Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Vinnumál-Frettir

TAIEX – Ráðstefna um stefnumótun í vinnumálum

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á TAIEX – ráðstefnu um stefnumótun í vinnumálum
Reykjavík 19. maí 2011.


Góðir gestir.

Það er velferðarráðuneytinu mikilvægt að halda þessa ráðstefnu um stefnumótun í vinnumálum sem er liður í undirbúningi samningaviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Hingað eru komnir góðir erlendir gestir sem er mikils virði fyrir okkur að fræðast af og eiga við skoðanaskipti. Markmiðið er að fá kynningu á aðferðafræði Evrópusambandsins og aðildarríkja þess við mótun stefnu í vinnumálum, hvernig slíkri stefnu er hrundið í framkvæmd og árangur metinn.

Um alla Evrópu glíma þjóðir við umtalsvert atvinnuleysi. Hver um sig reynir að takast á við vandann sem því fylgir. Efling atvinnulífs og fjölgun starfa er auðvitað lykilatriði. Svo lengi sem atvinnuleysi er staðreynd er það hins vegar skylda stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og annarra sem að málum geta komið að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja að atvinnuleysi skaði einstaklinga og valdi samfélaginu tjóni.

Evrópusambandið leggur áherslu á virka vinnumálastefnu og munu gestir hér fá að fræðast nánar um hvað í því felst hér á eftir. Hér á landi sáum við atvinnuleysi fara úr því að vera vart mælanlegt í hæðir sem við höfðum ekki áður séð á ótrúlega skömmum tíma. Þetta ástand var okkur framandi en urðum að bregðast hratt við. Það má segja að við höfum lært af reynslunni og áttað okkur fljótt á því að svona ástand krefst fjölbreyttra aðgerða, fyrirhyggju og framsýni.

Sleitulaust er unnið að verkefnum til að bregðast við miklu atvinnuleysi og sporna við alvarlegum afleiðingum þess til langtíma. Sett voru í lög ákvæði um rétt fólks til atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli sem auðveldar atvinnurekendum að bregðast við samdrætti með því að minnka starfshlutfall fólks í stað uppsagna. Með sérstökum átaksverkefnum hefur fólki í atvinnuleit verið gefinn kostur á störfum þar sem atvinnuleysisbætur eru nýttar til að greiða hluta launakostnaðar á móti framlagi atvinnurekanda. Sami háttur hefur verið hafður á til að skapa sumarstörf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. Ríki og sveitarfélög hafa tekið virkan þátt í þessu.

Atvinnuleysi er langmest meðal ungs fólks og yfir 70% ungra atvinnuleitenda eru eiga að baki skamma eða enga skólagöngu umfram grunnskólanám. Yfir 30% fólks sem hefur verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur eru undir þrítugu. Stjórnvöld hafa mótað langtímastefnu um uppbyggingu samfélagsins þar sem helstu tækifæri til sóknar hafa verið greind. Sett er það markmið að árið 2020 verði 90% Íslendinga á vinnualdri með formlega framhaldsmenntun en núna er þetta hlutfall um 70%. Áhersla verður lögð á aðgang fólks að menntun við hæfi með fjölbreyttu námsframboði í samræmi við þarfir einstaklinga, samfélags og atvinnulífs.

Nú hefur verið ákveðið að opna framhaldsskólana fyrir fólk yngra en 25 ára frá og með næsta hausti, samhliða átaki til að tryggja atvinnuleitendum stóraukinn aðgang að námsúrræðum við hæfi með sérstakri áherslu á starfsmenntun. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins standa sameiginlega að átakinu og munu á næstu þremur árum verja til þess um 7 milljörðum króna sem er um þriðjungur áætlaðra útgjalda til atvinnuleysisbóta árið 2011.

Það skiptir miklu að aðgerðir á sviði vinnumarkaðsmála byggist á uppbyggilegri sýn og stefnu til framtíðar. Við eigum ekki aðeins að fást við vanda dagsins í dag heldur þurfum við að snúa vörn í sókn og byggja markvisst upp til framtíðar. Við getum látið erfiðleikana nú verða að okkar gæfu til framtíðar ef við tökum rétt á málum. Ríkari áhersla á menntun og þjálfun með nýjum tækifærum fyrir breiðari hóp fólks en hingað til eykur ekki aðeins sveigjanleika vinnumarkaðarins og auðveldar fólki að finna sér störf. Það mun einnig ýta undir fjölbreytni með aukinni þekkingu, kunnáttu og færni fólks sem sjálft mun skapa sér ný tækifæri og ný störf.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri heldur hleypa að góðum gestum ráðstefnunnar sem munu miðla af þekkingu sinni og reynslu.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta