Ávarp velferðarráðherra á málþingi Heilaheilla 21. maí 2011
Ágætu ráðstefnugestir.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra bað mig að flytja ykkur kveðju sína. Til stóð að hann yrði með ykkur hér í dag en því miður gat ekki orðið af því og ég hleyp því í skarðið.
Félagið Heilaheill er fyrir löngu orðið þekkt stærð í samfélaginu og gegnir mikilvægu hlutverki með öflugu fræðslustarfi og stuðningi við þá sem fengið hafa slag og glíma við afleiðingar þess og aðstandendur þeirra. Þá eru ófáar gjafirnar sem félagið hefur ásamt fleiri félögum fært taugadeild Landspítala. Skemmst er að minnast hágæslubúnaðar sem Heilaheill, MND-félagið, Parkinsonsamtökin og MG-félagið færðu taugalækningadeild Landspítalans í Fossvogi sem er afar mikils virði fyrir starfsemi deildarinnar.
Það hefur margsinnis sýnt sig hvað starfsemi grasrótarsamtaka skiptir miklu máli í margvíslegum velferðarmálum og hve mikil áhrif þau geta haft séu þau skipulögð og starfi faglega. Ein staðfesting á þessu var það formlega samstarf sem efnt var til milli Landspítala og félaga taugasjúklinga fyrir allmörgum árum sem án nokkurs vafa hefur verið öllum til góðs.
Í tilefni málþings ykkar hér í dag kynnti ég mér upphafið að stofnun félagsins sem upphaflega hét Félag heilablóðfallsskaðaðra og var stofnað árið 1994. Í grein eftir Helga Seljan segir hann frá því þegar hann dvaldi á Reykjalundi sér til heilsubótar og komst þá í kynni við þá Eyjólf K. Sigurjónsson og Hjalta Ragnarsson sem báðu hann um að taka þátt í því að koma á laggirnar hagsmunasamtökum þeirra sem orðið höfðu fyrir sömu reynslu og þeir.
Í grein Helga segir: „Það var ekki volið né vílið í þeim félögum, heldur beittur baráttuandi og fullvissa þess að félagsskapur af þessu tagi gæti haft verulega jákvæð áhrif, gæti beitt sér fyrir fræðslu um áföllin, möguleikana eftir það svo sem þið segið í dag: Þetta er ekki búið. Ekki sízt töldu þeir að félagið yrði vettvangur sameiginlegrar reynslu fólks, vekjandi samkennd og aukinn skilning, en máske umfram allt að vera málsvari út á við, vekja samfélagið til vitundar um vandann og úrlausnir sem allra beztar.“
Allt hefur þetta gengið eftir og félagið sem nú heitir Heilaheill hefur tvímælalaust orðið sá vettvangur sem að var stefnt.
Það á við um alla starfsemi, en ekki síst störf grasrótarsamtaka, að geta þeirra og árangur ræðst af einstaklingunum sem helga sig starfinu. Það þarf eldhuga til að sinna störfum sem að mestu eða öllu leyti eru sjálfboðin og borin uppi af áhuga og vilja en litlu fjármagni en sem betur fer er margt fólk reiðubúið að leggja góðum málefnum lið. Einn slíkra manna var Ingólfur Margeirsson sem minnst er hér í dag og var um árabil ötull liðsmaður Heilaheilla. Hann hafði margt að bjóða, var gjöfull á hæfileika sína, hugmyndaríkur og áhugasamur um allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var árum saman í stjórn SÁÁ þar sem hann hjálpaði mörgum til betra lífs. Síðustu ár kynnti hann sér hugmyndafræði notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, var í hópi stofnenda Samtaka um sjálfstætt líf og eins var hann virkur félagi í Hollvinum Grensásdeildar.
Ef tölur frá Bandaríkjunum eru heimfærðar á Íslenskt samfélag er áætlað að hér á landi séu yfir 4.000 manns á lífi sem hafa lifað af slag. Þetta svarar til um 1,3% allra Íslendinga. Meiri hluti þeirra sem verða fyrir slagi verður fyrir tímabundinni eða varanlegri færniskerðingu og því má álykta að fáir sjúkdómar hafi eins mikil áhrif á daglegt líf margra.
Þekking á slagi hefur aukist á undanförnum árum og sömuleiðis verulega á áhættuþáttum. Þetta hefur gert fyrirbyggjandi starf mun markvissara en áður, til dæmis með meðhöndlun háþrýstings og hjartsláttaróreglu.
Það verður aldrei sagt að fólk hafi heilsu sína í eigin höndum. Ábyrgð hvers og eins er þó mikil og við getum að ýmsu leyti haft áhrif. Því skiptir miklu að taka fast á þeim þáttum sem lúta að forvörnum. Forvarnir eru ekki endilega sértækar til varnar slagi, heldur geta haft víðtækari áhrif til góðs fyrir heilsu fólks. Hár blóðþrýstingur, há blóðfita og reykingar eru stærstu áhættuþættir slags en aðrir áhættuþættir eru sykursýki, offita, kyrrseta, streita, mikil áfengisneysla auk óbreytanlegra þátta sem eru kynferði og aldur. Sumir þessara áhættuþátta eru háðir hver öðrum eins og til dæmis offita og sykursýki og því má draga verulega úr áhættunni með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu. Þekking fólks á einkennum slags getur einnig skipt sköpum því rannsóknir sýna að því fyrr sem einstaklingur fær rétta meðferð dregur úr líkum á varanlegum skaða.
Endurhæfing er afar mikilvæg þegar slag hefur í för með sér skerðingu á færni hvort sem er andlega eða líkamlega. Frumendurhæfing heilaáfallssjúklinga hefur að mestu farið fram á Landspítala og á Kristnesi fyrir norðan en framhaldsendurhæfing hefur verið á Reykjalundi og Hveragerði eftir atvikum. Þá hefur fólk einnig átt kost á framhaldsendurhæfingu á göngudeildum og oft er hægt að vinna með afmörkuð vandamál á stofum hjá talþjálfum, iðjuþjálfum eða sjúkraþjálfurum ef svo ber undir. Þess ber einnig að geta að meðferð og endurhæfing fer líka fram á fleiri stöðum, bæði heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum víða um land.
Að mínu mati stöndum við vel að vígi í því sem lýtur að meðferð fólks eftir slag. Á sjúkrahúsum er starfandi afbragðs fagfólk og ég tel mig geta fullyrt að meðferð í bráðafasa er góð. Frumendurhæfing er almennt aðgengileg og á því stigi eru slagsjúklingar ekki látnir bíða eftir endurhæfingu, hvort sem hún fer fram á bráðadeild eða endurhæfingardeild. Ég held ég geti fullyrt að meðal fagfólks þyki eðlilegt að slagsjúklingar hafi forgang umfram ýmsa aðra hópa í endurhæfingu, því mikið er í húfi að fólk fái viðeigandi endurhæfingu sem fyrst þegar færniskerðing hefur orðið. Þá er almennur aðgangur að læknisþjónustu og annarri heilbrigðisþjónustu almennt góður og því ætti að vera hægt um vik að fylgja langtímameðferð eftir til að fyrirbyggja frekari áföll í framtíðinni.
Stöðugt er unnið að því að draga úr áhættuþáttum með ýmsum forvörnum og áróðri fyrir bættum lífsstíl og meðferð fleygir fram.
Það er von mín að enn takist að bæta og efla þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem draga úr tíðni slags. Með öflugri heilsugæslu og almennri vitund manna um gildi heilbrigðra lífshátta ættum við að geta gert enn betur. Fyrrum Lýðheilsustöð – nú Landlæknisembættið – hefur lagt í starfi sínu mikla áherslu á heilsusamlegt mataræði, að auka hreyfingu meðal fólks, að draga úr reykingum og ofneyslu áfengis. Mikið hefur áunnist í reykingavörnum og sífellt fækkar þeim sem reykja. Forvarnir á öllum þessum sviðum eru afar mikilvægar og ekki bara vegna slags heldur líka vegna ýmissa annarra sjúkdóma eins og ég nefndi hér áðan. Markviss meðhöndlun háþrýstings og hjartsláttartruflana hefur aukist og stuðlar að því að draga úr hættu á blóðtappa í heila. Í okkar litla samfélagi skiptir máli að allir leggi sitt af mörkum. Heilbrigðisþjónustan er í lykilhlutverki þegar kemur að því að draga úr ákveðnum áhættuþáttum slags og tryggja góða meðferð. Samtök eins og Heilaheill hafa líka miklu hlutverki að gegna. Hlutverki við að upplýsa almenning, styðja þá sem hafa fengið slag og fjölskyldur þeirra og veita þeim sem halda um stjórnvölinn aðhald og upplýsingar.
Ég óska hér með eftir góðu samstarfi við samtökin og óska ykkur alls góðs í störfum ykkar.