru aðstæður og þarfir fólks ólíkar og bótaflokkar margir. Ég bind miklar vonir við að bráðlega sjáum við fyrir endann á vinnu við endurskoðun almannatryggingakerfisins og að um næstu áramót líti dagsins ljós frumvarp til nýrra laga um almannatryggingar. Áhersla er lögð á að í nýrri löggjöf verði kveðið skýrt á um markmið og tilgang tryggingakerfisins, um réttindi og skyldur hinna tryggðu, málsmeðferð, stjórnsýslu og kæruleiðir. Einnig verði uppbygging laganna gerð skýrari, löggjöfin einfölduð og framsetningu breytt frá því sem nú er. Gengið er út frá því að sett verði sérlög um slysatryggingar sem nú er kveðið á um í almannatryggingalögunum.

Endurskoðun almannatryggingakerfisins er ekki létt verk en nauðsynlegt. Tryggingastofnun á fulltrúa sem situr fundi nefndar um endurskoðunina og það er alveg ljóst að mikið mun mæða á stofnuninni varðandi upplýsingagjöf og ýmsa útreikninga í þessu sambandi.

Þetta er þó ekkert nýmæli hjá ykkur. Mikil samskipti og samráð er milli ráðuneytisins og TR. Stofnunin býr yfir gríðarlega miklu magni upplýsinga sem eru stjórnvöldum nauðsynlegar, til dæmis núna í tengslum við útfærslu hækkana á bótum og eingreiðslum til lífeyrisþega vegna kjarasamninga. Ráðuneytið þarf margt að sækja í ykkar smiðju og er afar háð greinargóðum upplýsingum og oft tafarlausum svörum við flóknum fyrirspurnum. Þetta gengur jafnan afar greiðlega fyrir sig og er sérstaklega til þess tekið af mínu fólki í ráðuneytinu.

Eins vil ég geta um vandaða tölfræði um þróun útgjalda sem TR gerir reglulega grein fyrir í Tölutíðindum sem birtast á vefnum og í árlegum Staðtölum sem er afar upplýsandi fyrir hvern þann sem vill fylgjast með og kynna sér stöðu og þróun þessara mála.

Ýmsar sviptingar og breytingar hafa orðið síðustu ár sem varða starfsemi TR og hafa örugglega stundum reynt verulega á starfsfólk. Margvísleg umskipti fylgdu í kjölfar aðskilnaðar verkefna með stofnun Sjúkratrygginga Íslands. Þetta verkefni var ekki einfalt og trúlega voru of margir lausir endar þegar það kom til framkvæmda sem bitnaði á samskiptum stofnananna tveggja. Ég vona að við sjáum fyrir endann á þessum vandamálum sem hafa verið til skoðunar og úrlausnar hjá ráðuneytinu eins og ykkur er eflaust mörgum kunnugt um.

Sameining tveggja ráðuneyta á sviði velferðarþjónustu og stofnun velferðarráðuneytisins á þeirra grunni gefur færi á ýmsum breytingum varðandi framkvæmd verkefna og skipulag stofnana sem undir það heyra. Ég tek fram að ekki verður rasað um ráð fram í þeim efnum og ekkert gert án samráðs við stofnanirnar sjálfar. Ég nefni þetta hér fyrst og fremst vegna verkefnis sem ég hyggst láta vinna þar sem skoðaðir verða möguleikar þess að sameina alla greiðsluþjónustu við almenning á einum stað. Þar sé ég fyrir mér að Tryggingastofnun ríkisins gæti verið miðstöð þeirrar þjónustu í ljósi allrar þeirrar þekkingar og reynslu sem hér býr í þessum efnum.

Góðir gestir.

Ýmis stór verkefni eru framundan sem munu hafa áhrif á starfsemina hér og vega þar þungt fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingakerfinu. Miklu skiptir að innviðir stofnunarinnar séu traustir og hún í stakk búin til þess að takast á við breytingar, laga sig að aðstæðum og sýna frumkvæði sem nútímaleg þjónustustofnun í almannaþágu.

Mér finnst að Tryggingastofnun ríkisins hafi sýnt getu sína í þessum efnum á liðnum árum. Hún er 75 ára gömul í ár en hefur tekist einstaklega vel að halda sér ungri, mæta kröfum samtímans og byggja sig upp til að takast á við framtíðina. Ég ber mikið traust til TR og ykkar starfsfólksins og veit að þið standið vel undir miklum væntingum.

Ég þakka ykkur öllum fyrir mikið og gott starf á þessu ári og hlakka til þess að starfa með ykkur áfram að uppbyggingu trausts og öflugs velferðarkerfis til framtíðar.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta